Mjög er um tregt tungu að hræra

Ég hef lítið bloggað undanfarið því ég taldi mig ekki hafa neitt uppbyggilegt að segja úr því sem komið væri. Ég hafði talað gegn ástandinu fyrir hrun en eftir hrun hef ég ekki getað komið auga á næstu leiki í stöðunni sem upp er komin.

Fyrir hrunið fór ég að blogga því ég þurfti að finna að aðrir í þjóðfélaginu sæju það sama og ég. Þá vissi ég varla í hvernig raunveruleika ég lifði því allt sem ég sá var á skjön við allt sem stóð í fjölmiðlum og stjórnmálamenn sögðu. Það var talað um góðæri þótt borgin væri að breytast í rústir af veggjakroti, yfirgefnum húsum og steinsteypukumböldum. Enginn sem ég þekkti borðaði á Salt eða Vox. Fólk var farið að borða óæti eins og "skinku" frá Bónus á sama tíma og það safnaði erlendum skuldum - margir án þess að vita það.

Þetta var eins og í snædrottningunni eftir H.C. Andersen þar sem menn voru með flís úr spegli kölska í auga og sáu fegurðina í kaldranaleikanum. Nú virðist flísin hafa skolast burt en mikill er skaðinn.

snedronningen.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Í morgunútvarpinu í gær sagði þulurinn að norðmenn væru að kaupa 57 orrustuþotur af bandaríkjamönnum, þetta væri stærsta einstaka fjárfesting norðmanna frá upphafi og reyndar sama upphæð og þýskir bankar hafa tapað á þeim íslensku. Við getum ekki einu sinni keypt eina björgunarþyrlu, hvernig eigum við að borga allar þessar orrustuþotur?

Ég get ekki séð að aðrar þjóðir muni koma okkur til hjálpar. Eftir heimsstyrjöldina seinni fengu þjóðverjar Marshall-aðstoð eins og fleiri Evrópubúar, en þá vildu bandamenn byggja Evrópu upp til að geta síðar átt við hana viðskipti. Hvar er okkar Marshall ríkisritari? Hvaða ómissandi iðnaður er á Íslandi sem þarf að koma aftur í gang? Ekki eigum við Volkswagen verksmiðjur eða BASF og Siemens? Ef þjóðir heimsins hjálpa ekki Palestínumönnum, af hverju ættu þær þá að hjálpa heimskum jeppaeigendum á Íslandi?

International Monetary Fund er engin góðgerðarstofnun og mun vilja fá lánin endurgreidd með viðunandi vöxtum. Ef við veljum að borga ekki eins og Steingrímur leggur til munu aðrar þjóðir setja okkur í einangrun eins og Bandaríkjamenn gerðu við Kúbu.

Hvað sem öðru líður getum við ekki haft sömu stjórn. Ég vil heldur vita hversu slæmt ástandið er en að vefja umbúðum um sárin meðan það grefur ennþá í þeim.

Ég get sagt að mér líður miklu betur á Íslandi núna en fyrir hrun. Þjóðarsálin er timbruð en hún er alla vega ekki lengur full og óviðræðuhæf. Um daginn drap bíllinn á sér, ég náði að renna honum inn á bensínstöð. Að mér þyrptust menn sem vildu hjálpa til að koma bílnum í gang. Þegar ekkert gekk skutlaði einn þeirra (hann heitir Halldór og er leigubílstjóri) mér heim og hringdi seinna um kvöldið til að láta mig vita símanúmer hjá neyðarþjónustu. Maðurinn frá neyðarþjónustunni sótti mig á laugardegi, kom bílnum í gang (það þurfti að endurræsa tölvuna) og rukkaði mig ekki því hann tók að sér að rukka umboðið beint. Þetta er Ísland eins og ég man eftir því fyrir græðgisvæðinguna.

Íslendingar geta staðið saman eins og bræður, það er okkar stærsti styrkur, og okkar veikleiki þegar hann breytist í fyrirgreiðslupólitík.  Nýja Ísland þarf að vera trúrra grunnhugmyndum um jafnrétti, réttlæti og bræðralag og finna leiðir til að veita sjálfu sér aðhald.

Kannski verðum við fyrsta þjóðin sem setur klausu um öldungastjórn eða "Village Elders" í stjórnarskrána. Ég myndi vilja fá leiðsögn frá fólki sem er orðið of gamalt til að vera á kafi í sérhagsmunum eða vera með hræsni.

Svo kemur líka til greina að útlendingar verði fastur hluti af ríkisstjórn eins og Vatíkanið notar svissneska varðmenn. (Helsta ástæðan fyrir því að ég vildi ganga í Evrópubandalagið, var að opna hér út og fá ferska vinda inn en ég er ekki lengur viss um að það yrði sjálfsögð afleiðing af inngöngunni). Margir háskólar eru með prófessora frá öðrum háskólum í kennslu og rannsóknar matsnefndnum, og gera kröfur um að prófessorar hafi ekki sjálfir menntað sig hjá sömu stofnun til þess að skólinn úrkynjist ekki. Kannski þarf íslenska ríkið sambærilega útlendingaherdeild?
1923979-vatican-swiss-guards-0.jpg

 

 

 

 

 

 

 

"Hlutirnir fara alltaf einhvern veginn" eins og Halldór Laxness sagði. Ísland verður í byggð áfram þótt ég viti ekki hvernig. Bretar, Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn geta allir fundið hluti í sinni sögu sem þeir blygðast sín fyrir hvort sem það eru nýlendur, stríð við aðrar þjóðir, spillingarmál eða valdníðsla. Þessar ófarir hafa stælt þá og vonandi gert að betri lýðveldum.

Við vorum að fá okkar fyrstu stóru lexíu sem losar okkur kannski við hrokann sem var okkur lifandi að drepa. Nú er spurningin hvernig við vinnum úr þessari dýru lexíu þannig að hún geti orðið eðlilegur og þolandi hluti af íslandssögunni. Vonandi verður hún ekki eins og sturlungaöldin, upphafið af aldalangri niðurlægingu. Við höfum ennþá valið, en fyrst þurfum við að losna við alla fulltrúa gamla tímans. Þannig eru byltingar bara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Góður pistill. Gott að fá þig aftur.

Egill M. Friðriksson, 22.1.2009 kl. 16:37

2 Smámynd:

Gott innlegg og réttsýnt. Takk fyrir.

, 22.1.2009 kl. 17:41

3 identicon

Sæll Kári.

Ég skora á þig að finna þér flokk með stefnuskrá sem þér hugnast og bjóða þig fram í næsta prófkjöri. Ísland þarf nú mest af öllu víðsýnt og heiðarlegt fólk með sterka réttlætiskennd og akkúrat núna er greið leið fyrir slíkt fólk inn á þing. 

Valtýr (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þetta er ekkert svo svakalega vitlaust hjá þér, Kári

Flosi Kristjánsson, 22.1.2009 kl. 22:33

5 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Góð fæsrla Kári!

Geir Hilmar Haarde og restin af þingliðinu, reyndar íslendingar,  þurfa að horfa á þessa mynd, "The Money Masters", afar vönduð heymildarmynd frá 1996 sem skýrir mjög vel afhverju það er kreppa og fyrri kreppur sem og hengingartak það sem klíka alþjóðlegra bankaskúrka hefur á öllum þjóðum, hvernig þeir náðu undir sig Bandaríkjunum(endanlega 1913), hvernig Aljóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn kemur inn í dæmið seinna meir, hvernig það er hagur þessarar klíku að halda öllum þjóðum í skuld með skipulögðum kreppum og stríðum/styrjöldum. 

Það reynist mörgum erfitt að horfast í augu við slíkan hráskinnaleik og hvernig þjóðir heimsins eru hafðar að leiksoppar öld eftir öld, öllum er þó hollt að horfast allavegana smástund í augu við óvininn og skilja hvernig hann hugsar, nú eru ekki tímarnir fyrir sjálfsblekkingu því að nú fara hlutirnir að gerast hratt og þessi þjóð þarf einhvernveginn að losna úr klóm þeirra afla sem gera okkur að skuldaþrælum kynslóð eftir kynslóð. Í lok myndarinnar (sem segir fyrir 9 árum fyrir um hrunið mikla sem nú er í gangi, þó að höfundurinn hafi sennilega reiknað með því að Peningameistararnir myndu láta til skarar skríða nokkuð fyrr er raunin varð) er líka talað um lausnir og hvernig hægt sé á raunhæfann hátt að brjótast undan þessum óskapnaði. Hér á landi sem annars staðar er vissulega fyrsta verk að losa sig við spilltustu stjórmálamennina og koma heiðarlegu fólki að stjórn. Sækja ræningja til saka síðan þegar búið er að koma varðhundum þeirra frá og endurheimta sem mest af þýfinu.

En í alls bænum horfið á hana og skiljið hvað hún upplýsir og augljóst samhengið við klípuna sem búið er að ginna íslensku í. Hverrar mínútu virði þó löng sé, afar augnaopnandi.

Georg P Sveinbjörnsson, 23.1.2009 kl. 01:20

6 identicon

Takk, Kári.

Árni Hallgrímsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 10:30

7 identicon

Mikið fagna ég þér á ritvöllinn aftur elsku vinur minn kæri!

Ég hef saknað þín mikið !!

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 11:08

8 identicon

Takk fyrir þennan pistil. Margt sem talaði til mín.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 11:45

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála öllu sem þú segir, Kári. Ég bý erlendis og ég sá mun í hverri heimsókn. Fólk var pínulítið ríkara, pínulítið fjarlægara og pínulítið dofnara í hvert sinn sem ég kom heim. Ég og konan höfðum talað um að flytja heim fyrir einhverjum árum. Hún missti áhugann, og ég loks líka í kring um 2006 eða 7. Þetta var ekki landið sem ég þekkti.

Það er vonandi að þetta ófremdarástand leiði eitthvað gott af sér og að við verðum aftur gamla, góða þjóðin sem stóð saman í aldir.

Villi Asgeirsson, 23.1.2009 kl. 12:01

10 identicon

Mér þykir ákaflega vænt um að heyra hvernig fólk er greinilega að vakna upp eftir fjölda ára sukk. Ég held ég taki ekki of djúpt í árinni með að segja að þetta sé líklega í fyrsta skipti í 15-20 ár sem ég sé vonarglætu á að verða aftur stoltur af að vera íslendingur. Nú megum við bara vona þetta renni ekki allt út í sandinn og í sama horfið aftur. Ég sakna nefnilega virkilega samfélagsins á Íslandi áður en við Dallas-væddumst á níunda áratugnum, breyttumst í "ökullar" samfélag með einstaklingshyggjunna að leiðarljósi og fleygðum öllum góðum gildum á skarnhauginn. Hér er greinilega að verða vakning. Og ef þín orð eru samhljóma með öðrum klakabúum þá ætti ég kannski að íhuga að flytja aftur til Íslands.

Kærar kveðjur frá landflóttamanni til margra ára.

Thor Svensson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband