Hvers vegna ég hef aldrei sæzt við gluggakerfi



Nú fer ég í algeran nerdagír, og bið þá fyrirfram afsökunar sem  neyðast til að hætta að lesa eftir nokkrar málsgreinar.

Forritin í Windows þurfa öll að geyma upplýsingar.   Yfirleitt notum  við forritin til að búa til einhver skjöl sem við vistum í möppum  undir "My Documents".

Forritin eru samt líka að geyma ýmislegt annað.  Internet Explorer er  til dæmis með lista yfir "Favourites" sem eru uppáhalds vefsíðurnar  okkar.

Outlook býr til sína eigin gagnageymslu sem geymir alla póstana sem  við höfum móttekið og sent.

Þessi gögn eru eign okkar notendanna en þau eru samt ekki geymd með  skjölunum okkar undir "My Documents".  Gangi ykkur vel að finna þau ef  þið viljið taka afrit.

Svo eru ótaldir allir hlutirnir sem við höfum sagt forritunum um okkar  þarfir.

Hvaða prentara viljum við prenta á, viljum við hafa kveikt á "Auto  complete" í Word eða ekki, hvaða eyðublöð og stíla viljum við hafa  aðgengileg í Word, Hvaða símanúmer höfum við sett inn í Skype?

Samanlagt eru þessi gögn kölluð "Stillingar" eða "Preferences".  Ómissandi gögn sem eru ekki geymd í neinu skjali sem við erum vön að  fást við eins og Word og Excel skjöl.

Allar þessar stillingar gera tölvu að okkar tölvu. Það eru þessar  stillingar sem er svo sárt að missa þegar maður lendir í að fá nýja  tölvu í hendur eftir að gamli harði diskurinn hrynur eða gamla tölvan  úreldist.

Mér finnst þessar stillingar allar skipta miklu máli og þær verða  fleiri eftir því sem tímar líða.  Tölvan mín er ekki á sama máli.  Stillingarnar eru geymdar hér og þar, og ég get ekki auðveldlega  afritað þær frá vinnutölvunni yfir á heimatölvuna og áfram yfir á  laptop þótt ég geti auðveldlega afritað Word og Excel skjöl.

Vanir tölvunerdar vita að uppáhalds vefsíðurnar eru í skrá sem heitir  X og er geymd í möppu sem heitir Y og það er hægt að afrita þessa skrá  yfir á aðra vél með því að gera Z.  Gott og vel - en...

Jafnvel þótt hægt sé með góðri tölvuþekkingu að afrita stillingaskrár  á milli tölva er það ekki nóg.

Suma hluti á að afrita, aðra ekki.  Ég vil til dæmis að Word heima hjá  mér viti, að mér hugnast alls ekki "AutoComplete" fídusinn, ég er  búinn að segja Word í vinnunni það (og Word á öllum öðrum tölvum sem  ég hef sezt við).

Það er ekki þar með sagt, að Word heima eigi að prenta út á sama  prentara og Word í vinnunni.  Það er stilling sem á heima niðrí vinnu  og hvergi annars staðar.

Valmyndirnar í Office pakkanum hafa með tímanum orðið undirlagðar af  stillingum. Bara í Word er Page setup, printer setup, view toolbars,  styles and formatting, spelling and grammar, language settings, tools  customize, tools options, listinn heldur áfram og áfram og áfram.

Hver hefur ekki lent í því að hjálpa vinnufélaga að breyta vel falinni  stillingu sem var að eyðileggja vinnudaginn en var ekki hægt að finna  af sjálfsdáðum af því það eru svo margar stillingar að það þyrfti  Google leitarvél inní forritinu sjálfu til að leita að þeim öllum?

Samt eru stillingarnar ekki nógu margar.  Ég get ekki búið til  stillingu í Word sem segir að mér finnst best að skrifa bréf til  konunnar minnar með ákveðinni kossaundirskrift og að það eigi að senda  Word skjöl til hennar í tölvupósti.  Hins vegar vilji ég prenta bréf  til mömmu á laser prentarann og nota ákveðna leturgerð, takk.

Ég er alltaf að vinna verkamannavinnu þótt tölvan eigi að geta létt  mér störfin.

Þótt ég gæti sagt Word að stilla þetta, væri það ekki nóg, því þegar  ég byrja að skrifa bréf til konunnar minnar ætti ég að opna Outlook en  þegar ég vil skrifa mömmu ætti ég að nota Word.  Ég vil ekki velja  milli Word eða Outlook, ég vil skrifa bréf, og svo vil ég ákveða hvort  ég vil senda bréfið sem tölvupóst eða prenta það á pappír.

Ástæðan fyrir því að ég þarf að taka þessa ákvörðun fyrirfram um að  nota Word eða Outlook er að gervallt Windows er hannað í kringum  risastóra hugbúnaðarpakka, en ekki verkefnin sem notendur eru að reyna  að leysa í sínu daglega lífi.

Þegar ég ætla að prenta út reikning í bókhaldskerfi, þá er mjög  líklegt að ég vilji senda hann til mannsins sem ég er með í símanum þá  stundina. Tölvan er tengd við sama tölvunet og símstöðin og gæti  hæglega flett upp hver er á hinum endanum.

Ég læt mig ekki dreyma um að þessi fídus verði útfærður á næstunni því  þá þyrftu kerfi að vinna saman og það gera þau ekki.

Stýrikerfið gæti tekið af skarið þarna, hlustað á símstöðina og sagt  forritinu sem geymir tengiliðina mína að fletta númerinu upp, og sagt  svo bókhaldsforritinu hvaða heimilisfang á að setja á nótuna.

Þannig er raunveruleikinn ekki.  Stýrikerfið keyrir bókhaldspakkann og  bókhaldspakkinn spilar sóló eftir það, og hann veit ekkert um  símstöðvar og lætur ekki segja sér slíka hluti nema notandinn slái þá  inn með sínum þreyttu fingrum.

Allar þessar stillingar eru settar inn í stóru forritin vegna þess að  þau geta ekki spurt stýrikerfið um neitt af viti sem varðar notandann.  Ef mér líkar ekki "AutoComplete" í Word þá er mjög líklegt að mér  myndi ekki líka það heldur í Excel eða MindManager eða hvaða forriti  sem kemur næst.  Af hverju get ég ekki sagt stýrikerfinu frá mér í  eitt skipti fyrir öll og það svo séð um að ala upp forritin sem ég  nota frá degi til dags?

Grundvallarvandamálið er þessi tíska að búa til risaforrit sem reyna  að gera allt fyrir notandann í lokuðum heimi.

Þegar ég notaði Unix áður en gluggakerfin komu, þá var ég vanur að  taka mörg lítil forrit og "líma þau saman" á skipanalínunni eða með  scriptum sem ég skrifaði.  Unix notendur þekkja þetta sem "unix  piping" og "command line options"

Stillingarnar mínar voru í þessum scriptum, í formi "command line  options" og í því hvernig þessi litlu forrit voru límd saman.

Þessi script geymdu ekki bara stillingarnar mínar heldur líka í hvaða  röð ég vildi gera hlutina.  Ég gat búið til scipt sem hét "Bref til  mömmu" sem byrjaði á að opna edit glugga, með ákveðnum fonti, og  endaði á að prenta á laser prentarann.  Ef ég vildi hefði ég getað  látið scriptið prenta heimilisfangið á umslag á öðrum prentara strax á  eftir.

Þetta er stóri munurinn á Unix og Windows heiminum í mínum huga.  Scriptin voru mín eign og ég gat afritað þau á nýja tölvu. Þau voru  mínar stillingar og þau gátu orðið eins einföld eða flókin og mínar  þarfir voru einfaldar eða flóknar þá stundina.

Ég sakna þess ekki að gera allt á skipanalínunni, en geri mér að sama  skapi grein fyrir því að Windows hefur aldrei komið með viðundandi  mótsvar við henni.

Grunn vandamálið er þessi rosalega sjálfselska í Windows forritum. Þau  eru ekki hönnuð til að starfa saman eins og Lego kubbar í stærra  samhengi heldur reynir hvert forrit að vera endanlega lausnin á öllum  vandamálum notandans.

Þegar forritin stækka verða stillingarnar í þeim að martröð.  Ég held  að margir geti verið sammála mér að Office pakkinn hefur ekki farið  batnandi með árunum.  Ég held að hann hafi náð sínu hámarki í kringum  Office 97 og orðið leiðinlegri síðan.  Skýringuna er að stóru leyti að  finna í stillingakraðakinu.

Ég tek Office sem dæmi af því lang flestir þekkja það.  Ég hefði getað notað marga aðra pakka sem dæmi, þetta er ekki árás á Microsoft.

Leiðin framávið er að endurhugsa hvað er átt við með notendastýrikefi.  það er ekk nóg að stýrikerfið útvegi skrár, glugga og nettengingu fyrir  forritin sem það hýsir, en taki ekki af skarið í neinu öðru sem varðar  þarfir notandans og hans verklag.  Kannski þarf "stillinga algebru". Kannski þarf öflugra "Grafískt Lego" en ActiveX varð.

Skrifborðs samlíkingin var sniðug árið 1984 en nú er árið 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Merkilegt nokk, Kári, þá las ég til enda.

Ég les út úr þessu tvo hluti sem ég er ekki óvanur að sjá. Andúð á Windows og væntumþykja við Linux. Sem vanur Linux maður getur þú ekki ætlast til að amma þín kunni að búa til langar command línur og script í Linux. Hins vegar get ég líka fallist á að hún er trúlega ekkert mikið betur sett með Windows umhverfið heldur.

Eftir því sem fleiri lausnir verða til því flóknara verður notkunin. Ég er sammála þér að þetta er fjandakornið ekkert að lagast með árunum. Lengi vel hafði ég á tilfinningunni að þegar forrit voru orðin nothæf þá þótti öðrum kominn tími til að breyta þeim, bara til að gera þau gölluð aftur! Ég er þó að linast á þessu ofsóknaræði og leyfi mér hiklaust að halda mig við eldri útgáfur þangað til freistingarnar reka mann í uppfærslu.

Ég held að við hljótum að vera sammála um að lausn á þessum málum er ekki í sjónmáli. Til þess þarf að sameina smekk allra þannig að allir vilji vinna hlutina nákvæmlega eins og það er eins og að segja fólki að það eigi hér eftir að kaupa einn ríkisbíl og búa í eins ríkishúsnæði.

Þar til slíkt hendir, Kári, hefur þú atvinnu af því að hjálpa fólki að fóta sig í gegnum þessa vitleysu og ættir því ekki að kvarta mjög hátt

Haukur Nikulásson, 16.6.2007 kl. 09:27

2 Smámynd: Einar Indriðason

Fínn pistill.  Ég held raunar að við séum að stefna í ranga átt, varðandi samskipti tölvunnar við notendur.  Í dag er þetta þannig, að þú ert með mjög sjáanlega tölvu, það er þessi KASSI þarna, við þennan kassa þá tengirðu SKJÁ, MÚS og LYKLABORÐ.  Síðan þarftu að flakka um eftir slatta af valmyndum til að keyra upp viðeigandi forrit, hvort sem það heitir Word, eða Outlook, eða Emacs, eða VI, eða......

Síðan þegar þú ert kominn inn í þetta ákveðna forrit, þá þarftu að berjast við notendaviðmótið sem það forrit er með innbyggt inn í sig.

Mín skoðun og framtíðarsýn... er eitthvað á þessa leið:  Tölvur munu ekki sjást, þær munu verða innbyggðar í hús, íbúðir, bíla, stóla, skrifborð.  Munu tala þráðlaust á milli sín, og munu "elta" þig á þann hátt milli staða.  Inntakstæki eins og mýs og lyklaborð munu hverfa eða verða sjaldséð.  Í staðinn kæmi tækni eins og "tal-greining" (voice recognition).  Skjáir munu hverfa líka, munu breytast yfir í litla "skjái" innan á gleraugunum okkar, sem myndu birta upplýsingar til viðbótar við umhverfið hjá okkur.  Ef maður hugsar þessa pælingu miklu lengra, þá endar þetta með næstum því beintengingu við heilann.  (En það er langt, langt, langt í það dæmi.)

Ég myndi vilja sjá fyrir mér útfærslu á tölvum (ekki í svona Kassi Hér, Kassi Þar, fullt af valmyndum og samskiptum við vél) þar sem algjörlega tölvu-ólært fólk geti notað beint úr kassanum.  Við erum svo langt í frá að ná því eins og staðan er í dag.  Einhver svona útfærsla þar sem "hún Sigríður gamla á Grund" gæti notað.  (Og vissi helst ekki af því, að vera að nota slíka tækni.)

Hitt er svo annað mál, að það eru alltaf til einhverjir sem vilja fara lengra, fikta, læra, kunna á hlutina undir húddinu.  Þetta ætti að geta verið til staðar saman... Það þurfa jú einhverjir, fyrir rest, að búa til þennan draum minn :-)

Kveðja,

Einar Indriðason, 16.6.2007 kl. 11:05

3 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll Haukur,

Ég er ekki að reyna að miðla andúð við Windows.  Ég nota sjálfur til skiptis Windows og Linux GUI, og ég fer ekki aftur á skipanalínuna.  Í dag er ekkert betra til. 

Þetta er meira áskorun til tölvunarfræðinga um að bjóða aftur uppá það notagildi tölva sem glataðist  þegar skipanaviðmótið lagðist niður; Lego hugsunin, að geta sett saman einingar til að leysa dagleg verkefni.

Ég er að auglýsa eftir nýjum "Metaphor" til að leysa "Desktop" hugmyndina af hólmi.

Það getur verið að ein mynd segi meira en þúsund orð, en stundum geta örfá orð verið máttugri en þúsund myndir.  Ég verð stundum þreyttur í höndunum á að gera með mús og lyklaborði það sem tölvan á að geta gert sjálf, en  það er svo stórt stökk úr Word / Outlook / Excel inn í heim forritunar að það tekur ekki að forrita lausn.

Góðu fréttirnar eru að í háskólum er ekki álitið fáránlegt að ímynda sér arftaka Windows og Linux.  Það er ekki búið að finna allt upp, eins og sumir héldu um aldamótin 1900.  Þess vegna get ég lýst eftir djörfum hugmyndum þótt ég sjálfur eigi kannski ekki eftir að njóta afrakstursins.

Kári Harðarson, 16.6.2007 kl. 12:13

4 identicon

Ég les nú smá fordóma gegn windows út úr þessu hjá þér :)
Með script og svoleiðis dót þá getur þú gert slíkt í windows líka eins og þig lystir
Bendi þér á http://msdn2.microsoft.com/en-us/library/ms950396.aspx með þessu getur þú twekað og moddað allt út og suður hvort sem það er í stýrikerfinu eða apps.

Persónulega er ég bara frekar ánægður með office, gæti ekki hugsað mér 97 útgáfuna í dag.

Auðvitað er þetta allt saman ekki fullkomið en mér finnst við vera á ágætis leið í flestu

DoctorE (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 14:17

5 identicon

Ég gerði heiðarlega tilraun til að þýða Qt 4.2 á Windows með um daginn í heimamöppunni minni og ætlaði síðan að setja það inn sem kerfisstjóri. Það er ekki hægt vegna þess að heimasvæðið er í "Documents and settings" og qmake ræður ekki við að búa til makeskrá þegar slóðin inniheldur bil. Ég var því þvingaður til að vinna í kerfismöppu sem er út í hött og á móti öllum öryggisreglum.

Annars er ég pirraður yfir Linux í dag. Ég er að laga hugbúnað fyrir mælitæki og fann GPL library sem getur leyst vandamálið en þá þarf ég að breyta forritskóðanum sem ég á ekki í GPL líka til að geta notað library-ið. Í Windows gæti ég bara borgað sanngjarna summu og málið er leyst. Linux hefur marga kosti en notendurnir finnst mér svolítið ofsatrúaðir á köflum.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 15:11

6 Smámynd: Kári Harðarson

Ég ítreka að ég er ekki að bera saman Linux og Windows heldur skipanalínuna og gluggakerfin.

Fyrst ég er ásakaður um pirring út í Windows þá var ég fúll út í Windows á árunum 1995 - 2000 af því það vantaði alvöru minnisvernd og multitasking í Windows 95 / 98 / Bob / Me.  Windows NT4.0 / 2000 / XP fannst mér hins vegar vera ágæt.

Ég er bara að lýsa eftir nýrri hugsun.  OS X "Leopard", Linux KDE, Vista, þetta eru flottari og flottari umbúðir utanum sama desktoppinn.

PS:  Öllum er velkomið að rabba áfram um kosti og ókosti Linux vs. Windows  :)

Kári Harðarson, 16.6.2007 kl. 15:53

7 identicon

Ég læt ekki plata mig inn á þær brautir Kári minn

Ég var reyndar með svona trúar dæmi á mínum tölvuferli og mátti segja að ég hafi hatað windows og Billa gamla... þetta var þegar C= Amiga var upp á sitt besta.
Eitt mottóið hjá mér var: Intel inside idiot outside :)

DoctorE (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 16:22

8 identicon

Punkturinn minn far vel falinn en það að hafa slóðina inn að heimasvæði langa og með bilum gerir margar skriftur miklu flóknari. Fyrir nú utan að vandamálið með dos skráarnöfn virðist enn ekki vera leyst.

Ég nota KDE og allar stillingaskrár eru læsilegar sem ég kann að meta. Skipanalínan er alls staðar til taks en ég tek eftir því að ég fæli marga frá Linux þegar þeir sjá mig nota skipanalínuna. Það var kannski brilljant sölutrikk hjá Microsoft að þvinga fólk til að nota músina :)

En svo er til Openoffice og Lyx sem virkar á öllum stýrikerfum og langar til að heyra í einhverjum sem notar Evolution á Windows.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 17:03

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góður pistill, Kári, þó ég verð að viðurkenna að ég dottaði yfir lestrinum öðru hvoru.  Mér fannst samt gott þetta að setja kossana undir bréfin til Önnu Birnu, en mér finnst það lýsa full mikilli formfestu í samskiptum ykkar að skrifa bréf í Word, þegar þú þarft að segja henni eitthvað .  Annars leysti ég þetta mál fyrir mörgum árum og er bara sjáflstætt starfandi með sömu tölvuna sem vinnutölvu og einkatölvu

Svona þegar öllu gríni er sleppt, þá vill svo til að ég sendi Microsoft einu sinni bréf út af svona máli.  Ég hef lengi notað ferðavél og mér fannst óþægilegt að þurfa að breyta alls kyns stillingum eftir því hvort ég var með vélina tengda við net fyrirtækisins, sem ég vann hjá, eða ADSL-tengda heima hjá mér við Internetið.  Ég stakk því upp á því að hægt væri að vera með tvo prófæla fyrir sama notanda og jafnframt að hægt væri að skipta þessum prófælum upp, þannig að greint væri á milli þess auðvelt væri að flytja á milli tölva (samanber almennar Word stillingar) og þeirra stillinga sem væru háðar netumhverfinu (samanber prentarastillingar).  Ég fékk nú svar frá þeim og það hljóðaði einhvern veginn á þessa leið:  Þetta er ekki hægt.  Þetta er ekki í býgerð.  Búðu bara til tvo notendur á tölvunni sem samnýta aðgang að skjölum, forritum og þjónustu eftir þörfum.

Auðvitað er til leið út úr einhverjum af þessum vandræðum, sem felst í því að fara inn í földu möppuna Local Settings og síðan Application Data og reyna að fiska út stillingar sem þar eru geymda og skrifa þær ofan í sambærilegar skrár á næstu tölvu.  Við verðum svo sem að virða hugbúnaðarframleiðendum það til vorkunnar, að eftir því sem það er erfiðara að flytja stillingar á milli véla, er auðveldara fyrir þessa framleiðendur að fylgjast með og jafnvel tryggja að ólöglegur hugbúnaður sé ekki settur upp.

Marinó G. Njálsson, 16.6.2007 kl. 18:47

10 identicon

Mjög góð grein, mikið til í þessu, en það er hægt að veiða ansi mikið af stillingum uppúr documents and settings líkt Marinó lýsir, en það mætti vera einfaldara.

Persónulega vildi ég hafa allar mínar stillingar geymdar á netinu, og synca þær sjálfvirkt á milli, jafnvel heilu forritin en google hefur tekið nokkur skref í þessa átt, með td google docs, þar sem öll skjölin eru geymd á vefnum en hægt að sækja þau hvar sem er.

Fyrir bookmarks í firefox hef ég notað del.icio.us plugin sem geymir öll mín bookmarks á netinu í tag formi, en ég get skoðað þau og geymt þau beint inní firefox, með þessari aðferð er ég alltaf með öll nýjustu bókamerkin á þeim vélum sem ég vinn á.

Varðandi scriptur og afl þeirra þá eru þær gífurlega öflugar en það er möguleiki að gera þetta þannig að ömmur og afar víðsvegar geti fengið hluta af þessu afli án þess að kunna bash, python eða annað scriptumál. Gott dæmi um þetta er automator fyrir mac os X, sem getur gert hreynt ótrúlegustu hluti allt gegnum gluggakerfi. Dæmi um notkun á automator er að taka allar nýjustu myndirnar af myndavélinni þinni þegar þú stingur henni í samband, búa til 3 eintök af þeim öllum, thumbnail, miðlungs og rosastóra ásamt því að gera litastillingar á þeim, og uploada á flickr. 

Þetta er að miklu leiti hægt vegna þess að flest os x forrit útfæra interface sem gefur aðgang að hinum ýmsu eiginleikum forritsins. Litlar hefðir eru fyrir slíku á windows og það sem kemst nálægast þessu eru COM hlutir sem fylgja með sumum forritum og gefa aðgang að virkni, en þeir eru venjulega ekki mjög þjálir og alls ekki ömmuvænir.

Ég verð þó að segja að ég væri mjög til í að öll windows forritin geymdu allt á sama stað, og hugsanlega má sleppa þessu registry veseni fyrir forrit alfarið.  Ég er einnig ansi hræddur um það að aðgerðinn að gera þetta erfitt tryggi ekki eitt né neitt þar sem crackarar forrita eru alls engar ömmur.

Ævar Örn Kvaran (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 23:13

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Las þetta með áhuga og dottaði aldrei. Margt af því sama og þú nefnir pirrar mig ósegjanlega (að þurfa að segja hverri tölvunni á fætur annarri að ég ÞOLI ekki autocomplete) og þar sem ég er daglega svissandi á milli Linux (Ubuntu) og Microsoft þá hlýt ég að gera samanburð og hann er Linux í hag að mörgu leyti, þótt ég sé fyrst og fremst að nota viðmótið, ekki að gera eigin script nema í mesta lagi upp á grín (ennþá). Hef ekki tengt þennan pirring sérstaklega við gluggakerfi versus command line en samt óneitanlega margt fljótlegra í skipanalínu en í stigveldi gluggakerfisins. Það sem mér finnst að hljóti að verða verkefni framtíðarinnar (vonandi náinnar) er að kenna fleiri kerfum að tala saman, kenna tölvum af öllum stærðum og gerðum að tengjast jaðartækjum og að gera þráðlaus samskipti milli tækja að einhverju vitrænu ferli. Einkastillingarnar yfirfærðar, já, auðvitað á maður ekki að sætta sig við minna í hvaða stýrikerfi sem maður vinnur. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.6.2007 kl. 01:11

12 Smámynd: Kári Harðarson

Ég viðurkenni að þetta með kossaundirskriftina var stílbragð til að halda lesendum vakandi

Kári Harðarson, 17.6.2007 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband