Hversvegna tölvunarfræði?

Mér fannst gaman að legokubbum.  Fyrir mér voru tölvur eðlilegt  framhald.

Ég þurfti ekki að kunna að smíða legokubbana til að smíða úr þeim og  reynslan við að smíða úr þeim nýtist líka á múrsteina eða hugmyndir.  Það sem hægt er að byggja með kubbum er óháð kubbunum og þannig er  tölvunarfræði óháð tölvum.

Tölvunarfræði á meira skylt við tónlist og stærðfræði en við verkfræði  eða efnafræði og hún býður upp á ótrúlega sköpunargleði.

Á tímabili voru tölvur aðeins fyrir útvalda einfara sem vildu kynnast  þeim betur á sama tíma og venjulegt fólk notaði ritvélar.

Fullkomnunarárátta og stjórnsemi eru eiginleikar sem fá útrás í  tölvugeiranum því tölvan skapar heim fyrir þig þar sem þú getur  ráðskast að vild. Tölvuheimurinn laðaði því að sér marga sem eru ekki  tilbúnir til að taka þátt í mannlegum samskiptum, og hann gerir það  enn.

Þeir sem komast langt í tölvubransanum eru þó yfirleitt færir um  mannleg samskipti til jafns við tölvusamskiptin.  Hinir lenda fyrr eða  síðar á glerþaki.

Flestir sem ég þekki í tölvubransanum eru ekki fagidjótar heldur  skemmtilegt fólk sem hefur önnur áhugamál en tölvur.  Reyndar finnst  mér mikil fylgni milli þess að vera góður í tölvum og að vera  áhugasamur um tónlist.

Windows og Office pakkinn eru búin að vera með okkur síðan 1995 og  hafa mótað mjög hugsanir fólks um hvað tölvur eru.

Mér finnast Windows og Office frekar óspennandi og mér sárnar þegar  fólk segir "þú ert tölvunarfræðingur, hjálpaðu mér með Excel". Það er  álíka og að segja við fransmann:  "Þú ert frakki, hjálpaðu mér að  skipta um dekk á þessum Citroen" án þess að vilja vita neitt um landið  sem hann kemur frá.

Það er hægt að smíða svo miklu meira spennandi vörur en Windows og það  er ennþá hægt að verða sá sem gerir það (og verða ríkur). Windows,  Macintosh og Unix eru öll amerísk. Hvernig myndi evrópskt stýrikerfi  líta út?  Þurfum við stýrikerfi?  Hverfa þau á bak við tjöldin og  Google heimasíðan verður nýja skjámyndin sem mætir þér á morgnana?

Tölvur hafa verið notaðar til svo margs en tölvunarfræðin á ekki heima  í neinni einni grein.

Tölvur eru mikið notaðar af vísindamönnum.  Það þýðir ekki að menn  þurfi að kunna stærðfræði til að forrita tölvur.

Verkfræðingar hafa smíðað tölvur og tölvuhluta, en samt er  tölvunarfræði ekki undirskor í verkfræði.

Tölvur eru líka mikið notaðar af viðskiptageiranum.  Það þýðir ekki að  maður þurfti að ganga með bindi og hafa gaman af prósentureikningi til  að nota tölvur.

Krakkar í dag nota tölvur til að spila leiki og vera á MSN.  Það þýðir  ekki að tölvur séu fyrir krakka.

Tölvunarfræði er að verða fræðin um það hvernig fólk leysir vandamál í  öllum hinum fræðunum.  Margir vilja gera tölvunarfræði að skyldufögum  í öllum öðrum fögum, rétt eins og stærðfræði er í dag.

PC tölvur eru oft ljótir ljósbrúnir eða svartir kassar.  Þær þurfa  ekki að vera þannig.  Vissirðu að það er tölva inní Visa kortinu þínu,  örgjörvi, minni og allur pakkinn?   Gemsinn þinn er 99% tölva.

Tölvur þurfa ekki að ganga fyrir rafmagni. Þær geta gengið fyrir vatni  eða ljósi.  Menn eru að prófa að smíða tölvur úr frumum. Hver einasta  fruma í líkamanum er tölva.  DNA er forritið hennar.  Samruni  tölvunarfræði og líffræði er rétt að byrja og óhemju spennandi svið  sem margir fást við.

Vinur minn notar tölvur til að tefla skák og stýra vefstól sem hann  forritar mynstur í.

Kollegi minn lætur tölvur skrifa glæpasögur.  Hún er búin að sjá að  plottin í glæpasögum má búa til með formlegum hætti, alveg eins og  Agatha Christie gerði.

Annar kollegi minn er að hugsa um ljósmyndir.

Enn annar leitar að laglínum í tónlist.

Hvers vegna er forritun skemmtileg?  Hvaða undur bíða þess sem leggur  hana fyrir sig?

Í fyrsta lagi er það hrein sköpunargleði.  Rétt eins og barnið leikur  sér að drullukökum eða legokubbum, þá nýtur sá fullorðni þess að  byggja forritin inní tölvunni.

Í öðru lagi er það ánægjan að sjá annað fólk geta nýtt sér  sköpunarverkið. Allir vilja koma að gagni og það er óskaplega mikið  stolt samfara því að fá þakkir fyrir að hafa létt einhverjum störfin.

Í þriðja lagi getur verið gaman að kljást við flækjustig sem geta  komið upp. Hluti dagsins hjá forritara fer í að leysa gátur.  Tölva  heillar á sama hátt og klukka sem hægt er að rífa í sundur og skrúfa  saman aftur.

Í fjórða lagi eru endalausar uppgötvanir.  Það er alltaf eitthvað nýtt  í hverju forriti rétt eins og hver bygging sem arkitekt hannar býður  upp á ný viðfangsefni.

Síðast en ekki síst er það ánægjan sem fylgir því að vinna í leir sem  er svona mótanlegur.  Tölvan er svo sveigjanleg, hún leyfir þér að  pússa og breyta og bæta við sköpunarverkið.  Leirinn þornar aldrei,  það kvarnast ekki úr og listaverkið upplitast ekki eða verður skítugt.

Þótt forritið sé ekkert nema hugarsmíði lifnar það við fyrir augunum á  þér.  Það skilar niðurstöðum, tölum, texta eða myndum og þú getur sýnt  það öðrum, stoltur eins og krakki.  Það er dulúð yfir því að slá inn  réttu orðin á lyklaborð og sjá forritið þitt svara þér í fyrsta sinn.

Eftirspurn eftir hugbúnaðarfólki fór upp úr öllu valdi rétt áður en  "dotcom" bólan sprakk, um aldamótin.  Þótt eftirspurnin hafi minnkað  síðan þá, er hún engu að síður mikil.  Það þarf ekki að fletta  atvinnuauglýsingum lengi til að sjá að nóg er að gera í bransanum hér  á landi.

Ég hef lesið í 25 ár að bráðum verði búið að semja síðasta  tölvuforritið eða að nú sé öll hugbúnaðarvinna farin til Indlands eða  Kína.  Nú eru flest rör framleidd í útlöndum en það er samt nóg að  gera hjá íslenskum pípulagningarmönnum.  Enginn hefur haft áhyggjur af  atvinnuleysi hjá þeim.

Þótt tölvur séu skemmtilegar og nóg sé að gera, auglýsi ég samt eftir  fjölbreyttari viðfangsefnum.  Íslenskur þekkingariðnaður getur verið  ennþá blómlegri, sérstaklega ef ríkisstjórnin hættir að mæna á  aldargamlar atvinnugreinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Skemmtileg og fersk hugsun

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 14:09

2 Smámynd: Púkinn

Jamm.  Það er nú samt þannig að eftirspurn eftir tölvufræðingum hefur oftast verið meiri en framboðið - sem er gott mál fyrir tölvufræðingana, en verra fyrir fyrirtækin sem þurfa á þeim að halda.

Svona í framhaldi af þessu vísar Púkinn í það sem hann sagði hér.

Púkinn, 27.3.2007 kl. 15:53

3 Smámynd: Kári Harðarson

Næst stærsta áhugamálið hjá mér er einmitt konur

Ég er alveg sammála þér, það mættu vera fleiri konur í tölvunarfræði. 

Það eru margar stórglæsilegar ungar konur í Háskólanum í Reykjavík einmitt núna og þær eru á leið með að verða góðir tölvunarfræðingar.  Þær eru næstum allar rauðhærðar, ég veit ekki hvað veldur því.

Kári Harðarson, 28.3.2007 kl. 12:04

4 Smámynd: IGG

Skemmtilegur pistill, eins og reyndar fleiri pistlar hér, sem veitir áhugaverða og spennandi innsýn í tölvunarfræði. Tak for det.

Ingibjörg G.Guðmundsd.

IGG , 29.3.2007 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband