Gerðu mér tilboð sem ég get ekki hafnað

Eitt lærði ég í bók með heilræðum um hvernig ætti að versla hagkvæmt, og það var að verða ekki ástfanginn af vörunni sem ég er að fara að kaupa.  Ef ég verð að eignast Golf GT Sport og ekkert annað kemur til greina mun reyndur sölumaður sjá það á mér langar leiðir og ég er ekki í neinni aðstöðu til að  semja um afslætti við hann eftir það.

Maður þarf því að vera hæfilega áhugalaus til að gera góð kaup.

Ég var að láta mér detta í hug aðferð við að ná niður vöruverði. Vefsíða væri búin til þar sem þeir sem vilja kaupa ákveðna vöru geta hizt og sammælst um 4-5 tegundir af þeirri vörutegund sem kaupa skal.  Síðan er tilboða leitað.  Sá sem selur hópnum vöruna á lægstu verði fær að selja öllum hópnum.

Skilyrði væri að allir sættu sig við allar tegundirnar áður en þeir skrá sig inn á tilboðssíðuna og skuldbintu sig til að kaupa af þeim kaupmanni sem býður bestu kjörin.

Dæmi um þetta væri kaup á flatskjá.  Ég gæti vel hugsað mér tvö tæki frá Panasonic, tvö frá Sony og eitt frá Toshiba.  Ef ég keypti þetta tæki í slagtogi með tuttugu öðrum hlyti verðið að geta orðið mjög hagstætt.

Eina spurningin í mínum huga er:  Hversu góðan afslátt mætti fá ef keypt eru tuttugu tæki í stað eins?  Hvað með fimm?  Hvað með fimmtíu?

Mismunandi vörur eru á mismunandi verði til að byrja með, hvernig er hægt að gera stuðul sem sýnir óvéfengjanlega hver bestu kaupin eru? Væri kannski hægt að bera verðið saman við verðin í Evrópu eða Bandaríkjunum og sjá hver kemst næst uppgefnu verði erlendis?

Er eitthvað til í þessari hugmynd?

Ég enda pistilinn á tilvitnun í Brynhildi Pétursdóttur hjá Neytendasamtökunum:

Að lokum mæli ég með því að upplýsingum um gengi Nasdaq og FTSE í lok fréttatímans verði skipt út fyrir upplýsingar um verð á mjólkurlítra, bensínlítra og annarri nauðsynjavöru. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það einhvern veginn nærtækara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Sæll Kári

Eitthvað rámar mig í að fyrir nokkrum árum hafi ég séð netsíðu sem einmitt bauð uppá þetta, skrá sig fyrir kaupum á ákveðnum hlut, og þegar ákveðin fjöldi var komin til að kaupa, þa leituðu forsvarsmenn síðunar tilboða.

Anton Þór Harðarson, 6.12.2007 kl. 16:25

2 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

kíktu hér - http://www.pricerunner.co.uk/

hægt að sjá besta verðið frá nokkrum löndum, með gagnagrunnstengdum verslunum.

ég hef notað þetta á Grænlandi, þar sem hér eru yfirleitt ekki VSK eða tollar...

mkv

Baldvin Kristjánsson, 6.12.2007 kl. 16:39

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég er með...

Fólk gæti skráð sig fyrir vöru, t.d. 32" sjónvarpi. Það yrði líklega að setja deadline á þetta, og líklega að gera ráð fyrir lágmarksfjölda. 

Þetta gæti líka verið eitthvað sem kaupmenn gætu nýtt sér, þeir gætu skráð vörur, og boðið verðlækkun ef t.d. 10 eða 20 panta vöruna?

Bara hugsa upphátt... 

Jón Ragnarsson, 6.12.2007 kl. 17:28

4 Smámynd: Kári Harðarson

Sammála, deadline og lágmarksfjöldi yrði að vera.  Svo yrði hámarksverð líka að vera tilgreint, ég gæti til dæmis viljað kaupa sjónvarp að því tilskyldu að það sé ekki "nema" 60% dýrara en í siðmenntuðu landi.

Ég veit ekki hvort kaupmenn eiga að geta átt frumkvæði um tilboð, því þá slökkva neytendur aftur á heilanum og kaupa af því kaupmaðurinn segir að þetta sé gott verð, án þess að raunveruleg rannsókn hafi farið fram á því hversu gott verðið er.

Ég hafði séð fyrir mér að starfsmaður fyrirtækisins sem héldi úti vefsíðunni ætti frumkvæði um að afla tilboða og versla fyrir hönd hópsins sem einsskonar forstjóri innkaupastofnunar.  Hann myndi síðan skila greinargerð um tilboðið og samanburðinn við erlend verð.

Hann yrði á föstum launum og það mætti ekki vera í hans þágu að kaupa sem dýrasta hluti.

Þetta er svolítil pæling!

Kári Harðarson, 6.12.2007 kl. 18:47

5 Smámynd: Kári Harðarson

Jú það gæti endað með því en það væri ekki æskileg þróun að mínu mati.

Á sama hátt gætu neytendasamtökin opnað ágætis kaupfélag - en það væri líka upphafið að endalokunum fyrir samtökin, og kaupfélagið yrði eins og öll önnur kaupfélög á endanum.

Kári Harðarson, 6.12.2007 kl. 20:38

6 Smámynd: Kári Harðarson

Markmiðið væri ekki að lágmarka heildarkostnað, heldur að neytendur fái gott vöruverð. 

Það er ekki mótsögn:  Baugur hefur vafalítið náð niður heildarkostnaði við vöruinnflutning og sölu en það er ekki þar með sagt að sá sparnaður skili sér til heimila af því íslendingr eru stórkostlega lélegir neytendur.

Er þá ekki sniðugt að þeir borgi öðrum fyrir að vera neytendur fyrir þeirra hönd?  Þeir hinir sömu mega ekki byrja að stunda innflutning og sölu því annars væri traustið farið.

Kári Harðarson, 6.12.2007 kl. 21:03

7 identicon

woot.com (One Day One Deel) gerir þetta ágætlega.

Spörri (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 10:24

8 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Mér finnst þetta góð hugmynd. Og þó rík ástæða sé til að óttast það menn "gleymi upprunanum" þá mætti til að byrja með setja á þetta ákveðin tímamörk eftir tvö eða fimm ári verði skylda að gera "byltingu" eða leggja batteríið niður.

María Kristjánsdóttir, 7.12.2007 kl. 15:12

9 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég get ekki séð annað en að eðlilegt sé að neytendur (litlir hópar neytenda) beiti samráði, sérstaklega í ljósi þess að við erum með lítinn markað, og hér er því ekki mikil samkeppni.

Ég keypti mér flatskjá í haust og hefði svo sannarlega viljað skoða þessa leið.

En mig vantar 18-20 tommutæki í svefnherbergi þannig að ég er með.

Ein hugmynd er að gera þessi innkaup hreinlega í þýskalandi og taka inn einn gám af  sjónvörpum, fartölvum, gsm símum og hljómtækjum.

Þessa hugmynd á að gera að alvöru. 

Jón Halldór Guðmundsson, 8.12.2007 kl. 11:10

10 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll Jón,

Ef það kvisast út að stór hópur sé að bíða eftir hagstæðasta verðinu í ákveðnar vörur væri freistandi að reyna að flytja þær inn handa þeim þótt maður hafi kannski öðrum hnöppum að hneppa.

Það verða ekki nauðsynlega venjulegu búðirnar sem reyna að gera tilboð heldur líka framtaksmenn sem eru kannski með tóman gám á leið heim frá útlöndum og gætu alveg hugsað sér að nýta hann þótt þeir séu ekki tilbúnir að fylla hann af vörum upp á von og óvon.

Geta fiskiskip flutt vörur til landsins?  Gera þau það í dag og ef ekki, af hverju ekki?

Kári Harðarson, 8.12.2007 kl. 22:31

11 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ég hef einmitt oft verið að velta því fyrir mér að stofna einhverskonar pöntunarfélag því þetta okur er gjörsamlega óþolandi. Sérstaklega er ég ákveðin í þessu eftir að hafa verið í útlöndum og séð samanburðinn.

 Hátækni  er að auglýsa "drauma fjarstýringuna einu" í Mogganum í dag . Fyrst sýndist mér að verðið væri það sama og hjá "þeim í útlöndum"  en við nánari lestur auglýsingarinnar sá ég að verðið var "frá".

Þóra Guðmundsdóttir, 9.12.2007 kl. 18:14

12 identicon

Mér skilst á Actavis að Danirnir noti svipaða aðferð til að ná niður lyfjaverði.
Enda eru sum lyf Actaqvis á 7x lægra verði þar en hér

birna (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 13:41

13 identicon

Í bólunni í kringum áramótin voru til nokkur svona fyrirtæki. Eitt þeirra var upprunnið í Skandinavíu og áttu m.a. íslenskir fjárfestar talsverðan hlut í því. Þetta fyrirtæki hét letsbuyit.com

Annað slíkt hét Mercata. Bæði þessi fyrirtæki eru látin, eða í það minnsta sofandi eins og er.

Mun nýrra dæmi er eSwarm sem er sama konseptið sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga og virðist rúlla ágætlega.

Engu að síður er margt sem mælir með séríslenskri útgáfu af svona apparati, t.d. sérsamningar um flutninga, pressa á tollafgreiðslu og tollflokka (sem þarf að fara að taka alvarlega á eins og margir hafa bent á) og svo auðvitað hjarðhegðun okkar þegar kemur að innkaupum á nýjustu græjunni, húsgagninu eða bílategundinni :)

Taktu þetta lengra, ég skal kaupa... 

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 16:21

14 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

ertu ekki að sækja vatnið yfir lækinn?

er það ekki, þegar upp er staðið, svona sem alvöru markaðs-kaupmenn vinna? þeir kaupa inn gám af réttri vöru og bjóða á réttu verði, svo kúnnarnir flykkist til hans en ekki annarra kaupmanna? hann sérhæfir sig áfram í að leysa logistics á bakvið vöruna. kaupmennska er væntanlega ein elsta starfsgrein í heimi, fólk hefur alltaf verið mismunandi gott í að leysa úr markaðsöflunum.

Væri ekki betra að einbeita sér að því að kaupendur væru virkari í að hlaupa til þeirra sem bjóða bestu kjörin?

get ekki séð hvernig svona hugmynd gengur upp, til langs tíma (sem er jú sú krafa sem gera verður til allrar notkunar á kröftum sínum). Fagmaðurinn hlýtur alltaf að vinna að lokum og eftir stendur hópur "uppreisnar" neytenda, sem lúta höfði og fara í röðina hjá okrurunum, uppgefnir eftir bardagann við atvinnumennina (sem þá lækka verðið tímabundið) og ekkert hefur breyst.

Best að mínu mati að virkja með fólki neytendann, til lengri tíma vinna allir. Fagmennirnir standa sig betur í samkeppninni og minstir kraftar fara til spillis (þar með vinnustundir).

Baldvin Kristjánsson, 12.12.2007 kl. 11:23

15 Smámynd: Kári Harðarson

Alvöru markaðs-kaupmenn stuðla sennilega að sem hagstæðustu ferli við innflutning og dreifingu vöru, en ég hef ekki séð þá bjóða vöruna á réttu verði af því neytendur standa ekki við sinn hluta sem er að veita aðhald.  Ég myndi okra á kaup-óðum almenningi líka ef ég stæði í innflutningi.

Hvernig getum við gert kaupendur virkari?  Mín tillaga var að kaupandinn borgi þriðja aðila "iðgjald" fyrir að vera neytandi fyrir sig. 

Ég vildi heldur borga 100 kall fyrir eitthvað sem kostaði 70 krónur að flytja inn en borga 150 krónur fyrir eitthvað sem kostaði 50 krónur að flytja inn.

Svona samtök gætu gengið til lengri tíma ef menn byrja ekki að fara fram hjá þeim, strax og verðið lækkar vegna áhrifamáttar samtakanna.  Þar er stærsti veikleikinn við þessa hugmynd.

Kári Harðarson, 12.12.2007 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband