Hawaii eða Háaleitisbraut ?

Það kostar 19 krónur að hringja úr heimasíma til Bandaríkjanna, 17 krónur að hringja í farsíma frá símanum en 25 krónur að hringja í farsíma frá Nova.

Það kostar bara 1,85 krónur að hringja í annan heimasíma.  Munurinn er því alltaf minnst tífaldur að hringja í gemsa.  Verðið á farsíma símtölum hér sýnist mér fara hækkandi á sama tíma og það lækkar í öðrum löndum. 

Finnst einhverjum öðrum en mér skrýtið að innanbæjarsímtal skuli vera dýrara en símtal til Hawaii bara af því viðmælandinn er hjá "hinu" símafyrirtækinu?  Mér sýnist Síminn vera að refsa þeim viðskiptavinum sem dirfast að gerast liðhlaupar í stað þess að herða sig í samkeppninni?

Ég tók eftir þessu vegna þess að heima-símareikningurinn okkar rauk upp eftir að helstu vinir sonar míns skiptu yfir til Nova. 

Það borgar sig fyrir soninn að ganga með tvo farsíma, með sitthvoru SIM kortinu og hringja í Nova notendur frá síma með Nova korti af því símtöl milli Nova síma eru ókeypis.  Eina vandamálið er að símanúmerin þekkjast ekki í sundur, frá hvaða félagi þau eru.

Í Danmörku er sama gjald, 1,30 DKR að hringja í farsíma frá heimasíma, sama hvaða félagi sá farsími tilheyrir.  Það þykir mér ætti að lögleiða hér á landi.

Ef mér leiddist gæti ég búið til þjónustu þar sem allir geta hringt úr heimasímanum í box eins og er á myndinni að neðan, svokallaðan "GSM Gateway".  Það myndi innihalda SIM kort frá Nova og leyfa þeim sem hringir í það að slá inn farsímanúmer Nova notanda.  Þannig gætu allir talað við Nova farsímaeigendur úr heimasímanum fyrir 1,85 krónur í stað 25 króna.  Ég þyrfti ekkert að borga nema fjárfestinguna í boxinu og mánaðargjaldið fyrir Nova SIM kort.

 GSM Gateway Dialer LARGE

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi box eru þegar til á markaði.  Ég ætla ekki að stofna þjónustuna sjálfur, ég er bara að benda á fáránleikann í gjaldskránni eins og hún er í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hansína Hafsteinsdóttir

Væri ekkert skrítið ef allir væru með sama verð? Þá spyr fólk nefnilega: hvar er samkeppnin? Ef vara er á sama verði í öllum matvörubúðunum er fólk brjálað og talar um samráð. Ef ekki eru allir brjálaðir yfir því að varan sé dýrari á einum stað en öðrum

Hansína Hafsteinsdóttir, 21.5.2008 kl. 19:46

2 Smámynd: Kári Harðarson

Þetta væri ekki sama verð hjá öllum heldur sama verð í alla.  Það er ekki sanngjarnt að borga hærra verð fyrir að hringja í notendur þegar maður getur ekki vitað hjá hvaða símafélagi þeir eru.

Þetta er eins og að þurfa að borga meira með leigubíl ef húsið sem maður ætlar að fá far til er tryggt hjá vitlausu tryggingafélagi. Það ætti ekki að skipta mann máli?

Kári Harðarson, 21.5.2008 kl. 22:12

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Það þarf greinilega að setja reglugerð um þetta, símafyrirtækin mættu ekki rukka meira fyrir hringingar í önnur kerfi. Eins og alltaf þegar svona er misnotað (eins og þau eru greinilega að gera) verður ríkið að hafa vit fyrir fólki. Landið á að vera eitt gjaldsvæði, hvort sem notendur eru bundnir við landfræðilega eða viðskiptalega staðsetningu.

Jón Ragnarsson, 22.5.2008 kl. 00:00

4 identicon

Ég er á móti því að setja reglur og reglugerðir um alla skapaða hluti og ég hef trú á frjálsri samkeppni.  Ef það er rétt sem Kenny segir hér fyrir ofan að nú þegar finnast tvö fyrirtæki sem ekki gera greinamun á því í hvern þú hringir þá getur fólk valið þessi fyrirtæki ef því líkar ekki að borga mismundandi verð.  Síminn og Vodafone fylgja væntanlega í fótspor þessara fyrirtækja ef notendur nenna að hafa fyrir því að skifta um þjónustuaðila.

Jóhann Ólafsson (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 07:39

5 Smámynd: Kári Harðarson

Ég hef líka trú á frjálsri samkeppni en hún er háleitt markmið eins og frelsi, jafnrétti og bræðralag.  Frjáls samkeppni fyrirfinnst þess vegna aldrei í hreinni mynd, bara mismunandi heft samkeppni.

Heldur þú að íslenskur símamarkaður nálgist hugsjónina um frjálsa samkeppni?  Ekki held ég það.

Eitt af grunnskilyrðunum skv. hagfræðinni er að það kosti lítið fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn.  Það er bara eitt grunnnet á Íslandi sem tengir alla heimasíma saman, og síminn á það, hvað sem hver segir.

Kári Harðarson, 22.5.2008 kl. 09:45

6 identicon

Þú hefur kannski rétt í því að samkeppnin er bara mismundandi heft.  Þegar um er að ræða símgjöld, þá hefur fólk val og í þessu tilfelli getur fólk valið Tal ef það er óánægt með Símann og þá verðskrá sem Síminn hefur.  Það að skifta um þjónustuaðila felur í sér ákveðna vinnu sem flestir vildu vera lausir við, en ég sé ekki að það sé næg ástæða til að ríkið fari að grípa í taumana með lögum. 

Jóhann Ólafsson (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 10:48

7 identicon

Til hvers að kaupa símboxið til að hringja í Nova ef þú getur bara fengið ókeypis síma hjá þeim, og hringt ókeypis í alla sem eru hjá Nova. Þá á ég við með 2000 kr mánaðargjaldi sem breytast síðan í símainneign á símanum.

Kjartan Hansson (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 11:03

8 Smámynd: Kári Harðarson

Kjartan, þá væri ég bara að leysa málið fyrir mig sjálfan.

Hinsvegar gætu hundruðir notað boxið.  Ég er bara að hugsa upp lausn til að kollvarpa verðskrá símans, verandi grasrótarsinni.

Kári Harðarson, 22.5.2008 kl. 12:20

9 identicon

Kemur efninu ekkert við, en mér datt í hug að þér gæti fundist þetta áhugavert: http://www.engadget.com/2008/04/21/tokyos-kasai-station-gets-robotic-bicycle-parking-contraption/

Pétur (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 12:47

10 identicon

Jafn tæknifróður maður og þú Kári ættir nú að geta grafist fyrir um hvernig verðstrúktúr símafyrirtækjanna er uppbyggð.
T.d. er það ekki verðskrá Símans eða Vodafone sem veldur háu mínútuverði til Nova, heldur há verðskrá Nova gagnvart þessum fyrirtækjum.  Þ.e. það verð sem Síminn/Voda rukkar sinn v.v. fyrir að hringja í Nova-nr ræðst af því hvað Nova rukkar Símann/Voda fyrir að senda þetta sama símtal inn í kerfi Nova.
Ástæðan fyrir að Tal niðurgreiðir þennan kostnað sinna notenda er einfaldlega samkeppnin - þeir vilja laða að sér viðskiptavini og þetta er ein leiðin.
Til viðbótar má nefna að það segir nú ekki mikið að miða við verð símtala í heimasíma þar sem þau eru í raun háð verðlagseftirliti P&F.
En það sama á einmitt við um markaðinn í t.d. Danmörku, þ.e. símafyrirtækin þar geta ekki rukkað hvort annað um himinhá tengigjöld.  En það gerir það líka erfitt fyrir nýja/smærri aðila að komast inn á markaðinn, þar sem startkostnaður við nýtt símafyrirtæki er auðvitað töluverður (og ræðst meira af dýrum tækjabúnaði en af því hver er eigandi grunnnetsins, þar sem aðgangur að því er líka háður verðlagseftirliti P&F).  Þannig að þetta háa verð fyrir símtöl til litlu fyrirtækjanna er það sem við borgum fyrir að vilja hafa frjálsa samkeppni :)

Jónas (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 13:57

11 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Nova tekur meira fyrir tengingar inn á sitt kerfi en Síminn og Vodafone. Því kostar meira að hringja inn til Nova.

 http://siminn.is/um-simann/frettasetur/nanar/store63/item55429/

Jóhannes Reykdal, 22.5.2008 kl. 14:03

12 identicon

"Jafn tæknifróður maður og þú Kári ættir nú að geta grafist fyrir um hvernig verðstrúktúr símafyrirtækjanna er uppbyggð."

Einhvern tímann var mér sagt frá snúningshnappi undir borði framkvæmdastjóra Pósts og síma (heitnu), sem hann gat snúið til hægri og vinstri, eftir því sem fjárstaða fyrirtækisins (sem þá var ríkisstofnun) kallaði á. Komu þá meiri eða færri krónur í kassann. Hnappurinn stjórnaði mínútugjaldi símnotenda.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 09:51

13 identicon

Afsakið meinlega málfræðivillu í fyrri pósti, meiri átti auðvitað við pening nema það átti að vera fleiri krónur... er svolítið ruglaður á öllu þessu tali um kostnað af símhringingum milli fyrirtækja, landa og bæjarhluta. Kári, gerðu gömlum skólafélaga þann greiða og settu upp eitt svona box - ég skal punga út nokkrum krónum (eða þúsundköllum) svo að fleiri en ég og þú getum snúið okkur að öðru en þeirri eilífðarsögu hvernig pöpullinn er féflettur

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 09:56

14 Smámynd: Kári Harðarson

Jónas,

Mín heimild er þá ekki nógu góð því ég talaði við starfsmenn Nova sem fullyrtu að Síminn væri að refsa þeim með því að láta símtölin til þeirra kosta svona mikið.  Ég sá ekki ástæðu til að rengja þá.  Nú veit ég ekki hverjum ég á að trúa, ætli ég tali ekki við  félaga minn hjá póst og fjarskiptastofnun og reyni að fá hlutlægt álit.

Ég reyndi að lesa mér til um þetta á heimasíðunni,  www.pta.is en fann ekkert bitastætt, ég rakst samt á verðsamanburð frá í þessum mánuði.

Það er freistandi að skipta yfir í Nova miðað við þessa töflu.

Kári Harðarson, 26.5.2008 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband