Mynstur 2

Þegar ég panta herbergi á sjávarhóteli er verðmunur á herbergjum eftir því hvort  útsýnið er til hafs eða bara inn í götu.

Herbergi sem kostar 90 dollara út að götu kostar 120 dollara með hafútsýni.  Munurinn er einhver 30 prósent en ég er bara að slumpa.

Ég held að flestir séu sammála um að útsýni sé einhvers virði en ég hef samt  aldrei séð verðskrá í Fasteignablaðinu yfir það.  Hins vegar eru til nákvæmar  tölur um verð á íbúðarfermetra.  Þar er verið að einblína á magnið en lífsgæðin  eru ekki með í myndinni.

Nú ætlar Reykjavíkurborg að byrja á landfyllingu við Ánanaust, rétt hjá JL  húsinu.

Mér finnst landfyllingar stórsniðugar.  Ef Íslendingar gengju sköruglega til  verks og myndu fletja Ísland út eins og pizzudeig, gætu þeir endað með stórveldi  sem fyllti út hálft N.Atlantshafið, þótt ekki risu fjöllin þar úr sæ.

Það er samt ekki hægt að láta eins og að landfyllingin sé óviðkomandi fólkiu sem  býr við ströndina.  Öfundarraddir geta að vísu sagt að nú sé fólkið búið að hafa  útsýnið og komin tími fyrir aðra að njóta þess, en það væri bara öfund.  Fólkið  borgaði örugglega meira fyrir íbúðina út af útsýninu á sínum tíma.

Ef íbúð kostar 50 milljónir áður en byggt er fyrir framan, má leiða að því rökum  að hún kosti 37 milljónir á eftir, ef ég miða við verðskrá sjávarhótelsins. Það  væri því verið að stela 13 milljónum af þessum íbúðareiganda og láta fólkið sem  byggir á landfyllingunni hafa þær.

Það sem er fréttnæmast við landfyllinguna hjá Ánanaustum er að Reykjavíkurborg  ætlaði ekki að ræða við íbúðareigendur.

Svona vinnubrögð væri hægt að komast upp með ef mannasiðir væru af skornum  skammti og eðlileg samskiptamynstur hefðu brotnað niður. Þá mætti notfæra sér  ringulreiðina og segja sem svo: "látum fólkið leita réttar síns og sigum  lögfræðingum á það ef það reynir".  Lýðræðisleg vinnubrögð eru orku og tímafrek  en fautagangur er áhrifaríkur og fljótlegur, enda hafa fautar löngum orðir  fengsælir.

Ég held samt að Reykjavíkurborg vinni ekki svona.  Kjörnir fulltrúar í borginni mega ákveða að gera landfyllinguna en það þarf að borga skaðabætur.

Nú langar mig að sjá  verðlistann yfir þesi gæði sem fólkið glatar.  Hvers virði er sjávarútsýni í  Reykjavík í dag?

Í framhaldi af því, hvers virði er að búa ekki við umferðaræð eins og  Miklubraut? Hvers virði er að fá ekki skemmtistað eða kynlífshjálpartækjaverslun  í hverfið sitt þar sem áður var kjörbúð?  Ef allt er metið til peninga í dag, þá  legg ég til að við förum að vinna að gerð þessa verðlista svo enginn verði nú  féflettur.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Fínn pistill, og vonandi vekur hann fólk til umhugsunar.  Það er samt eitt atriði sem mig langar að minnast á, þrátt fyrir að hafa verið í fjölmiðlum nánast upp á hvern dag núna í sumar, og það er bæjarstjórinn ofvirki í Kópavogi, og allar þær framkvæmdir sem hann stendur við,bak við, til hliðar við... og hvernig hann ætlar bara að valta yfir þá sem eru fyrir.

En, fínn pistill, eins og þinn er vani.

Einar Indriðason, 22.9.2007 kl. 10:43

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Góður pistill. Ég keypti mér íbúð á Skaganum í fyrra, bara út af sjávarútsýni og í mínum huga yrði íbúðin verðlaus ef byggt yrði fyrir útsýnið. Efast um að það verði gert en ansi held ég að margir á Grandanum verði pirraðir ef af verður. Íbúðirnar þeirra munu án efa lækka í verði við þetta.

Guðríður Haraldsdóttir, 22.9.2007 kl. 14:16

3 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Ég held að þessi ummæli hafi falli á íbúafuni varðandi Nónhæð í Kópavogi.( Það er svo margt sem gerist í Kópavogi) Sá fasteignasali sem getur selt útsýni er góður fasteignasali. Þessi ummæli eru svolítið sérstök, sérstaklega þar sem Kópavogur er í mikilli brettingu og útsýnið sem er í dag er ekki tryggt á morgun.

Brynjar Hólm Bjarnason, 22.9.2007 kl. 23:15

4 identicon

Góðar pælingar að vanda.

Reynslusaga um svipað mál: Fyrir fjórum árum síðan var byggð blokk sem tók af mér útsýni yfir Gróttu, Faxaflóa og Snæfellsjökul. Að vísu fór fram grendarkynning, en ítrekuðum mótmælum íbúa var ekki sinnt. Hinsvegar fréttist að þegar blokkin var risin var íbúðarverðið vel yfir markaðsverði á þessu svæði. Og skýringin var sú að fólk þyrfti að borga fyrir að fá þetta fína útsýni. Að sjálfsögðu fengum við ekki greitt fyrir það útsýni sem af okkur var haft. Sennilega vorum við búin að hafa það nógu lengi!

Þórður Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband