Opinn hugbúnaður - opin gögn

Microsoft (MS) Office pakkinn sem flestir þekkja kom fyrst út sem Office 3.0 árið 1989 og er því orðinn nítján ára gamall.  Hann er orðinn stór hluti af lífsreynslu flestra sem nota tölvur á annað borð, rétt eins og QWERTY lyklaborðið og músin.

picture1.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef menn vilja nota annan pakka kostar það endurþjálfun.  Þessi rök voru notuð gegn því að hætta að nota Office pakkann en nú hefur Open Office pakkinn (sem er ókeypis) orðið sífellt líkari MS Office og þessi þjálfunarkostnaður er því orðinn lítill sem enginn.

Skjöl sem voru vistuð með MS Office voru aðeins læsileg í MS Office.  Þessi rök mæltu einnig gegn því að nota annan hugbúnað, því annars gætu starfsmenn ekki auðveldlega skipst á skjölum.  Open Office getur lesið og skrifað MS Office skjöl svo þessi röksemd er líka orðin veigaminni.

Það að Microsoft kostar peninga en Open Office er ókeypis skiptir ekki miklu máli.  Ég held ekki að kostnaðurinn við að kaupa Microsoft hugbúnað eigi að stjórna umræðunni, kostnaðurinn er varla meiri en kostnaður við að kaupa kaffi fyrir starfsmenn.

Það sem skiptir meira máli er að opinberar stofnanir eiga ekki að vista skjöl á skráarsniði sem aðeins einn hugbúnaðarrisi hefur stjórn á.  Það væri í mínum huga eins og að leggja vegi um landið sem aðeins einn bílaframleiðandi hefur heimild til að þróa bifreiðar fyrir.

Íslenskar stofnanir ættu frekar að huga að því að vista reikniarkir og ritvinnsluskjöl samkvæmt opnum stöðlum eins og ODF en ekki lokuðum eins og DOC og XLS.  Hvaða forrit eru valin til að búa þessi skjöl til er ekki eins mikilvægt.

Ég er ekkert hrifnari af Open Office en Microsoft Office.  Það er kaldhæðnislegt, en til þess að verða nógu boðlegt fyrir vanadýr sem hafa alist upp við Microsoft Office þurfti Open Office að verða næstum nákvæmlega eins og Microsoft Office.  Munurinn er því nánast enginn.

Ég endurtek: Það sem skiptir máli er að skjölin séu læsileg öllum forritum sem vilja lesa þau.  Einhver, einhverntímann getur þá búið til forrit sem les og skrifar öll þessi ráðuneytaskjöl, forrit sem verður betra og vinsælla en Microsoft Office og Open Office samanlagt, eða getur hluti sem höfundum Office pakkanna datt ekki í hug.

 


mbl.is Allt opið og ókeypis?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll,

markmiðið er einmitt að skrifa hugbúnað sem er til þess gerður að geta unnið með allar tegundir af skrifstofuskjölum.

Segjum svo að hugbúnaðurinn styður ekki tiltekna tegund af skjali, þá er kóðinn aðgengilegur þér, til þess að leysa vandamálið. Þú/fyrirtækið/stofnunin breytir bara hugbúnaðinum til þess að opna og vinna með skjalið.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 23:53

2 Smámynd: Kári Harðarson

Það verður alltaf stór hópur af fólki sem vill ekki skrifa opinn hugbúnað.  Það getur verið að mér og þér þyki það leitt, en það er ekki næg ástæða fyrir ráðuneyti og stofnanir til að hætta að kaupa hann.

Hins vegar má færa sterk rök fyrir því að ráðuneyti og stofnanir eigi að halda sig við að vista skjöl og stunda samskipti á opnu formi.   Ef staðallinn er í eigu eins fyrirtækis á að láta hann vera.

Kári Harðarson, 30.7.2008 kl. 00:32

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þegar ég vann hjá hewlett packard og seinna hjá MS í svíþjóð.. þá notuðum við open office þar sem HP vildi spara í hugbúnaði.. og MS í svíþjóð notaði þennan pakka af sömu ástæðum.. fyndið :)

Óskar Þorkelsson, 30.7.2008 kl. 00:34

4 identicon

Ég nota sjálfur Open Office heima þó ég sé með Microsoft í vinnunni og ég finn engan mun á þessu. Eina ástæðan fyrir því að ég er með Open Office heima er að ég tímdi ekki að kaupa pakkann með tölvunni.

Annars ættu menn að keppast við að nota frían hugbúnað og Open Source þegar þeir geta. Þess vegna ættu tölvunördar heimsins að keppast að því að útbúa þannig stýrikerfi sem eru svo aumingjavæn að fólk með nánast enga tölvukunnáttu geti notað þau.

Daníel (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:49

5 Smámynd: Kári Harðarson

Daníel, af hverju ættu menn að keppast við að nota frían hugbúnað?

Og af hverju ættu nördar að skrifa aumingjavæn stýrikerfi?

Hvað græða nördarnir á að sitja sveittir og skrifa flott forriti fyrir aumingja sem eru ekki tilbúnir að borga neitt?

Ég skil þegar nördar skrifa hugbúnað sem þá langar sjálfa í og deila svo með öðrum, en að halda að Open Source hugbúnaður verði einhvern tímann jafn aumingjavænn og Mac OsX, ég sé það bara ekki fyrir mér.

Kári Harðarson, 30.7.2008 kl. 12:03

6 Smámynd: Jón Ragnarsson

Er þetta ekki í beinu framhaldi af dagatalsumræðunni þinni?

Jón Ragnarsson, 30.7.2008 kl. 12:11

7 Smámynd: Kári Harðarson

Hér eru bestu rökin fyrir því að nota opinn hugbúnað.  Ef þú gerir það ekki verður heimurinn verri staður:

http://randomfoo.net/oscon/2002/lessig/free.html

Kári Harðarson, 30.7.2008 kl. 12:40

8 Smámynd: Kári Harðarson

Jú Jón, vissulega.  Hvernig eigum við að geta skipst á gögnum af einhverju viti ef einu forritin sem geta lesið þau og skrifað koma frá einu fyrirtæki?

Skiptir ekki máli hvort um er að ræða ritvinnslu reikniörk, tölvupóst eða dagatalsupplýsingar.

Kári Harðarson, 30.7.2008 kl. 12:48

9 identicon

Á makkanum mínum er lítill takki sem heitir OFF-takki. Kannski er svoleiðis takki á pésunum ykkar. Vildi bara benda á þessa staðreynd í ljósi þess að dagurinn í dag og á morgun eru þeir hlýjustu á landinu í nærfellt heila öld og því margt sniðugra hægt að gera en að nördast ;) Þess vegna mæli ég með að þið finnið OFF-takkann og gleymið Open Source og öðru nördische mumbo-jumboen í nokkra daga.

Best væri ef Mbl léti bloggið krassa aftur, því það er svo heiðskýrt á meðan :)

Ingvar (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 23:04

10 Smámynd: Kári Harðarson

Ég póstaði mínu bloggi kl.23:39 eftir að hafa hlaupið 15 km um daginn.  Svo skrifaði ég athugasemdirnar frá iPhone sitjandi í guðsgrænni náttúrunni :)

Í alvöru talað þá er þetta rétt, Ingvar.  Signing out.

Kári Harðarson, 31.7.2008 kl. 09:25

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Get tekið undir rök þín fyrir notkun ríkisins á Open Office. Enn eru af og til hindranir í vegi fyrir mjúkri notkun Open Office skjala ef notandi vill opna skjal í Word (jafnvel þótt það sé vistað sem .doc) en ekkert sem smá kynning á úrræðum getur ekki leyst. Og ef ríkisstofnanir myndu ganga á undan með góðu fordæmi yrði stórt skref stigið.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.7.2008 kl. 11:49

12 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

tek algerlega undir þessi rök, að opinberar stofnanir ættu að nota stöðluð skráaform en ekki proprietary form einhverra fyrirtækja úti í heimi.

eins set ég spurningamerki við að opinberir aðilar hér noti stýrikerfi með bakdyrum fyrir NSA. ætla þó ekki að hæla Linux. ég hef aædrei getað sætt mig við hann, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. sjálfur er ég Windows maður.

Brjánn Guðjónsson, 31.7.2008 kl. 13:19

13 Smámynd: Einar Steinsson

Ég er sammála því að það á að vista gögn opinberra aðila í opnum stöðlum. Hvaða forrit er síðan notað til að búa þessi skjöl til skiptir engu máli.

Vissuð þið...

...að fjármagn til þróunar á OpenOffice kemur frá risafyrirtækjum eins og Sun Microsysten, Novell og IBM.

...að Ubuntu Linux verkefnið er fjármagnað af einum ríkasta manni heims, Mark Shuttleworth, en hann varð frægastur fyrir það að vera fyrsti geimtúristinn, hann borgaði rússum 20 miljón $ fyrir skutlið.

Þannig að goðsögnin um forritarana sem eyða frítímanum í að búa til forrit og stýrikerfi frítt fyrir okkur hin er ekki alveg rétt.

Einar Steinsson, 31.7.2008 kl. 19:56

14 identicon

Einar:

Ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim staðreyndum sem þú kemur þarna með, þær eru hárréttar. OpenOffice er unnið að lang stærstu leiti hjá IBM og Sun og þessi fyrirtæki hella milljónum dollara í þau. Ubuntu er þróað af fyrirtæki sem áðurnefndur Shuttleworth (skemmtileg tilviljun fyrir nafn á geimtúrista) stofnaði og rekur. Shuttleworth græddi víst milljarð dala á að selja öryggisfyrirtæki sitt sem hét Thawte til risans Verisign. Þannig að þetta er allt hárrétt hjá þér.

Það sem ég vil hins vegar setja út á við færsluna þína er að þú lætur það hljóma eins og þetta sé eitthvað samsæri? Hvað nákvæmlega er að því að fjársterkir aðilar styrki frjálsan og opinn hugbúnað?

Þú segir að það skipti engu máli hvaða forrit er notað á meðan að skjölin sem út koma séu skv. opnum stöðlum. Ég er sammála að skjölin verði að vera gefin út í frjálsu sniði. Hins vegar er mín skoðun að ef opinber aðili stendur frammi fyrir að velja á milli frjáls og opins hugbúnaðar eða lokaðs hugbúnaðar til að búa þessi skjöl til að þá ber honum skylda til að velja frjálsa hugbúnaðinn svo fremi að hann sé sambærilegur eða fremri í virkni á við þann lokaða. Þetta finnst mér eiga tvímælalaust við um MS Office vs. OpenOffice (fyrir reyndar utan það að MS Office styður ekki ODF sem ætti að vera sniðið sem opinberir aðilar nota hér á landi... OOXML stöðlunin er algjört grín og ætti ekki að vera notað!).

"Goðsögnin" sem þú vísar til er ansi langt frá því að vera goðsögn reyndar. Það eru mýmörg dæmi um gagnleg forrit sem eru búin til af velviljuðum forriturum sem gera þetta af einskærri hugsjón (ágætt dæmi um slíkt er VLC margmiðlunarspilarinn þó að eflaust sé hægt að finna einhverja aðila sem hafa styrkt hann með fjárframlögum líka). Það er ekki hægt að taka hugbúnaðarkerfi eins og OpenOffice og Ubuntu og segja aðþetta sé "goðsögn" vegna þess að þau séu ekki gerð með þeim hætti, þau eru einfaldlega alltof flókin til að slíkt gengi upp.

Það sem málið snýst um er ekki hvort að einhver borgaði einhverntíma einhverjum fyrir að vinna að hugbúnaðinum heldur það hvort/hvernig kóði hugbúnaðarins er aðgengilegur almenningi. MSOffice er harðlokað og þú gætir ekki fengið að sjá eða fikta í kóðanum þó að þú færðir mannfórnir til Bill Gates. OpenOffice og Ubuntu gera sinn kóða aðgengilegan öllum og ef þú hefur hæfileika og færni til getur þú sótt kóðann og breytt honum að vild. Það er það sem opinn hugbúnaður gengur út á, ef einhver getur fengið borgað fyrir að gera þessar breytingar, eða ef fjársterkir aðilar sjá hag sinn í að dæla peningum í hugbúnað sem þeir vita að þeir mega ekki hindra samkeppnisaðila í að nálgast og nýta sér þá myndi ég segja að það væri bara fínasta dæmi þess að módelið sé að virka þrælvel, ekki satt?

Stefán Freyr (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 10:34

15 Smámynd: Einar Steinsson

Stefán Freyr þú misskilur mig, ég er alls ekki að reyna að gera opin hugbúnað tortryggilegan. Það sem ég er að benda á er sú ranghugmynd sem menn virðast hafa að það sé eitthvert samasemmerki milli opins hugbúnaðar og hugsjóna/sjálfboðavinnu, það kann að vera að þannig hafi það verið einu sinni en það er ekki lengur, opin hugbúnaður er löngu orðin fullorðin og vaxin upp úr því. Sífellt fleiri af stærri "opnu" verkefnunum er að fara undir stjórn stórfyrirtækja og þó að það séu en fullt af verkefnum unnin af "samfélaginu" þá breytir það ekki þessari staðreynd. Og þetta er alls ekki endilega slæm þróun heldur þvert á móti, þróunin verður hraðari og við njótum góðs af.

Hvað varðar það opinberar stofnanir eigi endilega að kaupa opin hugbúnað er ég algerlega ósammála, hugbúnaður er bara vinnutæki. Það er alveg eins hægt að segja að það eigi bara að kaupa blýantana að sjálfseignarstofnun frekar en einkafyrirtæki. Það skiptir ekki máli hvaða tegund blýanturinn er heldur hvað stendur á blaðinu þegar búið er að nota hann og hvernig það er varðveitt. Hugbúnað á að meta eftir notkunargildi og kostnaði og það er mikill misskilningur að leyfisgjöld séu stærsti kostnaðarliðurinn. Innleiðing, viðhald og þróun eru oft miklu stærri hluti kostnaðar sem gerir það að verkum að "frír" hugbúnaður er ekkert endilega ódýrasta lausnin.

Ég nota sjálfur opin hugbúnað ásamt læstum hugbúnaði og sama gildir um vinnuveitanda minn, í mínum huga geta þessar tvær "stefnur" í hugbúnaðargerð farið ágætlega saman enda er hugbúnaður/stýrikerfi verkfæri en ekki trúarbrögð.

PS

Microsoft er eftir því sem ég veit best búnir að gefa út að þeir ætli að láta Office hugbúnaðinn styðja ODF skjalasniðið í framtíðinni (væntanlega vegna þrýstings frá þeim sem vilja vista skjöl í opnu formi), svo er bara að sjá hvort og hvenær þeir standa við þetta. Þangað til þeir láta verða af því er í mínum huga mikil spurning hvort opinberar stofnanir eiga ekki að hætta að nota MS Office.

Einar Steinsson, 1.8.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband