LifeWave orkuplástrarnir sívinsælu!

Á sama tíma og Ísland er í sárum eftir stærsta pýramídasvindl seinni tíma (fasteignabóluna) eru menn og konur að selja Lifewave orkuplástra í kaffiboðum víðs vegar um Reykjavík.
ee_box.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Eitt er víst að það fæðast nógu margir heimskingjar á hverri mínútu til að vega upp þá sem vitkast eitthvað.

Lifewave plástrar innihalda ekki neitt og þess vegna getur lyfjaeftirlitið ekki amast við þeim, þeir ná einfaldlega ekki inn fyrir þeirra verksvið.

Skýringin á virkni plástranna hefur eitthvað með nanóefni og orkusvæði að gera.  Fyrir nokkrum árum hefði það heitið rafsegulbylgjur og heilunarreiki og þar áður snákaolía.
snake-oil.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirtæki eins og LifeWave eru í sama flokki og ruslpóstur.  Þau geta þrifist af því það er of mikil vinna að lögsækja alla svindlarana.  Það má segja um þessa plástra að þeir séu skattur á heimskingja, rétt eins og happdrætti er skattur á þá sem kunna ekki stærðfræði  (ég tek fram að þeir sem kaupa miða til að styðja góðan málstað fá alla mína virðingu og eru ekki teknir með í þennan sleggjudóm).

Hér er mynd af 499$ Ethernet snúru sem þarf að snúa í rétta átt til að "hámarka orkuflæðið".  Hún er frá ekki ómerkari framleiðanda en Denon.  Fyrir þá sem ekki vita það eru 0 og 1 sömu gildin sama hvaða snúra er notuð...

denonsnura.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

Henni er lýst með þessum óborganlega texta:  The AK-DL1 will bring out all the nuances in digital audio reproduction from any of our Denon DVD players...   Additionally, signal directional markings are provided for optimum signal transfer.

Kaupið frekar 800 krónu snúru hjá Örtækni og styðjið góðan málstað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hvernig var það aftur með "orku-megrunar-duftið" sem var auglýst grimmt á einhverri útvarpsstöð nýverið og reyndist hleypa blóðþrýstingi fólks upp úr öllu valdi ?

Það var nú alveg greinilega "eitthvað í því" ?   Þó varla til hins betra...

Sennilega var snákaolían bara skást af öllu gumsinu...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.2.2009 kl. 10:00

2 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Ég hef lengi notað snákaolíu með góðum árangri við feimni

og því að liggja lágt rómur. Svo er ég alltaf að vinna í Happdrætti HÍ.

En ég er líka mjög lélegur í Stærðfræði. En í kreppu er auðvitað rétt

að áætla að allar "patent" lausnir komi upp á yfirborðið. En svo kemur

kannski einhver "snilld" út úr þessu öllu saman að lokum. Var ekki Coca Cola

upphaflega hálfgerð snákaolía? Hvar fær maður annars þessa Lifewave orkuplástra?

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 27.2.2009 kl. 10:25

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ertu að meina þessa plástra sem eiga að hjálpa fólki að sofa og minnka hrotur?

Þekki einn sem sefur reyndar alltaf við hlið mér hverja nótt sem hefur prófað með alveg hreint fádæma góðum árangri..sefur mun betur. hrýtur varla nokkuð og vaknar úthvíldur í stað þess að vakna þreyttur eftir ótrúlega háværar nætur. Ég sef líka miklu betur þegar hann er með plásturinn góða..tveir fyrir einn á alveg við í þessu tilviki Og þetta er það EINA sem hefur virkað fyrir minn mann og trúðu mér það er búið að prófa allt á löngum tíma..læknisfræðilegt og annað óhefðbundnara og ég mun halda áfram að plástra hann bak og fyrir hvað sem öllum snákaolíum líður og skoðunum þeirra sem ekki þurfa því við sofum bæði betur og það er það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið. Og þarna er nú ekki hægt að tala um að varan virki einfaldlega vegna þess að viðkomandi haldi það...eða sé svo trúgjarn..er það nokkuð?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.2.2009 kl. 10:52

4 Smámynd: Kári Harðarson

Hrotuplástrarnir eru til frá þeim.  Hér er útskýringin á virkninni:

It’s been known for thousands of years that specific frequencies of light can cause specific changes within the human body. When we go out in the sun, a frequency of light causes our body to make Vitamin D. Another frequency of light (UV) will cause our body to make melanin, the chemical that gives us a sun tan.

Silent Night patches use this knowledge to stimulate acupuncture points on the body for improving the flow of energy and producing drug-free sleep within the first evening of use.

No comment...

Kári Harðarson, 27.2.2009 kl. 11:01

5 identicon

Mér finnst alltaf réttara að fólk kynni sér hlutina áður anað er út í einhvern rugl-hræðslu áróður. þessir umræddu plástrar virka mun betur en margt annað sem  selt er hér sem fæðubóta eða heilsueflandi efni. þetta hjálpar mörgum sem eiga við ýmis heilsufarsleg vandamál að etja. þar að auki er alþjóða ólympiunefndin búin að samþykkja orkuplástrana fyrir alla iþróttamenn og konur.

Ég tek undir með Katrínu Snæhólm. Svefn plástrarnir gera kraftaverk, orku og verkja plástrarnir hafa líka hjálpað ótrúlega vel. Ég er í símaskránni ef einhver hefur áhuga á að vita meira. 

Ég ráðlegg ykkur að kynna ykkur betur hlutina áður en þið farið að rakka þá niður.

Kveðja.  Jóna Marvinsdóttir 

Jóna Marvinsdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 13:07

6 Smámynd: Jón Magnús

Ég bendi einnig á þessa umfjöllun um þessa plástra, hún er nú ekkert mjög ítarleg en það kemur vonandi ítarlegri umfjöllun síðar (http://www.vantru.is/2009/02/05/15.00/)

En Jóna, þessir plástrar innihalda ekkert - engin virk efni (það er hugsanlegt að það sé smá sykur í þeim).  Þetta er eins og setja plástur á bágtið en fyrir fullorðna.  Vá hve fólk getur verið einfalt.

Einnig er þetta selt svipað og Herbalife var gert fyrir nokkrum árum - allir eiga að vera sölu menn og kaupa sér lager sem þeir flestir geta aldrei losnað við.  Multilevel marketing heitir þessi aðferð og afbrigði af henni eru vel þekkt sem vindl- og svikastarfsemi (http://en.wikipedia.org/wiki/Multi-level_marketing).

Ekki vera sucker!

Jón Magnús, 27.2.2009 kl. 13:42

7 identicon

Alþjóða Ólympíunefndin er nú ekki í þeim bransa að veita orkuplástrum og álíka drasli gæðastimpla og mæla með notkun fyrir íþróttafólk. Ef þetta dót hefur einhverntíman komið inn á borð hjá IOC þá hefur það verið vegna þess að nefndin hefur ákveðið að setja þetta ekki á bannlista með öðrum örvandi lyfjum, einmitt vegna þess að þetta gerir hvorteðer ekki neitt. Þá er allt eins hægt að segja að Ólympíunefndin sé búin að "samþykkja" árunudd, nálastungur og seglameðferðir vegna þess að það er engin ástæða til að banna svona bull.

Bjarki (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 13:50

8 Smámynd: Kári Harðarson

Ég kynnti mér hlutina reyndar, með leit á http://scholar.google.com en þar er fljótlegt að sjá hvaða vísindagreinar hafa verið birtar um hluti.

Það hefur næstum ekkert verið birt um þessa plástra nema nokkrar greinar teknar af heimasíðu LifeWave.com. 

Ég veit að það finnast einstaklingar sem telja sig hafa fundið mun á sér.  Placebo áhrif eru vel þekkt.  Svo hef ég ekki meira um málið að segja.

Kári Harðarson, 27.2.2009 kl. 14:39

9 Smámynd: Stefán Freyr Stefánsson

Katrín: Mér þætti fróðlegt að sjá hvað myndi gerast ef þú myndir stelast til að skipta um plástra hjá manninum þínum og setja í staðinn plástra sem litu alveg eins út en innihéldu ekki neitt. Það er aragrúi af ástæðum fyrir því að fólk hættir að hrjóta allt í einu og stundum þarf ekki einu sinni ástæðu til, það bara gerist. Dæmi um utanaðkomandi ástæður gætu t.d. verið reglulegri svefn, þyngdartap og margt fleira.

Jóna: NEI! Kynnt ÞÚ þér málin betur áður en þú prangar þessu kjaftæði inn á fólk. Það er YKKAR að sýna fram á að þessir hlutir virki með því að leggja fram óyggjandi vísindalegar rannsóknir sem hægt er að endurtaka til að sannreyna niðurstöður! Það er hreint óþolandi að fólk vaði uppi og heimti að aðrir sýni fram á gagnsleysi þessara hluta þegar það sjálft græðir á því að selja þá! Nóg komið! Fyrir svo utan það að það er löngu margbúið að sýna fram á gagnsleysi þeirra (sjá hér að neðan)!

Ég bendi fólki sem vill í raun og veru kynna sér þessar "lausnir" á vel rökstudda grein á Wikipedia um homeopathy, sérstaklega frá og með þessum kafla http://en.wikipedia.org/wiki/Homeopathy#Medical_and_scientific_analysis. Þarna er á ferðinni raunveruleg röksemdafærsla með vísanir í endurtakanlegar vísindarannsóknir.

Ef ykkur er svona mikið í mun að við "efasemdafólkið" hættum að rakka ykkur niður og benda á hvurslags peningaplokk þetta er þá skuluð þið álpast til þess að sýna rannsóknir á sama plani og þær sem vísað er á í ofangreindri grein.

Kári: Afsakaðu þessa sprengju hérna í mér. Ég get bara ekki orða bundist yfir hræsninni í fólki sem heimtar röksemdafærslur frá öðrum án þess að líta sér nær. Eflaust er slatti af fólki sem selur þetta í góðri trú og ég vona að það fólk sjái að sér og kynni sér málin, en svo er fólk sem kemur með svona kröfur, það er fólkið sem ég er að láta heyra það hér.

Stefán Freyr Stefánsson, 27.2.2009 kl. 16:19

10 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég hef líka heyrt að bænir virki líka..

Jón Ragnarsson, 27.2.2009 kl. 16:33

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Katrín mín, þú ert væntanlega að lýsa placebo effect eða sjálfsefjun. Akkúrat ekkert er í þessum plástrum eins og í sykurpillum sem gefnar eru í tvíblindum lyfjaprófunum. Það er alltaf hluti þeirra, sem sykurpilluna fá sem lagast. Endilega segðu manninum þínum ekki frá þessu og láttu hann halda áfram að setja þessa plástra á sig, já og raunar hvernig plástra sem er eins og bent er á.

Innihalds og áhryfalýsingarnar eru sprenghlægileg lesning Kári. Gaman að þessu. Ekkert um aukaverkanir, nema að þær séu engar af ekki neinu. Sem er mögulegt.

Þetta er svona eins og hómópatían , sem blandar minna en engu í vatn eða spíra og selja grimmt. nokkur mólekúl af grasfræi í lítra va vatni, lækna heymæði eða þannig.

Nýjasta kreisið á netinu er MMS, Miracle Mineral Supplement, sem læknar allt. Jamm. Terminal krabba eða Aids á nokkrum dögum. Uppistaðan er sítrónusafi og algengt klórsamband, sem breytist í brennisteinssamband við íblöndun. Lyktar illa og ódrekkandi og þessvegna trúir fólk þessu. Það er raunar hinn besti skemmtilestur að lesa fullyrðingar þeirra.

Svo er vert að nefna stofnfrumunudd, sem boðið er upp á hér á landi ásamt DNA nuddi. (verða væntanlega að vera handnettir nuddarar) Svo er það DNA lækningatónlist, sem meira að segja læknar heyrnaleysi ef hlustað er á hana.

Fólk sem er illa haldið af þessari trúgirni ætti að kynna sér James Randy og kannski lesa Breaking the Spell eftir Daniel Dennett, nú eða Demon Haunted World eftir Carl Sagan. Takist inn með glasi af köldu vatni kvölds og morgna, þar til skammturinn er búinn. Ef þetta virkar ekki nægilega vel, þá skal endurtaka lesmeðferðina hið bráðasta.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2009 kl. 17:57

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

ZZZ: Bænir hafa í raun verið prófaðar í viðurkenndum rannsóknum og það nokkrum, sem birtar hafa verið í NATURE og gott ef ekki Lanset. Það sem kom út úr því var að þær sögðu akkúrat ekki neitt. Raunar kom í ljós í nokkrum þeirra að hinir sjúku sem báðu eða var beðið fyrir komu heldur verr út úr þessu.  Menn vildu ekki hrapa að ályktunum þar og skrifuðu það á tilviljun, en halda opnu að neikvæð áhrif geti verið tengt sálrænum þætti bataferils t.d., sem er ekki óverulegur, eins og menn vita.

Annars finnur þú þetta allt á netinu.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2009 kl. 18:05

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

ZZZ: Reikna samt með að þú bendir á þetta í kerskni, en ég stóðst ekki mátið að benda á þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2009 kl. 18:08

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jóna Marvinsdóttir sölumanneskja þessarar dellu: Að sjálfsögðu kynnir maður sér efnið.  Hefur þú gert það?  Hefur þú kynnt þér Dr. Frank Shallenberger? Maður sem missti læknaleyfi í kaliforníu fyrir margþættar sakir og er úthrópaður kuklari þar í landi. Settu nafn hans t.d. inn með leitarorðunum Charlatan, fraud, quack, hoax etc. og sjáðu hvað þú finnur.

Prófaðu að lesa þetta t.d. http://faculty.uml.edu/sgallagher/ForsytheShallenberger.htm

Leiðinlegt að taka frá þér hjátrúna. Lífið er bara ekki eins og maður vildi óska. Menn í hvítum sloppum, sem fara með "superficial scientific jargon" eru einmitt þeir sem þú ættir að setja spurningamerki við. Þú ert bara meðvitað eða ómeðvitað að taka  þátt í svindli og féflettingum, lygi og blekkingum. Það að Ólympíunefndin amist ekki við þessu af því að gerir ekkert, þýðir ekki að þeir séu að hampa því eða mæla með. Þeir amast líklega ekki við annarri homopatíu af því að hún inniheldur ekkert. Helst að þeir fettu fingur út í alcohólið sem verið er að selja með þessum hætti á þúsundir króna fyrir nokkra millilítra af engu.

Fyrirgefðu svo Kári minn að svína svona út hjá þér. Mér er málið hugleikið eins og aðrar bábyljur.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2009 kl. 18:30

15 identicon

Þið eruð í ruglinu. Auðvitað verðið þið að sanna að plástrarnir virki ekki ef þið ætlið að koma með svona sleggjur:) hehe

Andri Valur (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 21:10

16 Smámynd: Heimir Tómasson

Var ekki bara plásturinn settur yfir munninn á þeim sem hrutu?

Heimir Tómasson, 1.3.2009 kl. 05:42

17 Smámynd: Kári Harðarson

Stundum eru lyf nauðsynleg, þótt þau hafi miklar aukaverkanir.   Ef trúgirni kemur í veg fyrir að menn sæki sér hjálp sem dugar, þá verð ég að vera ósammála.

Mig grunar að flestir dufli við plástra eftir að hafa reynt hefðbundnar leiðir og þá er svosem enginn skaði skeður nema á buddunni.

Allar lausnir sem eru "þessa heims" eiga að geta þolað gagnrýna skoðun sérstaklega ef framleiðendurnir reyna að slá vísindaryki í augu kaupendanna.  Hvað er virka efnið?  Það dugar ekki að nota málfar vísindanna og tala um D-Vítamín og Melantónín og "Nanóefni" en geta svo ekki rökstutt mál sitt á vísindalegan hátt.  Vísindin eru ekki bara menn með úfið hár í hvítum sloppum, þau eru verklag sem þarf að beita - og virðist ekki hafa verið beitt af framleiðendum límbandsins.

Kári Harðarson, 2.3.2009 kl. 09:34

18 Smámynd: Heiðar Sigurðsson

Ég þekki nokkra sem eru af sama sauðahúsi og Kári og fleiri sem hafa tjáð sig hér, menn sem vita alltaf allt miklu betur en allir aðrir.  Það er lúmskt gaman að svona köllum, en ég er löngu búinn að læra að það er ekki nokkur möguleiki að rökræða við þá.  Þeir horfa bara á lífið í gegnum sinn þrönga kíki og harðneita því að það geti verið nokkuð að marka aðra hluti en þeir sjálfir halda fram.  Hvað þá að það geti verið til fyrirbæri í veröldinni sem ekki er hægt að reikna út eða sýna fram á á blaði eða tölvuskjá.

Ef ég fæ betri lausn á mínu svefnvandamáli við það að líma á mig einhvern plástur heldur en að briðja svefntöflur þá vel ég frekar plásturinn.  Jafnvel þó hann innihaldi hugsanlega"ekki neitt" eða  eitthvað sem ég skil ekki til fulls, og jafnvel þó ekki sé hægt að finna einhvern rökstuðning og vísindalegar greinar um plásturinn á netinu.

Kári ætti m.a.s. að vera feginn í kreppunni, því ef ég ét svefnpillurnar þá þarf hann að borga fyrir þær.  Ég borga þó fyrir plástrana úr eigin vasa.

Ef einhver hefur áhuga á að vita meira um þessa ágætu "galdraplástra" þá bendi ég t.d. á www.heidarsig.net/lifewave.  

Heiðar Sigurðsson, 26.3.2009 kl. 16:38

19 Smámynd: Heimir Tómasson

Það er alveg rétt að ef að það að setja á sig plástur virkar þá er það að sjálfsögðu betra að nota hann heldur en bryðja lyf, það er satt og óumdeilanlegt. Það sem okkur finnst hinsvegar skondið er þessi trúarlega ástríða hjá fólki þegar það er að reyna að selja hugmyndina. Æsingurinn verður svo mikill hjá sumu fólki að því sést varla fyrir og það laumar alltaf ósjálfrátt upp í huga manns að það sé einhverskonar píramída skema í gangi með svona. Gallinn er sá að þegar svona hugmyndir koma fram (lifewave eða hvað annað sem er) þá er frekar auðvelt að gera pöpulinn andsnúinn, akkúrat með oft á tíðum ofstækisfullri markaðssetningu. Svo þegar menn gera grín að þessu öllu saman þá eru menn sakaðir um að vera þröngsýnir.

Og Andri Valur, ég held að sönnunarbyrðin sé í hina áttina. Það þarf að byrja á að sanna að þeir virki, áður en að hægt er að fella nokkra dóma. Ef að ég finn upp wurglesplator og markaðsset það ágæta tæki/lyf/aðferð, þá þarf ég að sanna að það virki. Það gengur ekki að menn segi hreinlega að það virki eða virki ekki án þess að rannsóknir fari fram. Og þar koma vísindin inn í. Það er lengi hægt að segja fólki að eitthvað virki ekki, en það er erfiðara að sannfæra það um að það virki. Af hverju þá ekki taka vísindin í lið með sér? Nema náttúrulega það virki ekki og hafi aldrei virkað, þá er betra að vísindalegar rannsóknir komi hvergi nærri afurðinni.

Heimir Tómasson, 26.3.2009 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband