Kjúklingar Hr. Schrödingers

Ef maður labbar inn í hús með tólf egg, kemur ungunum á legg og ræktar þar til tugþúsundir kjúklinga tísta í kringum hann, hendir þeim svo öllum í kvörn svo úr verður blóðug kássa og ekkert verður eftir nema tólf egg, sem hann labbar með út aftur, er hann þá vondur maður? Hann byrjaði og endaði jú með jafn mörg egg?

Maður situr á eyðieyju undir þessu klassíska kókóshnetutré þegar annan mann rekur til hans með tösku fulla af peningum.  Ef kókóshnetan er það eina verðmæta á eyjunni, hvað ætti tréið þá að kosta?  Á maðurinn sem fyrir er að selja?

Þessi dæmi duttu mér í hug þegar ég hugsaði um góðæri undanfarinna ára og hvernig milljarðar urðu til úr engu og urðu að engu. Sumir segja að það sé allt í lagi, þetta hafi aldrei verið alvöru peningar.

Þessi árekstur raunverulegra verðmæta og ímyndaðra er mér hugleikinn þessa dagana. Ég veit ég er dottinn í heimsspekinördadraumóra, en það er erfitt að skrifa á öðrum nótum þegar svona óraunverulegir atburðir eru að gerast í þjóðfélaginu, og svo eru peningar mjög afstætt hugtak þegar allt kemur til alls - eða hvað?

Svoleiðis afstæðishyggja er mér ekki að skapi. Ég tel að tíminn sé peningar og að þar af leiði að peningar séu tími og þegar milljarðar tapist hafi tími glatast og þar af leiðandi mannslíf. Vandinn er að peningarnir sem urðu að engu voru ekki í eigu sömu manna og eignuðst peninga úr engu.

Það er mér viðbjóðslegt að taka raunveruleg verðmæti, og mæla þau með sömu mynt og spilasjúkir menn nota við leiki sína.  Ég get ekki vanist því.

Þótt ég sé ekki trúaður held ég að biblían hafi byggt á biturri reynslu af mannlegu eðli þegar hún andskotaðist út í okurlán -- hún gerir það á þó nokkrum stöðum.  (Fæstir vita af andstyggð biblíunnar á okurlánum þótt flestir hafi lesið um hatur hennar á samkynhneigðum.  Hvers vegna ætli það sé?)

Ég var eitraður á  blogginu fyrir rúmu ári og ropaði súrum ropum um það sem myndi gerast, hrun krónunnar, fólk sem myndi hneppast í lánafangelsi og arðrán þeirra sem myndu eignast íslenskar auðlindir, en nú þegar þetta hefur allt gerst verð ég hálf kjaftstopp.  Hvað getur maður sagt?

Ögmundur gagnrýnir ástandið í blaðinu í dag og bendir á hvernig burgeisar hafa sagt sig úr lögum við þjóðina eftir að hafa "keypt af henni kókóshneturnar".  Hann hefur rétt fyrir sér en hefur engar patentlausnir frekar en ég, skaðinn er skeður.

Ég óttast að þetta ástand verði verra áður en það verður betra, skaðinn er svo mikill. Ísland skuldar alveg hrikalega mikið og mér er nokk sama hvort það er ríkið eða þegnarnir því ríkið, það er við? Við höfum ekki byggt upp iðnað sem skyldi undanfarin ár ef frá er talið eitt álver á austurlandi. Sterka krónan hefur valdið því að þekkingarfyrirtækin sem hér tórðu fyrir hótuðu allan tímann að flytja en það sem verra var, engin ný slík urðu til.  Hér verður kynslóð af ungu fólki sem skuldar meira en hún á, húsnæði þess mun falla um 30% meðan afborgarnir þess aukast í takt við óðaverðbólguna. Sameiginleg verðmæti hafa verið einkavædd og arðurinn er kominn í erlendar sumarhallir.

Þegar við réttum úr kútnum þurfum við að hafa lært eina lexíu. Peningar eru ekki afstæðar stærðir og það má ekki láta eins og þeir séu það, þótt bankastarfsmenn láti þannig þegar þeir fara á flug.

Hér er dæmi í lokin fyrir ungu kynslóðina: Ef ungir krakkar keyptu hús á 100% láni fyrir 50 milljónir um áramótin og það kostar 44 milljónir í næstu viku á sama tíma og verðbólgan hækkaði lánið í 55 milljónir og iPod kostar  fimmtán þúsund (20 þúsund eftir fall krónunnar), hvað töpuðu krakkarnir þá mörgum iPoddum?  Svar: 977 stykkjum.  Eða hvað, er þetta allt bara abstrakt?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert abstrakt.

Höldum nú áfram að lesa.

Leyfi mér að mæla með opinberunarbókinni.

Þjófnaður og spilling er að verða næsta eðlilegt ástand ekki satt.

Enda varað við því í bókinni góðu að ekki skuli safnað auði á jörðu. þar sem þjófar ásælast og mölur og ryð eyða.

Já, já nú er gott að vera skuldlaus....og eiga ekki neitt =(ENGAR ÁHYGGJUR)...nema auð á himnum auðvitað.

kV: G.Þ. 

Guðmundur (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 01:43

2 identicon

"Only when the last tree is cut; only when the last river is polluted; only when the last fish is caught; only then will they realize that you cannot eat money." Indian, Proverb-Cree

Mer dettur thetta i hug ekki bara i sambandi visd astand fjarmala a Islandi, heldur einnig "global warming og haekkun matvaelaverds i heiminum. 

Politiken i dag skrifar um astandid a Islandi i dag - www.politiken.dk

Regina Hardardottir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 05:02

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góður pistill og sannur. Það sem mér finnst einna verst við þessa atburði og þetta ástand er, að hafa enga von um að Íslendingar - hvorki ráðamenn né almenningur - læri nokkurn skapaðan hlut á þessu.

Það kæmi mér ekkert á óvart þótt þetta ætti eftir að endurtaka sig.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.4.2008 kl. 11:30

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

En Kári boðar þetta ekki bara uppgang fyrir okkur í þekkingargeiranum? Nú þegar krónan hefur gengið talsvert til baka og skortur er á gjaldeyri, er þá ekki einmitt ráðið að leggjast í stórfelldan útflutning á hugviti? Þessi bransi er tiltölulega óháður síhækkandi eldsneytisverði eða hráefniskostnaði, nema ef vera skyldi heimsvarkaðsverði á kaffibaunum! ;) Hinsvegar verða framleiðslutækin (tölvubúnaður) sífellt betri og ódýrari á meðan kostnaður við útflutning "vörunnar" er lítill sem enginn. Svo þegar verður búið að byggja hér fyrirhuguð gagnaver og sæstrengi stóraukast möguleikarnir á að hýsa hér ýmsar þjónustur og kerfi sem hægt er að selja aðgang að sem "fullunna vöru" út um allan heim, fyrir dýrmætan erlendan gjaldeyri.

P.S. talandi um gagnver og af því að ég veit að þú ert umhverfisvænn maður, þá vil ég segja frá snilldarhugmynd sem ég heyrði nýlega. Hún felst í því að byggja risastórt vatnskælt gagnaver, og nota allan "úrganginn" (heitt vatn) sem til fellur til þess að hita upp sundlaug í sömu eða nærliggjandi byggingu. Þannig er orkan sem keypt er til gagnaversins fullnýtt í stað þess að láta umframvarmaorku fara til spillis eins og mig grunar að víða sé raunin.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.4.2008 kl. 11:39

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Guðmundur... hvar ætlarðu að virkja til að afla orku fyrir gagnaverið? Og hvernig ætlarðu að ganga frá línulögnum frá virkjun að gagnaveri?

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.4.2008 kl. 11:49

6 Smámynd: Kári Harðarson

Uppgangurinn er þegar byrjaður, 50% aukning er á nýskráðum nemendum í tölvunarfræði við HáErr frá því á sama tíma í fyrra.

Auðvitað eru tækifærin alls staðar,  Ísland hefur verið land tækifæranna fyrir tækifærissinna lengi.  Ég er bara að benda á, að ekki allir eru tækifærissinnaðir.  Sumir vilja bara fá að vinna sína vinnu og lifa í friði fyrir fjárhættuspilurum eins og bankamönnum og fjárfestum.  Það er ekkert náttúrulögmál að menn eigi að geta hagnast rosalega á engri vinnu.

Kári Harðarson, 14.4.2008 kl. 11:52

7 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, Kári, ég er ein af þeim sem vill vera reglusöm, sparsöm og nýtin. Ég lagði fyrir einhverjar upphæðir í bankanum fyrir mögru árin. Þessir peningar eru nú þegar foknir út í veður og vind. Hvers á ég að gjalda? Ekki hef ég verið í þessum áhættuspilum! En best er sennilega að eiga sem minnst, þá liður manninum best og áhyggjur eru hverfandi.

Úrsúla Jünemann, 14.4.2008 kl. 13:50

8 identicon

Hafa bankarnir hegðað sér illa? Þeir sem eru í bestu stöðunni til að sjá fyrir um þá hluti sem koma íslendingum að óvörum í dag eru starfsmenn fjármálageiranns. Þeir hafa hag af því að deila þeim ekki með Fjármálaeftirlitinu. Er einhvernveginn hægt að koma því í kring að bankastjórar hagnist af því að vinna með Alþingi og ríkisstofnunum?

Jökull (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband