Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað má Olli Rehn segja skv. andstæðingum ESB?

Ég las þetta á amx.is:

„Íslendingar ættu að nýta tækifærið meðan Svíar sitja í forsæti Evrópusambandsins og sækja um aðild" segir Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB. Hann býst ekki við að nokkurt þjóðþing neiti Íslandi um aðild. 

[...]

Smáfuglarnir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé tímabært fyrir Olli Rehn að tala um aðild Íslands að ESB, fyrr en málið er lagt fyrir hann. Íhlutun hans og Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, af íslenskum innanríkismálum er komin út fyrir öll eðlileg mörk. Olli Rehn verður auk þess örugglega hættur sem stækkunarstjóri ESB, komi einhvern tíma til þess, að Ísland sæki um aðild.

Önnur vefsíða kallaði manninn "Slettireku" þegar hann tjáði sig síðast.

Ég spyr:  Hvar stendur skrifað að Olli Rehn megi ekki segja skoðun sína?  Hverjir mega tjá sig?

Ég hef búið ellefu ár erlendis og er orðinn hálfgerður útlendingur fyrir vikið, amk. finnst mér þessi eyja býsna heimóttarleg oft á tíðum.  Má ég tjá mig?

 


Ég kýs ekki sjálfstæðisflokkinn á laugardag

Það eru til tvenns konar kjósendur:  Þeir sem velja stjórnmálaflokk eftir að hafa lesið stefnuskrána  eins og neytendur velja vöru eftir að lesa utan á umbúðirnar, og svo þeir sem standa með sínum flokki eins og knattspyrnufélagi og telja að ef flokkurinn gerir eitthvað vitlaust eigi að mæta á landsfund, berjast og bæta þannig flokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svo gæfusamur að stór hópur þeirra sem kjósa hann er af seinni gerðinni.  Það þarf mikið til að missa slíka kjósendur.

Um helgina var ég á mannfagnaði þar sem tal snerist um pólitík.  Þar voru eitilharðir Sjálfstæðismenn með stóru S-i  (margir með ættarnöfn) sem lýstu yfir að þeir ætluðu ekki að kjósa flokkinn sinn.

Það er ekki stefna flokksins sem menn höfðu út á að setja heldur spillingin og það að stefnunni hefur ekki verið fylgt.

Spillingin er skiljanleg, enginn hefur gott af of miklum völdum of lengi.  Eina lausnin er að hvíla flokkinn.    Eru nýir formenn jafngildir nýjum flokki?  Ég held ekki - stofnanir hafa sinn eigin kúltúr sem er öflugri en svo að einn og einn nýr meðlimur breyti honum á svipstundu.

Svo er það stefnan.  Formennirnir ráða þar ekki ferðinni heldur.  Út í sal á landsfundi var grár herskari eignafólks sem stjórnar þeim sem uppi á sviðinu stóðu.  Ekki hugsjónafólk að berjast fyrir lífi lýðveldisins, heldur fók sem var hrætt við að missa það sem það hefur sankað að sér, peningum, kvóta og öðru.

Ég væri ekki að standa með sjálfum mér ef ég kysi sjálfstæðisflokkinn núna.  Ég held áfram að trúa á einstaklingsframtakið en trúi ekki að sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir það þessa stundina.

Ég er líka svolítið kaldur fyrir frjálshyggjunni í bili.  Draumurinn leit svona út:

bigmac.jpg

 

 

 

 

 

 

 

En svona varð raunveruleikinn:

bigmac1.jpg


Gamalt fólk í nýjum bílum

Ég hjólaði á opnun landsfundar sjálfstæðisflokksins og settist á efri svalirnar til að hlusta á opnunarræðu Geirs Haarde.  Ræðan var ágæt og stemningin í höllinni var góð, Geir fékk dynjandi klapp.

Ég mætti af því það var opið hús -- ég er sjálfur ekki skráður í flokkinn, vildi bara finna stemninguna á eigin skinni.

Það sló mig að allt svæðið fyrir utan höllina var þakið fínum bílum, allt frá VW Touareg og Land Cruiser og upp úr.  Inni var meðalaldur frekar hár.  Þetta minnti mig á nafn dönsku bíómyndarinnar "Gamle mænd i nye biler".  Hvað getur flokkurinn gert til að lækka aldurinn á landsfundinum -- ætti hann að reyna að lækka hann?

Ég er ekki að tala um sjálfa frambjóðendurna, heldur fólkið sem sat úti í sal.   Ef frá eru taldir nokkrir vatnsgreiddir SUSarar voru næsta fáir sem voru ekki með grásprengt hár.  Er þetta rugl í mér?  Yfirsást mér hópur af ungu fólki þarna?

 


Hvers konar iðrun?

Í guðsspeki er til tvenns konar iðrun.  Annars vegar sú sem er kölluð á ensku "Contrition", sem er einlæg iðrun, hatur á syndinni, vilji til að syndga ekki framar.

Hins vegar "Attrition" eða þrælsótti, að þora ekki að syndga vegna ótta við afleiðingarnar, vítisvist (eða lélega útreið í kosningum).

Spyr sá sem ekki veit:  Hvers eðlis er iðrun sjálfstæðisflokksins í dag?  Þori ég að kjósa hann næst, trúa því að "hann sé búinn í meðferð" eins og Ómar Ragnarsson komst að orði.

 


mbl.is „Flokkurinn þoli stór orð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brilljant

Prófið þessa vefsíðu: http://apps.datamarket.net/fjarlog/

Forritið birtir mynd eins og þessa.  Smellið á súlurnar og sjáið í hvað peningarnir okkar fara.

capture.png

 

 

 

 

 

 

 

 


Sumarmorgunn á vestfjörðum

p6270003.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég ætlaði að blogga um hann Davíð en kom mér ekki að því, hann er svo aumkunarverður á endasprettinum.  Set bara inn sumarmyndir í staðinn.

p6300079.jpg


Ísland endurræst

Í tilefni af umræðu um Ísland 2.0 datt mér í hug að taka saman hvað ríkisstjórnir eiga sameiginlegt með stýrikerfum. Mér hefur fundist samanburðurinn gefa mér innsýn í heima stýrikerfa og ríkisstjórna.

Stýrikerfi gefa öllum forritum á tölvu sameiginlegan vettvang að starfa á. Öll forritin nota harðan disk, minni, prentara, lyklaborð, mús með því að spyrja stýrikerfið í stað þess að tala beint við þessi tæki.  Þannig þurfa höfundar forrita ekki að tala við hvern einasta músaframleiðanda og læra að nota músina þeirra, þeim nægir að biðja stýrikerfið um að segja sér á hvað músin bendir.  Stýrikerfið býr þannig til vettvang sem sparar öllum forritum fyrirhöfn og tíma.

Ríkisstjórn útvegar einstaklingum og fyrirtækjum líka sameiginlegan vettvang, útvegar heilbrigðis og menntakerfi, peningakerfi, rafmagn og vegi til að fyrirtækin þurfi ekki sjálf að byggja bryggjur og vegi eða gera rafmagnsvirkjanir og sjúkrahús og prenta peninga.

Stýrikerfi tryggja að eitt forrit leggi ekki undir sig öll afköst vélarinnar og geri hinum forritunum ókleift að vinna. Stýrikerfi eru með "Scheduler" sem sér til þess að öll forrit fái að keyra svolítið, hafi einhvern aðgang að diski, neti og skjá, og að forritin sem fyrir eru geti ekki meinað nýjum forritum að keyra með því að leggja allar auðlindir vélarinnar undir sig.

Ríkisstjórn á að koma í veg fyrir verðsamráð og einokun hjá fyrirtækjum sem bólgna út og vilja leggja landið undir sig.  Stjórnin gerir það með því að leysa of stór fyrirtæki upp í smærri einingar (eins og gert var við AT&T) eða sekta fyrirtækin.  Ríkisstjórnir eru með skatta, virðisaukaskatt, launaskatt og erfðafjárskatt sem dreifa auðnum og sjá til þess að nýir einstaklingar geti einhvern veginn komist af stað í lífinu og á kostnað þeirra sem eru búnir að koma sér vel fyrir.  Ef ríkið gerir þetta ekki endar landið með miðalda fyrirkomulag þar sem allir verða leiguliðar hjá fáum ríkum landeigendum og allt stendur fast.

Stýrikerfi er með einhvern vegg milli sín og forritana sem keyra til að tryggja að stýrikerfið spillist ekki af forritum sem reyna að breyta stýrikerfinu viljandi eða óviljandi. Vírusar reyna viljandi að skipta út hlutum stýrikerfisins og gera það handgengið sér. Sum forrit spilla stýrikerfinu óviljandi með því að afrita gamlar útgáfur stýrikerfisskráa í möppur sem aðeins stýrikerfið ætti að skrifa í. Windows hefur verið slæmt að þessu leyti, Linux minna.  (Ef Windows er eins og bómullarborðúkur er Linux eins og vaxdúkur).  Stýrikerfi sem halda þessum aðskilnaði ekki til streitu verða á endanum grálúsug og hæg og það þarf að formatta diskinn upp á nýtt til að laga til.

Ríkisstjórn ætti að hafa sambærilegan vegg sem kemur í veg fyrir að embættismenn þiggi sporslur frá einstaklingum og fyrirtækjum eða að ráðherrar ákveði hverjir sitja í hæstarétti.  Einnig að þarf að tryggja að lögum sé ekki laumað inn í löggjöfina sem hygla ákveðnum hópi, sbr. kvótakerfið.  Svo mega forsetar ekki þiggja far með einkaþotum auðvaldsins. (Þarna er stærsti gallinn í Lýðveldinu Ísland 1.0 að mínu mati, skilin milli stjórnar, laga og auðvalds).

Í sumum stýrikerfum er litið svo á að notandinn eigi sjálfur að ná sér í þau forrit sem hann vantar og stýrikerfið sé bara til þess að gæta minnisins og harða diskins.  Önnur stýrikerfi halda að þau eigi að bjóða uppá sem mest frá byrjun, til dæmis ritvinnslu, póst og netvafra.  Þetta gerir seljendum forrita gramt í geði því stýrikerfið tekur frá þeim markaðshlutdeild.  Microsoft er gott dæmi um þessa heimsspeki en það dreifði Internet Explorer með Windows í óþökk margra.  Forrit frá framleiðanda stýrikerfisins geta þó oft gert hluti sem forrit frá öðrum framleiðendum geta ekki því sömu menn koma að hönnun beggja.

Sumar ríkistjórnir vilja bjóða upp á eldspýtnagerð, bæjarútgerð, bílaleigu, matvælaframleiðslu en aðrar halda sig við lágmarks framboð á þjónustu og láta einkageirann um sem flest.  Samt eru skil milli ríkis og einkageira alltaf óljós.  Af hverju rekur hið opinbera bókasöfn en ekki myndbandaleigur?  Af hverju tryggjum við okkur hjá Tryggingarstofnun en bílinn hjá Sjóvá?

Mörg stýrikerfi eiga erfitt með netvæðingu því vélin fyllist af vírusum. Þetta er sérlega slæmt ef stýrikefið er ekki nógu rammgert til að þola ókunnug forrit og notendur.  Þessi stýrikerfi voru mörg hver skrifuð áður en netsamskipti voru til, þess vegna eru þau svona viðkvæm.

Margar ríkisstjórnir eiga á sama hátt erfitt með alþjóðleg samskipti, þær líta á inngöngu í Evrópubandalag sem endalok sín, þær þurfa alls kyns tollamúra og eftirlit til að verja viðkvæma innviðina fyrir erlendum áhrifum. Íslenska ríkið er til dæmis með viðkvæma krónu sem þolir ekki öll þessi samskipti við aðrar þjóðir.

Stundum má deila um hvort tölva er nógu stór og öflug til að keyra stórt stýrikerfi.  Vél sem sligast undir Vista getur verið hress undir Windows XP. Eldgamlar tölvur geta haldið áfram að gera gagn ef þær keyra Windows 95 eða jafnvel DOS.

Sum lönd eru svo lítil að þau ættu ekki að vera með sendiráð í mörgum löndum eða ráðuneyti fyrir óþarfa hluti. Það má spyrja hvort Ísland eigi að vera með tollembætti eða synfoníu?  Getum við keyrt lagabálk Evrópubandalagsins?  Getur okkar land keyrt stjórnarskrá sem var hönnuð fyrir annað land á öðrum tíma?  Er okkar stjórnarskrá bara léleg afrit af þeirri dönsku?

Hér lýkur samlíkingunum. Ef menn sjá fleiri sambærilega hluti er um að gera að skrifa athugasemd.

windowsjitter1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ástandið á Íslandi í dag er að okkur tókst einhvern veginn að endurræsa stýrikerfið eftir að tölvan hrundi en við erum í lítilli skjáupplausn og helmingurinn af forritunum getur ekki keyrt. Flestir eru á því að vírusar hafi eytt gögnunum af harða diskinum, ef gögnin hafi ekki glatast séu þau komin á harða diska í Cayman Islands. Vírusarnir voru vondir en stýrikerfið átti ekki að leyfa þeim að fjölga sér.  Maðurinn sem átti að taka backup hafði aldrei gert það og vill nú ekki segja af sér.

Sumir vilja formatta harða diskinn og setja upp nýtt, einfaldara stýrikerfi.

Ég er í þeim hópi sem er efins um að gera stórar breytingar á stuttum tíma. Ástæðan er sú, að gömul forrit eru oft gömul og skrýtin en þau endurspegla samt þekkingu sem hefur safnast upp á löngum tíma. "Never assume the guy who wrote the code was an idiot" segir máltæki í tölvubransanum. Það eru mörg dæmi um að nokkrar línur í kóða sem enginn vissi hvað gerði voru fjarlægðar, og allt hrundi.

Það eru dæmi um að fyrirtæki hafi ákveðið að endurskrifa hugbúnaðinn sinn frá grunni til að laga til og losna við gamalt drasl, en aldrei borið sitt barr eftir það því nýji kóðinn varð verri en gamli kóðinn.  Nýi kódinn var einfeldningslegur og tók ekki á mýmörgum sértilfellum sem fara ekki af sjálfum sér.

Þannig reyndi Netscape í mörg ár að skrifa netvafrann sinn aftur en ekkert gekk, Bandaríska flugmálastjórnin reyndi að endurskrifa hugbúnað fyrir flugumferðarstjórn án árangurs. Hún er ennþá að nota hugbúnað frá sjöunda áratugnum síðast þegar ég vissi.

Við þurfum að endurbæta lög og stjórnkerfi en við ættum þá að fara leið sem í hugbúnaði er kölluð "refactoring". Einhverjir góðir forritarar taka þá að sér að endurbæta forrit til að gera þau læsilegri og í samræmi við góða siði. Þeir eiga ekki að bæta við möguleikum, bara að laga til og gera hlutina skýrari.

Þetta jafngildir því að lögum og stjórnarskrá sé breytt gagngert til að endurbæta lýðveldið, en ekki af því einhver hópur sé að biðja um breytingar í eiginhagsmunaskyni.

Mig grunar að þessi tillögun og endurbótavinna hafi ekki verið unnin á Lýðveldinu Ísland 1.0, stjórnarskráin og lögin hafi staðið í stað í gegnum árin. Það er þó ekki réttlæting fyrir því að henda öllu út og byrja frá grunni.því fer hratt út í vitleysu. Hvað með hvalveiðar? Hvað með NATÓ? Eigum við að banna ættarnöfn? Og svo framvegis...

 

Hér er grein um "Refactoring" og hér er grein um hættur þess að skrifa allt aftur frá grunni.





Hvers vegna ég hætti að mótmæla í gær

Bankar eru ekki venjuleg fyrirtæki. Ef þeir verða peningalausir þurfa seðlabankar og á endanum ríkisstjórnir að hlaupa undir bagga.

Ég vissi þetta og ég hélt að Davíð Oddssson og fjármálaeftirlitið vissu þetta líka. Þótt ég hefði haft ýmigust á spillingu og bruðli fyrir hrunið hélt ég að bankarnir væru tryggðir innbyrðis, með erlendum tryggingum eða öðru.

Það að þjóðin skyldi vera ábyrg fyrir óráðssíu bankanna lít ég á sem handvömm Davíðs og fjármálaeftirlitsins. Þess vegna verður Davíð að segja af sér sem og aðrir formenn Seðlabanka og fjármálaeftirlits. Þetta tel ég vera augljóst.

Ríkisstjórnin hefur ekki neytt þá til að fara og því verður hún sjálf að fara. Ég get ekki skilið hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki tekið til hendinni, ég óttast mest að hún vilji ekki sjá hvað kemur undan teppinu því hún eigi sitthvað í því sjálf.

Ég er líka hættur að treysta Geir Haarde, ég held að hann sé kominn í einhverja sjálfheldu en að stolt hans komi í veg fyrir að hann viðurkenni vanmátt sinn.  Í Kastljósi í gær sýndist mér Steingrímur vorkenna Geir sem virtist vera í einhvers konar leiðslu.  Þetta var sárt að sjá.

Það var út af þessu sem ég mætti loksins í mótmælin í gær og stóð á Austurvelli milli 16-19. Ég vil að þessu stjórnleysi fari að ljúka.

Hitt get ég alls ekki sætt mig við, og það er að lögreglumenn verði fyrir meiðslum. Þegar ég sá að skríll hafði blandað sér saman við mótmælendur og kastaði grjóti að lögreglu gat ég ekki látið sjá mig þarna lengur.

Ef einhverjir í mótmælendahópnum telja sig hafa myndugleika til þess, mega þeir reyna að hafa stjórn á þessum minnihlutahópi sem veit sennilega ekki um hvað mótmælin snúast en er kominn á staðinn til að skemmta sér yfir skálmöldinni sem aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefur skapað.

Þangað til mun ég mótmæla setu ríkisstjórnarinnar með öðrum leiðum því hver dagur sem rennur upp með sama fólki í fjármálaeftirliti og seðlabanka er mér andstyggilegur.


Miðin og meginlandið

Umræðan um inngöngu í ESB hefur verið í svo miklum skotgröfum að ég hef aldrei fengið á hreint nákvæmlega hvað kemur fyrir fiskimiðin okkar við inngönguna.

Fyrst helt ég að útlendingar fengju að veiða eins og þá lystir innan 200 mílnanna alveg stjórnlaust.  Það getur ekki verið rétt, frekar en að ég mun mega sá mínum fræjum í land óðalsbónda í Frakklandi.  Það er jú eignaréttur?

Mér sýnist vandinn vera að útlendingar munu mega sækja um kvóta til að veiða hér, en það er nokkuð sem ekki einu sinni íslendingar mega gera í dag nema borga kvótakóngunum offjár.

Íslenska ríkið hefur ekki svarað úrskurði evrópudómstólsins að núverandi kvótakerfi er brot á stjórnarskránni.  Það mál hefur gleymst í öllu krepputalinu.

Nú spyr ég:  Getur verið að þeir sem vilja ekki ganga í Evrópubandalagið vilji það ekki vegna þess að núverandi ástand með kvóta fyrir fáa útvalda hentar mörgum kóngum hér ágætlega?

Hvernig snertir inngangan í bandalagið þá venjulegan íslending?

Þetta er örugglega misskilningur hjá mér og ég hlakka til að heyra frá "The usual suspects" sem  ráðast til atlögu í hvert sinn sem evrópumálin ber á góma.


Seven habits of highly effective countries

Margir sem andmæla inngöngu í evrópusambandið benda á að það muni jafngilda uppgjöf sjálfstæðis.

Mér dettur í þessu sambandi í hug bókin "Seven habits of highly effective people". Fyrstu ávanarnir sem höfundur vill að lesandinn tileinki sér ganga út á að verða sjálfstæð manneskja.

Höfundur telur að fólk eigi að:

  • Taka frumkvæði í stað þess að kenna öðrum um, bera ábyrgð á sínu lífi.
  • Setja sér markmið en til þess þarf að hafa lært að þekkja sín grunngildi í lífinu.
  • Forgangsraða, svo allur tíminn fari ekki í hluti sem virðast aðkallandi en skipta engu máli í hinu stóra samhengi.

Þessir fyrstu þrír hlutir snúa að því að manneskjan þroski sjálfa sig og standi á eigin fótum. Það má kalla þennan part sjálfstæðisbaráttu. Svo þegar sjálfstæðinu er náð er hægt að mynda bandalög við aðra fullvalda einstaklinga.

Liðir 4..7 hafa því með annað fólk að gera.

  • Finndu leiðir til að ná þínum markmiðum þannig að aðrir nái sínum markmiðum líka. Ef þín hugmynd um velgengni kostar aðra þjáningar ertu ekki á réttri leið. (Útrásarvíkingarnir flöskuðu þarna).
  • Reyndu að skilja aðra áður en þú byrjar að segja þeim frá þínum væntingum og vera með tilætlunarsemi, þá muntu ná betri árangri. Byrjaðu t.d. samtal með "hvernig hitti ég á þig?" en ekki bara "gerðu X fyrir mig".
  • Deildu verkefnum á þá sem eru betur færir um að leysa þau en þú. Notaðu hrós og hvatningu og njóttu þannig góðs af því þegar allir gera það sem þeir gera best.
  • Haltu þér í þjálfun, andlega og líkamlega. Farðu á námskeið. Farðu í frí. Endurskoðaðu markmiðin í lífinu reglulega. Ekki gera bara "bissness as usual" þangað til þú brennur út og þekkir ekki sjálfan þig.

Þeir sem vilja heilbrigð samskipti við aðra þurfa að vera orðnir heilbrigðir einstaklingar sjálfir.  Þetta passar vel við þá visku sem kennd er í tólf sporunum í AA og Al-Anon.

Þeir sem eru styttra komnir á þroska/sjálfstæðisbrautinni eru oft hræddir við að stofna til sambanda við aðra því þeir óttast um eigið sjálf.  Það er hluti af persónulegum þroska að byrja að treysta öðrum.

Íslendingar þurfa að hafa náð þangað áður en þeir ganga til viðræðna um náin samskipti því þeir mega ekki meðvirklast og gefa eftir í prinsipp málum. Kannski erum við ekki orðin nógu sjálfstæð til að geta umgengist aðrar þjóðir sem jafningjar?

Athugum með inngöngu í bandalagið, en höfum okkar markmið á hreinu áður. Það er veruleg hætta á að við semjum af okkur ef við göngum til viðræðna án þess að þekkja okkur sjálf og hvað við viljum.

Persónulega langar mig í bandalagið af því ég vil geta:

  • unnið í öðrum löndum
  • geymt mín verðmæti í öruggum gjaldmiðli.  (Það er öruggt að krónan á sér enga framtíð og að við þurfum myntbandalag, bara spurning hvaða gjaldmiðill kemur í stað  hennar).
  • átt viðskipti við aðra banka og tryggingarfélög en starfa hér
  • flutt sjálfur inn vörur án tollahafta og útrýmt þannig fákeppni í verslun
  • laðað hingað erlend fyrirtæki sem útvega spennandi störf
  • losnað við gömlu valdaklíkurnar á Ísland en fengið í staðinn nýjar og spennandi erlendar valdaklíkur :)


Ég óttast að ef við göngum í bandalagið muni:

  • vandalausir flytja arð úr landi (skaðinn þegar skeður)
  • vandalausir hagnast af útgerð en flytja arðinn úr landi (skaðinn þegar skeður)
  • íslendingar kafna í ólögum sem henta ekki hér (hef ekki dæmi um slík lög -- mun  EB banna kæstan hákarl?)

Semsagt:  Ef við erum jafn frábær þjóð og við þykjumst (þóttumst) vera, þá eigum við að ganga til viðræðna.  Ef við eigum einhver óútkljáð mál hér heima væri þó farsælla að afgreiða þau fyrst.  Það má þó engan tíma missa, því margir (þar á meðal ég) vilja ekki búa í  sjúku meðvirklaþjóðfélagi sem er ekki fært um eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband