Það borgar sig ekki að endurvinna

Þessi grein birtist á heimasíðu Neytendasamtakanna:

Ég rak augun í auglýsingu í blaði um daginn sem sýndi Gísla Martein Baldursson setja dagblöð í endurvinnslutunnu.  „Endurvinnum - umhverfisins vegna“ stendur á myndinni.

Mín reynsla er sú að flest fólk endurvinnur, þegar öllu er á botninn hvolft, frekar peninganna vegna en umhverfisins vegna. Ég heimsótti Þýskaland og Tékkland í byrjun árs og það vakti athygli mína hversu mikið var endurunnið á heimilum vina minna. „Af hverju flokkið þið ruslið ykkar?“ spurði ég tékknesku vini mína. „Vegna þess að það kostar svo rosalega mikið að láta urða óflokkað rusl“. Á götuhorni hjá næstu sporvagnastoppistöð stóðu ólæstir gámar sem borgin hafði sett upp fyrir gler, plast, málm, og pappír.

Ég sé um bókhald lítils húsfélags í Reykjavík. Við erum með tvær sorptunnur, þó að ein tunna myndi næstum því duga, og fyrir hverja sorptunnu borgum við 16.300 kr. á ári. Fyrir ári síðan fengum við að auki endurvinnslutunnu frá Gámaþjónustunni, en borgum 11.876 kr. á ári fyrir hana. Sorptunnurnar eru losaðar á viku fresti. Endurvinnslutunnan, sem er alltaf yfirfull löngu fyrir losun, er losuð á fjögurra vikna fresti. Við borgum þá 313 kr. á losun fyrir sorptunnu og 914 kr. á losun fyrir endurvinnslutunnu.

Niðurstaðan er skýr: endurvinnslutunnan borgar sig ekki. Best fyrir pyngju húsfélagsins og íbúa væri að hætta að flokka, senda tunnuna aftur til Gámaþjónustunnar, og setja dagblöð, pappír, plast og málma beint inn í ruslið.

Árangur í endurvinnslu mun ekki nást fyrr en flokkun er orðið hagsmunamál hvers og eins, eins og í mörgum Evrópulöndum. Til þess þarf endurvinnsla að kosta minna en urðun, sem er ennfremur eðlilegt ef það eru verðmæti í endurunnu efni og samfélagslega hagkvæmt að minnka sorpmagnið. Mér skilst að sum sveitarfélög, t.d. Seltjarnarnes og Stykkishólmur, hafa fundið heppilegri og raunhæfari leið til að hvetja íbúa til endurvinnslu. Ég held að Reykjavíkurborg geti gert það líka og vonast sannarlega til þess að svo verði.

Ian Watson 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mjög athyglisvert, takk fyrir að birta þetta. Íbúar í mínu húsi hafa verið að íhuga að skipta einni tunnu út fyrir endurvinnslutunnu en miðað við þetta borgar það sig alls ekki. Fólk flokkar reyndar eitthvað sjálft og fer með í Sorpu, en auðvitað má gera betur.

Vonandi hysja borgaryfirvöld upp um sig hið fyrsta svo þetta verði raunhæfur möguleiki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 16:02

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég keyri pappírinn, pappann, plastið, járnið, batterí, tómar flöskur og notuð föt allt saman í Sorpu.  En það er náttúrlega slattans vinna...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 23.7.2008 kl. 19:05

3 Smámynd: Sigurjón

Flokkun á sorpi var fundið upp á ofanverðum 9. áratug síðustu aldar og er til ama og óþurftar.  Ég get t.d. fært rök fyrir því að það sé beinlínis slæmt fyrir umhverfið að endurvinna pappír.  Þau eru eftirfarandi:

1.  Pappírsframleiðendur eru skyldugir að gróðursetja 4 tré fyrir hvert og eitt sem þeir fella.  Fyrir utan það að þeir þurfa auðvitað að hafa fleiri tré til að anna eftirspurn.  Það stækkar skógana.  Ergó: Því meiri frumpappír sem við notum, því stærri verða skógarnir og þar með dregur úr koltvísýringi í andrúmsloftinu.  Það er algengur misskilningur að tré frumskóganna (regnskóganna) séu notuð í pappírsframleiðslu, en svo er ekki.

2.  Mesta mengunin í pappírsframleiðslu er fólgin í því að líma trefjarnar í pappírnum saman.  Því oftar sem pappír er endurunninn, því minni verða þessar trefjar og þarf meira og meira lím til að líma þær með tilheyrandi mengun.  Ergó: Að framleiða endurunninn pappír krefst meiri mengunar en að framleiða frumpappír.

3.  Margt af því sorpi sem sett er í endurvinnslu, brotnar auðveldlega niður í jarðveginum og verður fljótlega að mold hvort sem er.  Pappír er t.d. eitt af því, en endurunninn pappír mengar þó meira en frumpappír.

4.  Til að sækja þessar blessuðu tunnur þarf að senda annan bíl á vettvang og ekki menga þeir nú lítið.  Ég tala nú ekki um ef allir fara á sínum einkabílum í Sorpu og skila sjálfir.  Það er geðveik mengun sem hlýzt af því.

5.  Það er beinlínis margfalt dýrara fyrir þjóðfélagið að flokka sorp heldur en að urða það, eða jafnvel brenna það og nota hitann til orkuöflunar.  Beinharðir peningar þar á ferð.

Það eina sem beinlínis borgar sig að endurvinna er ál.  Það er miklu ódýrara að bræða það upp á nýtt heldur en að framleiða úr báxíti.  Athugum það. 

Sigurjón, 23.7.2008 kl. 23:34

4 Smámynd: Sigga Hjólína

Ég kýs að réttlæta minn kostnað við grænu tunnuna þannig að þetta margborgar sig vegna þarnæstu kynslóðar.

Sigga Hjólína, 23.7.2008 kl. 23:47

5 Smámynd: Sigurjón

...og hvernig reiknarðu það út Sigga?

Sigurjón, 24.7.2008 kl. 01:39

6 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Væri ekki ráð, að staðsetja endurvinnslutunnur/gáma á lóðum stómarkaðanna? Þegar þú ferð í þinn vikulega verslunarleiðangur í BónusKrónuna, þá er stór hluti varningsins umbúðir og því væri hin fullkomna hringrás að skila af sér ruslinu við stórmarkaðina...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.7.2008 kl. 08:29

7 Smámynd: Sigurjón

Ekki vitlaus hugmynd Ásgeir, en fellur á því að þá þarf Sorpa að koma og taka dótið á eigin kostnað, auk þess sem þetta tekur pláss sem er ekki alltaf til, fyrir utan að stórmarkaðirnir hafa ekki áhuga á að taka frá pláss fyrir starfsemi sem skilar þeim engu í kassann.  Hvorugur aðilinn hefur því áhuga á þessari lausn þó hún sé þægilegri fyrir almenning.

Sigurjón, 24.7.2008 kl. 08:48

8 identicon

Víða erlendis kostar svo mikið að láta tæma ruslatunnurnar að menn eru farnir að læsa þeim svo enginn annar setji sorpið sitt í þær.

Ásgeir:

Í Þýskalandi eru verslanir og stórmarkaðir skyldugir til að taka við öllum umbúðum. Ég held það virki ágætlega - enda krafa stóru keðjanna til framleiðenda að þeir minnki umbúðamagn.

Sigurjón.

Ég hef heyrt svipaðar röksemdir áður.

Athyglisvert þótti mér þegar ég las einhverntíman í þýsku tímariti að menn þar í landi væru svo umhverfisvænir að eftirspurn eftir endurunnum pappír væri meira en pappírsframleiðendur gátu annað. Því væru framleiðendur að endurvinna óseldan pappír til þess eins að geta selt hann sem endurunna framleiðslu.

Ólafur.

þó ég sé í sjálfu sér ekki ósammála mörgu sem þú segir finnst mér alltaf voðalega leiðinlegt þegar menn enda í bölvi og ragni út í stjórnmálamenn í stað málefnanlegrar gagnrýni.

Ég trúi því að flestir þessara manna (sem sannarlega eru misjafnir) eru allir í hjarta sínu að gera eins vel og þeir geta.

Ef þú ert svona ósáttur - afhverju býðuru þig ekki fram sjálfur og reynir að hafa áhrif í stað þess að snúa rassinum upp í loft og reka við?

Ormur (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 09:51

9 Smámynd: Einar Indriðason

Svissarar eru að prófa þá leið, að bjóða verulegan afslátt, ef þú kaupir vöru, án umbúða.  Það er að segja... vörur eins og útvörp, sjónvörp, og slíkt.  Matvaran þarf enn sínar umbúðir.  Þetta virðist virka vel hjá svissaranum, fólk tekur óinnpakkað sjónvarpið bara með sér eins og það er.

Einar Indriðason, 24.7.2008 kl. 14:26

10 Smámynd: Einar Karl

Rök Sigurjóns hrökkva skammt. Hann segir:

"3.  Margt af því sorpi sem sett er í endurvinnslu, brotnar auðveldlega niður í jarðveginum og verður fljótlega að mold hvort sem er.  Pappír er t.d. eitt af því, en endurunninn pappír mengar þó meira en frumpappír."

Þetta er einmitt ástæða fyrir því að flokka sorpið - að flokka það frá sem brotnar auðveldlega niður frá hinu sem ekki brotnar niður! Glerkrukkur, niðursuðudósir, gúmmí, mjólkurfernur, ál og margt fleira brotnar seint og illa niður. Þannig að þó hluti af óflokkuðu sorpi Sigurjóns brotni niður er það til lítils gagns, innan um allt hitt sem ekki brotnar niður. Útkoman er fleiri hundruð kíló af urðunarefni á hvert mannsbarn á ári, sem einhvers staðar þarf að koma fyrir. Það er vissulega auðveldara hér á landi en í þéttbýlli löndum en engu að síður ókræsilegt að við skiljum eftir okkur þvílík fjöll af rusli.

Einar Karl, 24.7.2008 kl. 18:07

11 Smámynd: Sigurjón

Nei, þetta er einmitt ekki ástæða til að flokka sorp.  Henda þessu öllu í landfyllingu eða brenna til orkuframleiðslu.  Það sem brotnar auðveldlega niður (eins og t.d. mjólkurfernur) verður fljótlega að mold, meðan hitt brotnar seint.  Hvað væri annars gert við það?  Hvað á að gera við hitt sem brotnar auðveldlega niður?

Fyrir utan það, sagði ég einmitt að ál væri nokkurn veginn það eina sem virkilega borgaði sig að endurvinna.  Þú ættir að lesa betur og hugsa aðeins Einar.

Auk þess minnistu ekkert á hin atriðin, þannig að þetta hrekkur skammt hjá þér

Sigurjón, 25.7.2008 kl. 00:18

12 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Sigurjón, niðurbrotnu moldina er ekki hægt að nota til nokkurs hlutar ef í henni eru glerbrot og járnarusl.  Fínt að láta þetta brotna niður í sitthvoru lagi, hins vegar, ég tek undir þetta með að ekki borgi sig endilega að endurvinna pappír of mikið og alls ekki of oft.  Kaupum til dæmis aldrei nokkurn tímann endurunninn klósettpappír, kærum okkur ekkert um öll þessi aukefni sem maður veit ekkert hver eru, nálægt viðkvæmri slímhúð. 

Má svo sem til sanns vegar færa að við hér á landi höfum slattans pláss fyrir rusl en víða erlendis er það gríðarlegt vandamál, kannski þess vegna sem fjármálahliðin er önnur þar og það borgar sig í krónum og evrum talið fyrir fólk að endurvinna.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 25.7.2008 kl. 08:31

13 Smámynd: Sigurjón

Við getum kannske ekki notað moldina í garðinum hjá okkur, en gróðurinn í landfyllingunni getur það eftir að hún verður til.

Erlendis eður ei: Það er alltént dýrara að flokka rusl og endurvinna heldur en að flytja það burtu á staði sem hægt er að urða það. 

Sigurjón, 25.7.2008 kl. 09:32

14 Smámynd: Kári Harðarson

Það er ekki augljóst hvað borgar sig að endurvinna.   Þetta er eins og faraldsfræðin, er hættulegra að hringja eitt GSM símtal en að taka í hurðarhún á spítala?  Maður getur gert sig vitlausan með slíkum pælingum.

Hitt er svo annað mál að eftir að yfirvöld hafa ákveðið að endurvinna ákveðna hluti, hverjir svo sem þeir eru, þá eiga þau að ganga þannig frá hlutunum að þegnarnir fái skír skilaboð um það hvað af þeim er ætlast.

Mamma mín á engan bíl, en endurvinnslukerfi yfirvalda gerir ráð fyrir að allir reki einkabíl.   Þess vegna fer hún í göngutúra með dósirnar sínar og flöskur þangað sem einhver býr sem fer með ruslið sitt í bíltúra  um helgar.  Samt býr hún í ellimannablokk þar sem borgin er með mötuneyti á fyrstu hæð.

Þar sem ég átti heima í Bandaríkjunum 1989 tóku ruslabílarnir allt rusl flokkað frá hverju húsi.  Erum við lélegri umhverfissinnar en ameríkanar?

Burtséð frá öllu tali um hvað er á lista yfir það sem á að endurvinna, þá er þetta ótrúlega léleg frammistaða hjá yfirvöldum hér.  Ég skil Ólaf satt að segja mjög vel að tapa sér í smá bræðiskasti, því yfirvöld eiga skilið að það sé snúið ærlega upp á eyrnasnepilinn á þeim.

Kári Harðarson, 25.7.2008 kl. 10:42

15 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Sigurjón, hvað meinarðu, erlendis eður ei?  á að flytja hlutina alla til Napólí?  Er ekki búið að prófa það? :>

það fer algerlega eftir því hvað langt þarf að flytja endurvinnsluhlutinn til að það sé pláss fyrir hann einhvers staðar.  Mögulega pláss einhvers staðar á túndru Rússlands, jújú.

Það er slattans tími í að gróður í landfyllingu, fullri af eiturefnum, komi sér af stað, ef við endurvinnum ekkert, viltu kannski líka að batterí og lyf og önnur eiturefni fari bara í ruslatunnuna?  Hljómar svolítið þannig.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.7.2008 kl. 00:31

16 Smámynd: Sigurjón

Hvernig væri nú ef Árni Guðmundsson myndi bara nenna að skoða málið fyrir sig.  Það er til leitarvél sem kallazt Google og svo er ágætis upplýsingasíða sem heitir Wikipedia.  Það er hægt að finna allskyns greinar í báðar áttir, en þessa þekkingu hef ég einfaldlega frá manni sem vann í pappírsiðnaði.

Hann gæti líka útskýrt hvernig ,,reynt er að stjórna" því sem fer á ,,losunarsvæði".

Hildigunnur:  Nei, eiturefni eiga að sjálfsögðu ekki heima í ruslinu.  Það er nú bara almenn skynsemi sem segir okkur að losna við slíkt öðruvísi.  En pappír, pappa, matarúrgang og fleira í þeim dúr er ekki ástæða til að endurvinna á annan hátt en einfaldlega að leyfa því að brotna niður í náttúrunni. 

Sigurjón, 27.7.2008 kl. 02:29

17 Smámynd: Sigurjón

Hvað veizt þú um það Árni hvað verður um þessa flokkuðu hluti þegar þú ert búinn að skila þeim?  Þú kannske uppfræðir okkur um það.

Það sem ég ,,predika" er einfaldara og ódýrara.  Einfaldlega það.  Ef það er ekki almenn skynsemi, þá verð ég hissa.  Ég er þegar búinn að tala um að eitur- og spilliefni eigi að fara sér, þar sem þau skemma jarðveginn, en nokkurn veginn allt annað á heima í landfyllingum.  Þú kannske líka uppfræðir okkur hvaðan þú hefur þá ,,þekkingu" að jarðvegur úr blönduðu rusli sé slæmur.

Sigurjón hefur talað.

Ps, var nokkur einhvern tímann að halda öðru fram en þú hétir Árni?  Varstu svona ölvaður þegar þú settir inn þessa færzlu? 

Sigurjón, 27.7.2008 kl. 14:12

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er fylgjandi því að við endurvinnu eins mikið og hægt er.  Það er í mínum huga bara eðlilegt.  Málið er það gera þarf það auðveldara fyrir okkur að skila af okkur ruslil í endurvinnslu.  Ég hef, eins og Kári, búið í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Kaliforníu.  Annan hvern miðvikudag settum við gler, ál/járn, pappír og plastflöskur út á gangstétt.  Sérstakur endurvinnslubíll sótti það sem þannig var skilið eftir.

Hér á landi er hægt að skila öllu mögulegu í endurvinnslu, en það er gerð lítil krafa til fólks að það vandi sig.  T.d. vilji maður henda timbri, þá er algjör óþarfi að naglhreinsa það.  Vilji maður skila járni, þá þarf ekki að flokka það.  Maður fer bara með járnaruslið niður í Hringrás og þeir sjá um flokkunina, án endurgjalds.  Síðan er manni refsað með því að krefja um greiðslu fyrir að koma með mikið í einu, t.d. eftir tiltekt i bílskúrnum, þó það fari allt í flokkunargáma, en svo horfir maður upp á annan aðila henda litlu minna án greiðlsu, þó svo að allt fari í óflokkaða gáminn.  Mér finnst þetta vera röng skilaboð og hvetur fólk ekki á nokkurn til að flokka.

Marinó G. Njálsson, 27.7.2008 kl. 18:45

19 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst reyndar fjöldi athugasemdanna sem þú hefur fengið við þessari grein sem þú birtir vera talandi tákn um að fólk hefur áhuga á málinu og það vantar mikið upp á að það sé komið sæmilegt jafnvægi á því hvað fólk þarf að borga/hafa fyrir endurvinnslunni og þeim hag sem það er fyrir samfélagið að endurvinna sem mest. Þannig að þetta er þarft innlegg.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.7.2008 kl. 00:07

20 Smámynd: Sigurjón

Árni: Ég bendi á Google/Wikipedia-leiðina sem ég er þegar búinn að benda þér á.  Efnahaxleg rök hef ég tíundað, auk þess sem ég er ekkert sérfróður um hvað Sorpa gerir við flokkaða ruslið.  Ætli þeir steypi því ekki saman og urði það?  Hvað veit ég?  Ég veit heldur ekki hvers vegna ég ætti að standa í því að uppfræða þig né aðra.  Athugasemdir eftir þig, t.d. hérna og hérna, benda til þess að þú eigir erfitt með skilning á sumum hlutum.

Ég hef einungis kynnst pappírsframleiðslunni gegnum vin minn nefndann og hef frá honum að endurvinnsla pappírs sé tóm þvæla.

Sigurjón, 28.7.2008 kl. 01:37

21 Smámynd: Sigurjón

Árni, þú hlýtur að vera eitthvað tregur.  Ég er margsinnis búinn að taka skýrt fram að eitur- og spilliefni eigi ekki heima í ruslinu; flest annað á það hins vegar.  Það er greinilegt að auðveldara væri að kenna hænu stærðfræðigreiningu en að koma einhverju inn í kollinn á þér.  Því ætla ég að hætta að reyna og fara heim í sveitina að finna hænu...

Sigurjón, 28.7.2008 kl. 10:42

22 Smámynd: Sigurjón

Ég kallaði þig alls ekki hænu og ályktaði einungis um tregleika þinn, sem þú hefur nú staðfest.

Sigurjón, 29.7.2008 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband