Home of the brave

Hér eru nokkrir sundurlausir þankar frá Bandaríkjunum þar sem þetta er skrifað.


Græjur - GPS

Við tókum bílaleigubíl með Garmin StreetPilot en það er tæki sem þekkir hvert einasta hús í Bandaríkjunum og kann leiðina þangað.  Ég vissi ekki hvort þessi tækni væri tilbúin en ég veit núna að hún er það.  Þetta er algerlega ómissandi fyrir túrista í stórborgum.


Við hjónin vorum vön að skipta með okkur verkum.  Annað keyrði og hitt las kort.  Allt gekk vel þar til maður slysaðist á vitlausan "Exit", þá var maður allt í einu kominn í hverfi í stórborg þar sem maður þekkti ekki leiðina aftur upp á hraðbraut.  Í myrkri var ennþá erfiðara að lenda í þessu.


Við áttum gróf kort yfir landið, en okkur vantaði oft litlu kortin sem sýna hjáleiðirnar og borgirnar.


Með svona GPS tæki í bílnum er þetta úr sögunni.  Hugarfarið breytist.  Nú leggur maður í að finna ótrúlegustu búðir og söfn í stórborgum sem ella hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að keyra til.

Tækið fæst leigt á bílaleigunni og ég ætla að leigja slíkt eftirleiðis.  Ég ætla samt ekki að fjárfesta í svona tæki því í næstu útlandaferð verður þessi græja ennþá flottari og kortið með nýjustu upplýsingum.   Heima á Íslandi rata ég.

 

Græjur - HDTV

Á heimilinu þar sem ég gisti eru komin tvö sjónvörp í háskerpu, "HDTV".  Það er ólíkt betra að horfa á sjónvarp hér í Bandaríkjunum núna en var þegar við bjuggum hér.  Nú eru útsendingar hér miklu betri en  í Evrópu.  Myndin er hnífskörp og litirnir góðir.  "Litla" sjónvarpið á heimilinu er 32 tommur og það liggur við að myndin sé of lítil til að upplausnin njóti sín til fulls.  Í 50 tommu sjónvarpinu er aftur á móti rosalegur munur að horfa, sérstaklega á íþróttir.

 

Noblesse oblige

Á sjónvarpsstöðinni PBS sá ég viðtal við Warren Buffett og Bill Gates sem var tekið árið 2005.  Hægt er að nálgast viðtalið á DVD diski hér.

Í viðtalinu spyrja háskólanemar þessa ríkustu menn heims spjörunum úr.  Tvennt vakti athygli mína.

Einn nemandi spurði hvað þeim fyndist um flatan tekjuskatt.  Þeir svöruðu hiklaust að hann ætti ekki að verða flatari en hann væri nú þegar.  "Við borgum allt of lítið í skatta", sagði Warren Buffett.  "Ég borgaði miklu meiri skatt þegar ég var fátækari, þetta er ósanngjarnt".

Annað sem kom fram, var að þeir ætla báðir að losa sig við 99% af auðnum áður en þeir falla frá.  Það kom ekki til greina að láta erfingjana hafa alla þessa peninga.  Þeir hafa ekki gott af því, og það er okkar skylda að láta peningana nýtast.  Annað væri "unamerican".  "Við  gerum okkur grein fyrir því að þessar fjárupphæðir geta aldrei farið í einkaneyslu einstaklinga, þannig er leikurinn ekki spilaður".  Ég mæli með þessu viðtali og vona að nýríkir íslendingar séu farnir að velta fyrir sér "tilgangi leiksins" á jafn heimspekilegan hátt og þessir tveir virðast vera að gera.

 

Verðlag

Hlaupaskórnir sem ég keypti á Íslandi fyrir 18 þúsund krónur fást hér fyrir 6 þúsund krónur.  Leffe bjór kostar 100 krónur flaskan sem er sennilega minna en í Belgíu þaðan sem hann er.  Bensínið hefur samt hækkað umtalsvert, kostar 3 dollara en kostaði 1 dollar þegar við bjuggum hér fyrir tíu árum.

Matur er svo ódýr að hann skiptir eiginlega engu máli í bókhaldinu.  Margir hér borða bara úti í stað þess að eyða tíma í matarinnkaup og eldamennsku.

Ég man þegar íslenskir fjölskyldufeður gerðu sjálfir við bílana og íslenskar mæður saumuðu föt, saumavélin var aldrei langt undan.  Í dag fara bílar á verkstæði og föt eru keypt í búðum.

Kannski kemur sú lenska til Íslands frá Bandaríkjunum, að matseld sé ekki eitthvað sem upptekið fjöskyldufólk fæst við hversdags.

 

Snobb

Hér kosta Levis gallabuxur 32-50$ (1800-3000 krónur) en þær kosta amk. 12 þúsund kr. heima á Íslandi.

Íslensku krakkarnir sem ég var með í hópi létu samt ekki að sér hæða.  Á Íslandi var Levis álitið fínt en hér eru þær of ódýrar til að hægt sé að taka þær alvarlega.  Þeir vildu heldur fá Diesel gallabuxur fyrir 100 $ sem eru 6000 krónur.  Það sem krakkarnir vildu samt helst voru G-Star gallabuxur sem kosta 160$ og uppúr, þær eru því dýrari en Levis kosta heima.  Buxurnar eru ekki málið, heldur að hafa eytt peningunum, virðist vera.

Tilgangurinn er ekki að eignast buxur heldur að fara í pissukeppni.  Mikið er erfitt að vera unglingur. 

Ég held samt stundum að þetta eldist ekki af Íslendingum.  Það hefur eitthvað með smæðina að gera. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Ósk Gunnarsdóttir

Margt athyglisvert hér hjá þér. Takk fyrir það.

Kv. Þuríður

Þuríður Ósk Gunnarsdóttir, 10.8.2007 kl. 12:35

2 identicon

Sæll

Ég var í Bandaríkjunum fyrir stuttu og upplifði svipuð lífsgæði og þú taldir upp hér.  Þegar ég var þarna úti sá ég við hér á Íslandi látum hafa okkur að fíflum þegar við erum að borga þrefalt verð hér á landi miðað við verðlagið í Bandaríkjunum. 

Ég velti því t.d. oft fyrir mér hvernig t.d. Levi´s gallabuxur eru fluttar hingað inn til lands, á Saga-Class?!??!??? eins og þær kosta nú hér á landi.

42 tommu flatskjáir hér á landi kosta á bilinu 200-250 þús. en kosta ca. 90 þús í Bandaríkjunum.  Við látum hafa okkur að fíflum að borga svona mikið fyrir sömu vöru hér á landi.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 22:41

3 identicon

Sæll Kári.

Var að lesa um 18 þúsund króna hlaupaskóna sem þú keyptir hér á Íslandi. Þú verslar bara ekki á réttum stað. Dýrustu skórnir í verslun hlaup.is eru reyndar á rétt um 15 þúsund en þar eru skór frá 7-15 þúsund, allt topp hlaupaskór.

Sannkölluð kjarabót ekki satt?

Kv. Torfi

Torfi H. Leifsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband