Góðærið sem aldrei var

Þegar góðærið stóð sem hæst mátti lesa í flestum blöðum að allir væru að verða ríkir. Þetta var ranghugmynd sem mér fannst fæstir fjölmiðlamenn setja út á.  Aðgengi almennings að lánsfé var lagt að jöfnu við góðæri, þótt kaupgeta hans væri í raun að lækka.

Ég fann á eigin skinni í miðju góðærinu að launin mín entust ekki eins og þau gerðu. Um aldamótin gat ég fengið mér hádegismat á Kringlukránni en ég var farinn að láta Sómasamloku duga þegar góðærið var lofsungið hvað mest. Ég hélt á tímabili að ég væri eitthvað skrýtinn og ég væri ekki að fatta einhverja nýja hagfræði en hef svo komist að því að svo var ekki.  Því var líka haldið fram að þótt bankarnir högnuðust væri enginn í raun að tapa því kakan væri að stækka. Það reyndist líka rangt.

Hvað var að gerast? Af hverju fóru peningarnir frá fólki til bankanna? Af hverju hækkaði allt þótt enginn talaði um verðbólgu? Hér er mín skýring:

Í gamla daga prentaði ríkið peninga þegar það þurfti að fjármagna framkvæmdir. Ef peningar eru prentaðir án þess að verðmæti í landinu aukist heitir það "Verðbólga". Ríkið á nýja seðla og getur fjármagnað brýr og sjúkrahús, en þeir seðlar sem fyrir eru falla í verði sem nemur nýju seðlunum. Peningaprentunin er því sem ósamþykktur skattur sem leggst harðast á þá sem eiga seðlabúnka einhversstaðar.

Verðbólgan var orðin svo óvinsæl (sérstaklega hjá peningaeigendum) að yfirvöld fundu nýja leið til að auka hagsæld án þess að þurfa að nota orðið "Verðbólga". Hún var að gefa bönkum leyfi til að prenta peninga í staðinn fyrir að ríkið gerði það.  Nú skyldi einkageirinn byggja brýr og sjúkrahús með bankalánum.

Áður máttu bankar bara lána þá peninga sem þeir áttu til.  Nú máttu þeir lána án þess að þeir ættu innistæðu fyrir láninu því bankarnir geta skráð væntanlega endurgreiðslu lána sem sína eign.  Sá sem biður bankann um lán fær þá, eins og fyrir kraftaverk, innistæðu á reikninginn án þess að úttekt hafi verið færð af öðrum reikningi innan bankans. Nýjir peningar verða þannig til og bankinn hagnast um vexti af peningum sem hann átti ekki til að byrja með.

Heimildin til að prenta svona peninga heitir því saklausa nafni "Bindiskylda" á Íslandi. Lág bindiskylda jafngildir leyfi til að prenta mikla peninga.  Sjá á vísindavefnum um bindiskyldu hér:   http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=841

Þetta er peningaprentun eins og þegar verðbólgan var upp á sitt besta en hún heitir bara ekki verðbólga núna.  Verð á laxveiðileyfum og fínum mat hækkar niðrí miðbæ og húsnæði þrefaldast í verði en samt segja fjölmiðlar að verðbólgan sé lítil sem engin.  Þeir sem eiga þegar hús og landareignir verða ríkari á pappírnum meðan launþegar finna launaseðlana hjaðna í höndunum á sér af því þeir fá stærri lán til að kaupa sömu húsin og voru til fyrir.

Ríkið gaf bankamönnum leyfi til að prenta peninga.  Það gat aldrei staðist að menn sem voru ekkert sérstaklega mikið faglærðir, áttu ekki verðmæti svo sem landareignir og bjuggu ekki til nein áþreifanleg verðmæti með höndunum skyldu verða svona ríkir svona hratt.

Það má segja að bólan hafi orðið til vegna þess að almenningur hafði svo gott aðgengi að bankalánum, en ég held að skýringin að ofan svari því hvers vegna bankarnir höfðu svona stórar fjárupphæðir til að lána almenningi til að byrja með.

Kannski er ekkert sérstakt að krónunni sem gjaldmiðli.  Kannski þurfum við frekar að skoða hvort við höfum flutt inn of mikið af nútíma bankamenningu?  Við ættum að reyna að skilja hvað gerðist hjá fjármálafyrirtækjum á undanförnum árum áður en við göngum næst í kjörklefana.

Hagfræði virðist eiga mikið skylt við heimsspeki.  Þegar menn byrja að rýna í undirstöðurnar er ekkert augljóst hvað peningar eru í raun og veru.  Sjá ágæta umræðu hér um fyrirbærið "Fractional Reserve Banking"

http://www.tickerforum.org/cgi-ticker/akcs-www?post=16342

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Upplifun mín af "góðærinu" og "kaupmáttaraukningunni" var nákvæmlega sú sem þú lýsir í upphafi pistilsins. Kannski vegna þess að ég tók ekki lán fyrir lífsnauðsynjum og gerði ekki meiri kröfur en þær, að eiga sæmilega í mig og á. Reyndar líka vegna þess að samningsstaða mín og minna kollega við vinnuveitendur er engin og við höfum dregist verulega aftur úr í tekjum sl. ca. 10 ár eða svo.

Skýring þín hljómar mjög sannfærandi en ekki treysti ég mér til að meta hvort hún sé sú eina - eða hvort fleira komi til.

Takk fyrir fínan pistil.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.7.2008 kl. 11:17

2 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Góð fílósófía og skemmtileg hjá þér Kári og ég tek undir með þér. Sjálfur set ég alltaf örlitla klípu af Birni í Brekkukoti samanvið mína kapítalísku hagfræði þegar ég sé að allir eru að verða vitlausir af græðgi.

Guðmundur Pálsson, 17.7.2008 kl. 12:29

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég þarf að lesa Brekkukotsannál aftur.

Amma mín Regína Þórðardóttir lék eiginkonu Björns í Brekkukoti í samnefndri bíómynd sem hefur ekki verið endursýnd í sjónvarpi síðan hún kom út 1973 mér vitanlega.

Kári Harðarson, 17.7.2008 kl. 14:14

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég er blankari á íslandi með nær 500 kall á mánuði en í svíþjóð með 200 kall.. skilji það sá sem skilið getur.. held að skynsamlegast sé að snáfa sér héðan burt áður en illa fer fyrir manni... btw mín upplifun er nákvæmlega eins og ykkar Kári og Lára

Óskar Þorkelsson, 17.7.2008 kl. 17:15

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég skil hvorki upp né niður í peningamálunum hér á landi. Ég sé bara að þeir peningar sem ég lagði fyrir til að hafa varasjóð á efri árunum er að verða að engu. Mér er grimmilega refsað fyrir að vera vinnusöm, reglusöm og sparsöm. það er eitthvað að í þessu þjóðfélagi.

Úrsúla Jünemann, 17.7.2008 kl. 18:10

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kíkið á myndbandið sem ég var að setja inn hjá mér... Kannski þetta sé aðferðin til að verða ríkur - ef einhver hefur geð í sér til þess.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 01:27

8 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Fannst gott svar hjá einhverjum sem spurður var út í kreppuna... " Ég tók ekki þátt í góðærinu svo kreppan kemur ekkert við mig"!

Kv. Steini

Þorsteinn Gunnarsson, 18.7.2008 kl. 02:01

9 Smámynd: Kári Harðarson

Góð færsla hjá þér Atli, ég sé  að fleiri voru með þessa tilfinningu í góðærinu.

Þetta myndband er svakalegt Lára - ætli einhver fjölmiðill eigi eftir að sýna það?

Kári Harðarson, 18.7.2008 kl. 09:00

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, það er svakalegt í meira lagi. Ég sá í morgun að fleiri eru búnir að birta myndbandið, s.s. Eyjan og Egill Helgason. Það ættu því ansi margir að vera búnir að sjá það og svo hef ég orðið vör við að YouTube-slóðin gengur manna í milli í tölvupósti. Ég fékk hana í tölvupósti í gærkvöldi.

Aðrir fjölmiðlar en Eyjan hljóta að taka við sér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.7.2008 kl. 11:37

11 identicon

Myndbandið sem Jón R bendir á er enn svakalegra en FL Group myndbandið (sem er nú svakalegt líka).

Mér hefur alltaf fundist fjármálaheimurinn undarlegur utan frá séð og þegar maður sér þessi "framvirku viðskipti", það er viðskipti með eitthvað sem ekki er til en gæti orðið til, svo og "short stakes" þegar menn veðja á að eitthvað gangi illa... og allt þetta batterí, þá lyktar þetta allt af braski.

Sem það virðist og vera. Bankarnir prenta eigin peninga í nútímafjármálaheimi án þess að eiga neitt til að vega þá upp, eins og segir í myndbandinu, ef allir borga skuldirnar, þá hverfa peningar af markaðnum..

Bólan á eftir að springa og ég hef á tilfinningunni að það verðum við, með örlítið sparifé, húsnæðisskuldir og lífeyrissjóðsréttindi, sem munum fara verst út úr því, þó við eigum minnsta sök á blindafylleríi bindisfólksins.

JBJ (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 13:30

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi bankana að þeir eru nánast að gleypa allt í samfélaginu þá má benda á ofurlaunakjör bankastjóranna á Íslandi. Þeir hala inn á örfáum vikum það sem telst miðlungstekjur á heilli ævi flestra okkar! Eru þeir svona mikilvægir í okkar samfélagi? Svo hækka þeir og lækka vextina eftir þörfum sínum, hlutabréfin missa verðmæti og gengi þeirra sígur hratt niður og gengi krónunnar eftir því.

Ætli heilbrigðisstéttirnar, umönnunarstéttir, kennarar, lögregluþjónar og ýmsir fleiri hefðu ekki allir þörf á að kaupmáttur tiltölulega lágra launa verði sem best tryggður? En það er sífellt verið að ýta undir einhverja óskiljanlega brasknáttúru sem enginn venjulegur maður áttar sig á. Þá eru fundin upp þessi fínu orð sem tengjast hagfræðinni sem koma venjulegu fólki ekki að neinu gagni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.7.2008 kl. 06:31

13 Smámynd: Sigurjón

Vá!  Það er margt að skoða og þakka þér fyrir að vera rödd skynseminnar í efnahaxmálum Kári!  Ég mun skoða þetta allt og íhuga...

Sigurjón, 19.7.2008 kl. 06:50

14 identicon

http://www.nytimes.com/2008/07/20/business/20debt.html?_r=1&partner=rssuserland&emc=rss&pagewanted=all&oref=slogin

Jökull (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 09:14

15 identicon

Ég er búinn að skoða þetta, og finn hvergi heimildir fyrir því að það þurfi ekki að færa inn neina peninga.

Vegna þess hvernig banka og lánakerfið virkar þá geta útlánaðir peningar verið 10x meiri en grunnpeningar með 10% bindiskildu. Ef bankarnir gætu beinlínis búið til peninga væri þetta að öllum líkindum hærra.

Þá má svo rökræða hvort þetta sé sanngjarnt að einkareknir bankar fái vexti af þessu öllusaman, en mér sýnist þetta ekki alveg vera svona útúr korti eins og í þessu myndbandi, en ef þú getur vísað í áræðanlegar heimildir að þetta sé svona á íslandi eða annarstaðar þá væri það mjög fínt. 

Vísindavefurinn skýrir þetta eins og ég er að útskýra þetta, nema ég sé að missa af einhverju. 

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=841

Ævar Örn Kvaran (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 12:06

16 identicon

Las um þetta fyrir nokkrum árum í ansi magnaðri íslenskri bók (frá 1979), hér er kaflinn sem fjallar um framleiðslu peninga:

http://vald.org/falid_vald/kafli08.htm 

Jóhannes (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband