Ó reiðhjól glatt þú rennur utan stanz

Pabbi hafði sennilega rétt fyrir sér þegar hann sagði að við hefðum  aldrei átt að breyta Reykjavík úr bæ í borg.  Þegar maður heldur að  maður búi í borg breytast væntingar manns.

Borgir innihalda milljónir af fólki, þær eru háværar og maður tekur  neðanjarðarlestir í þeim.  Þær bjóða upp á þúsundir af veitingastöðum,  risastór söfn og óperur.

Reykjavík er ekki borg,  hún ætti að vera bær.  Bæir eru huggulegir  með grænmetistorgi og gönguleiðum og hjólastígum og fólk hittist og  spjallar.

Ég hef átt heima í  bæjum, þeir eru frábærir.  Ég hef verið í borgum  þær eru líka frábærar á sinn hátt, amk. í nokkra daga í senn.  Reykjavík er hvorki bær né borg af því þegar við héldum að Reykjavík  ætti að vera borg hættum við að passa upp á bæjarbraginn.  Við höfum  samt ekki náð því að vera borg ennþá. Einu borgareinkennin sem við  höfum fengið eru umferð sem gæti sómt sér í London.

Núna síðast skárum við Reykjavík í sundur með styztu hraðbraut sem ég  hef séð en hún skiptir Reykjavík jafn örugglega og gljúfrið sem sker  Kópavog og kemur í veg fyrir að miðbærinn þar fái sál.

Ég er á hjóli.  Ég hef verið það síðan ég var tólf ára.  Kannski er ég  svona hrifinn af hjólum af því ég þurfti að bíða svo lengi eftir því  fyrsta.  Kannski hefur það ekkert með málið að gera en ég ætla ekki að  sálgreina mig hér.

Ef maður á gott hjól, þá verður það hluti af manni og maður líður um  eins og í þessum góðu draumum þegar mann dreymir að maður sé að  fljúga.  Ef hjólið er ekkert sérstakt, heldur einhver bykkja gerist  þetta hins vegar ekki.

Það þurfa nokkur atriði að koma saman fyrst:  maður þarf að vera  kominn í sæmilegt form og það tekur viku eða tvær.  Maður þarf líka að  vera í fötum sem þrengja ekki að á vitlausum stöðum og vindurinn má  ekki næða niður hálsmálið á manni. Þegar maður hefur lært þetta finnst  manni reiðhjólið vera sniðugasta uppfinning síðan hjólið var fundið  upp.

Ég sé strax hvort ég mæti reyndum hjólamanni.  Þeir óreyndu eru á  hjóli sem var aðeins of ódýrt og það heyrist hátt í gírunum af þeir  eru ekki alveg stilltir. Þeir óreyndu eru á dekkjum sem eru aðeins of  stór og jeppaleg og yfirleitt rúlla ég fram úr þeim þótt ég sé ekki að  pedala af því þeirra hjól rúlla svo illa. Svo sé ég þetta fólk ekkert  aftur.  Ég hugsa samt stundum hvað það var mikil synd að fólkið fékk  svona ranga hugmynd um þennan frábæra fararskjóta.  Ódýr hjól eru ekki  þess virði.

Þegar ég var tólf ára var árið 1976.  Þá hjólaði ég á götunni og fór  létt með það, bílarnir voru svo fáir.  Ég hugsaði ekki um að ég væri  "hjólreiðamaður", ég var bara á hjóli.

Síðastliðin ár hef ég fengið pólitíska meðvitund um að ég tilheyri  "flokki hjólreiðamanna".  Best hefði mér þótt að hjóla bara áfram en  nú þarf ég víst að berjast fyrir tilveru minni því að okkur er þrengt.

Fyrst fjölgaði bílunum.  Svo var samþykkt illu heilli að leyfa  hjólreiðar á gangstéttum.  Þá hætti ég að geta spanað um bæinn á  fullri ferð og þurfti að þræða ósléttar steinsteypustéttar  eftirstríðsáranna sem hefur ekki verið viðhaldið. Í þeim eru staurar á  stangli þar sem enginn staur hefði nokkurn tímann átt að vera og ef  maður passar sig ekki ræðst einn þeirra á mann. Stéttar voru aldrei  ætlaðar fyrir hjólreiðar.

Stéttarnar eru að batna.  Þær eru samt engir hjólastígar. Hjólastígar  væru með malbiki og myndu líkjast venjulegum umferðargötum, bara miklu  mjórri.  Við eigum nú þegar einn svona stíg í kringum borgina og hann  er frábær, ég þakka mikið fyrir hann.   Ég nota hann í "útivist".  Það  er þegar maður hreyfir sig af samviskubiti af því maður hefur ekki  hreyft sig.

Ef maður hjólar bara þarf maður ekki "útivist" eða "rækt", málið sér  um sig sjálft.  Ég nota hjólið sem farartæki, ég vil fara allt á því.  Þá er þessi eini stígur kringum borgina yfirleitt ekki í leiðinni.  Mín daglega ferð er meðfram Hringbrautinni.

Færslu Hringbrautarinnar var lokið frekar fljótt hvað bílistana  varðaði en hjólastígurinn meðfram henni var harðlokaður 15 mánuði í  viðbót. Leiðirnar báðum megin voru ófærar jafnvel reyndum mönnum á  fjallabílum allan þann tíma.

Kaldhæðnin í þessu er að yfirvöld meina vel.  Þessi stígur meðfram  brautinni er ágætur núna og reyndar betri en áður en Hringbrautin var  færð. Ég óttast bara að svona framkvæmdir geta gert út af við eina  kynslóð hjólamanna. Á meðan Hringbrautin var færð sá ég fólk gefast  upp á hjólinu og setjast upp í bíl. Aðgerðin heppnaðist en  sjúklingurinn dó.

Ég var einmitt að reyna svo mikið að fá vinnufélaga mína til að prófa  að hjóla þegar ósköpin dundu yfir, það var nefnilega "hjólað í  vinnuna" átakið og ég skráði kollega mína til keppni.  Það varð hálf  útþynnt.

Þó ekki væri styrjaldarástand í vegalagningum eru margir með ástæður  til að hjóla ekki.

Það eru þeir sem keyptu sér hús meir en fimm kílómetra frá vinnunni.  Þeir ættu sennilega ekkert að reyna að hjóla, ég óska þeim farsæls  bifreiðarekstar og vona að bensínverðið sligi þá ekki á komandi árum.  Hér verð ég að skjóta inn að það er bíll á heimilinu en hann er ekki  notaður í smásnatt inní bænum.  Reykjavík er lítil en Ísland er stórt  og ég veit hvar takmörk mín liggja hjólalega séð.

Svo er það fína fólkið.  Það er svo vel klætt og vel til haft, og  reiðhjól eru svo nördaleg.  Hjól gætu aldrei gengið fyrir þetta fólk,  það vorkennir mér af því ég mæti í anorakk og pollabuxum og segir:  "Mikið ertu hress að nenna þessu".

Ég hef búið í ameríku og í köben og þar hugsaði ég ekkert út í þetta.  Hér líður mér eins og útlendingi í mínu eigin landi.  Ég vil hjóla en  er eins og frík á götum Reykjavíkur.  Mig langar að segja eins og John  Merrick í fílamanninum: "I am not an Animal!"  Íslendingar eru svo  mikið fyrir að klæða sig pent að mér getur blöskrað.  Girlie men!

Næsti hópur er sá sem segir að hér sé svo vont veður.  Það get ég  leiðrétt. Þegar maður er í réttu fötunum og í smá formi sér maður að  veðrið er stórfínt. Flestir sem stunda einhverja útivist vita þetta.

Það var miklu kaldara í frostþokunni í köben, og það var verulega  erfitt að hjóla í 40 stiga hita í ameríku. Hér er næstum því perfekt  hjólaveður allan tímann.  Það er svona vika á ári sem ég stelst í  jeppanum eða tek strætó.  1/52 er ekki slæmt hlutfall.

Vissir þú að hér má taka hjól með sér í strætó og það kostar ekkert  aukalega?  Í köben borgar maður sérstaklega fyrir hjólið.

Nú er bara einn hópur eftir.  Það er sá sem segir mér að það sé óðs  manns æði að hjóla hér.  Þá setur mig hljóðan og það er líka þess  vegna sem ég skrifa þetta bréf.  Ég ætla ekki að sannfæra neinn um að  elska hjólreiðar eins og ég geri, en ég vil biðja ykkur hin að taka  ykkur smá taki.

Það eruð þið sem keyrið á harðakani út úr hringtorgum yfir gangbrautir  án þess að gefa stefnuljós.
parking_bodull

 

 

 

 

 

 

 

Þið sem leggið bílunum á gangstéttirnar til að vera ekki  fyrir hinum bílunum.  Þið eruð fyrir mér! parkbodull

 

 

 

 

 

 

 

Þið sem vinnið við lagfæringar á vegum.  Þið mokið holu og setjið  hauginn á miðjan hjólastíg og þær fær haugurinn að dúsa mánuðum saman.
hjol_vid_hringbraut

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo eruð það þið sem hannið gangstéttir og hjólastíga en hjólið aldrei  sjálf. Þegar einhver býr til lausn án þess að skilja verkefnið verður  útkoman yfirleitt ekki góð. Í gamla daga hönnuðu karlmenn eldhús sem  konur unnu í.  Það voru leiðinleg eldhús. Þannig eru margir  hjólastígar hér.  Það er augljóst að samtök hjólafólks voru ekki höfð  með í ráðum.

Fjármunum er varið í dýrar lausnir (t.d. brýr yfir Hringbraut) í stað  þess að leysa brýnni mál - hver ákveður hvar á að nota peningana?

Ég ákvað birta þennan pistil vegna þess að ég sé, að ríkistjórnin  ætlar að nota alla vegagerðarpeningana sína (okkar) til að greiða götu  einkabílsins.

Einkabíllinn býr nú til vandamál hraðar en hann leysir þau.  Vetnisbílar eru vísindaskáldskapur ennþá.  Reiðhjólin eru hér í dag og  þau eru lausn.

Hvílík hræsni að tala um vetnisbíla á tyllidögum og geta svo ekki haft  einfalda hluti eins og hjólabrautir á fjárlagaáætlun.   Svei ykkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mööööööööögnuð grein! Svo óskaplega sammála! Ég hjóla allt sem ég fer (stelst stundum í strætisvagninn [ahemm!]) og allar þessar bifreiðagötulagfæringar mega fara til helvítis. Íslendingar eiga eftir að verða flestir með húðkrabbamein innan nokkurra áratuga (koltvíoxíð - ósonlag - útfjólubláir geislar... allir vita af þessu)..

 Vona að ég fái að sjá þetta í blöðunum!

Heill þér, Kári! 

Davíð Elíasson (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 12:53

2 Smámynd: Morten Lange

Svakalega er ég ánægður með þessa grein hjá þér !

Sammála því að greinin ætti að birtast í blöðum. Kannski getum við haft smá samráð um strategíu. 

Svo vil ég rétt benda á að þetta sé bull hjá Samgönguráðherra að það sé ekki hægt að byrja. Já, það þarf að vanda til verka, en lítil vandi væri að veita fé og sjá til. Gjarnan nota eitthvað af peningunum  í að einmitt undirbúa og plana og ekki síst mennta og læra um samgöngur á reiðhjólum frá nágrannalöndum.

P.S. Ég hjóli líka allt árið og samkvæmt Gallup erum við amk nokkur þúsund  á höfuðborgarsvæðinu um hávetur !

Morten Lange, 23.2.2007 kl. 13:54

3 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Góð grein Kári!

Sigurður Ásbjörnsson, 23.2.2007 kl. 15:05

4 identicon

Þetta er eins og talað úr mínu hjarta! :)

Arnþór L. Arnarson (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 15:33

5 Smámynd: Linda Hreggviðsdóttir

Takk fyrir pistilinn! Þetta er frábært innlegg í umræðuna um vanvirðingu þá er okkur hjólreiðafólki eru sýnd.  Ég nota hjólið sem samgöngutæki og á í vök að verjast því þaðer ekki gert ráð fyrir mér frekar en þér.

Ég náði í gær tali af 5 borgarfulltrúum sem allir lofuð bót og betrun.

Höldum umræðunni áfram, það verður kanski hægt og bítandi vitundarvakning.

Linda Hreggviðsdóttir, 24.2.2007 kl. 07:08

6 Smámynd: Jóhanna Fríða Dalkvist

Ég er hjartanlega sammála þér Kári en hjóla því miður of lítið en þó slatta á sumrin. Ég stalst til að vísa á síðuna þína af mínu bloggi.

Endilega settu þessa grein í blöðin, hún á fullt erindi þangað. 

Jóhanna Fríða Dalkvist, 24.2.2007 kl. 09:32

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það verður að segjast eins og er: Það er ALLS EKKI gert ráð fyrir hjólreiðafólki. Annað hvort ertu á bíl eða fótgangandi. Þetta er náttúrulega augljóst þegar við berum saman gatnakerfið á Íslandi við t.d. Danmörku þar sem hljólreiðabrautirnar eru svo áberandi.

Mér sýnist að til þess að breyting verði á þarf í raun fyrst að ákveða að hjólreiðar teljist viðurkenndur samgöngumáti. Eins og staðan er núna þarf hjólreiðafólk að velja ýmist að hjóla á götum eða gangstéttum og er óvelkomið á báðum reinum.

Kári, þú verður að mynda þrýstihóp hjólreiðamanna. Einn af mínum bestu vinum hjólar í vinnuna alla daga ársins og það fer ekki á milli mála að honum líkar þessi ferðamáti ekki síst vegna þess hversu heilsusamlegt þetta er. Sjálfur ætti ég að sjálfsögðu að taka þetta upp líka. 

Haukur Nikulásson, 24.2.2007 kl. 09:37

8 identicon

Frábær grein Kári.

Það er eitthvað notalegt við að sjá að maður er ekki einn um að hafa þessa tilfinningu að fólk nánast líti niður á mann fyrir að hjóla í og úr vinnu.

Og þetta með veðrið, það er alveg ótrúlegt hvað menn geta vælt út af því. Ég hef ekki nema einu sinni í allan vetur þurft að fara í regnstakk, en verð reyndar að viðukenna að nokkra daga hefur verið farið á jeppa þegar gangstéttir voru með öllu ófærar vegna snjóruðninga. En það er einmitt það sem ég vildi bæta við listann þinn. Mokstur á götum og gangstéttum í Reykjavík er með því slakasta sem ég hef nokkru sinni kynnst. Snjó er bara hrúgað upp án nokkurs skipulags og á minni leið hefur ekki einu sinni verið mokað frá stoppistöðvum strætó. Fólki sem þarf eða vill nota annan faramáta en einkabíl er svo sannarlega ekki gert auðvelt að lifa lífinu.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 13:23

9 Smámynd: Morten Lange

Sæll aftur, Kári

Áður en greini er birt í blaði / blöðum er spurning hvort þú viljir gera eftirfarandi skýrari :

" Við eigum nú þegar einn svona stíg í kringum borgina og hann  er frábær, ég þakka mikið fyrir hann.  "

Hjólreiðamenn eru sammála, að ég held, að þessi stígur eftir Sæbraut og meðfram sjónum í  suðri og inn Fossvogsdal sé ágætur, og getur jafnvel stundum nýst til samgangna. 

En þú virðist segja að þessi stígur sé gott dæmi um hvernig hjólreiðabrautir eiga að vera. Það stingur í stúf með þetta sem þú segir um að hjólreiðabrautir séu eins og akvegur í smækkuð mynd. Hönnunin á stígnum er ekki miðuð við hjólreiðar til samgangna. Jafnvel til útivistar hefur stígurinn ágallar.  Þegar umferðin er mikill er þarna allt of þröngt og hjólreiðamenn eru í raun gestir.  Fótgangandi átta sér ekki á hvað línan á malbikinu þýði og heyra oft  ekki í bjölluna ef maður reynir að gera viðvart. Ég hef heyrt kvartanir frá göngufólki sem finnist að hjólreiðamenn á miklum hraða taka sumir of lítið tillít.  Og þeir hafa rétt fyrir sér.

Það er þörf fyrir að bæta við stig þarna bara fyrir hjólreiðar, nóg pláss og mundi ekki kosta mikið miðað við önnur samgöngumannvirki.  Enn brýnna, en erfiðari í framkvæmd er að byggja hjólreiðabrautir til samgangna sem bæta upp því að nánast ógerlegt sé að hjóla eftir stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu.

Að lokum vil ég hvetja hjólreiðamenn til að nota rétt sinn til að vera á götu þar sem maður þorir það. Fræðingar segja að svo lengi sem maður er sýnilegur, kurteis og fari eftir umferðarreglunum er það jafnvel öruggari en að hjóla á gangstétt.  Þá hefur þetta þann kost að bílstjórar taka eftir okkur og sjá að við séum til.  Með því fæst "Safety in numbers"  virkni.  ( Google it ) Þar að auki getur maður leyft sé að vera á meiri hraða á götu, og ogna ekki gangandi fólki.  

Varðandi öryggi,  sjá t.d.  www.bicyclesafe.com 

Morten Lange, 25.2.2007 kl. 18:18

10 identicon

Góð grein Kári

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 03:01

11 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hin besta grein og vel skrifurð. Hjóla annað veifið, en er einn af þeim sem nota fjandans bílinn helst til mikið. Það er svo fjandi langt að hjóla í Hafnarfjörðinn úr Mosó. Samgönguráðherra klikkaði alveg á hjólastígunum í sinni áætlun, enda ekkert víst hvort hann heldur áfram að sinna sínum málaflokki eftir kosningar. Engir hjólastígar í hans kjördæmi, svo það er svosem skiljanlegt að hann skilji ekki neitt er kemur að hjólreiðum, en það er nú annað mál. 

Halldór Egill Guðnason, 27.2.2007 kl. 10:49

12 identicon

Alveg hreint frábær grein! Ég lendi of oft í því að þurfa að réttlæta hjólreiðaáhuga minn og vilja til að nota fákinn í stað bíls.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 10:31

13 identicon

Það er annars skondið að skoða austasta hluta laugarvegs við gatnamót hans og snorrabrautar. ÞAr er búið að leggja hjólreiðarenning eins og í útlöndunum, en þessi renningur nær bara að næstu gatnamótum. Tilraun eða bara eitthvað sem komst ekki lengra?

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband