Hvar vaeri islenskan stoedd an islensku bokstafanna?

A degi islenskrar tungu vil eg minna a starf Arnar Kaldalons.

Thad gerdist ekki ad sjalfu ser ad islenskir bokstafir eru i oellum toelvum sem eru seldar a Islandi i dag.

Það er ekki pláss fyrir alla mögulega bókstafi í stafatöflum tölva.  Íslenskir stafir eru 20 talsins og þeir tóku mikið pláss í stafatöflum á árum áður þegar aðeins var pláss fyrir 200 tákn.  Það þurfti að berjast fyrir þessu plássi á erlendum vettvangi.

Þar var Örn Kaldalóns "maðurinn bak við tjöldin".

Örn tók saman íslenska stafatöflu (CECP 871) sem enn er í notkun á Íslandi í öllum miðlungs- og stórtölvum IBM. Örn var yfirmaður Þýðingastöðvar Orðabókar Háskólans og IBM og sá um íslenskar málkröfur fyrir IBM á Íslandi 1984–1992. Hann var einnig fulltrúi gagnvart IBM vegna íslenskra þýðinga og málkrafna en það var verkefni sem hann hafði sinnt fyrir IBM á Íslandi.  (IBM var þá eins og Microsoft í dag, aðilinn sem ákvað hvernig allt skyldi vera).  Örn hefur verið í Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins frá 1978, í meira en aldarfjórðung.


Nú eru allir séríslensku stafirnir í hinum veigamikla alþjóðlega staðli ISO 8859. Sá staðall er forsenda þess að við getum notað íslensku í tölvutækni. Örn mun hafa starfað með Jóhanni Gunnarssyni að því máli en þeir nutu aðstoðar Willy Bohn, staðlasérfræðings hjá IBM í Þýskalandi.

Örn var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands 9. febrúar 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Mig minnir að á lokaspretti 8859 hafi valið staðið á milli íslensku sértáknanna og þeirra tyrknesku. Tæp 200 þúsund manns (þá) á móti nokkrum milljónum.

Gríðarlegt afrek að hafa sigur fyrir okkur þar.

Jóhannes Birgir Jensson, 16.11.2009 kl. 11:58

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er nú ekki alveg svona einfalt Kári.

Kjartan H. Bjarnason setti upp fyrsta íslenska stafasettið í Corona PC samhæfða tölvu haustið 1983, enda komu þær fyrstar á markað á Íslandi. IBM PC tölvan fékk sitt stafasett vorið 1984 (þá eflaust stýrt af Erni) en það virkaði ekki sem skyldi eins og okkar vegna þess að IBM setti íslenska stafi í stað control tákna sem gerði þeim erfitt fyrir t.d. í ritvinnsluforritum og fleiru.

Jóhann Gunnarsson vissi af því að okkar stafasett virkaði án vandræða og kallaði þess vegna til samráðsfundar um málið og var þá fundin leið til að staðla þetta þannig að íslensku stafirnir væru ekki á vondum stöðum með hliðsjón af ofangreindu. Þetta var Code Page 861 taflan sem þarna varð til. Það var því ekki um neitt einræði IBM að ræða í þessu máli heldur samvinna.

Í framhaldinu fóru íslensku stafirnir inn í ISO 8859 og mér finnst það sérkennilegt að eigna þetta allt einum manni eins og þú gerir, eiginlega sögueinföldun og persónuupphafning sem er alls ekki sanngjörn gagnvart manni eins og Kjartani sem var leiðandi í málinu í upphafi vegna kunnáttu sinnar á þessu sviði.

Haukur Nikulásson, 16.11.2009 kl. 23:38

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég var eiginlega að vona að einhver kæmi með restina af sögunni.

Það er rétt að segja að Örn var "einn af mönnunum bak við tjöldin" en ekki sá eini.

Er þessi saga skjöluð einhversstaðar?

Kári Harðarson, 16.11.2009 kl. 23:40

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Því miður er lítil sem engin skjölun til um þetta. Ég man þennan tíma eins og hann hefði verið í gær þó svo að 26 ár séu liðin, svo skemmtileg var tölvugreinin í þá daga. Byltingar annan hvern dag (ýkt!).

Það er eiginlega synd að maður skuli ekki hafa komið helstu staðreyndum niður á blað til að eiga söguna svolítið. Þó við værum með lítið fyrirtæki tókst okkur að vera fyrstir með ýmislegt t.d. fyrsta innflutta harða diskinn í smátölvu (Vector Graphic árið 1982), fyrsta leturhljólsprentarann með íslenskum stöfum (Daisy M45), fyrsta heildstæða viðskiptahugbúnaðinn (þýtt og endurbætt Peachtree software) og ýmislegt fleira síður merkilegt.

Á þessum árum vann maður nokkur ár 361 dag á ári, 11 klukkutíma virka daga og 8 tíma alla laugardaga og sunnudaga. Vinnusýki? you bet'ya!

Haukur Nikulásson, 16.11.2009 kl. 23:56

5 Smámynd: Kári Harðarson

Þið voruð aðalbúðin í bænum !!

Ég sá fyrst laptop tölvu hjá ykkur, Data General One.

http://www.mynewoffice.com/pcmuseum/Datageneral355.jpg

Það voru alltaf jólin, alltaf eitthvað nýtt að skoða í hverri heimsókn.  Ah those were the days!

Kári Harðarson, 17.11.2009 kl. 00:04

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þú ert svo góður að skjalla mann Kári!

Þetta voru skemmtilegir tímar og maður ætti að setja eitthvað niður til gamans. En það mættu miklu fleiri gera líka. Það var hörku samkeppni á þessum árum og allir að gera eitthvað áhugavert, við vorum allir á tánum!

Skemmtilegt að þú skyldir gangsetja mann svona.

Haukur Nikulásson, 17.11.2009 kl. 00:16

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Skemmtilegt að mæra það sem vel er gert.  Athyglisverð pæling. 

Eitt annað sem ég uppgötvaði á dögum "ritvélakennslu".  Lyklaborðið er stílfært og hannað að enskri tungu!  Af hverju, jú maður er 10 sinnum fljótari að rita á ensku, vísifingurinn og löngutangir mest notaðar.  Þegar íslenskan er rituð, eru allir puttar á fullu, sá litli þó mest.  (allar kommurnar, eðin, æin og þonninn)  

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.11.2009 kl. 02:47

8 Smámynd: Einar Indriðason

Ég er víst einn af þessum "bak við tjöldin" líka.  (svona að einhverju pínu leyti, amk.)

Man eftir rifrildi hvort ætti að nota frekar CP 861 eða 850.  (Þá var iso-latin-1 (8859-1) rétt handan við sjóndeildarhringinni, og hefði átt að veljast.)  (Og þeir sem vildu nota Mac-íslenskuna voru þaggaðir niður.)

Einar Indriðason, 26.11.2009 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband