Greinalestur með gagnrýnum augum

Í tilefni af því að kosningar eru í nánd vil ég skerpa á rökvitund
lesandans.

Hér er því listi yfir helstu rökleysur sem menn geta búist við að sjá
á prenti.  Hafið þær í huga næst þegar þið setjist við greinalestur.



1. Gegn manninum (Ad Hominem)

Dæmi: Hannes Hólmsteinn segir að við eigum að bursta tennur. Hannes
Hólmsteinn er úr stuttbuxnaliði Davíðs.  Þess vegna eigum við ekki að
bursta tennur.


2. Ásökun með samanburði

Dæmi:  Jón Baldvin segir að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast.
Kommúnistar segja þetta líka.  Þess vegna er Jón Baldvin ekkert nema
kommúnisti.


3. Alhæfing

Dæmi:  Allir nauðgarar eru karlmenn.  Jói er karlmaður.  Þess
vegna er hann nauðgari.


4. Að gefa sér það sem á að sanna

Dæmi: Ef Halldór Laxness skrifaði biblíuna, þá er hann ansi góður
höfundur.  Halldór Laxness er ansi góður höfundur.  Þess vegna
skrifaði hann biblíuna.

Annað dæmi: Ef sjálfstæðismenn komast að í borgarstjórn verður gert
hreint í borginni. Borgin er þrifaleg.  Þess vegna eru sjálfstæðismenn
í borgarstjórn.


5. Að álykta út frá bjöguðu úrtaki

Dæmi: Samkvæmt könnun á viðskiptavinum í Gallerí kjöt er fátækt ekki
til á Íslandi.


6. Hálfur sannleikur

Dæmi: Eins og allir vita þá er illu best aflokið svo skellum okkur
þessvegna í að byggja álver.


7. Alhæfing í fljótfærni

Dæmi:  Gott lag í útvarpinu áðan, þetta hlýtur að vera frábær stöð.


8. Áhrifagirni út frá eftirminnilegri sögu

Dæmi: "Ég ætla að selja mótorhjólið og kaupa Volvo".  "Ekki gera það,
vinur minn missti báða fætur í slysi í Volvo, vertu áfram á
mótorhjóli".


9. Hringferð í röksemdafærslum

Dæmi: Biblían segir að Guð sé til og hún lýgur ekki af því hún er Guðs
orð svo Guð hlýtur að vera til.


10.  Höfðað til hefða

Dæmi:  Við höfum alltaf styrkt landbúnað.  Þess vegna eigum við að
halda því áfram.


11.  Að gefa sér orsakatengsl ef hlutir gerast samtímis

Dæmi: Alltaf þegar ég sofna í skónum vakna ég með hausverk.  Ég er
ekki frá því að svefn í skóm valdi hausverk.


12.  A gerist undan B, þess vegna veldur A B

Dæmi: Aldrei hafa fleiri farið í framhaldsnám og glæpir halda áfram að
aukast.  Menntun veldur glæpum.


13.  Hála brautin

Dæmi:  Ef við lækkum tolla á landbúnaðarvörum koma allir sem eru
búsettir á landsbyggðinni til Reykjavíkur og umferðin mun verða
óbærileg.  Þess vegna skulum við ekki hugsa um að lækka tolla.


14.  Ályktun út í loftið (Ignoratio Elenchi)

Dæmi: Ég ætti ekki að borga sekt fyrir að keyra of hratt.  Af hverju
eruð þið í löggunni ekki að eltast við stórhættulega dópista og
barnaníðinga?


15. Höfðað til afleiðinganna

Dæmi: "Bankafulltrúi, telur þú að húsnæðisverð hækki áfram"? (Það væri
gott fyrir bankana).  "Já, ég held það hækki áfram".


16. Strámaðurinn (Straw man)

Dæmi:  Jói segir: "Mér finnst ekki að börn eigi að geta hlaupið
fyrirvaralaust út á götu".  Siggi: "Mér finnst þú andstyggilegur að
vilja læsa börn inni í myrkum kompum allan daginn".  (Var Jói að segja
það?)

Annað dæmi:  Borgarstjórinn:  "Ef við bætum gatnakerfið minnka
umferðartafir".  Andstaðan:  Þið sjálfstæðismenn ætlið að breyta
Reykjavík í Detroit. Er ykkur skítsama um umhverfið?


17.  Ályktað út frá heimsku

Dæmi:  Það er ekki hægt að smíða skip úr stáli, stál sekkur í vatni.
Skip á að byggja úr tré.

Annað dæmi:  Hjólreiðar ganga aldrei í Reykjavík, hér eru meiri
brekkur og verra veður en í nokkurri hjólaborg (bæði arfavitlaust).


18. Höfðað til hégóma

Dæmi:  Ég hef mjög einfaldan smekk.  Ég vel aðeins það besta.
Herragarðurinn. (Ef þú kaupir ekki föt þar ertu smekklaus).

Annað dæmi: Íslendingar borða SS pylsur.  (Ef þú borðar ekki SS pylsur
ertu föðurlandssvikari).


19. Höfðað til fáránleika

Dæmi:  Ef þróunarkenningin er rétt þá voru landnámsmennirnir apar!
Ætli þeir hafi ekki róið hingað með fótunum?


20. Höfðað til fjöldans

Dæmi:  Meirihluti Dana reykir, svo reykingar geta varla verið
skaðlegar.

Annað dæmi:  Komdu til Mývatns.  100 milljón mýflugur geta ekki haft
vitlaust fyrir sér.


21. Höfðað til ofbeldis

Trúðu á Guð -- ef þú gerir það ekki ferð þú til HELVÍTIS!


22. Ályktað út frá óskhyggju

Hagfræðingurinn Irving Fisher sagði að hlutabréf hefðu náð hámarki og
að menn ættu að venjast þessu nýja framtíðarverði bréfanna, nokkrum
vikum áður en markaðurinn hrundi 1929.


Hér er æfingadæmi í lokin:  Hvað er að þessari röksemdafærslu?

Á tíu sekúndna fresti fæðir kona barn.  Það verður að finna þessa konu
og stöðva hana!


PS: Allar þessar rökleysur og fleiri má lesa betur um á:

    http://en.wikipedia.org/wiki/Logical_fallacy


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Snilldar samantekt. Sérstaklega gagnlegt að huga að þessu, nú rétt fyrir kosningar. Annars hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að rökfræði, rökfærsla og framsaga ættu að vera fastur liður í allri menntun og skólastarfi. Allt of sjaldgæft að fólk átti sig ekki á algengum rökvillum eða þekki þær hreinlega ekki.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 6.2.2007 kl. 17:51

2 Smámynd: Morten Lange

Sammála Jónasi. Góð dæmi, en ég get nú seint verið sammála "andhverfi"  þeirra allra .    :-)

Morten Lange, 6.2.2007 kl. 20:44

3 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Enn ein frábær færsla hjá þér....

Ingi Björn Sigurðsson, 7.2.2007 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband