Borgar sig að treysta neytendum ?


Ég fór í nýju raftækjaverzlunina "Max" um helgina og ætlaði að kaupa  DVD spilara með upptöku. Panasonic kemur best út í könnunum og hann  fæst hjá Max.

Ég komst að því mér til vonbrigða að ef mér líkar hann ekki borgar Max  ekki til baka heldur verð ég að sætta mig við inneignarnótu.

Verzlanirnar BT og Max neita báðar að endurgreiða vörur, en Elko  borgar til baka í beinhörðum peningum eða með endurgreiðslu á  Visakortið.

Það er löglegt að neita að endurgreiða og gefa inneign í staðinn.  Ég  skil vel þetta viðhorf kaupmanna.  Hitt er svo annað mál, að þegar ég  kaupi nýja tegund af vöru sem ég get lítið kynnt mér fyrirfram, er ekki sett upp í búðinni og  börnin sem afgreiða vita lítið um, þá verð ég að fá að skoða  vöruna heima í góðu tómi og þá sætti ég mig ekki við inneignarnótur.

Það var fyrirtækið "Sears" í Bandaríkjunum sem reið á vaðið með  endurgreiðslu í beinhörðum peningum fyrir 80 árum.  Þeir höfðu séð að  neytendur þorðu ekki að panta vörur í póstlista frá þeim án þess að  hafa séð vöruna.

Sears hefur ekki tapað á þessari ákvörðun, síður en svo.

Vörur hafa aldrei verið flóknari.  Ég get skoðað hamar og skrúfjárn í búðinni en  bæklingurinn með nútíma videói eða tölvuprentara getur verið  helgarlesning.

Ég vona að íslenskar verzlanir hætti þessari skorts hugsun ættaðri frá dönum og taki þess í stað upp þennan ágæta ameríska sið.  Við  höfum tekið flest alla ameríska siði upp nú þegar, hvers vegna ekki  þennan?

Fyrst ég er farinn að tala um fjárfestingar fyrir heimilið:

Við keyptum nýja eldavél um daginn.  Við höfum eldað á gasi öll árin okkar erlendis og ætluðum að fá okkur gas helluborð.  Til allrar hamingju fengum við að sjá spanhelluborð hjá kunningjum og gátum fullvissað okkur um að þarna færi tækni sem tæki jafnvel gasinu fram.

Við höfum nú haft spanhelluborðið í nokkra mánuði og það var rétt ákvörðun.  Við þurftum að vísu að losa okkur við nokkra potta sem virkuðu ekki á spani en Einar Farestveit sem seldi okkur helluborðið gefur ríflegan afslátt á pottum og pönnum fyrir þá sem kaupa span.  Þarna fer verzlun sem skilur sálir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Get tekið undir þetta með MAX, ég hef verið að leita að ryksugu sem ryksugar sjálf, fann eina í Max á 50.þús. fannst nú tækið dýrt, þannig að ég spurði hvort ég hefði einhvern skilarétt, en nei, ekki til að tala um þú verður bara að kaupa og eiga eða ekki eiga, annras færðu bara inneign og getur keypt eitthvað annað. Þar sem mig vantar ryksugu (á erfitt með að ryksuga sjálf) vil ég ekki inneign ef dýrið virkar svo alls ekki,  ergo ég keypti ekki ryksuguna.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2007 kl. 19:19

2 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Það er best að við neytendur setjum þessi skilyrði fyrir kaupum þ.e. að við fáum skilarétt ekki skiptirétt. Ef þetta yrði almenn krafa þá neyddust kaupmenn til að láta undan.

Þóra Guðmundsdóttir, 19.3.2007 kl. 23:45

3 identicon

Það er rétt sem þú segir að kaupmenn eiga auðvitað að hugsa um hag viðskiptavinana og greiða út í peningum sé þess óskað.  Danir eru sem betur fer löngu búinir að taka upp þennan ameríska sið sem þú talar um, því þú getur alltaf fengið peninginn til baka, svo lengi sem þú ert með kvittun, annars er það íslenska leiðin, inneignarnóta :S 

Brynjar

Brynjar (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 08:05

4 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Sara gerir þetta og það er í rauninni mikill sómi af. Ég var einnig að vinna í verslun þar sem þetta var gert. Ástæðan fyrir því að það var hægt var vegna þess að það komst upp um starfsmann sem náði að stela frá fyrirtækinu út á þetta fyrirkomulag. Starfsmaðurinn skilaði vörum sem hann keypti ekki og náði að "þvo" þannig penning. Svo áramót þá voru vörurnar afskrifaðar. Starfsmaðurinn náði því að stela beinhörðum penningum í staðin fyrir fá endalausar inneignir eða selja þýfið með öðrum leiðum.

 Þrátt fyrir þetta þá finnst mér þetta rétta aðferðin þegar vörum er skilað. 

Ingi Björn Sigurðsson, 23.3.2007 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband