Veljum íslenskt & verum frumkvöðlar (ef við getum)

Kunningi minn breskur var að stofna lítið fyrirtæki hér í Reykjavík (sem gárungarnir kalla víst Krísuvík núna).  Fyrirtækið gerir upp og selur handsmíðuð reiðhjól.

Hann þurfti að gráta á öxlina á mér og ropa einum súrum ropa.  Hann hafði ætlað að nálgast ósköp venjulegan trékassa sem hann hafði skilið eftir heima hjá sér í Bretlandi, kassinn innihélt varahluti í reiðhjól, keðjur, gíra og fleira smálegt.  Það lítur út fyrir að hann verði að vera án kassans, því í fyrsta lagi átti innflutningurinn að kosta 50 þúsund kall samkvæmt skipafélaginu hér, og svo er allt of mikil vinna að koma svona blandi í poka í gegnum tollinn.  Hann hafði bara ætlað að póstsenda einn kassa en þetta varð að stórmáli.  Hann virðist þurfa að eyða vinnuviku og arði mánaðarins til þess.

Hann segist vera farinn að skilja hvers vegna allt er svona dýrt hér.  Hann var alvarlega að hugsa um að fara til Bretlands og koma aftur með kassann í ferðatösku af því það yrði fljótlegra og ódýrara.  Hvernig eiga menn að stofna fyrirtæki þegar Ísland hagar sér eins og Norður Kórea í þessum málaflokki?  Ég hvatti hann til að skrifa grein og útskýra fyrir íslendingum muninn á Íslandi og því sem hann er vanur.

Ég held að svona sandur í tannhjól atvinnulífsins sé gífurlega letjandi og láti marga íslendinga gefast upp fyrirfram.  Þeir vita betur en að reyna, eru bara vanir þessu.  (Þessi einangrun er reyndar aðal ástæðan fyrir því að ég vil ganga í ESB).

Á tyllidögum nefna menn alltaf "frábær fyrirtæki eins og Össur, Marel og CCP".  Af hverju eru fyrirtækin í setningunni alltaf þau sömu, og alltaf bara þrjú?

 

Hér eru nokkrar hugmyndir sem ég vil skjalfesta fyrst ég er byrjaður að skrifa um vöruþróun.

---------------------

Næringarfræðingur sagði mér að íslendingar flytja inn eggjahvítu (prótein) fyrir milljónir í formi alls konar dufts (herbalife, orkudrykkir o.s.frv.) en mjólkursamsalan hendir undanrennudufti sem er ekkert nema prótein.  Synd ef satt.  Ég hef reynt að kaupa stamp með undanrennudufti til að nota sem prótein viðbót í "Boozt" shake, en duftið leysist illa upp og er ekki gott á bragðið.  Þarna vantar kannski vöruþróun?

 pgnc1-4243556dt.jpg    7505.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

---------------------

Ég lýsi líka eftir hörðum íslenskum osti.  Ég kaupi ítalskan Parmesan en myndi frekar vilja íslenskan. Sá ítalski er væntanlega á okurverði hér af því hann er ofurtollaður til að verja íslenska Parmesaninn?

Spaghetti er ekki að fara neitt og fólk setur parmesan ofan á það svo markaður fyrir harðan ost er frekar öruggur.

---------------------

Meðan ég bjó í Frakklandi keypti ég oft súpur í fernum.  Hér fást súpur bara sem innflutt duft eða niðursuðuvara, og úrvalið er ekki gott.  Ég lýsi hér með eftir ferskum súpum úr íslenskum hráefnum.

krakus_zupy_soups_red_borscht_sour_soup_zur_zurek_white_borscht_tomato_soup_pomidorowa_49105313.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

---------------------

Getum við búið til rúmdýnur úr íslenskri ull?  Bandaríkjamenn virðast geta sofið á henni.  Dýnan á myndinni er úr ull.

wool_mattress.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég spurði mann hvort rúmdýnur úr stálgormum væru ekki það fínasta fína?  Hann sagði að Bandaríkjamenn hefðu fundið upp á því að nota stál í rúmdýnur af því þeir væru stáliðnaðarþjóð.  Þeir búa til bíla úr stáli þótt það sé níðþúngt og láti bílana eyða allt of miklu, þeir gera meira að segja skrifborð úr stáli.  "Fínustu dýnurnar eru úr ull og svampi en hann er bara dýrari en stálið".  Svo mörg voru þau orð.  Kannski erum við eskimóar að kaupa ísskápa þarna.

---------------------

Í lokin er vöruþróun sem ég er ánægður með: Kötturinn okkar er hrifinn af íslenskum kattamat.  Hann fæst bara í Bónus. katttamatur_001.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kári... hvað heitir fyrirtæki breska kunningja þíns og hvar er það? Hefurðu séð hjólin? Eru þau góð?

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.6.2009 kl. 16:13

2 identicon

Þarna hittirðu naglan á höfuðið Kári!

Kveðja frá Bretlandi

p.s. Gæti nú tekið svona eitt stykki pumpu með mér fyrir hann félaga þinn þegar ég kem til Íslands í júlí.

Sverrir Sigmundarson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 18:45

3 Smámynd:

Þú ert sannkölluð hugmyndauppspretta og ættir að hafa iðnaðarráðherra með í ráðum að koma einhverju af þessu á koppinn.

, 3.6.2009 kl. 21:24

4 Smámynd: Kári Harðarson

http://kriacycles.com/

Kári Harðarson, 3.6.2009 kl. 22:14

5 identicon

ég segi ekki annað en bara "BINGO" nú er bara að senda einhvern í þessi fyrirtæki sem geta þetta og í ráðneytin.  þetta ætti ekki að vera mikið mál,  nema einhverjar annarlegar ástæður standi að baki..... ætti nú ekki að vera það.

Hafni M. Rafnsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 23:18

6 identicon

Sæll Kári,

Góður pistill, að vanda.

Mér sýnist ansi lítið hafi breyst frá því að ég startaði mínu hugbúnaðarfyrirtæki í lok níunda áratugarins og Hagstofan mældi útflutning hugbúnaðar í tonnum! Kannski er ekki við öðru að búast þegar forkólfar framkvæmdavaldsins hafa í langflestum tilvikum ekki græna glóru um málaflokkinn sem þeir eiga að leiða.  Þá geri ég ekki upp á milli dýralækna eða jarðfræðinga, sjúkraþjálfara og leikfimikennara.

Er ekki tími til kominn að breyta stjórnskipan Íslands þannig að alla vega framkvæmdavaldið sé mannað af fólki sem veit hvað það er að tala um - skítt með löggjafarvaldið?

Satt að segja held ég það sé óðs manns æði að byrja atvinnurekstur á Íslandi við núverandi aðstæður ef hugsað er til útflutnings. Hvernig í veröldinni er hægt að stóla á umhverfi með kostnaðinn í ÍSK og tekjurnar í einhverju öðru? Nema auðvitað þú erfir fiskveiðikvóta (money for nothing). Marel hefur ekki byggt neitt upp á Íslandi undanfarin ár, CCP starfar í Atlanta og Shanghæ og Össur er meira og minna bara amerískt fyrirtæki.

Næst þegar ég stofna hugbúnaðarfyrirtæki verður það trúlegast á Írlandi eða Skotlandi og meira en líklegt að ég ráði til mín einhverja gamla nemendur frá Íslandi.

Heimir Sverrisson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 04:26

7 identicon

Íslenski gæludýramaturinn fæst líka í betri gæludýraverslunum. T.d. Dýragarðinum. Takk fyrir góða pistla, þetta fær mann gjarnan til að hugsa.

Hrafnkell (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 09:44

8 identicon

Gott framtak vonandi sér þetta einhver sem gerir eitthvað úr þessu :)

kv Haffi

Hafþór Hilmarsson (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 10:46

9 Smámynd: Kári Harðarson

Hvað með ráðningu á fyrrv. samstarfsmönnum, Heimir?

Kári Harðarson, 5.6.2009 kl. 11:18

10 identicon

Kári,

ég held að mesti auðurinn sem maður getur safnað í gegnum lífið felist í því fólki sem maður hefur unnið með. Það er þess vegna alltaf fyrsta fólkið sem ég leita til þegar ég þarf að búa til snarpan hóp. Þú ert svo sannarlega í þeim klúbbi Kári!

Heimir Sverrisson (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband