Drasl og skrapatól

Kunningja mínum sem vinnur við hjólreiðaviðgerðir líst ekki á blikuna.

Hann er farinn að fá reiðhjól í viðgerð sem eru með einni handbremsu að aftan og engu öðru. Þessi eina bremsa er ekki einu sinni vönduð enda eru hjólin ódýr.  Ef hún bilar er voðinn vís.

Hjólin eru seld svona þrátt fyrir að vera ólögleg.

Samkvæmt lögum á að vera bremsa bæði að framan og aftan. Reiðhjól eiga líka að vera með bretti, ljós, bjöllu, keðjuhlíf og sitthvað fleira.  Lögin eru úreld því fæstir eru með keðjuhlífar í dag og enginn eftirlitsaðili virðist heldur framfylgja þeim, þetta eru "þannig lög".

Í framhaldi af þessu nefndi hann að reiðhjólin sem væru seld í stórmörkuðunum hristust í sundur við fyrsta tækifæri - og hann fær þau í viðgerð. Það er peningur í að gera við druslur en það er ekki skemmtileg vinna.

Öxullinn sem fótstigin eru fest á (sem heitir "Krankur") þarf að vera vandaður.  Stálið þarf að vera sterkt í honum og legunum sem hann snýst í.  Þarna er hjarta hjólsins og það sést ekki með berum augum.

Í ódýru hjólunum slitnar krankurinn og legurnar sem hann situr í mjög fljótt.  Fótstigin verða því losaraleg eftir nokkra mánuði. Það er hægt að skipta um krank, en það er ódýrara að borga aðeins meira og fá gæðastál í mikilvæga hluti hjólsins frá byrjun. Ef maður er búinn að kaupa þvottabala þá breytir maður honum ekki í alvöru reiðhjól eftirá.

Að síðustu ræddum við um fjallahjól í borgarakstri.  Við erum sammála um að þau henti ekki í innanbæjarakstur því þau eru of þung og rúlla illa.  Dempararnir taka líka til sín orku sem hefði átt að fara í að koma hjólinu áfram. Upp-og-niður hreyfing fótanna á að fara út í keðjuna en ekki til að hossa hjólinu.  Þá er betra að kaupa létt hjól á stórum gjörðum.  Fjallahjól eru samt ómissandi á malarslóðunum þar sem þau eiga heima.

Vinur minn á engra hagsmuna að gæta annara en að börn í Reykjavík fari sér ekki að voða, og að rangir fararskjótar gefi fólki ekki slæmar minningar um  hjólreiðar.

 biketree


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hér um árið ætlaði ég að fara að vera dugleg að hjóla og fór á stúfana að kaupa mér hjól. Öll hjól með gírum sem ég skoðaði voru eingöngu með handbremsu, ekki  fótbremsu, sem er eiginlega bráðnauðsynlegt fyrir mig að sé til staðar, þar sem ég er með frekar litlar hendur og ekki mjög sterk í þeim og ræð þar af leiðandi frekar illa við að bremsa bara með höndunum. En ég fann bara gamaldags "dömuhjól" með fótbremsu og engum gírum, sem var frekar þungt í vöfum. Svo gafst ég upp á að hjóla, en það var reyndar ekki bara út af hjólinu. Er virkilega ekki í dag hægt að fá góð, létt hjól með bæði fót- og handbremsu? Hef að vísu ekki kannað þetta nýlega.

Greta Björg Úlfsdóttir, 23.11.2007 kl. 10:33

2 Smámynd: Kári Harðarson

Jú, það er hægt, en úrvalið í verslunum hér vill vera einsleitt.  Það er mikið af keppnishjólum, fjallahjólum og svo mjög ódýrum hjólum.  Vönduð götuhjól eru sjaldséðari.

Áttu ekki erindi til Kaupmannahafnar?  Þar getur þú keypt drauma götuhjól, tekið með í lestinni út á völl, og áfram með flugvélinni fyrir 3.500 krónur -- þyngd þess dregst þá ekki frá þyngd töskunnar.

Kári Harðarson, 23.11.2007 kl. 10:41

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir þetta ráð, Kári, spái í þetta .

Greta Björg Úlfsdóttir, 23.11.2007 kl. 11:05

4 identicon

Ég hef alltaf átt fjallhjól og hjóla mikið á því innanbæjar. Ég er löngu búinn að rífa grófu jeppadekkin undan hjólinu og nota mjórri og sléttari dekk, malbiksdekk, þegar ég hjóla innan bæjar og hef demparann stilltan stífan. Ég er aðeins með dempara að framan. Þegar ég fer að hjóla fyrir utan bæinn á malarslóðum að þá set ég grófu dekkin undir og stilli demparann mjúkan. Þetta hefur virkað vel hjá mér og mér líkað þetta vel. Ég hef aldrei prufað borgarhjól, enda lítið úrval af því hérna heima eins og þú segir.  Ég hef því lengi gælt við þá hugsun að fjárfesta í borgarhjóli næst þegar ég fer til kaupmannahafnar og koma með það heim. Þú segir að það kosti 3500 kr að flytja það heim þannig að ég er farin að hugsa mér gott til glóðarinnar. En hvernig er það, er maður svo ekki snúinn niður í tollinum og hér heima og rukkaður um heilan helling í toll og skatt og einhver fáránleg gjöld?

Hlynur (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 13:02

5 Smámynd: steinimagg

Mikið er ég sammála með þessi Europris, Byko og hvað það heitir allt saman hjól. Annsi mörg af þeim ef ekki öll eru bara einnota. Það er alveg grátlegt að sjá krakka á þessum hjólum, hrikalega þungum, bremsulausum og hálf gírlausum. Vinur stráksinns míns var á svoa hjóli og yfrleitt þegar hann kom í heimsókn þá lagaði ég eitthvað fyrir hann, td bremsur og gíra. Stellin eru svo léleg að þau svigna undan álagi þegar bremsað er og þá minkar bremsugetan verulega. Mörg af þessum hjólum eru með afturdempara sem virkar ekkert og þyngir hjólið bara.  Ekki er ég nú viss um að þeir foreldrar sem eru að kaupa þessi prump hjól handa börnunum sínum myndu kaupa sér bíl með sömu gæðastöðlum, billinn má ekki kosta minna er 2 - 5 eða eitthvað milljónir og krakkarnir á í mesta lagi 15000 kr hjólgarmi.

Já og eitt enn, munum eftir hjálminum. 

steinimagg, 23.11.2007 kl. 14:25

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég sakna enn Scott hjólsins sem ég brunaði á árum saman í scandinavíu.. gripurinn sá var með 27 gírum, 28 tommu hjólum og fáranlega dýrum (en góðum) Simano gírum.. hann var seldur til að auðvelda mér heimkomuna til klakans og verð ég að viðurkenna að hjólið átti ekki það skilið.. hefði betur verið áfram í skandinavíu með hjólinu mínu... oh dear oh dear.

Óskar Þorkelsson, 23.11.2007 kl. 21:29

7 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég tók gamla Trekkinn í gegn í vor. Hélt að ég þyrfti að kaupa nýja gíra og keðjur, en eftir að hafa hreinsað 3 matskeiðar af sandi og skít úr keðjunni og skellt smá wd-40 á gírana, er það eins og nýtt.  Vantar bara festingu fyrir diskabremsur á stellið, og ég gæti gert það að súperbike.

En hvað er málið með að nota drasl sem ryðblettir koma strax á í bremsubarka?  

Jón Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 11:00

8 identicon

Þessi vöruhúsahjól eru náttúrlega bara þetta - vöruhúsahjól. Þau eru í sama klassa og marglyttukjúklingurinn hans Kára og vatnssósa íslenskt brennivín. Í gamla daga, meðan að þýska markið var og hét, var sagt að maður fengi ekki hjól fyrir minna en DM 2000! Það var í þá gömlu góðu, meðan að við Kári sungum enn saman í Hamrahlíðakórnum. Í dag væri óhætt að segja að gott hjól kostar ekki undir 700 Evrum - eða 60þús ískr.

Talandi um borgarhjól, þau fást ágæt í Erninum og kosta um 70þús. Án fjöðrunar, 7 gíra lokuð gírnöf og gamaldags stigsbremsur að aftan, klemmur að framan. 16 kg. þungt úr áli, dálítið leiðinlegt með nagladekkjum, en hey, það er að koma vetur! Kannski ekki draumahjólið, en nógu gott. Hvað kosta sambærileg hjól í Frans eða Köben?

Carlos (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband