Meira um tollinn: Svar til Guðbjörns

Sæll Guðbjörn,

Þú gafst mér nóg að huga um.  Nú sit ég á sólbjörtum eftirmiðdegi og reyni að svara þér lið fyrir lið, paragraf fyrir paragraf.  Það sem þú skrifaðir er í innfelldum texta hér að neðan.

Gaman að sjá að fleiri en ég hafa gaman af tollamálum. Ég gat ekki orða bundist þegar ég sá af hve lítilli þekkingu var fjallað um tollamál og starfsmenn tollsins í þessu bloggi og athugasemdum þess.

Það er slæmt þegar menn tala um eitthvað af of lítilli þekkingu, ég er sammála því.  Þótt innviðir tollsins séu flóknir og hægt sé að vera mörg ár að kynnast þeim, þá er grunnhugmyndin að baki tollheimtu einföld og allir geta haft skoðun á henni.

Margir eru kveðnir í kútinn á þeirri forsendu að þeir séu ekki nógu miklir sérfræðingar.  Mér leiðist það og svara yfirleitt “ég get þekkt egg frá fúleggjum þótt ég kunni ekki að verpa” þegar ég lendi í þeirri stöðu.

Í versta falli kemst upp um vankunnáttu og misskilning sem er þá hægt að leiðrétta eins og þú reynir að gera í þínum skrifum.  Allir græða að lokum.

Það kann að vera að ástæða þess að ég er svona viðkvæmur fyrir þess sé að ég er formaður Tollvarðafélags Íslands, auk þess sem ég gegni stöðu yfirmanns hjá tollstjóra. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að þessa grein skrifa ég ekki í umboði tollyfirvalda eða Tollvarðafélagsins, heldur er um sjálfstæða skoðun mína að ræða.

Mér hefur aldrei sinnast við starfsmann hjá tollinum.  Allir sem ég hef séð í vinnu þar hafa verið iðnir og samviskusamir.  Ég hef aldrei séð þá misnota aðstöðu sína eða vera dónalega við mig eða þá sem ég var með.  Ég held að starfsmenn tollsins séu að minnsta kosti jafn miklir heiðursmenn eins og starfsmenn lögreglunnar.  Gæðafólk virðist veljast þangað.

öllum er heimill innflutningur til Íslands, nema að sjálfsögðu ef um innflutningsbann eða  takmarkanir sé að ræða á varningnum.  Ef þér finnast reglurnar of flóknar gerir þú líkt og þúsundir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga: þú kaupir þér aðstoð tollmiðlara.

Ég veit að ég get keypt mér aðstoð tollmiðlara, en þeir eru einmitt sérfræðingarnir sem ég vísa til í mínum upphaflegu skrifum.  Mér finnast reglurnar ekki flóknar.  Hins vegar er tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir mig og aðra sem vilja flytja inn vörur að framfylgja þeim.

Ég hef svo gaman af dæmum: Ef Akureyringar bæðu alla ökumenn sem þangað kæmu að tína allt út úr bílnum, sýna þeim og setja inn í hann aftur, væri það mjög einföld beiðni að þeirra hálfu.  Framkvæmdin myndi samt leggja alla umferð til bæjarins niður.

Drífðu þig endilega til London og taktu með þér nokkrar ,,pallettur” af klementínum og seldu ódýrt – ég kem að kaupa af þér – ekki málið!

Ástæðan fyrir því að ég panta ekki pallettu með matvörum til landsins er að á þeirri pallettu yrðu tugir mismunandi vörutegunda og mikil vinna færi í að gera grein fyrir þeim öllum.  Persónulega vil ég panta "bland í poka".

Ég veit að ég gæti komið pallettu til landsins ef hún innihéldi bara eina vörutegund eins og þú stingur uppá.  Þá þyrfti ég að selja öðrum það sem á pallettunni er og stofna mína eigin verslun.  Ég þyrfti að leggja 120% á vöruna á pallettunni til að hafa upp í kostnað við að koma vörunni í gegnum toll og borga tollana.  Ég gæti ekki keppt við Bónus og Krónuna í því umhverfi.

Hvað boð og bönn eða takmarkanir varðar,þá styðjast slíkar innflutningstakmarkanir og –bönn við lög og reglugerðir. Því er við Alþingi að sakast, því lögin eru sem alþjóð veit sett af Alþingi en ekki stjórnvöldum. Alþingi ákvarðar jafnframt heimildir framkvæmdavaldsins til setningar reglugerða og annarra reglna.

Að sakast við stjórnvöld á borð við tollstjóra (tollverði), sem einungis sinna skyldu sinni og framfylgja lögunum er ekki sanngjarnt. Þegar tollverðir eða aðrir starfsmenn tollstjóra tollflokka eru þeir einnig að framfylgja landslögum. Tollskráin er viðhengi eða viðauki við tollalögin og hefur lagagildi. Þegar tollstarfsmenn tollflokka eru þeir einungis að flokka varning í réttan tollflokk, þannig að rétt gjöld séu greidd í ríkissjóð og rétt leyfi liggi fyrir við innflutning (fyrir hvoru tveggja eru sem sagt lög sem fyrr segir).

Alveg sammála.  Þetta er verkefni fyrir Alþingi og það er alls ekki við starfsmenn tollsins að sakast.

Íslendingar hafa hvorki komið sér upp her né járnbrautum. Við höfum látið okkur stærri þjóðir um að leika sér með dáta og lestarteina.  Ég held því fram að tollgæsla hefði átt að fara í sama flokk.  Hún sé of kostnaðarsöm fyrir svona litla þjóð og hana hefði aldrei átt að taka upp.

Hún var kannski réttlætanleg þegar örfáir aðilar fluttu inn tóbak, salt og mjöl en nú skipta vörutegundir þúsundum og pappírsvinnan hefur blásið út samkvæmt því.  Fyrirbæri eins og iPod eru flóknari og erfiðara að skilgreina en tunnu af brennivíni eða sekk af mjöli.  Er iPod tölva, upptökutæki eða sjónvarp?  Er ekki nær að hætta að reyna að svara því, og taka upp flatan virðisaukaskatt í staðinn?

Tollskráin (Harmonized System) er notuð í yfir 200 löndum um allan heim og er gefin út af Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization – WCO). Aðalmarkmið WCO og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization – WTO) – sem er aðal samstarfsaðli WCO og ekki þekkt fyrir að standa í vegi fyrir alþjóðaviðskipum – er að auðvelda og auka heimsviðskiptin.

Ef menn vilja á annað borð hafa tollamúra er sjálfsagt að vera í WCO og nota skrána þeirra, ég er alveg sammála því.  Hinsvegar vil ég engan múr.

Tollskráin er einmitt tæki til að auðvelda viðskipti landa á milli, en ekki leið til hindrunar viðskipta landa á milli. Þegar ég sem tollari sé tollskrárnúmer, þá veit ég annaðhvort hvaða vara er á bak við númerið eða ég fletti því upp.

 Tollskráin er einnig mikilvæg fyrir hagtölur, en með númerunum er hægt að fylgjast með inn- og útflutningi á öllum varningi. Innflutnings- og útflutningsaðilar – og stofnanir hins opinbera – geta þannig fylgst með heildar-innflutningi í ákveðnum tollskrárnúmerum. Þetta nýtir sér heill her af fólki í þjóðfélaginu, bæði hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum. Íslendingar eru t.d. með eigin númer á alls kyns fisktegundum og öðru sem aðrar þjóðir hfa ekki og nýtir þær upplýsingar sem tollyfirvöld veita til margra hluta. Kalifornía hefur ekki áhuga á að flokka loðnu og síld í mismunandi tollflokka eða löngu og karfa eða þorsk, en í staðinn hafa þeir áhuga á ýmsum cítrus-ávöxtum s.s.: klementínum, satsúmum og tangerínum.

Ég er sammála, að það gæti verið gaman og gagnlegt að fylgjast með því sem fer til og frá landinu.

Mætti ekki hugsa sér að stærri kaupmenn og heildsalar skiluðu yfirlitsskýrslum til hagstofunnar um sín viðskipti, án þess að öll vara færi í gegnum nálarauga tollembættis?  Það er hægt að mæla umferðarþunga eftir hraðbraut án þess að stoppa hvern einasta bíl og telja í honum farþegana.

Ef  ég panta varahlut í gamla hjólið mitt tel ég ekki að ég eigi að útfylla skýrslu um málið, eða borga gjöld.  Vinnan fyrir mig réttlætir ekki ágóðann fyrir ríkið.  Meðalhófs er ekki gætt.  Ég myndi eyða 2 klst að óþörfu til að ríkið hagnist um nokkra hundraðkalla.  Mínir tveir klukkutímar eru miklu verðmætari en svo. 

Þetta er kjarni málins fyrir mér.  Í flestum öðrum löndum myndi ég panta varhlutinn frá einhverjum innanlands af því landið væri nógu stórt til að ég þyrfti ekki að flytja neitt inn sjálfur.  Ísland er ekki nógu stórt til að vera land í hefðbundnum skilningi.  Þess vegna kemur hér upp einokun, aftur og aftur.

Ef lönd eru nógu stór, þá er innflutningur til þeirra í svo stórum skömmtum að tollafgreiðsla er hverfandi lítill hluti af kostnaði við innflutninginn.  Ég myndi ekki setja mig á móti því að tollafgreiða tugi tonna af klementínum.  Öðru máli gegnir þegar mánaðarneysla á öllu landinu nær ekki upp í hundrað kíló á mánuði.  Tekur því þá að fylla út sérstakt eyðublað?  Hver borgar eyðublaðið, prentun þess, útfyllingu og yfirferð?  Neytandinn, í formi hærra vöruverðs!

Tollarar ákveða því ekki að í dag fari ,,i-pod” í þennan flokk og á morgun fari hann í annan tollflokk. Sé slíkt gert er það lögbrot, sbr. umfjöllun mína á undan, og það á að kæra til tollstjóra og síðan til ríkistollanefndar.

Á okkar dögum er vöruúrval það fjölbreytt að einföld skrá getur ekki innihaldið allar mögulegar vörutegundir, ekki frekar en flokkunarkerfi líffræðinga ræður við hverja nýja flugu og skriðdýr sem menn rekast á inni í skógi.  Líffræðingar nota starfsævina til að skrifa lærðar greinar um nýju dýrin sem þeir finna og í hvaða flokk þeir velja að setja þau.

Starfsmenn hjá tollinum hljóta að lenda í þessu sama reglulega. 

Þegar sjónvörp komu fyrst á markað, sem voru hönnuð til að tengjast tölvu hlýtur að hafa komið kostnaðarsamt hik á starfsmenn tollsins.  Það þurfti að búa til nýjan vöruflokk: “tölvuskjáir”.  Sú vinna hefði verið óþörf ef menn hefðu bara flutt inn skermana án þess að spyrja hvort þeir væru “flugur eða skriðdýr”.

Viljirðu hins vegar lækka gjöldin þarftu að tala við hið háa Alþingi – hér að neðan er 77.gr. stjórnarskrárinnar okkar, svo þetta sé á hreinu:Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.  Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu

Veldi tollsins er sem sagt ekkert þegar að ákvörðunum um gjöld kemur eða varðandi tollflokkun – þar ræður blákaldur lagatextinn.

Aftur sammála, ég veit að þetta eru landslög.

Hvað lokakaflann hjá þér varðar, Kári minn, þá finnst mér leiðinlegt að valda þér vonbrigðum, því sama ,,skrifræðisóskapnaðinn”  er að finna í tollamálum innan ESB og einnig bölvaða tollskrána – sorry!

Allir virðast sammála því, að í ESB sé gífurlegt skrifræði.  Ég ætla ekki að halda öðru fram.  Hitt er svo annað mál, að ef við göngum í ESB verðum við hluti af stórri heild og kostnaðurinn af öllu skrifræðinu dreifist á miklu fleiri  þegna.

Ef það gerist ekki við inngönguna í ESB, þá vil ég ekki ganga inn heldur leita annara leiða til að losna við tollembættið.

 
 

Hvers vegna er ég að þessu?

Ég bjó í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum í átta ár.  Þar vandist ég því að geta pantað vörur með póstverslun, hvaðan sem var innan Bandaríkjanna.  Þau eru opinn markaður með þrjúhundruðmilljón manns og engar hindranir innvortis.

Ég keypti tölvuna mína frá fylki sem var lengra í burtu frá Karolínu en Reykjavík er frá Tyrklandi.  Engin tollafgreiðsla.  DHL kom með tölvuna mína heim næsta dag og sendingarkostnaður var innifalinn í verðinu sem var auglýst í póstlistanum.  Ímyndið ykkur hvort þetta veitti ekki tölvubúðinni í bænum samkeppni !  Hún þurfti að keppa við mörgþúsund aðrar verslanir!

Norður Karolínubúar eru miklu fleiri en Íslendingar, en þeir þurfa ekki að reka tollembætti.  Þeir þurfa ekki að kosta rekstur embættisins, og það sem skiptir miklu meira máli:  Þeir þurfa ekki að borga óbeinan kostnað við að allar innflutningsskýrslurnar séu fylltar út.

Við Íslendingar þurfum að verða svona.  Við eigum að geta orðið fylki í ESB.  Ef það er ekki hægt, verðum við að leita annara leiða.  Við verðum að losna við þessa múra.  Ég hef einu sinni kynnst því að vera laus við þá og ég þoli ekki að hafa þá í mínu lífi aftur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: B Ewing

Skil vel hvað þú ert að meina í þessum skrifum Kári. 

Mér finnst það vera blóðugt að ég þurfi að standa í þessu tollaferli í hvert sinn sem ég kaupi vöru (á netinu) erlendis frá handa sjálfum mér. 

 Hefur mér þótt kostnaðurinn við tollafgreiðsluna ekki tilgangsins virði og sé alveg fyrir mér að greiða eigi frekar flatan kostnað miðað við innflutningsverðmæti ÁN innflutningskostnaðar. Hvers vegna án innflutningskostnaðar ?  Jú, fólk ætti að hafa það frelsi að geta fengið vöruna með hraði og borgað þá meira fyrir hana og að það hafi ekki áhrif á upphæð "flata tollsins".

Það er mín sannfæring að Tollaembættið myndi eflast mikið við þess háttar breytingu því að samkeppnisumhverfi fyrirtækja hér á landi myndi gerbreytast, einstaklingar myndu vera gjarnari á að kaupa sér hluti erlendis frá og allir myndu græða.  Neytendur fengju lægra vöruverð, Tollurinn fengi pottþétt meiri tekjur vegna aukningarinnar og hjá þeim yrði nóg að gera (ergo = fleiri starfsmenn), póstfyrirtæki/ flutningafyrirtæki fengju mikið fleiri kúnna.  Bensín í búðarferðir myndi jafnvel sparast....

Þetta hljómar jafnvel útópískt.

B Ewing, 16.7.2007 kl. 16:17

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Kári, ekki tala um "fylki" innan ESB - því ef Ísland yrði eitt af löndunum sem myndar það samstarf þá er það ekki að glata sjálfstæði sínu og að verða fylki innan lands, heldur væri það að taka þátt í samstarfi sjálfstæðra fullvalda landa! Það eykur bara á misskilninginn á samstarfinu að tala um þetta svona; það mun ekki breyta miklu fyrir Ísland að vera í ESB, öðru en að tollalögin og gjaldmiðillinn hérna munu breytast til betri vegar.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.7.2007 kl. 22:52

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég skal ekki kalla Ísland "fylki" innan ESB, ég veit það er ögrandi.

Fylki innan Bandaríkjanna eru reyndar sjálfstæð að mörgu leyti.  Þegnar þeirra fylgjast oft vel með málefnum síns fylkis en láta sig litlu varða hvað gerist í Washington DC, rétt eins og þegnar Evrópu fylgjast ekki alltaf með því sem gerist í Brussell.

Kári Harðarson, 16.7.2007 kl. 22:57

4 Smámynd: Sigurjón

Það er rétt að árétta að það eru engin fylki í Bandaríkjunum.  Þá hétu þau Bandafylki Norður-Ameríku.  Þetta eru allt saman ríki með sín sérstöku lög og reglur sem lúta alríkislögum og sameiginlegri stjórnarskrá.  Nokkuð sem Evrópusambandið getur ekki státað af!  Ástæðan:  Ríki Bandaríkjanna eiga margt sameiginlegt og m.a. tala sama tungumál opinberlega, hafa sömu trúarbrögð og hafa byggst upp á svipaðan hátt í gegnum tíðina.  Hið sama er ekki hægt að segja um ESB.  Þar eru tungumál tvist og bast, trúarbrögð eru a.m.k. af tvennu tagi og samfélögin hafa byggst upp á miklu lengri tíma en BNA og háð stríð sí og æ sín á milli.  Niðurstaðan: Evrópa getur aldrei orðið jafn samþætt og Bandaríkin og það er kominn tími til að Jónas og aðrir sem hafa ESB sem trúarbrögð sjái það.

Jónas sagði: ,,...það mun ekki breyta miklu fyrir Ísland að vera í ESB..."

Þér getur ekki verið alvara!  Það mun breyta skrambi mörgu og í mörgum tilfellum til hins verra.  Alla vega verra en betra í heildina.  Það einfaldlega borgar sig ekki fyrir ríkar þjóðir að fara í samband sem borgar undir fátækari þjóðirnar.  Það hefur gengið vel á Íslandi á undanförnum áratug og það er ástæða til að halda því áfram ÁN aðildar að ESB. 

Sigurjón, 17.7.2007 kl. 01:11

5 identicon

Maður þarf ekki að vera sérfræðingur til þess að átta sig á því að tollar eru til Þess að vernda sérhagsmuni á kostnað meirihlutans. Frjáls alþjóðleg viðskipti myndu lækka verð hér á landi og hjálpa fátækustu ríkjunum margfalt meira en allir okkar styrkir til samans.

Maður þarf ekki að vera sérfræðingur til þess að átta sig á því að þetta er óréttlætanlegt ofbeldi sem skaðar margfalt fleiri en það hjálpar. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 01:54

6 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Sigurjón; mér er víst alvara. Ég hef alls ekki ESB sem trúarbrögð, og hef engan áhuga á að Evrópusambandið verði á einhvern hátt að meira þjóðríki en samstarfi - og þannig er það með alla þá aðildarsinna sem ég þekki! Evrópa er og verður samansafn af mismunandi löndum sem ákveða að starfa saman í Evrópusambandinu til að auka hag allra landana, því heimurinn er bara orðinn flóknari en það að lönd geti verið ein með sinn litla markað og stundað sín prívat viðskipti. Ísland er nú þegar aðili að mest öllu samstarfinu nema landbúnaðar og sjávarútvegs partinum með EES samningnum, eða ESB aukaaðildinni eins og ætti að kalla þetta.

.

Mæli með því að lesa

http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5590 < sem útskýrir stöðu íslands innan samstarfsins og hvað myndi breytast í stuttu máli.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 17.7.2007 kl. 04:12

7 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Stór ástæða þess að velmegun er með því mesta í heimi hér á landi er sú að við eigum auðlindir sem eru eftirsóknarverðar 

Laun eru að lækka víða í Evrópu vegna mikils framboðs af vinnuafli austan að. Besta dæmið er þegar  wolfsvagen lækkaði laun starfsmanna sinna 20% í fyrra.

Tollarnir eru til að vernda sérhagsmuni það er rétt. Eins er með lög um lágmarkslaun. lög um lágmarkslaun eru til að vernda íslenska sérhagsmuni íslenskra launamanna.

Markmið ESB er að jafna kjör innan ESB sem þýðir að kjör þeirra þjóða sem verst hafa það mun lagast en versna hjá þeim þjóðum sem best hafa það.  Þetta er göfugt marmið en aðferðafræðin til að ná þessu mun leggja atvinnulíf Evrópuþjóða í dróma Reglugerða. Evrópa er á góðri leið með að eyðileggja samkepnishæfni sína gagnvart Asíu  

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 17.7.2007 kl. 11:19

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hér finnst mér fara fram mjög skemmtileg og gagnleg umræða, mér finnst þú Kári koma mjög skemmtilega inná hvernig við græðum öll á svona skoðannaskiptum og um ESB eigum við að taka umræðu því að það er komið að því að taka ákvörðun um að vera eða vera ekki með. En þið eruð fyrst og fremst að tala um tollamál hér og hefi ég af því gagn og gaman, takk fyrir.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 17.7.2007 kl. 12:19

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Algjörlega brilljant pistill hjá þér, Kári!

Kjarninn í honum er sá að í svona litlu landi eins og Íslandi verður kostnaður við tollkerfið miklu hærri hlutfallslega en í stærri löndum.

Ég hef verið viðriðinn atvinnulíf í næstum aldarfjórðung og get staðfest að það hefur á köflum kostað verulegt erfiði og vinnu að eiga við tollinn varðandi innflutning alls kyns smámuna sem vörðuðu mín fyrirtæki miklu en tollinn nánast engu, í tekjum þ.e.

Tollar og neyslustýring í gegn um þá eru að mínu mati löngu úrelt fyrirbæri.  Flatur vaskur er það sem koma skal.  Svona einföldun og hagræðing myndi spara griðarlega peninga, beint og óbeint.

Varðandi ESB, þá skil ég ekki hvað Gunnar Ásgeir er að fara hér að ofan.  Ísland er þegar aðili að EES sem tryggir frjálst flæði vinnuafls og fjármagns.  Það breytist ekki með inngöngu í ESB.  Það yrði því engin breyting á kjörum verkafólks við það.  Aðalbreytingin við inngönguna er að Íslendingar fengju aðkomu að stjórnsýslu ESB, svo sem Evrópuþinginu og Evrópuráðinu.  Þar höfum við í dag engin áhrif. 

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.7.2007 kl. 12:22

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú nefnir Kári og Guðbjörn mótmælir að tollverðir  hljóti að lenda í því að vera í vafa um það hvernig raða eigi vöru í tollflokka og hugsanlega túlka lögin.  Það er ekki bara það, heldur eru menn að vandræðast með að hafa samræmi í tollgæslu.  Um Keflavíkurflugvöll fara tugir millilandaflugvéla á dag, meðan til Akureyrar og Egilsstaða koma nokkrar á viku.  Það segja mér menn með reynslu, að tollafgreiðsla millilandaflugvélar á Egilsstöðum taki allt að þrjá og hálfan klukkutíma!!! og allt sé skoðað í þaula.  Ferðamenn þurfi að gera grein fyrir öllu og ef viðkomandi starfi hér á landi (t.d. við Kárahnjúka) þá sé litið á allt sem smygl sem ekki hafi verið keypt hér á landi.  Þannig missti drengur nokkur tölvuna sína, sem hann keypti í heimalandi sínu, vegna þess að hann gaf hana ekki upp í rauða hliðinu!  Hvernig átti hann að vita að hann ætti að gefa hana upp í rauða hliðinu?  Á sama hátt geta menn lent í því að ruglast á hliðum við komuna til Seyðisfjarðar, sérstaklega á haustin þegar byrjað er að snjóa.  Þá er sko engin miskun hjá Magnúsi og ,,smyglararnir" handteknir á staðnum.  Svo má nefna að hvergi þar sem ég hef komið (og hef farið víða) er græna hliðið eins vel mannað og á Íslandi.

Ég verð oft var við þess mismunandi túlkun.  Ég kaupi nefnilega nokkrum sinnum á ári bækur frá útlöndunum ógurlegu.  Varninginn fæ ég sendann í pósti og það er svona í annað hvert skipti sem ég fæ hann afhentan við dyrnar án tolla, virðisaukaskatts eða annarra gjalda, en þarf í hin skiptin að aka upp á Stórhöfða til að borga kr. 1.400 eða svo.  Kostnaður ríkisins við að innheimta 1.400 kallinn er ekki undir kr. 10.000.  Ég hef aldrei geta skilið af hverju við megum ekki bara fá beint til okkar þá pakka, sem augljóslega eru undir einhverju tilteknu verðmæti, alveg eins og þúsundir Íslendinga ganga óáreittir í gegnum græna hliðið í Keflavík á hverjum degi með varning sem kostar langt umfram það sem leyfilegt er.

Marinó G. Njálsson, 17.7.2007 kl. 13:18

11 Smámynd: birna

Berlínarmúrinn var rifinn

við getum rifið tollamúrinn

b

birna, 17.7.2007 kl. 17:18

12 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Vilhjálmur.

það sem ég við að atvinnurekendum á íslandi er óheimilt að borga 80-100 kr á tíman sem eru algeng laun t.d póllandi. það eru hundruð þúsunda austur Evrópu búa sem mundu glaðir koma og vinna hér fyrir 30.000-40.000 ef lög leyfðu

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 17.7.2007 kl. 23:08

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Má vera, en innganga okkar í ESB breytir ekki löggjöf um íslenskan vinnumarkað, sem hefur þegar verið aðlöguð Evrópurétti.  Smám saman munu kjör jafnast í Evrópu, með hagvexti í hinum nýju aðildarríkjum.  Og ekkert nema gott um það að segja.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.7.2007 kl. 10:14

14 identicon

Slakið nú aðeins á með þetta ESB rugl, höldum okkur við tollaruglið.

Í Þýskalandi má flytja inn smásendigar utan ESB til einstaklinga fyrir 43 evrur án þess að greiða nokkur gjöld. Þetta heitir að gæta meðalhófs eins og Kári bendir á hérna og blessaður tollvörðurinn skilur ekki. Til að hjálpa honum er hægt að bera þetta saman við það að lögreglan stoppi alla á 91 km hraða og sekti enda bannað að aka yfir 90 km hraða. Það gerir lögreglan ekki, hún gætir meðalhófs og byrjar líklega ekki að sekta fyrr en í 100+km/klst.

Starfsmenn tollsins ættu að hugsa um þetta næst þegar þeir setja sín gjöld á vegna vinnu við að tolla DVD disk, varahlut í hjól, minniskubb í gamla tölvu, notaða bók og aðra hluti sem kosta undir $10 (600kr).

Eitt af markmiðum viðskiptaráðherra er að auka samkeppni. Það getur hann gert með því að setja eitthvað lágmark á verðmæti sendinga til einstaklinga áður en tollurinn skiptir sér af, t.d. 5000kr. Einstaklingur sem fer erlendis má hafa með sér vörur inn í landið fyrir 46 eða 48 þús án þess að greiða neitt af þeim og því hlýtur að vera hægt að setja eitthvað lágmark á póstsendingar líka.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 15:10

15 Smámynd: Jón Ragnarsson

Mæli með að fólk lesi þennan þráð.  

http://www.ljosmyndakeppni.is/viewtopic.php?t=18467&postdays=0&postorder=asc&start=0

Ég trúi því reyndar að flest fólk, þmt. starfsmenn tollsins séu upp til hópa þokkalega vel gefið og samviskusamt, en hryllingssögur eins og eru raktar þarna  er maður bara að heyra allt of oft.

Ætli tollurinn hafi bara ekki orðið eftir þegar allt viðskiptalífið var nútímavætt hérna fyrir  15 árum? ;)

Jón Ragnarsson, 21.7.2007 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband