Þankar um stærðfræði og lýðræði

Hér fylgir gróft uppkast af hugsunum.


Ég hef veitt fisk úr sjó. Mér fannst ég vera að fá eitthvað gefins, ég er ekki hissa á því að allir vilji kvóta. Þú gætir alveg eins valið úr hverjir fá ókeypis að borða. Fiskurinn okkar er eins og olían hjá Aröbunum.

Olían hefur verið þeirra blessun eða bölvun eftir því hvernig á það er litið. Saudi fjölskyldan hefur sölsað undir sig völd og auð í stað þess að þessi auðlind gagnist öllum landsmönnum jafnt.  Reyndar kostar lítri af bensíni 10 cent þar núna (13 krónur) sem er ódýrt -- það sama verður ekki sagt um fiskinn sem íslendingum er seldur innanlands.

Auður og völd færast á fárra hendur, það virðist vera náttúrulögmál (the power law) en við erum ekki dýr, við getum barist á móti náttúrulögmálum.  Hlutir detta niður en við smíðum flugvélar.

Ef margir væru að skapa auð hér, myndi valdð dreifast af sjálfu sér en Ísland er með mjög fáa atvinnuvegi. Til forna var það ein alþjóðasamsteypa (kirkjan), bændur og verslunarrekendur (danir) sem réðu.  (Fiskveiðar voru til en aðeins sem hlunnindi bænda, það var ólöglegt að vera bara veiðimaður en "búa" hvergi).  Öðrum var gert að standa og sitja eins og þessir aðilar skipuðu.

Í dag eru það kvótaeigendur og verslunareigendur sem ráða. Verslunareigendum er gróflega hægt að skipta í þá sem selja búvöru (MS), olíu (Skeljungur, N1,..) og matvöru (Bónus, Krónan).  Kannski má bæta við þriðja hópnum, þeim sem stjórna leiðum til og frá landinu (Eimskip, Flugleiðir).  Tímabundið bættust bankar og tryggingarfélög í hópinn en gætu verið að detta úr valdahópnum aftur.   Aðrir skipta miklu minna máli (venjulegt fólk, verkstæði, kennarar, læknar,..).

Lögin sjá til þess að það er erfitt og dýrt að fara fram hjá þessum valdablokkum, ég gat ekki notað danskt tryggingarfélag, verslun eða banka eftir að ég flutti heim.  Það var kraftaverk þegar Atlantsolía bættist á sjónarsviðið, undantekning sem sannar regluna.  Mjólka er að deyja.

Við erum með þing, dóm og ríkisstjórn sem á að veita þessum öflum mótvægi en virðast ekki gera það. Venjulegt fólk ræður minna en engu. Ég hef prófað að taka þátt í ýmsu starfi (hagsmuni hjólreiðafólks, hagsmuni tölvunarfræðinga, neytenda) og hef séð að hér eru engar boðleiðir opnar til að hafa óbein áhrif á hluti. Ég réði meiru í mínu samfélagi í Danmörku.

Ég þekki ekki þingmenn persónulega og þótt ég gerði það tel ég að þeir ráði ósköp litlu, framkvæmdavaldið og embættismenn ráða í ríkisstjórnarblokkinni og hún hefur verið í vasanum á hinum valdhöfunum, verslunareigendum, olíufélögum og kvótaeigendum.

Ef ég þarf að velja milli kommúnisma eða kapítalisma vel ég hvorugt (og ef ég þarf að velja milli Vals og KR er mitt svar "ég fer út að hlaupa").

Ef vald þjappast á fárra hendur heitir það kommúnismi. Ef auður þjappast á fárra hendur heitir það kapítalismi. Ef hvorugt gerist er það kallað "anarchy" sem er andstaðan við "hierarchy" þar sem einn trónir á toppnum. Hvað er að "anarchy"? Ég er í hlaupahópi sem á sér engann foringja. Öll mál eru leyst í bróðerni, enginn ræður meira en hinn, virðingin er alger. AA og Al-anon vinna svona líka.  (Reyndar hafa hlaupasamtökin "benevolent dictator for life" sem veit betur en að misnota vald sitt).

Hvers vegna vinnur Ísland ekki svona?  Við erum svo fá, ætti það þá ekki að vera þeim mun auðveldara?  Er hægt að setja lög í stjórnarskrá um að vald og auður megi ekki þjappast ?  Bandaríkjamenn eru (voru amk.) mjög meðvitaðir um hættu hringamyndunar, það hefur ekki verið passað hér.  Skrýmsli eins og Mjólkursamsalan, Baugur, Visa/Reiknistofnun bankanna og Olíudreifing eiga að vera óhugsandi vegna lagaramma landsins.

Valdadreifing ehf.

Rómverski herinn áleit að einn maður gæti stjórnað 100 mönnum -- ef hópurinn væri stærri yrði liðsheildin léleg og herforinginn gæti ekki lengur þekkt hvern og einn persónulega. Þess vegna voru herforingjarnir kallaðir "Centurions" en "Cent" er latína yfir 100.

Á íslandi eru 63 þingmenn fyrir 300 þúsund manns svo hver þingmaður þarf að tala við tæplega fimm þúsund menn og konur ef hann vill vera með á nótunum (og gefið væri að hann réði einhverju).  Það er ekki mjög persónulegt.

Ef við færum rómversku leiðina gæti skipulagið verið svona:

Íslendingar mynduðu hundrað manna hópa, sem hver um sig kysi formann. Þeir sem ekki mættu í hópastarf væru ekki að kjósa í neinum málum, það væri réttur hvers og eins að vera ekki með. Hins vegar held ég að ég myndi mæta í hundrað manna samkomuna mína því þar væri hægt að láta að sér kveða.

Formenn hundrað slíkra samkunda hittast og velja einn fulltrúa til að fara á þrjátíu manna fund.

Þar væru komnir saman 30 menn sem væru aðeins tveim persónulegum tengslum frá hverjum einasta íslendingi á landinu. 100*100*30 eru 300 þúsund.

Boðleiðin væri stutt.  Ég myndi tala við Jón formann, Jón velur Gunnu, og Gunna mætir á 30 manna þingið. Það væri beint lýðræði fyrir minn smekk.  Voru þetta annars Sovétin í Sovétríkjunum?  Nei, þau voru samtök verkafólks gegn valdhöfum, þetta væru handahófskenndir hópar sem hefðu upplýsingatæknina til að hjálpa sér að taka upplýstar ákvarðanir.

Ættu hóparnir að skipta sér eftir landssvæðum, aldri þáttakenda, áhugamálum, atvinnustétt? Ég held að best væri að hafa þá alveg handahófskennda, það væri bannað að mynda stóra þrýstihópa. Innan hvers hóps yrðu menn að ná sáttum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm. Ekkert að útópískum rannsóknum á dystópískum útnárum. En þetta var kannski svolítið svona á Íslandi fram undir gamla sáttmála. Þar liggur veikleikinn. Hver mun vera eftirlitið? Hjólaklúbburinn á ekki fisk og fallvötn. Hver kemur með sitt hjól og H20. Allir sammála að fara leið sem er minnst uppí vindinn. Ekki mikið eftirlit sem þarf, þannig séð.

Svo er annað í þessu að flest fólk er tilbúið að gefa upp mikið af frelsi sínu og tækifærum ef það heldur að það fái útúr því tækifæri í nútímanum. Margoft verið sýnt framá að ákvörðunartímamið flestra er mælt í dögum, ekki mánuðum eða árum. Þetta munu sumir í 100 manna hópunum nýta sér, og ná þannig undir sig áhrifum -- ekki af því þeir hafi bestu hugmyndirnar, eða séu duglegastir. Heldur af því þeir kunna best að véla með breyskleika mannnanna.

En ég á engin svör fyrir þig. Held að líklega séu bara of fáir á Íslandi. Þetta er auðlindaland og helsta vandamálið er að skipta kökunni. Það verður alltaf illa gert, amk. mun einhverjm alltaf finnast á sig hallað. Væri kannski óvitlaust að leyfa ekki hvaða bósa sem er að versla með fjöreggið og leggja það inn hjá peningakaupmönnum.

Læt svo fylgja sléttubandavísu sem eignuð er Látra-Björgu (NB. sléttubönd þýðir að lesa má vísuna aftur á bak fyrir aðra merkingu):

Táli pretta illu ann,

aldrei dóma grundar;

máli réttu hallar hann,

hvergi sóma stundar.

Andri

...

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 20:36

2 Smámynd:

Skemmtileg og áhugaverð hugvekja.

, 30.9.2009 kl. 21:10

3 Smámynd: Birnuson

Já, gerum þetta.

Birnuson, 7.10.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband