Land hinna dauðu

Hér í Frakklandi er kreppan ekki mikið rædd af venjulegu fólki, hún er fyrst og fremst hausverkur banka og fjárfesta á þessu stigi.

Fólk á mínum vinnustað er að ræða hvað það ætlar að gera næstu helgi, skipuleggja heimboð og hjólakeppnir og sinna föstum liðum eins og venjulega.

Mér sýnist staðan á Íslandi vera talsvert ólík.

07ndtjf.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Vinur minn álpaðist eitt sinn til þess að skrifa upp á víxil fyrir samstarfskonu sína þegar hann var ennþá svo blautur á bak við eyrun að hann vissi ekki hvað það þýddi að vera ábekingur. Konan borgaði ekki og skuldin féll á félaga minn sem bölvaði sjálfum sér fyrir aulahátt í fjármálum.

Vinur minn var samt ekki jafn mikill auli og Davíð sem einkavæddi bankana og gerði mig og þig ábyrg fyrir því að þeim yrði bjargað ef þeir færu á hausinn þótt þeir stunduðu ekki lengur venjulegan bankarekstur heldur áhættufjárfestingar.

Eða var almenningur aularnir?  Ég hafði sjálfur ekki gert mér grein fyrir því að hann hefði gert þjóðina ábyrga fyrir hinum stórkostlega áhættusömu fjárfestingum sem útrásarvíkingarnir réðust í. Mér finnst ótrúlegt eftirá að umræða um þetta hafi aldrei komist upp á yfirborðið. Þeir sem gagnrýndu útrásina voru bara öfundssjúkir og púkó, málið dautt. Ég hafði gefið mér að þeir væru að leika sér að annara fé, ekki mínu.  Var málið aldrei rætt því fjölmiðlarnir voru allir í eigu þeirra sömu sem léku fjárhættuspilin í bönkunum og Group þetta og hitt?

Ef þjóðin er ábyrg fyrir spilafíkn bankanna langar mig að fá fram svart á hvítu hvernig það gat gerst. Ég hefði aldrei samþykkt að gerast ábekingur fyrir þessari útrás. Ég óttast bara að sú rannsókn fari ekki fram því of margir valdamiklir menn eru tengdir málinu, aðrir en Davíð.

Líklega ætti erlendur dómstóll að rétta yfir þeim sem störfuðu við Seðlabankann.  Það er ekki útilokað að erlendir aðilar sem neyðast til að rétta Íslandi hjálparhönd geri þá kröfu að þeir sem stjórnuðu þessari helför í fjármálum verði leiddir fyrir alþjóðarrétt og málið skoðað í kjölinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ertu viss um að blessaðir Frakkarnir hafi hugmynd um hvað sé að gerast fjármálalífi heimsins? Kannski álíka værukærir og ómeðvitaðir um hvað sé að gerast og árið 1940 þegar þeir vissu ekki fyrr en Frakkland var fallið fyrir herjum Þjóðverja.

Hjörtur J. Guðmundsson, 3.10.2008 kl. 17:43

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já dóttir mín býr í Frakklandi með frönskum tengdasyni okkar. Hann vann launalaust í allt sumar til þess eins og reyna að komast inná vinnummarkaðinn.

Í Frakklandi er lýðræðið svo gott að engum dettur annað í hug en að stjórnmálamenn sjái til þess að öll fyrirtæki og bankar gangi vel og það verði því áfram 19% atvinnuleysi á meðal ungmenna undir 25 ára aldri og atvinnuleysi allra haldi áfram að hækka frá þessum 8% sem það er í núna og að skattar Frakklands haldi áfram að vera þeir hæstu í heimi => clulesss.

Þessvegna sendu helstu hagfræðingar ESB og Evrópu bænaskrá til ESB og stjórnmálamanna í ESB í gær til að reyna að forða ESB frá 1930-ástandi á komandi árum. Frakkar munu náttúrlega leysa þetta með því að kveikja í nokkrum bifreiðum og heimta að enginn geri neitt sem kostar því það er eginn peningur til til að gera neitt: "Open Letter to European Leaders on Europe’s Banking Crisis"

Gunnar Rögnvaldsson, 3.10.2008 kl. 18:42

3 identicon

Hvers vegna í ósköpunum heldur þú að vandinn sé bundinn við Ísland?? Það sjá allir sem sem sjá vilja að hið frjálsa hagkerfi er að hruni komið. Við hér uppi á skerinu erum ekki að biðja um svartagallsraus, við höfum nóg af slíku þessa stundina. Fyrst að Frakkland er í allra besta heimi allra heima gætirðu miðlað okkur af þeim jákvæðu straumum sem leika um franskt hagkerfi - ekki veitir af.

ingvar (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 21:58

4 identicon

Það væri nú ágætt ef það væri bara hægt að leysa þetta eins og er gert í fjármálaheiminum á Íslandi. Stofna nýtt ríki (Íslandus). Flytja allar eignir frá Íslandi yfir á Íslandus og stökkva síðan frá borði á rétt áður en Ísland sekkur með skuldunum.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 22:15

5 Smámynd: Kári Harðarson

Ég tek fram að ég er ekki að segja að Frakkar muni hafa það betra á endanum, bara að kreppan er ekki komin hingað ennþá.  Eins og ég sagði þá er hún hausverkur fjárfesta og banka á þessu stigi.

Kári Harðarson, 4.10.2008 kl. 08:03

6 identicon

Óskaplega eru ESB-hatarar í mikilli vörn vegna þess að fjármálaástandið er betra í Frakklandi um þessar mundir.

Gætu þeir ekki dregið af þessu einhvern lærdóm? Eða vita þeir alltaf miklu betur?

Geta þeir kannski svarað af hverju lausafjárkreppan kemur verst við Ísland af öllum löndum í heiminum?

Hafa þeir ekkert um það að segja að ríkisstjórn Íslands er á góðri leið með að verða landskuldsetnasta ríkisstjórn í heiminum? Eða eru þeir of uppteknir við að hatast við ESB?

Árni Richard (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 12:59

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Árni, ég er ekki sérlega hrifin af ESB en staðan er náttúrlega samt sú að stjórnendur hér á landi (þá sérstaklega Seðlabankinn - með sinni stórkostlegu gerð að létta bindiskyldu banka sem voru í brjáluðum vexti og áhættukeyrslu) eru búnir að klúðra málunum svo eftirminnilega hér að það hefði varla verið hægt að haga sér óskynsamlegar.

Þegar bankarnir eru svona miklu stærri en ríkið, eigum við ekki gott með að redda þeim. Hvernig væri nú að þeir seldu frekar sínar eignir í útlöndum en að ellilaunin okkar séu sett að veði?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 5.10.2008 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband