Þín bíður sending

Í morgun barst tilkynning um pakka frá pósthúsinu en pakkinn sjálfur barst hins vegar ekki. Var sendandinn ekki að borga póstinum fyrir að láta mig fá pakka? Af hverju ber pósturinn bara út tilkynningar um pakkana en ekki pakkana sjálfa?  Fljótlega svarið er að bréfalúgan er svo lítil, en af hverju er hún það? Ef pósturinn biður mig að setja upp stærri póstkassa myndi ég glaður gera það.  Eigum við ekki bara að drífa í því?

Þjónustan sem pósturinn er að selja er að spara manni bæjarskutlið en samt þarf ég yfirleitt að fara í bíltúr til að sækja póst og alltaf ef ég ætla að senda hann.  Þegar maður er einu sinni kominn af stað með bréfið eða pakkann, ætti maður þá ekki bara að fara með hann alla leið?

Ég skoðaði tilkynninguna til að sjá hvort þetta væri eitthvað sem lægi á eða hvort ég gæti afgreitt þetta í næstu bæjarferð, hvort þetta væri lítill pakki sem ég get sótt á hjólinu eða stór kassi sem ég þarf bíl til að sækja. Hins vegar stendur ekkert á miðanum nema sendingarnúmer upp á 13 stafi til innanhússnota fyrir starfsmenn póstsins, engar upplýsingar fyrir mig. Nafn sendanda, borg, land, hvenær sent, innihald, ekkert slíkt tekið fram.

"Hvert á ég að sækja pakkann?" hugsaði ég næst. Á miðanum stendur. "Vinsamlega framvísið þessum miða á pósthúsinu, sjá bakhlið". Ég kíki á bakhliðina og þar stendur: "Upplýsingar um staðsetningu pósthúsa er að finna á heimasíðu póstsins". Það er ekki einu sinni hægt að segja á miðanum hvaða pósthús sendi miðann! Hefði ekki mátt setja þær upplýsingar á miðann, ásamt opnunartíma? Þeir eru jú að bera út þó nokkra pakka frá þessu pósthúsi og ættu að geta fjármagnað sérstaka prentun á tilkynningarmiða með upplýsingum um pósthúsið, litla mynd sem sýnir hvar þeir eru o.s.frv.



mailbox-776204_618508.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sumir kannast kannski við flöggin á póstkössunum í Ameríku.  Pósturinn setur flaggið upp til að íbúi geti séð að til hans er kominn póstur eða pakki.  Póstkassinn er nefnilega nógu stór fyrir flesta pakka.  Færri vita kannski að íbúinn getur líka sett flaggið upp ef hann vill að pósturinn sæki umslag eða pakka til sín í kassann, pósturinn virkar með öðrum orðum í báðar áttir í Bandaríkjunum! Þetta er ótrúlega mikilvægt. Ef ég vil senda manni pakka get ég sett pakkann í minn póstkassa með frímerkjum á og pósturinn tekur hann.  Ég þarf ekki að fara út á pósthús.

Bandaríkjamenn panta mikið af vörum á netinu en þeir eru vanir því að geta notað póstinn og þeir þurfa ekki heldur að tollafgreiða vörur.  Ég pantaði tölvu frá Idaho þegar ég bjó í Norður Karolínu. Hún barst daginn eftir, sendingarkostnaður var innifalinn því varan var yfir einhverju hámarksverði, annars hefði hann víst verið 15$.   Fjarlægðin frá Idaho til Norður Karólínu er 3.340 km sem er lengra en frá Reykjavík til Barcelona en samt fannst mér búðin í Idaho vera í næsta húsi.  Það má venjast þessu.

Góðar pakkapóstsamgöngur eru kannski eitthvað sem íslendingar ættu að þróa til jafns við góðar vegasamgöngur því ef íslenski pósturinn ynni vinnuna sína jafn vel og sá bandaríski myndi bæjarskreppunum kannski fækka og bensínnotkun myndi minka.  Nú ætla ég að keyra 5 km til að sjá hvað bíður mín á pósthúsinu.

Eftirmáli

Pakkinn reyndist vera bíómynd á geisladiski í póstkröfu.  Sendandinn vildi fá 3000 krónur fyrir diskinn en sendingakostnaðurinn var 950 krónur.  Ég þurfti að keyra lengra til að ná í diskinn en ef ég hefði farið heim til sendandans, því hann býr í Reykjavík en pósthúsið fyrir vesturbæinn er á Seltjarnarnesi.  Það hefði líka komið betur út að borga leigubíl undir diskinn.

Best af öllu hefði verið ef sendandinn hefði sent mér bíómyndina í tölvupósti því báðir erum við jú með internet heima hjá okkur - eða hvað?

star-wars-postbox_618505.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta Björk Solis

Jamm svo erum vid lika med U,P,S.Sem kemur bara alveg upp ad dyrum hja manni og afhenda mer pakkann.Eg fer i posthus her a sirca 3,ara fresti ef thad oft.

Ásta Björk Solis, 28.7.2008 kl. 15:47

2 identicon

Indeed. Sjálfur vann ég heillengi á póstinum, þ.á.m. sem stjórnandi í útkeyrslu og hef séð þetta frá þeirri hlið líka. Það er ofboðslega margt sem er hægt að bæta varðandi þjónustuna sem ætti ekki að vera neitt mál nú til dags með þeirri tölvutækni sem er til. Eina skýringin á því að það sé ekki gert hlýtur að vera að Íslandspóstur hefur lítið aðhald frá samkeppnisaðilum.

Það má vel hugsa sér að viðtakandi sendingar fái tölvupóst/SMS þegar hann á von á sendingu með öllum upplýsingum um hana. Viðtakandi gæti þá óskað eftir því á vef póstsins að sendingunni verði keyrt út á tilteknu tímabili sem hentar honum best í staðinn fyrir að það geti gerst einhverntíman á bilinu 17-22 á kvöldin, eða þá ef það hentar betur að hann sæki sendinguna sjálfur á pósthúsið.

Þjónusta á borð við þá sem þekkist í USA er hérlendis aðeins veitt í dreifbýli, þar eru stórir póstkassar sem taka við flestum minni pökkum (svo lengi sem ekki þarf að greiða fyrir þá eða kvitta fyrir móttöku) og póstur sem á að senda er tekinn til baka.

Bjarki (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 16:05

3 identicon

Ég hef aldrei áttað mig á þessum pakkasendingum hér á Íslandi.

Ég hef fengið pakka senda með UPS sem eru keyrðir alveg til mín og ég borga hönd og fót fyrir þá en ég þarf í það minnsta ekki að hreyfa á mér rassinn til að fá þá í hendurnar (þetta er málið t.d. þegar ég panta af ThinkGeek.com).

Hvað pakka varðar sem koma með Íslandspósti, þá er það allt önnur saga. Ég hef jú fengið pakka heim til mín þar sem póstburðarfólkið dinglar og ég kvitta fyrir og fæ pakkann í hendurnar. Ég átta mig ekki alveg á því í hvaða tilfellum ég fæ pakkana heim að dyrum en síðasta tilfelli sem ég man eftir var þegar ég fékk senda pakka frá Amazon.com. En svo hef ég líka fengið þessar bölvuðu tilkynningar eins og þú talar um hérna Kári.

Síðasta dæmið í þeirri sögu var fyrir skemmstu þegar sonur minn fékk senda afmælisgjöf frá USA. Við fengum lítinn bleðil sendan heim þar sem tilkynnt var að pakki biði okkar en hann þyrfti að tollskoða. Við máttum því annaðhvort sýna kvittun fyrir vörunni eða gefa leyfi til að opna pakkann. Við gáfum leyfi fyrir því að opna pakkann og tókum fram að um gjöf væri að ræða. Nokkru síðar fengum við eftirfarandi tilkynningu:

Tollverðir hafa skoðaða sendinguna og þeir samþykkja hana ekki sem gjöf. Ef svo er þá þarf að útvega staðfestingu frá sendanda að um gjöf sé að ræða, eða upplýsingar sem sýna fram á verðmæti vörunnar. Að öðrum kosti þarf að tollafgreiða sendinguna samkvæmt reikning.

Ef óskað er eftir nánari upplýsignum vinsamlegast hafið samband við tollverði í síma 560-0300.

Að sjálfsögðu hringdi ég í númerið og var tjáð af elskulegum símsvara að opnunartíminn væri 8-16. Ég hringdi þá daginn eftir og var þá tjáð af ekki alveg jafn elskulegum tollverði að hann hefði ekki hugmynd um af hverju ég væri að hringja í hann því hann vissi ekkert um þennan pakka. Hann benti mér svo á að hringja í einhverja tolldeild hjá Íslandspósti sem ég og gerði. Stúlkan sem þar svaraði var ósköp elskuleg en alveg álíka grunlaus um hvar pakkinn væri niðurkominn og tollvörðurinn. Hún benti mér meira að segja á að hringja aftur í 560-0300 sem ég afþakkaði pent og tjáði henni í leiðinni að hún þyrfti bara að finna pakkann minn og láta mig svo vita hvað ég þyrfti að gera. Einhverju síðar hringdi hún í mig og sagði mér að pakkinn væri fundinn og hefði lent í einhverri allt annari hrúgu af því að það hefði verið fyllt í "Estimated amount" svæðið á límmiðanum á pakkanum og því hefði verið litið svo á að þetta gæti ekki verið gjöf. Ég spurði þá hvort að það ætti s.s. ekki að fylla út í þetta svæði ef verið væri að senda gjöf og þá var svarið "Ha? Nei... það verður að fylla út í þetta útaf tryggingunum og svoleis". Þarna ákvað ég að gefast upp á að reyna að finna viðhlítandi skýringu á því hvernig ætti að fylla þennan miða út til að forðast frekara vesen. Að endingu varð svo úr að ég gaf aftur leyfi fyrir því að þessi pakki yrði opnaður og að lokum fékk ég símhringingu um að þetta væri sko alveg klárlega gjöf og ég þyrfti því ekki að hafa meira fyrir þessu... svo spurði hún mig hvort ég vildi sækja pakkann strax í tollaafgreiðsluna eða hvort ég vildi að pakkinn biði frekar eftir mér daginn eftir á pósthúsinu í hverfinu mínu... þangað sem ég þyrfti að sækja hann sjálfur líka.

Þú afsakar þessa bloggfærslu mína í athugasemdunum þínum Kári minn en nú hittir þú á viðkvæma taug hjá mér! Niður með Íslandspóst!

Stefán Freyr (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 17:04

4 identicon

Nú er víst til einhver bóla sem heitir internet...

Afhverju þarf ég enn að borga frá 450 kr og upp úr til póstsins fyrir að koma pakkanum til mín, réttara sagt í tollafgreiðslugjald, afhverju get ég ekki gengið frá því sjálfur án aukakostnaðs t.d. í gegnum netið?

Svo er hitt annað mál með þessi CN22 form sem þarf að setja á pakka milli landa, ég hef aldrei séð þá fara eftir þeim, alltaf skal pakkinn stoppaður og send út tilkynning um að reikning vanti. Og stundum hafa þeir toppað sig með því að senda reikningin með tilkynningunni...   :/

Tek líka undir með Stefáni hvað varðar gjafapakka, lenti í nánast alveg eins reynslu nema starfsmaður í þjónustuveri póstsins gekk í málið fyrir mig og kom hlutunum á hreyfingu, fram að því virtust tollurinn og pósturinn vera í borðtennisleik með pakkann og sendu hann fram og til baka án nokkurs árangurs.

Það eru frekar fáir hér á landi sem stunda mitt áhugamál svo ég er frekar mikið háður póstsendingum varðandi öflun aðfanga, ég held að ég hafi fengið að kynnast nánast öllum hliðum á pakkaferlinu hjá þeim og oftar en ekki valda þær miklum hausverk(það tekur jú á að hrista hausinn yfir vitleysunni :p ).

Sverrir (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 11:15

5 identicon

´  

Ef Íslandspóstur fer í taugarnar á þér, reyndu þá að búa út á landi og fá sendingu með DHL.  Hjá þeim tekur um 24 klst frá Evrópu til Íslands og síðan um 7 daga frá Reykjavík til Patreksfjarðar, fer eftir því hvað þú rekur á eftir pakkanum símleiðis.  - Ég veit, ég reyndi það sjálfur.

Uppreisnarseggurinn@gmail.com (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 11:16

6 identicon

Svo svo satt. Sérstaklega pirrandi líka þegar bæði er búið að fækka bæði pósthúsum og póstkössum.

Ég er með eina sögu. Ég fór á pósthúsið í gær og var að senda skjöl (280 gr) frá Íslandi til UK.

Sending sem er 251-500 gr kostar 725 kr (A póstur) og 435 kr (B póstur). Sending sem er 101-250 gr kostar 410 kr (A) og 280 kr (B). Bilið á milli 251 og 500 gr er risastórt, sérstklega þegar verið er að send skjöl o.þ.h. þar sem hvert blað telur. Það munar 445 kr á því hvort að skjölin eru 250 gr eða 251 gr. Ég greiddi 1135 krónur fyrir sendinguna (því hún þurfti að komast á venjulegum hraða til UK)

Ef við skoðum svo hvað kostar að senda FRÁ UK til Íslands er í fyrsta lagi rukkað með nánast alltaf 20 gr bili þ.e. 10 gr, 20, 40, 60, 80.......300

Verðinu er enn fremur skipt upp í bréf, smáa böggla og prentaðan pappír (ódýrara að senda prentaðan pappír en böggul).

Næsti verðflokkur fyrir ofan hleypur einnig á 20 grömmum þ.e. 320 gr, 340, 360......620.

Ef ég hefði verið að senda sömu skjölin (280 gr) frá London og til Reykjavíkur hefði það sem sagt kostað mig 2.04 pund sem eru um 320 krónur miðað við svimandi hátt gengi Sterlingpundsins í dag. Það munar því 815 krónum á því hvora leiðina sendingin fer. Nú segi ég bara WHAT THE FUCK? Er ég að missa af einhverju hérna?

Og já þau 6 ár sem ég bjó í London reyndi pósturinn allt til að pakkinn kæmist í hendur manns (og bauðst m.a. til að koma með hann aftur á þeim tíma sem hentaði). Sjaldan þurfti ég að fara á pósthúsið og ég keypti heilan helling t.d. af Amazon og E-Bay.

Verðskrá Royal Mail í UK http://www.royalmail.com/portal/rm/content1?catId=400036&mediaId=53800712

Verðskrá Póstsins: http://www.postur.is/desktopdefault.aspx/tabid-123/138_read-213/

Ég er pissed off.

  

Sigrún (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 15:07

7 Smámynd: Einar Steinsson

Ég bý í Austurríki og hér eru tveir póstbílar á ferðinni (fyrir utan DHL og aðra slíka). Daglega kemur þessi venjulegi póstur á litlum gulum bíl og ekur á milli póstkassa (sem eru allir út við götuna), hann labbar helst ekki eitt skref, heldur setur póstinn í kassana út um bílgluggann. Síðan er á ferðinni annar stærri gulur sendibíll með pakkasendingar, hann er mun hreyfanlegri og hringir bjöllu og kemur með pakkana upp að dyrum.

Einar Steinsson, 29.7.2008 kl. 15:33

8 identicon

Fyrir nokkru pantaði ég bók og DVD-disk frá Amazon.co.uk. Skömmu seinna fékk ég tilkynningu um að mín biði sending – ekki á pósthúsinu mínu í Mjódd heldur Póstmiðstöðinni Stórhöfða. Ástæðan fyrir því var víst sú að pakkinn innihélt bæði disk og bók. Ef þetta hefði verið annað hvort bók eða diskur hefði þetta farið niður í Mjódd. Vesturbæingur hefði líka þurft að fara upp á Stórhöfða! Ég fór því upp á Stórhöfða, tók númer og beið meðan ein stúlka leysti úr alls kyns tollavandamálum fólks sem var á undan mér. Þetta finnst mér fáránlegt.

Litlu seinna fékk ég sendan bara disk frá Amazon og þá var mér gert að fara ofan í Mjódd. Pósthúsið í Mjóddinni (ef pósthús skyldi kalla) þjónar öllu Breiðholti, efra og neðra, auk Seljahverfis – hvert um sig með stærstu hverfum borgarinnar. Vegalengdin frá mér niður í Mjódd samsvarar gróflega frá Vesturbæjarlauginni að Kjarvalsstöðum, ef sú leið væri full af ósamstæðum umferðarljósum og hraðahindrunum... Þetta "pósthús" er í raun bara afgreiðsluborð í Nettó, þar sem manni er gert að fara í röð með fólki sem er að kaupa nýmjólk og slátur.

Fjær amerískri póstþjónustu er vart hægt að komast...

Ingvar (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 17:59

9 Smámynd: Ísdrottningin

Ég á líka í reynsluhorninu nokkrar hryllingssögur af pakkasendingum að utan *dæsir* en það sem ergir mig mest er að tilheyra Nettópósti eins og Ingvar hér að ofan.

Þar þarf maður að standa í langri biðröð fólks sem er að kaupa sér eitthvað í gogginn og á ekki nokkurt erindi við pósthúsið og til að kóróna allt þarf maður að þola gremjuleg augnatillit fólksins með sitt kjötfars, mjólkurpotta og brauð á meðan afgreiðslumanneskjan leitar að pakkanum sem að sjálfsögðu finnst ekki fyrr en eftir nokkra leit.

Þetta kalla ég ekki þjónustu og finnst tæplega hægt að nefna þetta pósthús! 

Ísdrottningin, 8.8.2008 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband