Vöfflujárn og vestræn menning

Vöfflujárnið okkar er frá Moulinex.  Ég keypti það af því við keyptum  örbylgjuofn frá þeim fyrir tuttugu árum og hann er ennþá að skila sínu.

Á járninu eru tvö ljós.  Rautt ljós er alltaf kveikt og þýðir að straumur sé á  því. Grænt ljós slökknar þegar járnið er orðið heitt.

Bæði ljósin eru ómerkt, svo ég verð að muna hvað þau gera.  Mér gengur bölvanlega að  muna að græna ljósið þýði "bíddu" og að rauða ljósið þýði að allt sé í sómanum.

moulinex_gaufresexpress


Sá sem  hannaði grillið er að svíkja grundvallarboðorð.  Grænt þýðir "gott,  haltu áfram" en rautt þýðir "stopp, passaðu þig".

Járnið er lengi að hitna og ef vöffludeig er sett í járnið kólnar það niður og  er fimm mínútur að steikja vöffluna.  Sá sem hannaði grillið setti of lítið  hitaelement í það og of lítið járn.

Ef ég set of mikið deig í járnið vellur deigið út í raufar og samskeyti sem er  ómögulegt að þrífa.

 

Svona grill er með einföldustu tækjum sem neytendur geta keypt og það er svo  auðvelt að hanna þau rétt.  Moulinex er fínt merki og mér vitanlega var þetta  ekki ódýra byrjendajárnið frá þeim.

Vöfflujárn voru orðin ágæt vara fyrir þrjátíu árum en nú fer þeim aftur. Ég  velti fyrir mér hvers vegna.

Vita ungir hönnuðir í dag ekki að rautt þýðir stopp og grænt þýðir gott?  Vita  þeir ekki að það á að merkja ljós með texta?  Vita þeir ekki að það þarf að  þrífa vöfflujárn og að það á að taka 2 mínútur að steikja vöfflu en ekki fimm?

Ég get upphugsað nokkrar skýringar á þessu:

  • Kannski fer kennslu aftur í iðnhönnun.
  • Kannski er ekki hægt að fá nógu hæft starfsfólk til að hanna af því það er krónísk vöntun á hæfu fólki í skólana.
  • Kannski er vöfflujárn í dag tuttugu sinnum ódýrara en það var fyrir þrjátíu árum og verðlækkunin kemur svona niður á gæðunum.
  • Kannski eru hönnuðurnir valdalausir og óhamingjusamir og vinna fyrir feita kalla með bindi sem hafa bara áhuga á að hvert vöfflujárn skili hámarks framlegð.
  • Kannski tekur því ekki að hugsa um svona smáatriði af því neytandinn á að henda járninu og kaupa nýtt innan árs.     

Kannski er það blanda af öllu þessu.

Ég er ekki með stóráhyggjur af vöfflujárnunum -- en þjóðfélagið byggir á tækni  sem þarf að virka svo við getum haldið áfram að finna upp meiri tækni. Hvað með  Multimedia stofukerfið og rafrænu skilríkin og Windows Vista og Internetið og  gemsana og ljósastýringarnar og þjófavarnarkerfin?

Það er til hugtak sem heitir "Dancing Bear Syndrome".  Eftir að hafa séð björn  dansa í sirkús nokkrum sinnum byrja menn að spyrja sig:  "já, en hversu vel  dansar hann?" Ég er að spyrja mig að þessu núna með tilliti til tækninnar.

Ég er einn af þeim sem hef hjálpað öðrum að tjónka við tækni í gegnum árin.  Gemsarnir og þvottavélarnar blikka ljósum sem ég er beðinn að ráða í enda er ég  einn af þeim fáu sem lesa handbækur.  Mig grunar að flestir sem eru ekki  tæknilega þenkjandi hafi einhvern "tæknigúru" í sínu lífi.

Þetta gengur ekki svona til lengdar.  Tækjunum fjölgar, flækjustig þeirra eykst  og ég er löngu hættur að nenna að vera fótgönguliði í þessari Tamagotchi  byltingu.  Mig grunar að svo sé um fleiri.

Kannski erum við að byggja tæknilegan Babelsturn sem ekki er hægt að bæta ofaná  fyrr en gæði eru sett í fyrsta sæti og tæki eru hönnuð þannig að venjulegt fólk geti notað þau.


story.tamagotchi.ap

 

 

 

 

 

 

 

 

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Fyrir einhverjum árum síðan talaði Bill Gates um að einföldun viðmóts væri stærsta verkefni næstu 20 ára í tæknigeiranum. Hann hitti naglann á höfuðið en, því miður, virðist þessi einfalda sýn hafa tapast einhvers staðar á leiðinni.

Ég held að einföldun viðmóts - útbúnaður tækni með þeim hætti að hver sem er geti notað, með einföldum hætti - sé stórt viðfangsefni sem hefur dregist of lengi að takast á við. Þess í stað virðast nýir hlutir verða sífellt flóknari og stærri að umfangi og eldri tækni hefur einhvern veginn fylgt á eftir. Í dag eru örbylgjuofnar flóknari en þeir voru. Þvottavélar, ísskápar, sturtuklefar, sjónvörp og tölvur. Einföldun viðmótsins hefur orðið eftirá í kapphlaupi við "fleiri fídusa" (sem fæstir nota).

Það kemur að því að menn átta sig á þessu. Stefnunni verður breytt. Það er aðeins spurning um hvað þarf til. Ef litið er á tölvuleiki sem dæmi þá þurfti algjört markaðshrun 1983-85 að eiga sér stað til að bæta gæði og viðmót þeirra.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 26.3.2007 kl. 14:33

2 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Mikill er þín predikun með vel lagt út frá vöfflujárnum.

Fyrir tuttugu árum steikti sonur minn gænýtt vöfflujárn frænku sinnar. Hann var þá 3ja ára og takka sjúkur. Það var ekki að hann hafi sett það í samband og farið að baka vöfflur, nei o nei, það var þröngt í eldhúsinu hjá frænku hans sem í Álfaskeiðsblokkinni bjó.  Stóra hellan á eldavélinni var geymslustaður vöfflujárnsins, enda var það stáss eldhússins. Þau hjónin gáfu sjálfum sér Þetta vöfflujárn sem var örugglega frá Braun eða Siemens í jólagjöf. Það var dýrt, því Þarna voru ekki komnir tímar útvistunar framleiðslu Evrópu til Kína.

Þegar vöfflujárnið bráðnaði var ég fyrir þó nokkru orðintæknigúrú stórfjölskyldunar, enda vélfræðimenntaður. Ég fékk fréttirnar um vöfflujárnsbræðsluna gegn um ljósvakan á dúplex siglandi varningin heim frá Hamborg,:  "skelfilegt með vöfflujárnið" sagði konan döpur.

Ég fór á vettvang í Hafnarfjörðin við fyrsta tækifæri en vissi að ekki gæti ég lagað vöfflujárnið þó laghentur væri. Mér var sýnd hvít og grá klessa með tveimur grásvörtum álplötum sem millilegg í lagtertu. Það var ekki hægt að sjá hvort nein ljós hefðu verið á þessu vöfflujárni. Það átti nú heima á Nýlistasafninu.

"Heldurðu að þú getir keypt svona vöfflujárn úti" spurði konan.

Ég keypti nýtt Bosch eða Braun vöfflujárn í Brinkmann í næsta túr og allir urðu kátir en því var fundinn ný staður í eldhúsinu við Álfaskeiðið.

Jóhannes Einarsson, 27.3.2007 kl. 09:33

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég tek það fram að vöfflujárn halda ekki fyrir mér vöku.  Ég tók það sem dæmi um  þróun gæðahugtaksins og notendaskil í hugbúnaði og neytendavarningi.

Sjá nánar í bókunum:  "The inmates are running the asylum" eftir Alan Cooper og "The Design of everyday things" eftir Donald A. Norman.

Kári Harðarson, 27.3.2007 kl. 11:34

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég keypti HP laserjet faxtæki árið 2000. þetta afbragðstæki sem get coperað og skannað skjöl með. Þetta tæki hef ég notað mikið og ekki slegið feilpúst og mjög ódýrt í rekstri

2003 keypti eg mér nýja tölvu og lenti í vandræðum samskipin milli tækjanna en þetta gekk þó fyrir rest  

Núna um dagin endurnýaði ég tölvuna aftur og fékk mér  HP tölvu og ég eyddi sennlega 25000 kr í það reyna að láta tölvuna vinna með faxtækinu. fyrst þurfti ég að láta sérútbúa kapal og þegar það var klárt var nokkur leið að láta tölvuna lesa faxtækið eða fá forrit til að sjá um samskiptin.  þetta endaði með kaupum á canon alslagstæki sem ég  er ennþá að reyna að læra á og kostaði 45000kr.  Mér rennur í grun HP hafi þvingað mig til að endurnýa og keypti ég þessvegna ekki aftur HP tæki

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 16:30

5 Smámynd: Kári Harðarson

Carly Fiorina, fyrrverandi forstjóri HP var mjög hrifin af Gillette aðferðinni.  Þeir seldu rakvélina ódýrt en rakblöðin dýrt.

Hún yfirfærði þetta á HP prentarana sem fást nánast gefins en blekhylkin kosta mikið.

Hún lét líka gera ódýra skanna en gætti þess að þjónusta þá ekki með nýjum hugbúnaðaruppfærslum.

Ég kaupi ekki HP vörur fyrr en áhrifa þessarar konu gætir ekki lengur.



Kári Harðarson, 3.4.2007 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband