Napólí Norðursins

Við rætur Vesúvíusar stendur Napólí með sínar tíu svæðisstjórnir sem ná víst illa að vinna saman í mörgum málum.  Að einhverju leyti er  mafíunni um að kenna hef ég heyrt. naples trash-jj-001

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stundum held ég að Reykjavík sé svolítil Napólí norðursins.

Ég hef fylgst með málefnum hjólreiðamanna lengi og þess vegna veit ég  að ekki ein sál í borgarkerfinu er með málefni þeirra á sinni könnu.  Kerfið virðist ekki ráða við þessa nýju hugsun, að reiðhjól séu ekki leikföng.

Ég hef líka orðið var við að borgin mín er orðin ansi subbuleg.  Ég hjóla yfir glerbrot á gangstéttum sem eru frá því á menningarnótt.  Bílar leggja uppi á stéttum, brunahanar ryðga og gangstéttar eru að verða að mulningi sumsstaðar vegna elli.  Byggingarverktakar skilja eftir illa frágengin vinnusvæði án þess að gengið sé frá hjáleiðum og merkingum.

Það var með miklum herkjum að tekið var á skálmöldinni sem hafði skapast í miðbæ Reykjavíkur um helgar, árum saman tók enginn af skarið.

Menn hafa rifist mikið um vegalagningu út úr bænum og flutning flugbrauta og engar ákvarðanir eru í sjónmáli.  Nú síðast var málefnum Orkuveitunnar klúðrað á mjög viðvaningslegan hátt svo seint mun gleymast.

Því verð ég að spyrja upp á ensku:  "What have you done for me lately?"

Hvernig nýtist vinnudagurinn hjá borgarstarfsmönnum, ekki sem pólítíkusum heldur sem venjulegum starfsmönnum sem þurfa að vinna vinnuna sína en fá annars tiltal og eru jafnvel reknir?

Eru gæðamálin ekki örugglega í góðu lagi eins og hjá nútíma fyrirtækjum? 

Getur verið að það sé eitthvað að borginni eins og hún er uppbyggð, að hún hreinlega virki illa sem kerfi, óháð því hver sest í borgarstjórastólinn?  Er það innbyggt í hana að allt þurfi að fara í pólitískan baklás?

Ég hitti almenna borgarstarfsmenn sem afgreiða mig þegar ég fer í sund, í strætó eða á bókasafn.  Ég þarf ekki mikið að ræða daginn og veginn til að heyra hversu langþreyttir þeir eru.  Ég heyri af yfirmönnum sem eru alltaf á fundum og virðast ekki vinna við annað.  Ábyrgðin virðist býsna dreifð og enginn tekur af skarið.

Hvaða mál hafa verið kláruð?  Hvar er "todo" listinn og hvað er búið að haka við?

  • Hvað með sorphirðu á flöskum og dagblöðum í heimahús?  Af hverju förum við í bíltúr með flöskurnar okkar?
  • Hvað með rafrænu hliðin sem standa ónotuð á öllum sundstöðum?
  • Hvað með rafræna miðakerfið sem átti að koma í strætó?  Hvað kostaði þróun þess?
  • Hvað með 200 metra hjólastíginn á Laugavegi, hvenær á að framlengja hann?
  • Hvað með ljósleiðarann sem Orkuveitan lagði, hvenær verður hann tengdur við eitthvað í mínu heimahúsi?
  • Hvað með útivistaraðstöðu í Laugardal fyrir borgarbúa, af hverju eru engar framkvæmdir þar nema ný bílastæði?
  • Hvernig er með skipulag á Öskjuhlíðarsvæðinu?  Hvernig verður þetta með vegalagningu við nýja hús Háskólans í Reykjavík?
  • Hvað með hættulegar gangbrautir kringum hringtorgið hjá Þjóðminjasafninu sem var kvartað út af þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri?
  • Hvað með breytingar á umferðarmannvirkjum vegna aukinnar bílaumferðar eftir Miklubraut?
  • Af hverju var tölvuvæðing bókasafnanna tíu árum á eftir öðrum borgarbókasöfnum á norðurlöndum?
  • Hvað með skipulagsmál í Skuggahverfinu?
  • Hvað með skipulagið á Laugavegi?
  • Af hverju eru svo mörg borgarhverfi alger viðvaningsleg skipulagsslys?
  • Hvað með stórátakið í málefnum hjólreiðamanna sem allir flokkar hafa haft á sínum stefnuskrám?


Þetta eru bara málin sem ég tek eftir persónulega.  Ég er hvorki fatlaður, gamall né með smábörn á heimilinu. Samt er af nógu að taka.

Ég hef óþægilega á tilfinningunni að mál séu ekki að mjakast hægt en örugglega áfram í kerfinu heldur að renna afturábak eða hverfa.

Ég hef líka á tilfinningunni að það sé alltaf verið að finna hjólið upp aftur í hverju máli.  Það virðist alltaf vera hægt að byrja að rífast aftur um eitthvað sem ætti að vera grundvallaratriði eða búið að ákveða.

Það er engin afsökun að þetta séu allt saman pólítísk mál.  Orðið "Pólítík" þýðir "Málefni borgarbúa" á latínu.  Það þýðir ekki "fólk sem rífst að eílífu og gerir ekkert".

Borgarbúar verða gjaldþrota ef við ætlum að bíða eftir að allir verði vinir.  Við hjónin tölum saman um litinn á eldhúsinu en svo er líka málað á endanum (hvítt venjulega).

Plató hélt því fram að  ríki og borg ætti að stjórna af embættismönnum sem fengju stranga ævilanga menntun til þess arna.  Það er fasísk hugsun, en vantar kannski upp á starfsþjálfun embættismanna borgarinnar, valda þeir ekki verkinu?  Er ekki nóg að vera læknir eða lögfræðingur til að fá að stjórna borg?

Um daginn voru háskólarnir teknir út af óháðum erlendum aðilum.   Kannski Reykjavík þyrfti að fá sambærilegt aðhald utanfrá.  Er ekki einhver vinabær sem til vamms segir?

Kannski er allt í himnalagi í Reykjavík en ég bara orðinn langþreyttur að sjá enga stefnumörkun í málefnum hjólreiðamanna...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona vanræksla þrífst þar sem fólki er sama um annað en að pota sér áfram sjálft eða of upptekið við að vinna fyrir salti í grautinn að það getur ekki horft uppúr súpunni sem það er í.

Getur verið að búið er að kaupa landann með endalausum Gallupskönnunum, áróðri um "bezt í heimi" og einstaka lágverðsverslunum að við erum orðin "ligeglad"? Eða ennþá verra, uppgefin á því að bíða eftir að eitthvað breytist til batnaðar?

Tökum húsnæðislánin 90 og 100%, þegar þau komu var þeim hampað sem hinu besta máli. Nú lítur þetta út eins og hlutafjárkaup í DeCode á bankalánum. Hvað næst?

Svona athugasemd á náttúrlega ekki að senda inn öðruvísi en undir ljúfum tónum viðlagsins við "Where have all the flowers gone" ...

Carlos (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 22:20

2 Smámynd: Kári Harðarson

Þetta var ansi gott lag:

  • Where have all the young girls gone?
  • gone to buy apartments
  • What is the apartment worth?
  • soon not very much
  • Where have all the money gone?
  • to the big banks every one
  • When will they ever learn?  When will they eveeeeer learn?  

 Hér er útgáfan með Peter, Paul & Mary

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 07:32

3 identicon

Nú er ég loksins hætt að fara í bíltúr með pappírinn og fernurnar. Húsfélagið ákvað að panta 2 endurvinnslutunnur, nb. frá einkafyrirtæki, sem kosta næstum 2.000 krónur á mánuði (deilist á 4 íbúðir). Í þær má setja eina 7 flokka af efnum til endurvinnslu (og vonandi er fyrirtækið ekki að plata neitt). Ekki býður borgin upp á svo vandaða endurvinnslu í sinni sorphirðu. Bara tunnu fyrir pappír á 6-700 krónur á mánuði.  Hinsvegar fer ég ennþá í bíltúr með flöskurnar. Það gerir gulrótin - peningarnir.

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 21:18

4 Smámynd: Kári Harðarson

Mamma mín sem er 82 ára fer í göngutúr til mín með allt draslið því hún á engan bíl lengur.

Það er gott svo langt sem það nær en ég veit ekki hvort allir jafnaldrar hennar í blokkinni eru að endurvinna á þennan hátt, þeir eiga ekki allir skyldmenni í hverfinu.

Þessi Sorpulausn er miðuð við einkabílisma og hálfgerð mótsögn að bílafloti Reykvíkinga skuli notaður undir skutl á þessu dóti.

Kári Harðarson, 15.11.2007 kl. 21:48

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ó, borg, mín borg......

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.11.2007 kl. 21:34

6 Smámynd: Kári Harðarson

Er ég bara leiðinlegur, Gréta?  Er þetta kannski ekkert uppbyggilegt hjá mér?  Mig langar bara svo að opna samræður milli hjólreiðamanna og borgaryfirvalda, veit ekki alveg hvernig á að mjálma við hurðina til að vera hleypt inn.  Þeir eru svo uppteknir af því að selja orkuveitur og eitthvað sem er mér svo fjarri.  Hvenær kemur röðin aftur að því að gera borgina betri að búa í?  

Kári Harðarson, 16.11.2007 kl. 22:17

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nei, þú ert sko ekki leiðinlegur Kári, það eru aðrir sem sjá um það. Þetta var nú bara tilvísun í kveðskap seðlabankastjórans núverandi. Ég gæti ekki verið meira sammála þér um skipulagsleysið og fornaldarhugsunarháttinn sem tröllríður þessu pínulitla borgarsamfélagi okkar.

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.11.2007 kl. 00:55

8 Smámynd: Kári Harðarson

Davíð þorði að rölta heim um nótt eftir dansleik og hann hafði efni á að búa bárujárnshúsi við Bergþórugötuna.  Þetta var nú meiri lúxusinn í gamla daga! 

Kári Harðarson, 20.11.2007 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband