Hver gætir varðmannanna?

"Quis custodiet ipsos custodies" spurði Sókrates.

Forritarar finna ekki villur í eigin forritum því þeir vilja (ómeðvitað) ekki  finna þær. Þess vegna þarf einhver annar að prófa forritin.  Þetta eru viðtekin  sannindi í hugbúnaðarverkfræði.  

Rithöfundar fá vini sína til að lesa uppkast yfir.  Ökukennarar senda nemendur í  ökupróf í stað þess að prófa þá sjálfir.

Af hverju prófa þá kennarar eigin nemendur?

nasty_teacher

Ef nemendur fá lélegar einkunnir lítur kennarinn illa út.  Þess vegna skrifar  hann próf sem er jafn lélegt og kennslan. Nemendur borga skólagjöld og kennarar  verða ómeðvitað skuldbundnir til að leyfa þeim að ná.  Nemandinn er farinn að  borga laun kennarans.  Ekki bítur maður höndina sem fæðir mann?

Útkoman er gengisfelling á námi.

 

 

 

 

 

Við gætum búið til deild hjá ríkinu sem fylgist með gæðamálum í kennslu. Betri  leið að breyta þessu er að aðskilja kennara og próf.

Stærri skólar myndu stofna próftökusetur.  Nemendur gætu bókað tíma og mætt í  próf þegar þeim hentar.  Mörg próf væri hægt að halda í tölvuherbergi og fá  einkunn samstundis.  Önnur próf væru yfirfarin af kennurum eða nemendum sem væru  á launum við að yfirfara svör sem þeir fengju send frá setrinu.

Prófið væri ekki úr námsefni allra faga heillar annar heldur í afmörkuðu efni,  t.d. fylkjareikningi eða röðunaralgrímum, efni sem nemandinn var 1-3 vikur að  tileinka sér.  BS gráða yrði samsett úr mörgum svona stöðuprófum.

Prófstress yrði úr sögunni því prófin væru fleiri, en minni, og í boði allt  árið.

Nemendur gætu fengið aukavinnu hjá próftökusetrinu við að semja nýjar  prófspurningar og við að fara yfir svör.

Kennarar geta einbeitt sér að því að kenna.  Ef nemandi spyr: "Verður þetta á  prófi?" getur kennarinn svarað "ég veit það ekki, verðum við bara ekki að gera  ráð fyrir því?"  Prófin verða aftur það mælitæki sem þeim var ætlað að vera.

Nemandi frá HÍ gæti tekið próf hjá HR.  Nemandi frá námshópum Ísafjarðar gæti  tekið próf í MIT.

Sumir telja sig ekki þurfa kennslu og fyrirlestra til að taka próf, þeir geta þá  lesið sjálfstætt og sparað tíma og peninga.  Aðrir vilja fá kennslu vegna vinnu  sinnar en telja sig ekki hafa gagn af próftöku.  Þetta kerfi myndi henta báðum  aðilum.

Skólasetur gætu orðið til um allt land sem einbeittu sér að kennslu í afmörkuðum  fögum.  Nemendur þeirra myndu snúa sér til viðurkenndrar prófstofnunar til að  taka próf eftir að hafa stundað námið.

BS gráða eins nemanda gæti orðið til hjá mörgum stofnunum á mörgum árum og verið  blanda af staðarnámi, fjarnámi og sjálfnámi.  Ef nemendur ná góðu prófi væri það  góð auglýsing fyrir viðkomandi skólasetur.

Þarna myndu opnast möguleikar fyrir t.d. Ísafjarðarkaupstað að verða  "stærðfræðihöfuðstaður Íslands".  Þótt rannsóknarháskóli með dýran sérhæfðan  búnað geti kannski ekki risið þar á samt að vera hægt að bjóða þar kennslu eftir  menntaskólastigið.  Þarna opnast leið til þess.

Þetta er ekki ný hugmynd.  Íslendingar á miðöldum stunduðu nám hjá presti í  héraði og tóku svo próf í lærða skólanum um haustið.  Economist skrifaði grein  um þetta sama efni um daginn.  Ég held að það sé mikið til í þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Sókrates talaði víst grísku. Væri því ekki eðlilegt að vitna í hann á grísku fremur en á latínu, eða bara á íslensku?

erlahlyns.blogspot.com, 19.4.2007 kl. 02:35

2 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson


Sæll Kári, Góð hugmynd að láta aðra prófa en kenna. Ég hef ekki heyrt þetta áður.  Þegar ég var í HÍ gramdist mér hve sumir kennarar komust upp með mikinn slæpingshátt meðan duglegir og góðir kennarar fengu enga umbun. Held að þetta sé dáldið vandi menntakerfisins í hnotskurn.

Þorsteinn Sverrisson, 19.4.2007 kl. 09:55

3 Smámynd: Kári Harðarson

Sókrates á að hafa sagt þetta en Juvenal vitnaði í hann þannig að þess var minnst.  Sá skrifaði latinu skv. Wikipedia, uppáhaldsheimild allra fræðimanna :)

"The phrase as it is normally quoted in Latin comes from the Satires of Juvenal, the 1st/2nd century Roman satirist"

Kári Harðarson, 19.4.2007 kl. 11:44

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þessi hugmynd er ein af þeim sem er svo skynsamleg að maður er alveg steinhissa að hún skuli ekki enn hafa orðið að veruleika, þ.e.a.s. aftur. Spurningin er hins vegar hvor kennarar almennt treysti sér í þetta því þá sæist betur hvernig þeir vinna vinnuna sína.

Þóra Guðmundsdóttir, 19.4.2007 kl. 14:14

5 Smámynd: Guðlaugur S. Egilsson

Þetta er augljóslega ákvörðun sem kennarar eru óhæfir til að taka, með sama hætti og dómarar eru óhæfir til að dæma í eigin launamálum.

Ég man eftir einum eða tveimur kennurum frá mínum skólaferli sem myndu til dæmis koma frekar illa út úr svona kerfi.

Helsta vandamálið er líklega þegar lengra kemur í skólakerfinu, og námskeið verða sérhæfðari, og frelsi kennara í efnisvali eykst. Þar með er erfiðara að finna próf við hæfi. Þetta kerfi gæti því leitt til einsleitara náms. En ég held að það sé þess virði.

Guðlaugur S. Egilsson, 19.4.2007 kl. 21:51

6 Smámynd: Guðlaugur S. Egilsson

Þetta er augljóslega ákvörðun sem kennarar eru óhæfir til að taka, með sama hætti og dómarar eru óhæfir til að dæma í eigin launamálum.

Ég man eftir einum eða tveimur kennurum frá mínum skólaferli sem myndu til dæmis koma frekar illa út úr svona kerfi.

Helsta vandamálið er líklega þegar lengra kemur í skólakerfinu, og námskeið verða sérhæfðari, og frelsi kennara í efnisvali eykst. Þar með er erfiðara að finna próf við hæfi. Þetta kerfi gæti því leitt til einsleitara náms. En ég held að það sé þess virði.

Guðlaugur S. Egilsson, 19.4.2007 kl. 21:57

7 Smámynd: birna

góð hugmynd Kári!   eða frekar ..  margar góðar hugmyndir

gengisfelling prófgráða er hætta sem skólar standa frammi fyrir. Serstaklega skólar sem taka við skólagjöldum. Látum það aldrei henda okkar eðalskóla.

Ég held að kennarar myndu almennt fagna þessu fyrirkomulagi sem þú boðar.

þó ekki þeir sem leggja metnað sinn í að pína fram lágar einkunnir til að halda ógnarvirðingu fyrir sínum námskeiðum. þú leysir líka þann vanda.

birna, 20.4.2007 kl. 18:46

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ótrúlega góðar hugleiðingar, ég vona sannarlega að þú náir eyrum sem flestra sem fyrst.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.4.2007 kl. 23:02

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ótrúlega góðar hugleiðingar, ég vona sannarlega að þú náir eyrum sem flestra sem fyrst.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.4.2007 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband