Lestu mig

Nemendur við Washington háskóla hafa tekið þátt í verkefni þar sem kennslubókum var skipt út fyrir lestölvuna Kindle frá Amazon.

Vélin fékk slæma útreið í umsögn nemenda. 80% nemenda vildu frekar gömlu bækurnar þótt 90% þeirra væru ánægðir með Kindle til að lesa afþreyingarbókmenntir.

Ástæðan var aðallega sú, að kennslubækur í háskólum eru ekki lesnar línulega, frá upphafi til enda. Nemendur þurfa að geta flett í bókunum, undirstrikað texta, merkt með gulu, og sett post-it miða á síður. Á Kindle er ekki hægt að krota athugasemdir í spássíurnar, og það vantaði litinn til að geta skoðað sumar myndir og línurit almennilega.

Amazon tekur niðurstöðurnar mjög alvarlega og er að uppfæra hugbúnaðinn á Kindle tölvunni til að leyfa nemendum að flokka og merkja texta betur. Ég býst þó ekki við að þeim takist að mæta allri gagnrýninni með einni hugbúnaðaruppfærslu.

Kindle tölvan sem var prófuð, var nýja gerðin sem er með stærri skjá, en skjástærðin virðist ekki hafa skipt máli.
kindle-dx_994229.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er langt frá því að allar kennslubækur fáist fyrir tölvuna svo nemendur verða að bæta henni við þær bækur sem eru fyrir í töskunni.

Bókaútgefendur hafa ekki verið fljótir að gefa efni út fyrir bókatölvur og "Kennslubækur" fyrir Kindle tölvuna hafa verið seldar fyrir 70$ sem er lítið minna en alvöru pappírsbók kostar.

Kennslubækur eru dýrar. Meðalnemandi í Bandaríkjunum notaði 659$ í kennslubækur á árinu sem leið (82 þúsund kr.). Að miklu leyti er kostnaðurinn svona hár vegna þess að bókaútgefendur koma með nýjar bækur á hverju ári þar sem litlu hefur verið breytt öðru en dæmanúmerum og kaflaheitum. Fyrir vikið keppa notaðar kennslubækur ekki við þær nýju eins og þær gætu annars gert.

Á Íslandi ætti að vera hlutfallslega meiri ávinningur í að nota rafrænar bækur því þær þarf ekki að flytja inn og borga álagningu af.

Hins vegar er ég sammála nemendum á vesturströndinni um þá vankanta sem rafbókin hefur. Það jafnast fátt á við að vera með 3-4 bækur opnar á borðinu með undirstrikuðum texta á réttum stöðum. 

Mér hefur oft fundist freistandi að setja nemendum ekki fyrir kennslubók, heldur benda þeim á Wikipedia sem er sneisafull af góðum greinum um flest efni.  Þar vantar þó skipulagða ferð í gegnum efnið og verkefni og dæmi í lok hvers kafla, nokkuð sem reynist skipta máli.

Í tölvubransanum hef ég lesið mikið af reference texta á skjá, en til að geta forritað verð ég oft að loka on-line hjálpinni því hún tekur frá mér skjáplássið.   Ég hef líka saknað þess mjög mikið að geta ekki merkt hann og gengið að merkingunum vísum seinna.  Microsoft on-line hjálpin hefur alltaf verið slæm að þessu leyti og engin merki um að hún batni.

Hyperlinkaður texti er oft því marki brenndur að vera fullur af tilvísunum en vera sjálfur frekar efnisrýr.  Ég hef oft flett frá einni tómlegri síðu yfir á þá næstu, þar sem allar síðurnar frábiðja sér þá ábyrgð að útskýra eitthvað fyrir lesandanum.   Á einni síðunni stendur:

"Bison : See Buffalo".

Ég fletti yfir á Buffalo síðuna og fæ

"Buffalo : 2nd largest city in New York State".

Engar upplýsingar á sjálfri síðunni, bara tilvísanir einhvert annað. Heilinn á mér vinnur ekki svona.

Bókarhöfundar hafa ekki þann munað að geta sent lesandann út um hvippinn og hvappinn, svo þeir verða að reyna að segja það sem skiptir máli skipulega, á síðunni sem þeir eru að skrifa þá stundina.

Þetta er ekki bara vandamál við lestölvur, þetta er vandamál við texta sem hefur aldrei verið almennilega skipulagður fyrir lestur.  Vonandi er þannig texti ekki framtíðin, hvort sem hann verður lesinn á skjá eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég les mikið á Kindle og er sammála stúdentunum. Það er mjög pirrandi og alltof flókið að stökkva á annan stað. Og svo er líka pirrandi að það er enginn aðgangur að orðabók eða wikipedia beint frá viðmótinu. Þessir tveir hlutir eru bara orðnir almennur þáttur í því hvernig ég les tækniupplýsingar.

Ég er að fá iPad eftir nokkra daga. Held að hún muni nýtast betur til að lesa tæknitexta. Sendi þér línu til að segja þér hvernig mér líst á. En af takmarkaðri reynslu sem ég hef haft af að nota iPad, er þetta góð vél til að lesa blogg, vafra, og grúska. En sennilega ekki besta vélin til að skrifa bók eða setja saman glærur.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 14:37

2 Smámynd: Steinarr Kr.

Þyrfti ekki að vera hægt að horfa á videoklippur til að þetta nýtist almennilega í námi?  Sé ekki betur en slíkar upptökur séu orðnar fastur póstur í kennsluefni nútímans.

Steinarr Kr. , 26.5.2010 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband