Góður púnktur

Hermann Guðmundsson skrifar:

Ég hef stundum undrað mig á því að þegar maður fer í kjörbúð og stendur við kjötborðið, koma stundum þrautreyndar húsmæður og fara að spyrja 18 ára gamlan afgreiðslumann að þvi hvort að eldunartíminn á kjötinu eigi að vera styttri eða lengri. Það eitt að standa fyrir innan borðið í slopp gefur greinilega ákveðinn trúverðugleika. Það er mér alla vega augljóst að húsmóðirin er sá sem er með reynsluna og alla áhættuna í þessu samtali.

Greinin í heild sinni er hér.

Hann spyr líka:  Hvernig stendur á því að fjölmargir vel upplýstir einstaklingar gátu blindast jafn rækilega og raun ber vitni í velgengni síðustu ára?

Ég hlakka til þegar við megum vera að því að ræða þetta betur.  Var þetta æskudýrkun, voru einkennisbúningar bankamanna, jakkafötin, eins og fallegir hermannabúningar?  Var bara svona þægilegt að halda með sigurvegurunum?  Erum við skrúfuð saman eins og Þjóðverjar í seinni heimstyrjöldinni?

Vonskan í heiminum birtist í því þegar hugsandi fólk hefst ekki að.  Sumir treysta öðrum þegar þeir ættu að vita betur.  Aðrir vita að þeir vita betur en segja samt ekkert.  Það var þægilegra að láta bjóða sér í veislurnar.

Ég tel að hverjum hugsandi manni hafi mátt vera ljóst hvert stefndi fyrir hrun, og ég er orðinn leiður á að hlusta á þá sem segja að hrunið og Icesave sé ekki þeim að kenna og að þeir eigi ekki að borga.

Íslendingar þurfa að borga Icesave af því þeir kusu Davíð sem lagði niður þjóðhagsstofnun, lét Björgólf hafa Landsbankann, hækkaði ekki bindiskylduna heldur lagði hana niður!, hélt vöxtum háum, hafðist ekki að þegar hann vissi sennilega hvert stefndi.  Ég gleymi ekki deginum þegar ég frétti að Landbankinn í Bretlandi hefði ennþá verið íslenskur banki.   Hvílík handvömm!  Var það ekki starf Davíðs að tryggja að svo væri ekki?

Á meðan einhver hrópar ennþá "ekki okkur að kenna, við borgum ekki" er ennþá hægt að lifa í blekkingu, að við höfum ekki gert neitt rangt, að ekkert sé okkur eða Davíð að kenna.   Því tímabili fer bráðum að ljúka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góðir punktar og pælingar.

nicejerk (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 14:22

2 Smámynd: Sigurjón

Áhugavert.  Þökk fyrir þessa grein.

Sigurjón, 17.8.2009 kl. 18:01

3 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Það er fráleitt að ætla að skella skuldum af Icesave á íslenskan almúga. Almenningur var blekktur. Það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur geti haft eftirlit með fjármálamarkaði. Jafnvel matsfyrirtækin voru blekkt.

Landsbankinn er evrópskt einkafyrirtæki sem fór á hausinn. Íslenskur almenningur er ekki aðili að málinu.

Frosti Sigurjónsson, 17.8.2009 kl. 20:41

4 Smámynd: Billi bilaði

Áður en ég hætti viðskiptum við Kaupþing, fyrir nokkrum árum, u.þ.b. þegar teppin voru keyrð út, þá fór ég þangað og bað um viðtal við sérfræðing um lífeyrismálin. Ég fékk viðtal við ungan mann sem vissi bókstaflega ekkert um það sem hann var að ræða við mig. Kunni ekki einu sinni að fletta því upp í tölvunni, heldur þurfti að hringja eftir aðstoð við það.

Ég var fljótur að gera upp hug minn eftir það viðtal.

Billi bilaði, 17.8.2009 kl. 22:58

5 Smámynd: Kári Harðarson

Ég er ekki að segja að íslenskur almenningur hafi verið sökudólgurinn, en hann ber samt ábyrgðina.  Vissulega var hann blekktur.  Ég hélt líka að Landsbankinn í Evrópu væri skráður þar sem einkafyrirtæki.  Ég hefði látið í mér heyra ef ég hefði frétt að íslenska ríkið bæri ábyrgð á einhverju fjármálavafstri bankanna erlendis.

Það var tekið skýrt fram að þetta kæmi okkur ekki við, að öll gagnrýni stafaði af öfund.

Það breytir samt engu um það, að sjálfstæðisflokkurinn var löglega kosinn og við stöndum og föllum með þeim sem við kjósum.  Þannig virkar lýðræðið.  Það eina sem við getum gert er að gefa þeim flokki verðskuldaða hvíld.

Kári Harðarson, 18.8.2009 kl. 00:51

6 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Ætli það séu ekki fleiri en sjálfstæðismenn á þingi sem þurfa hvíldina sína núna? 

Samtökum Fullveldissinna er að vaxa fiskur um hrygg og býður alla fullveldissinna velkomna í sínar raðir til að berjast á móti innlimun í ESB og samþykkt Icesave samningsins:

ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave

Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is

http://fullvalda.blog.is/blog/fullvalda/

Ísleifur Gíslason, 18.8.2009 kl. 02:20

7 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Þetta er bara ekki rétt hjá þér Kári. Þú getur ekki í öðru orðinu samþykkt að þjóðin hafi verið blekkt og í hinu krafist þess að það sama blekkta fólk eigi að gangast við ábyrgð sem það vissi ekki af. Það að einhverjir, fullt af einhverjum, hafi vitað hvert stefndi en haldið áfram að mæta í veislurnar gerir ábyrgð hinna ekkert meiri. Sá sem veit af hættu en þegir um hana gerir þá sem ekki vita af hættunni á einhvern hátt ábyrgari.

Hver ábyrgð Davíðs, Sjálfstæðisflokksins og einhverra annara sem stóðu vaktina var mun vonandi koma skýrt í ljós. Sjálfur efast ég ekki um hana en það er bara enn of margt sem er óljóst í mínum huga til að geta á einhver einfaldan hátt skellt allri sökinni á tiltölulega lítinn afmarkaðan hóp. Í ljósi þess að mætir spekingar tala enn algerlega í kross í þessum málum þegar kemur að því að útskýra hrunið finnst mér erfitt að gera upp hug minn um ábyrgð hvers og eins af gerendunum. Það sem mér finnst samt auðvelt að gera upp við mig er að sauðsvartur almúginn sem ekki vissi eða skildi eigi ekki að hanga.

Það er náttúrulega verið að hengja bakara fyrir snúð :-)

Það sem gerðist hér var að einhver hópur sneið sér stakk eftir vöxtum... það er hluti vandans.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 18.8.2009 kl. 09:30

8 Smámynd: Kári Harðarson

Ég sé enga mótsögn.

Ef skipstjóri afhendir stýrimanni stjórn á skipi og hann siglir svo á sker, ber skipstjórinn samt ábyrgðina.

Það tjóar lítið fyrir skipstjórann að segja að stýrimaðurinn hafi verið skítseiði sem brást skyldu sinni. Það var ákvörðun skipstjórans að fela honum stjórnina.

Kári Harðarson, 18.8.2009 kl. 14:55

9 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Rétt er það. "Ef skipstjóri afhendir stýrimanni stjórn á skipi og hann siglir svo á sker, ber skipstjórinn samt ábyrgðina" en skipstjórinn getur ekki kennt hásetunum á dekkinu um. Jafnvel ekki hásetanum sem stóð fram í stafni og sá skerið, hvort sem hann kallaði aðvörunarorð aftur í brú eða ekki.

Ábyrgðin er skipstjórans og þar við situr. Þó svo að öll áhöfnin hafi fengið innréttaðar káetur og líkamsræktarsal sem var kostað af yfirmönnum skipsiins og útgerð er ekki hægt að kenna þeim um strandið ef það var ekki í þeirra valdi að breyta stefnu skipsins. Margir í áhöfninni vissu bara ekki betur en að svo vel hafi fiskast undanfarið að útgerðin hafi bara vel efni á smá viðurgjörningi við áhöfnina.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 18.8.2009 kl. 15:04

10 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Einhver sagði einhvern tíma að fólk ætti skilið þá stjórn sem það hefði (þ.e. ef kosningar fóru fram). Okkar stjórn, sem VIÐ kusum, fór með okkur eins og nú er augljóst.

Held við höfum átt þá stjórn skilið. Við kusum hana svo árum skipti, áratugum. Ég þar á meðal.

Nota bene, við erum heldur ekkert saklaus. Hefur fólk ekki tekið eftir aukningu myntkörfufellihýsa á þjóðvegunum? Flottræflahúsunum? Flottu myntkörfudrekunum á götum borgarinnar? Við getum ekki, með góðri samvisku og sannleikanum samkvæmt, sagt að við berum ekki ábyrgð á neinu.

Við kusum þessar stjórnir yfir okkur og við tókum á fullu þátt í sukkinu, "veislunni". 

Robert Altman taldi byggingakrana þegar hann kom hér í heimsókn í apríl í fyrra, og sagði við Robert Wade: Ég gef þeim eitt ár. Fór svo og lét hlægja að sér í HÍ þar sem hann varaði við hruni. Hann var bjartsýnn. Það tók sex mánuði. Byggingakranarnir voru birtingamynd fasteignabólunnar og hana eigum við öll. Hún var í boði Seðlabanka Íslands, stjórnvalda, bankanna og okkar sjálfra.

Við getum alveg litið okkur nær þegar við förum að leita að sökudólg, í það minnsta þegar við leitum að hluta orsakanna. Það er ekki endalaust hægt að benda á einhvern annan.

Sigurjón Sveinsson, 20.8.2009 kl. 14:21

11 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Robert Aliber heitir hann víst og þetta var í maí, ekki apríl. Hann gaf okkur níu mánuði, ekki ár. Rétt skal vera rétt.

Sigurjón Sveinsson, 20.8.2009 kl. 14:26

12 identicon

Ég ætla að byrja á því að segja að ég hef aldrei kosið, enda ekki getað það vegna þess að ég var ekki orðinn átján ára í seinustu kosningum. Finnst þér að ég eigi að eyða æviárum mínum og peningum mínum sem að ég vann fyrir í að greiða skuld sem að var ekki stofnuð til af minni kynslóð.

Þú getur trútt um talað, þú hefur hingað til ekki þurft að greiða af þessari skuld en ég þarf að greiða af henni um leið og ég er orðinn lögráða. Daginn sem að búið verður að greiða af henni verður þú dauður af elli og mín kynslóð situr eftir með sárt ennið.

Þú getur borgað ef þú vilt, því eins og þú sagðir er ábyrgðin þín en ég ætla ekki að greiða einn einasta eyri af henni.

Karl Rúnar (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband