Hugrenningar (en minna um lausnir)

Forsætisráðherra fer hús úr húsi um heimsbyggðina eins og litla stúlkan með eldspýturnar en fær ekki lán.

hca0079_01.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég óska honum alls góðs en ég er ekki hissa á lánleysinu.  Hann þarf að fara þennan bónveg útaf bankahruni sem varð því enginn vildi veita lán.  Þetta er ekki góður tími til að vera skuldugur - hvort sem maður er einstaklingur eða ríkisstjórn.  Þeim fer fækkandi sem trúa að einn daginn komi Geir heim með fullt af peningum á hagstæðum vöxtum svo martröðinni ljúki og allt geti orðið eins og það var áður.

Geir gerir sitt besta við ómögulegar kringumstæður.  Hann er menntaður, víðsýnn og ekki spillir fyrir í mínum augum að hann kann reiprennandi frönsku!  Hins vegar er hann formaður flokks sem verður að fara frá mjög fljótlega því þjóðarskútan sökk á hans vakt.  Ég get ekki fyrirgefið flokknum þessa misheppnuðu tilraun til algerrar frjálshyggju án eftirlits og því verður flokkurinn að víkja núna.


Góður vinur sagðist naga sig í handarbökin yfir að hafa ekki bjargað öllum sínum fjármunum úr landi fyrir hrunið, þetta var svo fyrirsjáanlegt, sagði hann.  Ég spurði á móti hvort hann ætti nokkuð að vera mjög reiður út í sjálfan sig.  Hann vann heiðarlega vinnu og lagði sparnaðinn inn á venjulega reikninga eins og vera ber.  Það væri hálf taugaveiklað að berja á sjálfum sér, væri ekki nær að beina reiðinni í heilbrigðari farveg og segja landsfeðrunum til syndanna?  Eru vangaveltur um að flytja fé á réttum tíma ekki bara dæmi um hugarfarið sem steypti okkur í glötun?  Hugarfar sem er svo fullt af spekúlasjónum að enginn tími gafst til að skapa raunveruleg verðmæti.

Hvers vegna beina hann og aðrir reiðinni inná við? Af hverju stendur fullt af vel menntuðu og mælsku fólki ennþá á hliðarlínuni, þegir og bíður til að sjá hvað setur meðan "einhver skríll" fer niður á Austurvöll?  Ég held að margir voni ennþá að gamli sjálfstæðisflokkurinn bjargi þessu öllu fyrir horn, setjist aftur í hásætið, líti svo þungbrýnn yfir millistéttina og þá sé eins gott að enginn hafi sagt neitt óvarlegt.

Fólk er svo vant því að sjálfsritskoða sig á Íslandi að aðeins þeir sem hafa engu að tapa mæta niður á Austurvöll á laugardögum og hætta á að tekin verði af þeim ljósmynd.  Það ómar ennþá óraunsæ rödd innra með þeim sem segir að bráðum komi góðu fréttirnar og það opnist auðveld útleið úr þessu öllu -- en hún er orðin mjóróma.  Ég held að smám saman fjölgi þeim sem hafa engu að tapa og mæta á Austurvöll.

Ef fjöldinn á Austurvelli eykst og Davíð og sjálfstæðisflokknum verður bolað frá er samt ekkert víst að við fáum frekar erlenda aðstoð.  Það er ekki víst að erlendir aðilar séu að bíða þolinmóðir eftir að við losum okkur við gömlu stjórnina, heldur sé þeim einfaldlega sama um okkur og eigi nóg með sig.  Hversu oft hefur maður ekki séð hrjáðar þjóðir biðja um hjálp á alþjóðavettvangi án þess að fá hana, Afganistan, Kongó, Beirút?  Eigum við meiri kröfu á hjálp en þessar þjóðir af því við erum bláeyg og ljóshærð?

Væntanlegir lánveitendur munu ekki gefa okkur peninga.  Það þarf að sannfæra þá um að hér rísi aftur blómlegt samfélag sálna sem geta byrjað að borga neyðarlánin sín, með vöxtum takk.  Kannski undirbúningur að inngöngu í Evrópubandalagið auki tiltrú erlendra manna á Íslandi því þá geta þeir fjárfest hér án þess að tapa öllu aftur næst þegar örmyntin fær krampa.  Kannski endum við á að  ganga í bandalagið fyrir þá en ekki okkur?

Menn ræða hvort eigi að taka upp evruna.  Ég vil snúa umræðunni við.  Ef við værum með evru í dag, værum við þá að ræða um upptöku nýrrar örmyntar?  Ég efast um það.

barlomur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Barlómur eftir Kára


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Viltu bjóða þig fram Kári? Viltu koma af hliðarlínunni? Plís?

Stefán R. (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 23:27

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góð gein hjá þér.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.11.2008 kl. 23:46

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég held reyndar að þú hafir hitt naglann á höfuðið með það að af því við erum bláeygð og ljóshærð þá verði okkur bjargað. Og  ég held einsog þú að við getum alveg bjargað okkur sjálf, ef við losnum við þessa ríkisstjórn, það verður auðvitað erfitt, en kannski bara gaman ef það tekst að  láta margra góðra manna ráð koma saman. Helsti vandinn er auðvitað hve margir eru fastir við ákveðna stjórnmálaflokka og láta þá leiða sig, í stað þess hugsa sjálfir.

María Kristjánsdóttir, 13.11.2008 kl. 00:17

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já við eigum að bjarga okkur sjálf. Nóg um betliferðir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.11.2008 kl. 00:20

5 Smámynd:

Flottur hjá þér Barlómurinn   En að öllu gamni slepptu þá er ég sammála þér að flestu leiti nema þessu með inngönguna í Evrópubandalagið. Það bákn er of stórt og yfirsýn þess ekki næg. Og svo er þar fólk við stjórnvölinn. Fólk er breiskt og tekur oft ákvarðanir sem hygla þeim sem því líkar en daufheyrast við hinum og fara jafnvel illa með þá sem þeim líkar ekki við. Svo ég held að við verðum bara að bjarga okkur sjálf. En vitaskuld þurfum við að borga lánin okkar til baka. Og spurningin er áfram hvar fáum við lán og getum við risið undir þeim. Hvaða þátt áttum við almúginn annars í þessu IceSave dæmi? Ekki alvega að ná því.

, 13.11.2008 kl. 10:46

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mikið svakalega ertu næs, eitthvað þanna kall. Plús plús plús í kladdann fyrir þennan pistil

Tek fram að ég hef engin völd í neinum pólitískum flokki og ég er ekki í glasi, frekar en barlómurinn (hikk!) nei ég er hætt að geta drukkið í alvörunni.

Mætum á Austurvöll, krakkar!

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 21:07

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Að líkja Geir Harrde við stúlkuna með eldspýturnar er stórkostleg. Þetta góða ævintýri H.C. Andersen hefur vakið alla um hversu umkomuleysið geti orðiðalgert. Og nú er fokið í flest skjól hjá Geir & Co. Ekkert gengur né rekur í þessum hremmingum þó svo að hann berji sér á brjóst.

Betra hefði nú verið aðfara hægar um gleðinnar dyr einkavæðingar á sínum tíma. Þegar fram líða stundir verður sennilega staldrað við stórar ákvarðanir t.d. umdeild ákörðun byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þá sjóðhitnaði íslenska hagkerfið og margir gleymdu sér gjörsamlega í peningaflóðinu og lifðu langt um efni fram. Við þessu var alvarlega varað við bæði þáverandi stjórnarandstöðu sem og virtum hagfræðingum. En Davíð & Co vissu auðvitað allt miklu betur.

Og nú sitjum við uppi með afleiðingu arfavitlausrar hagstjórnar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 14.11.2008 kl. 12:27

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Myndin: Þetta var einmitt svipurinn á Geir H. í viðtalinu á RÚV í gærkvöldi!

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.11.2008 kl. 12:35

9 Smámynd: Neo

Frábær færsla, Ég er sammála nema ég held að við þurfum að passa okkur á Evrópubandalaginu.

Neo, 14.11.2008 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband