Prósentuleikur

Hér er smá ókeypis kennsla í prósentureikningi.

Evran kostaði 90 krónur um áramót en kostar nú 126 krónur.

Það eru margar leiðir við að segja þetta í prósentum.  Ein er að segja að krónan hafi lækkað um 28.6%:

(126-90) / 126 = 0.286

Önnnur leið við að segja þetta er að hún haldi eftir 71.4% af upphaflegum kaupmætti sínum:

90 / 126 = 0.714

Þriðja leiðin sem er kannski meira sjokkerandi er að segja að evran hafi hækkað um 40% :

(126-90) / 90 = 0.40


Svo er hægt að sleppa prósentunum en taka dæmi: íslendingur sem var með 400 þúsund í laun í janúar er með 285 þúsund í laun núna ef hann ætlar að eyða laununum í Evrópu.

400 * 90 / 126 = 285

Ef hann ætlar að kaupa eitthvað þar sem kostaði 400 þúsund um áramót kostar það hann núna 560 þúsund:

400 * 126 / 90 = 560

Er ekki stærðfræði skemmtileg? Smile

----

Illugi Gunnarsson sagði eftirfarandi í viðtali í viðskiptakálfi Fréttablaðsins 23.júlí:

 

Staðan er erfið. [..] Við munum ekki geta leyst þann vanda með því að stefna að upptöku annars gjaldmiðils, eðli vandans er einfaldlega þannig. Ég tel að reynt hafi verið að koma því inn hjá þjóðinni að til sé einföld sársaukalaus leið út úr vandræðunum og þá verði allt í himna lagi. Það finnst mér vera mikill ábyrgðarhlutur.


Ég er sammála því að núverandi vandi leysist ekki með upptöku evrunnar.  Ég held ekki að evrusinnar haldi það almennt.  Ég hef viljað taka evruna upp áður en góðærið byrjaði og ég mun vilja það eftir að kreppan líður hjá. Mig langar að segja hvers vegna:

Í góðærinu varð krónan mjög sterk. Íslenskir bankar tóku erlend lán og endurlánuðu íslendingum á hærri vöxtum af því þeir hafa einokunaraðstöðu hér á landi. Einokunin felst í því að ég get ekki verið með Visa kort frá erlendum banka og fengið launin mín greidd á reikning þar. Ef við hefðum haft evru hefði fólk verið í viðskiptum við erlenda banka og fengið sömu vexti og aðrir evrópubúar. Íslensku bankarnir hefðu ekki hagnast ótæpilega á þessum lánainnflutningi og vaxtamismun.

Ef íslendingar komast í venjuleg bankaviðskipti hjá erlendum bönkum myndi verðtrygging á lánum líka tilheyra liðinni tíð. Ég fæ ekki verðtryggð laun eða vöruverð, af hverju ættu bankarnir að fá verðtryggð lán?  Verðtryggingin er slæm hugmynd því hver er hagur bankanna af því að aðstoða stjórnvöld við að halda verðlaginu stöðugu ef öll þeirra útlán eru verðtryggð?

Verslanir á Íslandi nutu líka góðs af sterku gengi krónunnar en létu neytendur ekki njóta ágóðans. Kunningi minn sem flytur inn vörur og selur sagði mér að þegar best lét hefði hann getað lagt 150% á vöruna áður en hann seldi hana. Han setti næstum því allan hagnaðinn af sterkri krónu í eigin vasa meðan viðskiptavinir héldu áfram að borga óbreytt verð.  Hann hefði getað lækkað vöruverð en hann langaði meira í einbýlishús og jeppa.  Kúnnunum var sama um arðránið, þeir höfðu ekkert verðskyn.

Ef krónan hefði ekki verið, hefðu neytendur getað borið saman verð í evrum hér við verð í evrum í Evrópu og fengið þannig miklu betra verðskyn. Þeir hefðu líka getað pantað vöruna sjálfir fram hjá íslenskum kaupmönnum með lítilli fyrirhöfn því tollurinn verður ekki sú risavaxna hindrun sem hann er ef við göngum í bandalagið.

Ég hef bloggað um það áður að land sem telur 300 þúsund sálir átti ekki að reisa svona stóra tollmúra því fastakostnaður við tollafgreiðslu er of hár.  Hvað myndi það kosta ef akureyringar stöðvðuðu hvern einasta bíl sem keyrði inn á Akureyri og tollflokkuðu allt sem í honum er?  Það gera Íslendingar við allan inn og útflutning fyrir þetta litla samfélag.

Íslendingar hafa opnað landið fyrir erlendu vinnuafli og erlendu fjármagni. Bankar, verslunarrekendur og verktakar hafa notið góðs af því.  Það er kominn tími til að venjulegt launafólk njóti þess líka.

Andstæðingar segja að ef evran yrði tekin upp þyrftu íslendingar í fyrsta skipti að kynnast launalækkunum. Mér er nokk sama. Innkaupakarfan sem kostaði 9 þúsund um áramótin kostar 16 þúsund núna.  Er það ekki launalækkun?

Andstæðingar umræðu um evrópubandalagsaðild segja að við munum afsala okkur einhvers konar sjálfstæði ef við göngum í bandalagið. Ég segi að við höfum þegar glatað efnahagslegu sjálfstæði, við ráðum ekkert við krónuna. Hvað annað sjálfstæði varðar vitum við ekki hvað við erum að tala um fyrr en viðræður við bandalagið hefjast.

Völdin á Íslandi nú eru hjá handfylli af ríkustu einstaklingum landsins.  Það eru nokkrar fjölskyldur sem eiga hér verslanirnar, tryggingarfélögin og bankana og forseta landins er boðið í þotuferðir til að kaupa tryggð hans.  Hvers konar valddreifing er það?  Er þá ekki alveg eins gott að ganga í evrópusambandið?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær pistill, takk fyrir!

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.8.2008 kl. 10:54

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

he he góð lesning Kári. 

Óskar Þorkelsson, 5.8.2008 kl. 11:13

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Meinarðu ekki Andstæðingar Evrunnar, ekki Andstæðingar krónunnar, þarna í þriðju síðustu málsgrein?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 5.8.2008 kl. 12:18

4 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Áfram Kári - á málefnlegu nótunum.   Afkomuhagsmunir venjulegs fólks eru að mínu mati mikilvægustu röksemdirnar fyrir því að við megum ekki draga það einn mánuð í viðbót að hefja viðræðuferli um fulla aðild að ESB - - með þeim sértæku-/almennu undanþágum sem unnt er að réttlæta sem hluta af "almannahagsmunum"

Viðræðuferlið getur verið stutt  - - það hefur verið margstaðfest af fulltrúum ESB.  Okkar vandi liggur líklega mest í því að stjórnarskránni okkar verður ekki breytt fyrr en með næstu kosningum til Alþingis.    Við þyrftum að geta tekist á við fyrstu atkvæðagrei'ðslur um málið á árinu 2009.    Ekki virðist Geir Haarde líklegur til að rjúfa nú þing á næsta ári og fara í alvöru stjórnarskrábreytingar - - þar sem bæði framtíðarstjórnarskrárbreytingar og stærri ákvarðanir verða færðar í fastan ramma um þjóðaratkvæðagreiðslur.   Um leið og skilgreindir ferlar verða settir um það hvernig á að halda þjóðaratkvæði -og hvernig unnt er að framkalla slíkt  - með öðrum hætti en meirihlutaákvörðun Alþingis.

Setji ríkisstjórnin fulla ESB aðild a´dagskrá - - og öllum meginstofnunum samfélagsins - Seðlabanka og sameinuðu viðskipta- og atvinnulífi - verði þar með gert ljóst hvert við erum að fara - - þá mun skapast strax mun einbeittari sýn á efnahagsmálin.   Allir mundu þannig hagnast til skemmri tíma (nema einokunar/einkavæddu bankarnir kannski?)

Benedikt Sigurðarson, 5.8.2008 kl. 13:56

5 identicon

Fín grein en smá vesen í reikninginum ;) þvi

400 * 90 / 126 = 400 / 126 * 90 = 283

en réttara væri væntanlega:

400 / 90 * 126 = 560

Erlendur (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 14:32

6 Smámynd: Kári Harðarson

Takk, ég hef leiðrétt prentvilluna.

Kári Harðarson, 5.8.2008 kl. 14:39

7 identicon

Frábær pistill (eins og flestir þínir pistlar)!

Það vantar nokkra menn eins og þig inná Alþingi

Haukur H. Þórsson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 15:13

8 Smámynd: Jón Stefánsson

hear hear

Jón Stefánsson, 5.8.2008 kl. 17:05

9 identicon

Góður pistill

skil ekki hversvegna stjórnmálamenn hafa hingað til ekki farið af stað með viðræður. Það eru til endalaus sjónarmið um hinar og þessar niðurstöður aðildarviðræðna en allt eru þetta pælingar út í loftið þangað til menn hafa actually sest niður og rætt málin.

Þegar búið er að semja finnst mér svo að ætti að leggja endanlega ákvörðun fyrir alþjóð í kosningum.

O. 

Ormurinn (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 17:21

10 Smámynd: tatum

Það sem þarf hér á landi er að aftengja verðbætur, verðtryggingu, og skipta út öllum þeim sem setið hafa og sitja á Alþingi Íslendinga!  Hætta þessu peningasmjaðrið, sem viðgengist hefur undanfarin ár.  Það er engu líkara en sumir hafi verið að skríða útúr torfkofanum, slík er peningadýrkun stjórnenda þessa lands, (þyggja flug með einkaþotum ofl í þeim dúr). 

Þetta er frábært blogg hjá þér! 

og smá dæmi í lokin: kexpakki kostaði 82 kr. fyrir (hryllingsfyrirbærið) fall krónunnar kostar í dag 146 kr.  á sama tíma var samið um 3% launahækkun fyrir launþega landsins!

tatum, 5.8.2008 kl. 20:31

11 identicon

Sæll Kári

Margt sniðugt hjá þér. En því miður er þetta ekki svona einfalt. Okkar vandi hefur ekkert með krónuna að gera. Enn þá síður mundi það laga vanda okkar að fella tollamúra og auðvelda enn frekar innflutning.

Okkar vandi er nefnilega sá að við sem þjóð erum í fyrirsjáanlegum gjaldeyrisvanda. Okkur vantar gjaldeyri í framtíðinni til að flytja inn nauðsynleg aðföng, hvað þá lúxus og annað sem gaman væri að geta keypt.

Held að erlendar heildarskuldir þjóðarbúsins séu að nálgast 10.000 miljarða. Menn jafn flinkir og þú ættu að geta reiknað vaxtagjöldin af þeirri upphæð, tekið tillit til algjörs hrun útrásar og horft síðan á bankana okkar og metið í hvers konar stöðu þeir eru í raun og veru. Með útflutningsgreinar sem rétt skaffa þetta 250 miljarða í útflutningstekjur sem duga alls ekki fyrir vaxtagreiðslum einum saman, hvað þá afborgunum og nauðsynlegum innflutningi.

Því miður er ég hræddur um að málið sé mun dýpra og verr viðráðanlegra en svo að niðurfellingu á tollamúrum og upptaka Evru leysi eitt né neitt.

Bjarni Einarsson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 23:20

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

var ekki í frettunum í kvöld að seðlabankinn gæti greitt allar skuldir þjóðarbússins ?

Óskar Þorkelsson, 5.8.2008 kl. 23:29

13 Smámynd: Kári Harðarson

Sammála Bjarni, upptaka Evru leysir engin vandamál þjóðarbúsins -- en neytendur munu hafa það hlutfallslega betra ef hún kemur.

Kári Harðarson, 6.8.2008 kl. 00:05

14 identicon

Viltu þá ekki ríða á vaðið fyrir okkur og biðja um 160 þús kauphækkun?

400/(90/126) = 560.

Láta svo vita hvernig gengur?

kv

Bjartur (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 08:37

15 Smámynd: Kári Harðarson

Ég held að þú sért að gefa í skyn að ég vilji taka upp evruna núna og að þá myndi ég þurfa að sætta mig við 25% launalækkun sem ég myndi auðvitað ekki vilja.

Það var ekki mín skoðun. Ekki gera mér upp skoðanir sem þú ræðst svo á (sjá lið 16, "Straw man"). Ég vil ekki taka upp evruna núna, enda stendur það íslendingum ekki til boða núna þótt við vildum það. Greinin mín að ofan minntist á í byrjun að evran er ekki svar við þeim vandamálum sem að okkur steðja núna.

Greinin mín er um að ef evran verður tekin upp mun leikvöllurinn á Íslandi verða jafnari og bankar, tryggingafélög og innkaupahringir munu fá erlenda samkeppni sem þeir svo sárlega þurfa á að halda.

Hrun krónunnar er óskylt vandmál og kallar á aðra lausn sem er að íslendingar borgi sínar skuldir við útlönd, en það er nokkuð sem enginn ráðherra kippir í liðinn sísona. Ákveðnir aðilar á Íslandi hafa spilað á hagkerfi sem var ekki í jafnvægi og eru farnir með hagnaðinn úr landi meðan aðrir íslendingar sitja í skuldasúpu. Skaðinn er skeður og engar ódýrar lausnir. Þess vegna er Geir Haarde fámáll.

Kári Harðarson, 6.8.2008 kl. 10:42

16 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Góð lesning. Alltaf gaman að koma á bloggið þitt.

Mér finnst einnig einn punktur vanta varðandi umræðuna um Evruna. Andstæðingar hennar segja alltaf að Evran sveiflist eins og íslenskan krónan. Vissulega sveiflast hún rétt eins og allir gjaldmiðlar. Aftur á móti þá myndu þær sveiflur hafa miklu minni áhrif á okkur ef við værum með Evru þar sem að flest okkar viðskipti eru nú þegar í Evrum. Sveiflurnar væru þá frekar gegn öðrum stórum gjaldmiðlum líkt og Dollar og Pundi.

Egill M. Friðriksson, 6.8.2008 kl. 20:43

17 Smámynd: Snorri Hansson

Með peningafærslum felldu bankarnir krónuna til þessað geta sýnt hagnað. Stjórnendum bankana kemur vegsemd fyrirtækja og almennings ekki við.Við verðum með lögum að koma í veg fyrir að peningastofnanir geti framið svona ofbeldisverk á fjármálum landsins. Það gengur ekki að þær gangi um þjóðarhag eins og fílar í glerhúsi. Athugið að þetta eru einkafyrirtæki. Við eigum að laga þetta og hætta þessu evrópuaðildarvæli. 

Snorri Hansson, 7.8.2008 kl. 02:45

18 Smámynd: Kári Harðarson

Ef við gætum lagað öll okkar mál þyrftum við ekki að ganga í bandalagið. 

En -- af hverju voru lögin ekki sett miklu fyrr?   Ég hef ekki séð viljann til þess og grunar að samkrullið sé orðið of mikið milli stjórnenda og auðvalds.  Dæmi um þetta er að þjóðhagsstofnun var lögð niður af því hún var ekki nógu sammála bjartsýnum spám greiningardeilda bankannna.

Umbætur á bankakerfinu verða þagaðar í hel eða framkvæmdar seint og illa því margir hafa hag af núverandi ástandi bak við tjöldin þótt meðal-Jóninn syndi í skuldasúpu.

Ef þjóðin ákveður að ganga í evrópubandalagið fer af stað stór bylgja sem jafnvel stórir sérhagsmunapotarar eiga erfitt með að lægja.

Kári Harðarson, 7.8.2008 kl. 10:16

19 identicon

Ég minntist ekki einu orði á evruna.

Þú hefðir gott af því að skoða þessar rökleysur þínar sjálfur.

Þú segir "Innkaupakarfan sem kostaði 9 þúsund um áramótin kostar 16 þúsund núna.  Er það ekki launalækkun?" 

Finnst þér þá ekki rétt að biðja um kauphækkun núna? 

Eða sættir þú þig við að raunvirði launa þinna er komið niður í 285 ?

 "400 * 90 / 126 = 285"

kv 

Bjartur (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 20:48

20 Smámynd: Kári Harðarson

Strangt til tekið er hækkun á matarverði ekki launalækkun heldur verðbólga.  Ég hefði átt að orða þetta betur og biðst afsökunar.

Ég var að reyna að segja að vöruhækkanir og launalækkanir væru jafn slæmar fyrir neytendur.  Þess vegna væri tilgangslaust að hóta því að ef við tökum upp evruna mætti búast við launalækkunum af því það skiptir ekki máli þegar upp er staðið.

Ég efast um að ég biðji um kauphækkun núna en ég á vissulega mjög erfitt að sætta mig við þessa kjararýrnun.  Það er hins vegar frekar persónulegt mál hvort ég hyggst gera það.  Af hverju viltu vita það?  Hvert ertu að fara með þessari röksemdafærslu?

Kári Harðarson, 8.8.2008 kl. 00:27

21 identicon

Það vakir fyrir mér að vekja þig til umhugsunar um hvað það er sem þú ert að reyna að segja í þessum pistli.

Flestum svíður sú kjaraskerðing sem hefur orðið við fall krónunnar. Kaupmáttur hefur minkað. Það má búast við aðgerðum frá verkalýðsfélögum enda eflaust forsendur margra kjarasamninga brostnir eða við það að bresta.

Ég skynja, þó þú segir það ekki beint, að þú gerir þér grein fyrir að prósentureikningurinn gefur ekki alveg rétta mynd. Það er eitt að reikna og annað að skoða hvað niðurstaðan segir manni.

Gamanið hefur einnig kárnað í löndunum í kring, þannig eru bankar og fjármálafyrirtæki í Bretlandi búnir að segja up fleiri þúsundum  starfsmanna vegna samdráttar og fasteignamarkaður þar hefur einnig dregist saman svo dæmi sé tekið. Ef reikningurinn á að gefa raunhæft mat að þá þarf að taka öll gildi með. Það er vissulega rétt að vegna falls krónunnar að þá þýtur verðlag upp úr öllu valdi og að verslunarrekendur eru ekki líklegir til að leiðrétta það þegar krónan styrkist.

Ég veit að ég þarf ekki að benda þér á að ekki einungis þurfum við að vera í Evrópubandalaginu til að taka up Evruna, eins og þú segir, heldur þurfum við einnig að taka upp evruna ef við göngum í Evrópubandalagið.

Það er því ljóst af svörum þínum að fyrst þú vilt ekki taka up Evru nú að þá viltu ekki heldur ganga í Evrópubandalagið núna. 

Ég viðurkenni að ég var að stríða þér dálítið, það var gert með það í huga að vekja þig til umhugsunar um hvað þér finnist að launafólk eigi að gera?

Hvaða lausnir sérð þú í stöðunni til að launafólk geti endurheimt sinn hlut?

mbkv 

Bjartur (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 20:32

22 Smámynd: Kári Harðarson

Sæll aftur Bjartur,

Það verður fátt um svör hjá mér.  Vandinn var svo lengi að verða til.  Ég held að venjjulegt fólk hafi tapað svo mörgum litlum baráttum.  Verkalýðsfélögin eru bitlaus, fólk lætur fífla sig til að skrifa upp á launaleynd, neytendasamtökin eru máttlaus, fólk hefur ekki verðskyn og borgar offjár fyrir vörur.

Ég treysti stjórnvöldum illa núna, held þau séu ofurseld auðvaldinu.  Við þurfum að læra aftur að vera meðvituð sem neytendur, borgarar og launþegar, ganga í samtök, gera kröfur.  Þetta kostar vinnu og verður ekki auðvelt, og ég veit ekki hvort nútímafólk er tilbúið í slaginn.

Þegar ég drep vespu segja þeir sem sitja nálægt mér: "passaðu þig, hún gæti stungið".  Mín reynsla er að þær eru of vitlausar til þess, þær vita ekki hvaðan höggið kom.  Ég lem bara aftur þar til ég drep og hef ekki verið stunginn ennþá.

Ég hugsa stundum að íslenskir launþegar og neytendur eru eins og þessar vespur.  Það suðar í þeim og ef þeir næðu vopnum sínum hefðu auðmenn eitthvað að óttast, en það er lítil hætta á því...

Kári Harðarson, 9.8.2008 kl. 22:21

23 identicon

Snilldarpistill Kári!  Ég styð þig til þingframboðs....

Sigfús (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 06:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband