Um ást á dauðum hlutum

Þegar ég var búinn að hjóla í vinnuna í morgun kastaði ég mæðinni fyrir utan hús og horfði á hjólið með ástarinnar gleraugu á nösum.

Þetta hjól eignaðist ég 1982.  Það var notað og frekar illa farið, en ég sá að stellið var fyrsta flokks (Reynolds 531) svo ég skipti um gírana, gjarðirnar, dekkin og alla barkana, bæði bremsu og gíra.  Ég er búinn að eiga hjólið í 25 ár og sennilega er það sjálft orðið þrítugt.  Ég veit að það var handsmíðað af manni sem heitir David Russell í borginni Slough á Englandi.  Síðast þegar ég heyrði hafði hann fengið slag og hann er hættur að smíða.

Gírskiptarnir eru niðri á botnstönginni og það eru engar smellur í þeim heldur stillir maður þá sjálfur eins og fiðlustrengi.  Svona hjól fást ekki lengur og reyndar ekki varahlutir í þau heldur.  Dekkjastærðin er ekki 700C eins og tíðkast á hjólum í dag heldur 27" sem ég sé ekki lengur til sölu.

Ég þekki hjólið algerlega.  Ég hef oft tekið það í sundur niður í síðustu kúlulegu og sett saman aftur, þrifið og smurt.  Hjólið myndi aldrei bila mér að óvörum af því ég veit í hvaða ástandi það er. 

P9150013

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta hjól er löngu afskrifað og einskis virði samkvæmt tryggingarfélaginu.  Í dag eru reiðhjól soðin saman af vélmennum og þau löngu orðin hluti af neyslumenningunni þar sem hlutum er hent.

Fólki er kennt að binda ekki ástfóstri við dauða hluti.  "Þú átt ekki að elska hluti sem geta ekki elskað þig til baka" er sagt.

Þetta er rangt.  Menn eru að rugla saman tvenns konar ást.

Hjólið er fyrir löngu orðin framlenging af mér.  Ég geri ekki mikinn greinarmun á því að klippa á mér neglurnar eða smyrja keðjuna á hjólinu.  Ef ég missi þetta hjól mun ég syrgja það eins og ef ég missti framan af fingri.

Ef ég sæi fingurinn afhöggvinn gæti ég líka sagt um hann, að hann gæti ekki elskað mig til baka.  Það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki sakna hans.  Hann var hluti af mér og það er hjólið orðið líka.  Ég er ekki að tala um rómantíska ást heldur umhyggjuna sem kemur á mörgum árum þegar maður virkilega þekkir eitthvað vel og hefur passað uppá það.

Í morgun horfði ég á hjólið og fann að mér þótti vænt um það.  Ég skammast mín ekkert fyrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sammála! Manni getur þótt vænt um dauða hluti. Það er einnig partur af því að bera virðingu fyrir það sem maður á eða hefur fengið. Væntumþykja fyrir einhverju sem maður á eða hefur átt lengi dregur úr neyslubrjálæði sem einkennir svo mikið þjóðfélagið okkar í dag. Ég elska t.d. gömlu og slitnu húsgögnin mín. Mér myndi ekki detta í hug að fleyja þeim. Þau hafa sál og eru partur af mér og minni fjölskyldu.

Úrsúla Jünemann, 28.9.2007 kl. 10:38

2 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Góður pistill,get ekki séð að þú þurfir neitt að skammst þín fyrir að þykja vænt um hjólið þitt,það er miklu fremur virðingarvert nú á tímum neysluhyggjunnar,þar sem allt er að verða einnota og ekki borin virðing fyrir neinu hvort sem það er dautt eða lifandi.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 28.9.2007 kl. 22:24

3 identicon

Kannast við þetta Kári. Ég hef komist að því að ég sæki í öryggið sem fylgir því að þekkja hlut sem ég á út í gegn. Það kemur mér ekkert á óvart við hlutinn og ég ræð 100% við hann ef ég þarf að halda honum við. Ég elska þetta öryggi og verður að djúpri væntumþykju gagnvart hlutnum. Ég átti t.d. sama Ford Broncoinn í 19 ár og heyrði og fann fyrir hverri legu. Svo hætti ég bara einn daginn að vera jeppakall og lógaði gripnum, enda mengun og eyðsla farin að stríða alvarlega gegn siðvitund minni.

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband