Ræða Þorvalds Gylfasonar í Háskólabíói

Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda. Íslenzkt efnahagslíf var lengi gegnsýrt af stjórnmálum. Helmingaskipti voru reglan, kaup kaups. Einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja var ætlað að uppræta þá skipan. Markmið einkavæðingarinnar var að skerpa skilin milli stjórnmála og viðskipta til að dreifa valdi á fleiri og hæfari hendur.

Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki líkt og gerðist nokkrum árum fyrr í Rússlandi. Hún tók sjálfa sig fram yfir fólkið í landinu. Hún afhenti ríkisbankana mönnum, sem voru handgengnir stjórnarflokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri. Í höndum þeirra uxu bankarnir landinu yfir höfuð á örfáum árum og vörpuðu með leynd þungum ábyrgðum á þjóðina. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið höfðust ekki að. Stíflan brast.

Seðlabankinn vanrækti að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð til að vega á móti erlendri skammtímaskuldasöfnun bankanna. Þrákelkni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans fyrir hönd krónunnar í nafni sjálfstæðrar peningastjórnar hefur nú í reyndinni teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu um sinn.

Seðlabankinn og ríkisstjórnin skiptust ekki á nauðsynlegum upplýsingum í aðraganda kreppunnar og halda áfram að elda grátt silfur. Ríkisstjórnina brestur þor til að skipta um áhöfn í Seðlabankanum, þótt bankastjórnin hafi hvað eftir annað gert sig seka um alvarleg mistök, sem hafa ásamt öðru svert álit Íslands í útlöndum.

Bankastjórnin er vís til að eyða láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum í misráðna tilraun til að hífa gengi krónunnar upp fyrir eðlileg mörk í framhaldi af gengisfölsunarstefnu bankans undangengin ár. Bankastjórnin verður að víkja frá án frekari tafar. Fyrirhugaður flutningur Fjármálaeftirlitsins aftur til Seðlabankans herðir enn á kröfunni um, að bankastjórnin víki. Það vekur von, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur krafizt þess að fá að gera öryggisúttekt á Seðlabankanum.

Hrun bankakerfisins og veik viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hrapinu afhjúpa hyldjúpa bresti í innviðum íslenzks samfélags. Þessar dauðadjúpu sprungur, sem ættu að vera á allra vitorði, hafa stjórnmálaöflin þó aldrei fengizt til að viðurkenna, hvað þá heldur til að fylla.

Upphaf ófaranna má rekja til upptöku kvótakerfisins, þegar stjórnmálastéttin kom sér saman um að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameignarauðlind þjóðarinnar. Þessi rangláta ákvörðun, sem allir flokkar á þingi báru sameiginlega og sinnulausa ábyrgð á, skerti svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar, að þess gat ekki orðið langt að bíða, að aðrar jafnvel enn afdrifaríkari ákvarðanir sama marki brenndar sæju dagsins ljós. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað, að kvótakerfið hefur leitt af sér mannréttindabrot, en ríkisstjórnin lætur sér samt ekki segjast, ekki enn.

Hví skyldu menn, sem víluðu ekki fyrir sér að búa til nýja stétt auðmanna með ókeypis afhendingu aflakvóta í hendur fárra útvalinna, hika við að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja? Varaformaður Framsóknarflokksins auðgaðist svo á einkavæðingu Búnaðarbankans, að hann gerði sér lítið fyrir og keypti þjóðarflugfélagið (og lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra í millitíðinni, en hann hafði að vísu ekki efni á láglaunabaslinu þar nema skamma hríð). Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins gerðist einnig milljarðamæringur við einkavæðingu Landsbankans, og enginn spurði neins, enda voru fjölmiðlarnir flestir komnir í hendur eigenda bankanna. Formaður Sjálfstæðisflokksins lét skipa sjálfan sig seðlabankastjóra og lét bankaráðið umsvifalaust hækka laun sín upp fyrir laun forseta Íslands með kveðju til Bessastaða. Áður hafði hann skammtað sér konungleg eftirlaun úr vasa almennings. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið.

Nú býst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka tildrög bankakreppunnar. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Betur færi á skipun erlendrar rannsóknarnefndar, eins konar sannleiks- og sáttanefndar, með erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurheimta traustið, sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir, að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið.

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis. Aðrar þjóðir hljóta að þurfa að fá að læra af mistökum íslenzkra banka og stjórnvalda, enda hafa þær ákveðið að rétta Íslandi hjálparhönd í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Lýðræðisríki reisa trausta veggi milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þar er borin virðing fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, virðing fyrir valdmörkum og mótvægi. Þar eru reistar skorður gegn samþjöppun valds á of fáar hendur. Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerzt, að formaður stærsta stjórnmálaflokksins léti skipa sjálfan sig seðlabankastjóra án andmæla af hálfu annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla.

Við stöndum nú frammi fyrir fjárhagsvanda, sem hefur hvolfzt af miklum þunga yfir Ísland og mun ágerast á næsta ári. Stjórnvöld virtu að vettugi varnaðarorð úr ýmsum áttum. Mikill hluti þjóðarinnar hefur fylgzt agndofa með rás atburðanna. Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að endurskipulagningu bankanna undir tortryggilegum leyndarhjúp.

Ákæruvaldið hefði átt að láta strax til skarar skríða eftir hrunið frekar en að boða mörgum vikum síðar til veiklulegrar athugunar á því, hvort lög kunni að hafa verið brotin. Silagangur ríkisstjórnarinnar síðan bankarnir hrundu vekur ekki heldur traust. Eina færa leiðin til að endurreisa nauðsynlegt traust milli manna inn á við og álit Íslands út á við er að spúla dekkið. Stjórnmálastéttin hefur brugðizt. Hún þarf helzt að draga sig möglunarlaust í hlé, víkja fyrir nýju fólki og veita því frið til að leggja grunninn að endurreisn efnahagslífsins og réttarkerfisins með góðra manna hjálp utan úr heimi.

Reynslan sýnir, að bankahrun getur leitt af sér óstöðugt stjórnarfar og myndun öfgahópa, sem bítast um brakið, berja stríðsbumbur og ala á ótta við útlönd. Sýnum stillingu. Hlustum á allar raddir, en hlýðum þó aðeins þeim, sem boða undanbragðalaust uppgjör við liðna tíð og stefna á endurreisn íslenzks efnahagslífs með hagkvæmni, réttlæti og lýðræði að leiðarljósi. Tökum undir með skáldinu Snorra Hjartarsyni: „Ísland í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.“

 

Ræðu Þorvalds afritaði ég héðan:  http://www.dv.is/frettir/2008/11/24/raeda-thorvalds-gylfasonar/

Mér finnst fréttaflutningur Morgunblaðsins á vefnum mjög takmarkaður og einhliða.  Ég veit ekki hvort ég get bloggað hér öllu lengur.

Á laugardag beið ég spenntur eftir því að sjá hversu fjölsóttur fundurinn á Austurvelli var. en það var ekki aukatekið orð um fundinn á mbl.is  !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Takk fyrir þetta. Náði ekki að heyra þessa margumræddu ræðu og flott að fá hana svona svarta á hvítu. Þorvaldur Gylfason er réttsýnn maður og við þurfum svona fólk í tiltekt á ríkisbákninu.

, 25.11.2008 kl. 11:27

2 identicon

Takið eftir því að Þorvaldur minnist ekki að auðmennnina eða útrásarvíkingana í ræðu sinni.  Hann skautar snyrtilega fram hjá þeim.   Ekkert minnst á bruðl og áráðsíu þeirra og hvernig þeir sukkuðu peninga annarra sér til skemmtunar.

Ekki minnist hann á Baugsveldið, eða Glitni, eða Kaupþing, né heldur þegar Kaupþingsmenn sömdu við sjálfa og felldu niður skuldir sínar einhliða. 

Hvað með vertryggingu lána?  Af hverju minnist hann ekkert á það?  Verðtrygging sem er að gera fólk eignalaust, en forseit ASÍ segir hana nauðsynlega svo lífeyrissjóðirnir geta lifað (áfram góðu lífi) til að arðræna lántakendur, almenning í landinu.

Þorvaldur talar ekkert um, athugið ekkert, hvernig forseti vor hefur verið klappstýra útrásarliðsins og þegið boð þeirra erlendis (mútur??).  Sami forseti veitir Baugu útflutningsverðlaun ársins 2007.  Fyrir hvaða útflutning???  Fyrir að flytja út peninga???  Fyrir að flytja hann sjálfan út með einkaþota þeirra???  Nú verður hver að svara fyrir sig.

Auðvitað fékk Seðlabankinn stórt pláss í ræðu hans, enda er höfuðóvinur hans frá menntaskólaárunum í MR æðsti maður þar.

Hann talaði einungis um Landsbankann, vegna þess að sá banki tengist Sjálfstæðisflokknum í hans huga.

Já, það vantaði sko ýmislegt (viljandi??) í ræðu hans.  Er svona maður réttsýnn???  Er svona maður trúverðugur? 

Það finnst viðhlægjendum hans af sjálfsögðu, enda eru þeir sama sinnis og jafn blindir á aðra bresti samfélagsins og hann.  Vilja bara sjá og heyra eitthvað ákveðið sem er þeim að skapi.

Þorbjörn Grétar Sigvaldason (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 11:49

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Þetta er mjög góð úttekt á því sem hefur átt sér stað, eiginlega sú skýrasta og besta sem ég hef lesið enda einnig skiljanlegt fyrir venjulegt fólk. Takk fyrir þetta.

Úrsúla Jünemann, 25.11.2008 kl. 14:56

4 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Þorbjörn:

"Takið eftir því að Þorvaldur minnist ekki að auðmennnina eða útrásarvíkingana í ræðu sinni. Hann skautar snyrtilega fram hjá þeim. Ekkert minnst á bruðl og áráðsíu þeirra og hvernig þeir sukkuðu peninga annarra sér til skemmtunar."

Nei enda er frekar augljóst að þegar heilt bankakerfi hrynur þá er augljóst að stjórnendur þeirra hafa gert mistök. Ég kaus heldur ekki stjórnendur bankanna - en ég kaus ráðamenn þjóðarinnar.

"Auðvitað fékk Seðlabankinn stórt pláss í ræðu hans, enda er höfuðóvinur hans frá menntaskólaárunum í MR æðsti maður þar."

Gott og vel - segjum svo að hann og Davíð séu óvinir og það hafi áhrif á skoðun hans. Hvað með hina hagfræðingana sem eru á sama máli og Þorvaldur: Gylfi Zoega, Lilja Mósesdóttir, Yngvi Örn Kristinsson, Jón Daníelsson, Ólafur Ísleifsson og Jón Steinsson. Þeir eru varla allir óvinir hans?

Hlutverk ríkisins er að veita bönkunum aðhald. Bankarnir veita sér ekki sjálfum aðhald. Þeir eru í samkeppni við hvorn annan. Augljóslega hefur eitthvað klikkað hjá þeim fyrst þeir fóru allir á hliðina. En ég sem kjósandi finnst að mesta ábyrgðin liggi hjá þeim sem eigi veita þessum stofnunum aðhald, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Egill M. Friðriksson, 25.11.2008 kl. 16:14

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Við höldum bara áfram og gefumst ekki upp. Það verður þrautseigja þjóðarinnar sem kemur þessu liði frá.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 17:04

6 identicon

Egill, hverju eru; Yngvi Örn, Jón Dan. Ólafur Ísleifs, Lilja Mósesdóttir, Jón Steins. og Gylfi Zoega sammála Þorvaldi Gylfasyni?  Jú, þau vilja öll verða Seðlabankastjórar.  Eða er það eitthvað annað?  Ég hef t.d. ekki heyrt Yngva Örn segja að Davíð eigi að víkja. Hann er reyndar sá eini sem ekki er fræðimaður.

Hitt er annað mál og burt séð hvaða skoðun menn hafa á Davíð, af hverju talaði Þorvaldur Gylfason ekkert um auðmennina eða forsetann í sambandi við útrásarsukkið?   Og af hverju "gleymdi" hann að minnast á Glitni eða Kaupþing í ræðu sinn, en valdi að gera hlut Landsbankans sem mestan?

Svona ræður eins og hann flutti hljóta að hljóma eins og hálfkveðnar vísur í eyrum þeirra sem er gagnrýnir á það sem aðrir segja.

Þorbjörn Grétar Sigvaldason (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 17:27

7 Smámynd: Egill M. Friðriksson

"Egill, hverju eru; Yngvi Örn, Jón Dan. Ólafur Ísleifs, Lilja Mósesdóttir, Jón Steins. og Gylfi Zoega sammála Þorvaldi Gylfasyni? Jú, þau vilja öll verða Seðlabankastjórar. Eða er það eitthvað annað? Ég hef t.d. ekki heyrt Yngva Örn segja að Davíð eigi að víkja. Hann er reyndar sá eini sem ekki er fræðimaður."

Ok þú gerir semsagt ráð fyrir því að þessir menn vilji allir verða seðlabankastjórar og að þar með er gagnrýni þeirra óréttmæt. Augljóslega geturðu ekki borið svona rök fram þar sem þú veist ekki ásetning þessara manna. Ég veit það ekki heldur en ég kýs að trúa áliti þeirra heldur en ekki. Hvað varðar Yngva Örn þá hefur hann bæði gagnrýnt seðlabankastjórnina í fréttum og svo á viðskiptaráði sem var haldið á dögunum. En þú mátt endilega týna til þá hluti sem að Seðlabankinn hefur staðið sig vel í fyrst þú virðist halda að hann sé blásaklaus.

" Og af hverju "gleymdi" hann að minnast á Glitni eða Kaupþing í ræðu sinn, en valdi að gera hlut Landsbankans sem mestan?"

Ég veit eiginlega ekki hvernig þú lest ræðuna. En hann minnist á bæði Landsbankann og Búnaðarbankann og það voru þeir tveir bankar sem voru einkavæddir. Hvernig þú færð út að hann minnist eitthvað meira á Landsbankann á ég erfitt með að skilja.

Spurningarnar þínar eru einnig mjög undarlegar. Hann kýs að taka fyrir ríkisstjórnina, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Hann færir ansi góð rök fyrir því að þessar stofnanir hafi brugðist. Það að hann talar ekki um útrásarvíkingana veikir ekki þau rök rétt eins og þú reynir að halda fram.

Egill M. Friðriksson, 25.11.2008 kl. 18:07

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Kári

 Ég beið líka eftir fréttum af fundinum á mbl.is. Það var ekkert þar. Ekkert fyrr en þessi uppákoma við Lögreglustöðina.

Ég held að það sé ljóst að fjölmiðlar vanda sig mjög að skammta ofaní okkar fréttirnar þessar vikurnar. Ég heyri marga tala um það. Mikið af fréttum af stöðu mála hér heima er aðeins að fá í erlendum fréttamiðlum. Síðan aftur á "blogginu" þar sem fólk er að segja frá. 

Til dæmis kom það fram á BBC af fimm manns hefðu endað inni á sjúkrahúsum eftir átökin við Lögreglustöðina. Birtist sú frétt í einhverjum fjölmiðli hér heima? Ekki sjá ég það. Þetta hefði átt að vera stórfrétt.

Það hafa það fleiri en þú á tilfinningunni að það sé "ritskoðun" hér í gangi.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.11.2008 kl. 23:11

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fáir andmæla því að það er hneyksli hvernig örfáir braskarar fengu að safna óreiðuskuldum, jafnvel ræna sparifjáreigendur úti í hinum stóra heimi og senda síðan skattgreiðendum reikninginn.

Hvers vegna finnst þá jafnvel þeim sem átelja útrásarliðið í góðu lagi að það sé hægt að taka endalaus ríkislán til að þessir fjárglæframenn hefðu fengið að braska enn meira í skjóli ríkisvaldsins?

Ég hef verið í hópi þeirra sem gagnrýna óábyrgt tal Davíðs Oddssonar, en áfellist ekki stjórn Seðlabankans fyrir að hafa varast erlenda lántöku í gjaldeyrisvarasjóð handa bröskurunum. Við erum að tala um mörg hundruð milljarða lán á kostnað skattgreiðenda.

Theódór Norðkvist, 25.11.2008 kl. 23:23

10 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Þorbjörn, það þarf ekki að tala alltaf um allt í öllum ræðum. Þessi ræða var fyrst og fremst um ábyrgð stjórnmálamanna og bankastjóra Seðlabankans, og hvernig þeir brugðust algerlega. Sem er nokkuð sem fæstir Íslendingar draga í efa. Ámátlegt að reyna að verja þá.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 26.11.2008 kl. 20:37

11 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Var nú bara að lesa þessa færslu í kvöld. Og hún er ágæt.

En vegna fullyrðingar þinnar í lokin um fréttaflutning mbl.is af fundinum við Alþingishúsið á Austurvelli upplifði ég þetta öðru vísi. Kem því vefnum til varnar því það var talsverður slatti af fréttum um laugardagsfundinn við Alþingishúsið á Austurvelli. Bæði fyrir fundinn, við upphaf hans og við lok hans og að honum loknum.  Þar sagði að Austurvöllur hafi verið þéttskipaður.

Í framhaldinu gerðust svo atburðirnir við lögreglustöðina. 

Þannig að það er alrangt hjá skrifara, að ekki hafi verið aukatekið orð um fundinn á Austurvelli. 

Ágúst Ásgeirsson, 28.11.2008 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband