Ostur, Baugur og Framsókn

Þegar ég kom til Júgóslavíu skömmu fyrir stríðið þar, sá ég fullt af  spennandi sölubásum með leðurvörur.  Eftir heimsóknir í nokkra slíka  víða um landið, sá ég að þeir seldu allir sömu vöruna. Sama leðurbeltið  merkt Marlboro var til sölu í þeim öllum.

Það kom í ljós að leðurverksmiðja ríkisins var á bak við allar vörur á  ferðamannastöðum.  Skipulag kaós.  Helsi á bak við sýndarfrelsið.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég leit yfir ostahilluna  í búðinni þar sem við kaupum inn til vikunnar.

Þótt mér væri stillt fyrir framan aftökusveit gæti ég ekki þekkt í  sundur eftirtalda osta í bragðkönnun:

  • Brauðostur
  • Fjölskylduostur
  • Heimilisostur
  • Skólaostur
  • Gouda
  • Gotti
  • Ísbúi
  • Grettir
  • AB Ostur

Þetta er allt sami osturinn enda þarf ekki að sjá hann, bara umbúðirnar.

3031_fjolskylduostur

 

 

 

 

 

 

Mjólkursamsalan er ófær um að bjóða upp á fjölbreytileika svo hún  "feikar það" með nýjum og nýjum umbúðum.  Það er skiljanlegt.  Ekkert  fyrirtæki er svo gott að það geti veitt sjálfu sér samkeppni.  Ég tek fram að ég efast ekki um gæði vörunnar.  Það er fjölbreytnin  sem ég sakna.

Í tíð Framsóknar fékk Mjólkursamsalan algera einokun á osta og  mjólkurvörum og var veldi hennar ærið fyrir.

Umboðsmaður neytenda er Framsóknarmaður.  Fyrirtækið Mjólka berst fyrir lífi sínu, nú á tímum frjálsrar  verzlunar.

Ég trúi að nú taki betra við.  Það verður ekki Framsóknarmaður yfir  landbúnaðarráðuneytinu eftir stjórnarskiptin.

Mér þykir vænt um bændur, og ég veit að þeir munu eflast og styrkjast  ef hætt verður að fara með þá eins og Danir fara með Grænlendinga.  Þeir munu blómstra því þeir eiga gjöfult land og þjóð, sem vill ólm  kaupa af þeim vörurnar.
fromage_agde_fra_galleryfull

 

 

 

 

 

 

 

 

Baugur minnir mig á Bónus, og Jóhannes í Bónus minnir mig á hagstætt  vöruverð.  Baugsfeðgar hafa alltaf vilja flytja inn landbúnaðarvörur.

Ef Jón Sigurðsson á við þetta þegar hann uppnefnir næstu stjórn  "Baugsstjórn", þá mæli hann manna heilastur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti ekki verið meira sammála. Sala á kjöti er mjög svipuð.  Öllu kjöti sem er slátrað kemur frá einhverjum nokkrum fyrirtækjum, t.d. SS og Goða. Þó að kjötið komi frá bændum um allt land veistu samt ekkert frá hverjum það er. Þess vegna styð ég austurlamb.is framtakið þar sem ég get keypt kjöt frá bændum í gegnum þriðja aðila. Þannig get ég valið að versla kjöt af þeim bónda sem ég tel að standi sig best.

Egill (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 17:15

2 Smámynd: Sigurjón

Verst að gömlu slátrararnir skuli vera horfnir.  Þar var enginn milliliður.  Bara bóndinn og slátrarinn.  Þannig er það bezt.

Sigurjón, 19.5.2007 kl. 18:14

3 Smámynd: Depill

Það á auðvita að hætta þessum mjólkurstyrkjum og fella niður mjólkurkvóta. Og auðvita að afnema það að samkeppnislög gildi ekki um mjólkuriðnaðinn ( sem Guðni heimtaði ). Mjólka hefur sýnt fram á það að það er möguleiki að gera þetta án mjólkurkvóta og það var mjög óeðlilegt að MS, Norðurmjólk og MBF hafi fengið að sameinast.

Svo á auðvita að fella niður verndartolla á landbúnaði, ég mun samt sem áður kaupa innlenda landbúnaðarvörur að marki, íslenskar landbúnaðarvörur eru að mínu viti oft betri en erlendar svo ég mun ekki hætta að nota þær. T.d. Íslensk mjólk er alveg sér á báti, sama má segja um lambakjöt ( að mínu mati ). En þetta þarf aðhald og samkeppni.

Depill, 19.5.2007 kl. 19:11

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

4% af ríkisútgjöldunum fer í landbúnað hér á íslandi þar með talið skólar,landgræðsla og skógrækt.  57% af útgjöldunum í EU fer í landbúnað en 80% af styrkunum þar eru svo kallaðar grænar greiðslur og reiknast ekki inn sem styrkir þegar verið er að bera styrki saman við aðrar þjóðir Ég er hrifin af kerfinu á Nýja Sjálandi en þar eru engir ríkistyrkir en á móti er algjört innflutningsbann á landbúnaðar vörum sem þeir framleiða sjálfir Hér er tengill á upplýsingabækling um íslenskan landbúnað mjög fróðlegur

 http://www.bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/Attachment/svona_er_isl_landbunadur_2007/$file/svona_er_isl_landbunadur_2007.pdf

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 19.5.2007 kl. 21:49

6 Smámynd: Morten Lange

Það má örugglega hrista svolítið upp í landbúnaðinn, en mér finnst gleymast að landbúnaðinn skipti máli fyrir landið.  Landbúnaðurinn heldur landið í byggð, og veitir ákveðinn trygging og matvælaöryggi. 

En ég hef trú á því að framtakssamir bændur fái að selja sínar afurðir meira milliliðalaust. Sömuleiðis að reynt verði að auka fjölbreytni, og tengja afurð við svæði eða býli, svipað og Andri Snær Magnason talar um í "Draumalandinu".  Ég held líka að með því að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar sem framleiðandi hreinna vöru, mætti benda þessu í rétta átt.  Þróa aðferðir og vottun fyrir hreinar /lífrænar afurðir.   Og  með því að opna býlin fyrir ferðamenn, innlendir sem erlendir, og gera út á þeim, mætti auka fjölbreytileika og hagkvæmni. 

Þá væri  vel þess virði að bakka með vask-breytingunni sem gerði gos og sýkur ódýrara, og frekar lækka VSK á innlendu grænmeti. Kjötið má vera dýrt mín vegna. Við borgum hvort sem er ekki það sem það kostar jörðinni.  Þarna eru um ansi miklar svokölluðum externalities að ræða.  Til dæmis þá hefur kjötfarmleiðsla á heimsvísu í för með sér mjög viðtaka ræktun á fóður, sem þýði skógareyðing, rósalega mikill notkun jarðefnaeldsneytis, vatn og skordýraeiturs og GMO. Kjötneysla í heiminum fer hratt vaxandi, en mikill kjötneysla er sóun á takmörkuðum auðlindum.  Prófið til dæmis að sjá áhrif þess að borða mikið eða lítið kjöt á myfootprint.org

Morten Lange, 20.5.2007 kl. 01:08

7 Smámynd: Kári Harðarson

Ég tók fram, að íslenskur landbúnaður skiptir mig miklu máli.  Ef einhverju verður breytt, þarf að vera sátt um þá breytingu og hún á að vera til hagsbóta fyrir bændastéttina sem heild.

Við verðum að komast í umhverfi þar sem bændur geta fengið útrás fyrir sköpunargleði og notið góðs af frumkvæði sínu.  Ég veit ekki hvernig við komumst þangað, en þó veit ég að einokun er ekki í leiðinni.

Kári Harðarson, 20.5.2007 kl. 11:16

8 identicon

Mér fannst ostasagan frábær Mér er það mjög minnisstætt þegar ég flutti til Bandaríkjanna fyrir 15 árum og fór út í búð til að kaupa ost. Ég fékk hálfgert kvíðakast þegar ég sá úrvalið. Ég vildi bara "venjulegan" ost, en það var ekkert slíkt í boði.... Æi, kannski er bara ágætt stundum að hafa úrvalið ekki of mikið

Þýðir samt ekki að megi ekki taka til í landbúnaðargeiranum.... hef bara ekkert málefnalegt innlegg í þá umræðu í bili og læt því nægja að deila minni ostasögu með lesendum síðunnar

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 10:48

9 Smámynd: Kári Harðarson

Ég gleymdi að nefna Mozzarella ostinn frá MS sem er líka Gouda eftirlíking, gulur og seldur í kubbum.   Alvöru Mozzarella er hvítar kúlur sem liggja í saltvatni í búðum erlendis.

Svo er hægt að telja upp íslenska Feta ostinn sem er úr kúamjólk.  Sá gríski er úr geitamjólk og á ekkert sameiginlegt með þeim íslenska nema vera seldur í olíu.  Sá gríski er í ólífuolíu, en sá íslenski er það ekki.

Nú er samkeppniseftirlitið í heimsókn þarna, en ekki held ég að það sé vegna einokunar, hún er "lögleg".

Kári Harðarson, 5.6.2007 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband