Allir með (Strætó?)

Almenningssamgöngur eru með stimpil á sér fyrir að vera ekki fyrir þá  sem eru búnir að "meikaða".  Ég held að það sé grunnt á þeim stimpli.  Fólk myndi taka strætó ef hann væri svar við einhverri spurningu.

Ég sé fólk koma til vinnu á Range Rover en taka svo lyftuna upp á  5.hæð. Lyftur eru almenningsamgöngur, þær eru bara vel heppnuð útgáfa  af þeim.  Enginn neitar að taka lyftu vegna þess að þær séu fyrir  farlama fólk?

Ég er næstum búinn að leysa vandamálið.  Við getum lagt niður strætó.  Nú skal ég segja ykkur hvernig.

Á Íslandi er lág glæpatíðni. 99.9% þjóðarinnar er ágætis fólk þótt hin  0.1 prósentin séu góður fréttamatur.  Hér væri því hægt að skipuleggja  ferðir innan Reykjavíkur á puttanum.

Við gætum búið til "stoppistöðvar" þar sem fólk gæti stimplað inn á  gemsann sinn hvert það þyrfti að komast.  Viðkomandi gæti til dæmis  sent SMS með númeri stoppsins sem hann er á og númeri stoppsins sem  hann vill fara til.

Bílar sem keyra framhjá stoppinu gætu einhvernveginn séð hvort einhver  á stoppinu á samleið og gefið far.  Meiri gemsatækni eða skynjari í  rúðuna, veit það ekki ennþá.  Íslenskt hugvit leysir það.

Sá sem þiggur far gæti borgað einhverja málamyndaupphæð, ekki svo  mikla að menn verði "frístunda leigubílstjórar" en ekki svo litla að  það taki ekki að stoppa bílinn.  Hugsanlega gæti bílstjórinn safnað  "inneign" sem hann getur notað ef hann er sjálfur á puttanum seinna.

Upphæðin gæti runnið til líknarmála ef menn vilja ekki flækja  skattheimtuna.

Það þarf "social engineering" til að koma þessu á.  Fólk er tilbúið að  taka lyftu með ókunnugum en að taka fólk uppí er hugmynd sem þarf að  venja fólk við, sérstaklega þegar fólk er orðið hálf innhverft af  sjónvarpsglápi og félagslegri einangrun.

Hugmyndin er svolítið klikkuð en ekki of klikkuð. Skortur á  almenningssamgöngum er ekki óleysanlegt og alvarlegt vandamál.  Allt  sem þarf er raunverulegur vilji til að leysa vandann.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ebenezer Þórarinn Böðvarsson

Þú ert snillingur Kári. Tengingin við lyfturnar er lykilatriðið í þessu samhengi! Ég er með!

Ebenezer Þórarinn Böðvarsson, 12.3.2007 kl. 11:09

2 Smámynd: Kári Harðarson

Ég hugsaði betur um útfærsluna á þessu í morgun.  Sennilega er óþarfi að hafa gemsa og skynjara í bílum.  Einföld A4 mappa með endurskinsmerkjum gæti dugað.  Mappan gæti verið til sölu í bókabúðum fyrir þúsundkall.

Ef Reykjavíkursvæðinu væri skipt í 8 hluta og hver hluti væri með 8 stoppistöðvar væru komnar 64 stoppistöðvar.   Hver stöð fengi litapari úthlutað.  Hafnarfjörður gæti verið t.d. rauður og miðbæjarstoppið  t.d. grænt.

Sá sem vill fara til miðbæjar Hafnarfjarðar myndi opna möppuna á "Rauður-Grænn" og halda á henni eða klemma hana á staurinn hjá stoppinu.

Enduskinið sést úr mikilli fjarlægð, og bílstjóri sem þekkti litina myndi stoppa.  Ef hann þekkir ekki stoppið gæti hann samt stoppað af því hann er að fara á rauða svæðið, þ.e. Hafnarfjörð.

Þótt þessi lausn væri ekki fyrir alla gætu t.d. stúdentar tekið sig saman og byrjað með þetta.   100 kr. fyrir farið, 3 puttalingar á dag gera 2.100 kr á viku.  Það myndi hjálpa fátækum námsmanni að kaupa bensín.

Kári Harðarson, 12.3.2007 kl. 14:38

3 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

En er ekki grunn vandamálið það sama og kemur svo vel fram þegar Íslendingar leggja bílunum sínum? Það má alls ekki ganga lengra en 10 metra, jafnvel þó maður þurfi - þess í stað - að hringsóla 200 sinnum um bílastæðið þar til eitthvað losnar?

Erum við ekki bara upp til hópa of löt / hrædd við veðrið / góð við okkur (eða hvað sem við viljum skilgreina það sem) til þess að ganga útað strætóstoppi og bíða? Og reyna að muna kerfið (hræðslu faktor - að þurfa að "fatta" það aftur og aftur hvernig strætókerfið virkar, hvaða vagn á að taka o.s.frv. - the fear of failure).

Við tökum lyftuna af því að það útheimtir minni orku en að ganga upp stigann. Við þurfum ekki að finna fyrir mæðinni og þróttleysinu ef við tökum lyftuna (aftur hræðsludæmið - hræðslan við að átta sig á að þú ert ekki eins hraustur og þú vildir vera). Það felur í sér ákveðna huggun að taka lyftuna. það er þægilegra.

Almenningssamgöngur þurfa að komast á þennan stall. Að verða þægilegri en einkabíllinn. Þarna þarf að koma til heil mikið própóganda. Til dæmis að sannfæra fólk um að það þurfi þá ekki að eyða tíma í að vinna stæði og geti kannski fengið sér öl í vinnunni án þess að það komi að sök. Eða eitthvað álíka.

Strætó sem sækir þig heim að dyrum og sleppir þér út fyrir framan áfangastaðinn. Þannig strætó myndi virka. En hann þyrfti sjálfsagt að vera ókeypis líka...

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 12.3.2007 kl. 15:18

4 Smámynd: Kári Harðarson

Þetta er ekki lausn fyrir alla alltaf, en gæti nýst ákveðnum hópi, eins og reiðhjól og leigubílar nýtast sumum stundum.

Ég er í og með að brydda uppá þessu til að benda á, að vandamálið er fyrst og fremst að viljinn er ekki til staðar.

Strætó keyrir um bæinn með úrelt stoppistöðvaskilti, engar upplýsingar inní vögnunum og tekur ekki visa.  Ekki beinlínis metnaðurinn þar.

Kári Harðarson, 12.3.2007 kl. 15:26

5 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Rétt. Kór. Mér finnst reyndar hugmyndin þín bara nokkuð snjölll. Það væri gaman að sjá eitthvað svona fara í framkvæmd.

En ef ég tala út frá sjálfum mér þá á ég tvo bíla. Mig dauðlangar að losa mig við annan þeirra. Fjölskyldan á að komast af með einn bíl. Þetta felur í sér að ég færi að nota strætó. Ég er enn að berjast við að fara í "prufuferðina" - nokkurs konar general prufu varðandi strætó hugmyndina áður en ég geng lengra.

Og hvað er að stoppa mig? Ég á aldrei klink og ég man aldrei eftir því að fara í hraðbanka til að ná mér í aur - hvað þá að skipta seðlum í einhverri sjoppu. Þar að auki endar allt klink í bauknum hjá stráknum mínum... ekki spyrja, það bara gerist (law of nature).

Þannig að niðurstaðan er sú að mig langar, ég vil en hindranirnar eru byggðar inn í þetta kerfi og þær eru, eins og er, hærri en sem nemur vilja mínum til þess að losa mig við "þægindi" í stað kostnaðar.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 12.3.2007 kl. 16:25

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Frábært.

Ég er til í frekari hugmyndavinnu!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 12.3.2007 kl. 17:33

7 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Stósnjöll hugmynd. Ný og fersk. Ég fór með bílinn minn eitt sinn í viðgerð til Brimborgar upp á Ártúnshöfða og ákvað að nota srætó til að komast í mjóddina til mömmu, til þess þurfti ég þræða allan Árbæin upp að Rauðavatni og svo yfir í Breiðholtið þar sem öll hverfi voru rannsökuð og ferðin tók 40 Mínútur. Þessa leið hefði tekið 5-10 mínútur  að aka, svo eru menn hissa að fólk noti ekki strætó

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 12.3.2007 kl. 17:53

8 Smámynd: Kári Harðarson

Þú ert eitthvað að misskilja mig Dúa.  Ég er ekki að segja að fólk eigi að taka strætó.  Persónulega er ég búinn að afskrifa hann sem lausn fyrir Reykjavík. 

Kári Harðarson, 13.3.2007 kl. 12:50

9 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Maður getur kallað á lyftuna með því að ýta á hnappinn.  Strætó er bundinn af tímaáætlun, öðruvísi getur það ekki orðið nema fleiri noti hann. Það var reynt um tíma að hafa vissar leiðir á 10 mínútna fresti.  Það hefði ekki þurft að þræða Árbæ og Seljahverfi með leið 10 í 27 mínútur til að komast í Mjóddina úr Ártúni (Brimborg). Leið 4 var 8 mínútur að fara þessa leið.  Líka var hægt að fara úr Ártúni í Gerðuberg með leið 14 á 9 mínútum.  Með nýju strætókerfi, sem tók gildi í júlí 2005, er farið úr Ártúni í Mjódd með leið 24 á 8 mínútum. Svo er líka leið 12.

Pétur Þorleifsson , 15.3.2007 kl. 07:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband