Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Upp, upp mín evra og allt mitt geð

Fjölmiðlar erlendis eru farnir að benda á þá staðreynd að íslenska krónan er ekki lengur gjaldmiðill, heldur hlutabréf í fyrirtækinu Ísland sem ríkisstjórnin hefur ábyrgst að væri alvöru fyrirtæki sem gæti greitt 15% í hlutabréfaarð á ári.

Landsmenn sem hafa sparað hafa verið plataðir til að kaupa hlutabréf með því að spara í þessum gjaldmiðli.  Ég hélt að ég væri að spara peninga til erfiðu áranna, ekki að kaupa hlutabréf í braskarafyrirtæki.

Flestum ætti að vera ljóst að krónan er ekki lengur gjaldmiðill heldur léleg hlutabréf.  Enginn gjaldmiðill fellur svona hratt. Ef hann gerir það er hann ekki lengur gjaldmiðill samkvæmt minni skilgreiningu. Til þess að teljast gjaldmiðill þarf pappír að vera svo traustur að fólk vilji nota hann í stað fyrir vöruskipti. Krónan er það ekki lengur. Ég mun aldrei virða hana eftir þetta hrun.

Krónan liggur nú í ræsinu eins og mella eftir hópnauðgun og nauðgarnarnir eru horfnir á bak og burt, enginn veit hverjir þeir voru. Þeir sem álpuðust til að eiga krónur sitja eftir með sárt ennið.

Þeir sem vilja ekki taka upp evruna hafa góðar ástæður til þess. Það eru þeir sem vilja halda fjárhættuspilinu áfram, bankamenn og vöruinnflytjendur. Svo er það Seðlabankinn sem heldur að hann geti ennþá einhverju stjórnað, rétt eins og örvinglaður skipstjóri sem heldur um stýrið á skipi meðan það sekkur í hafið.

Hér er hús í Skuggahverfinu sem má rífa:

sedlabankinn_200807

 

 

 

 

 

 

 

 


Glöggt er gests augað

Háskólinn í Reykjavík er núna að ráða erlenda fræðimenn sem koma til landsins í stuttar heimsóknir til að kynna sér skólann, land og þjóð. Þeir eiga stutt viðtöl við okkur sem vinnum í skólanum eftir fyrirfram skipulagðri stundaskrá.

Breskur prófessor sem kom í síðustu viku sagði við kollega minn að sér hefði brugðið að sjá Reykjavík, því hún væri í einu og öllu eins og amerísk borg, full af bílum og engar gönguleiðir sjáanlegar, eða neitt sem gleður augað. Hann var Evrópubúi í húð og hár, vissi ekkert um Ísland og skildi ekki að hann væri kominn til miðvesturríkja Bandaríkjanna.

Hann lét í það skína að þetta væri ekki að selja honum þá hugmynd að flytja til Íslands frá þeim stað þar sem hann rannsakar og kennir núna enda sagðist hann hjóla og ganga mikið.

Við kepptumst um að segja honum að tilgangurinn með því að búa í Reykjavík væri að keyra út úr borginni við öll tækifæri og sjá fallega landið fyrir utan.

Hann sá sennilega Reykjavík eins og ég sé mannabyggðir á Grænlandi, berangur og lágt menningarstig. Byggðin eins og sundurlaust hrúður á yfirborði landsins.

Með fullri virðingu fyrir öllum útlendingunum sem eru þegar komnir hér í nýlenduna þá var þarna útlendingur sem ég vildi virkilega fá hingað. Ég vona að hann láti ekki Reykjavíkurborg hindra sig í að íhuga flutning en ég er óneitanlega mjög sammála honum og yrði ekki hissa ef hann ákveður að halda sig heima.

Það eru lítil lífsgæði að búa á svæði sem líkist orðið ofvöxnum olíuborpalli í miðju N.Atlantshafi, fullum af tjöru og vélagný. Svo bætir ekki úr skák að fyrir þessi vafasömu lífsgæði þarf að greiða okurverð.

Þeir íslendingar sem fara til náms vilja komast heim í faðm stórfjölskyldunnar. Sumir útlendingar giftast eða kvænast íslendingi sem vill endilega draga hann/hana "heim".

Hvað með þá sem ekki tengjast Íslandi blóðböndum? Hvað höfum við að bjóða fólki sem er í fremstu röð og getur búið þar sem það vill, því atvinnuveitendur pakka með glöðu geði búslóðinni og borga flutninga milli landa?

Göngur á fjöll er að stunda á mjög mörgum stöðum, til dæmis Skotlandi, Spáni, Þýzkalandi og Sviss. Heit böð eru til í Evrópu. Lambakjöt fæst í öðrum löndum. Hvað gerir okkur sérstök?  Hvað getur maður sem hefur heiminn í höndum sér hvergi fengið annars staðar? Ég myndi ekki koma, svo mikið er víst.

Dr.Rúv

Þátturinn Dr.Rúv á Rás 1 fjallar um lýðheilsutengd málefni.  Í dag 10.mars er hann helgaður hjólreiðum og í því tilefni er viðtal við mig og félaga minn, Morten Lange.

Þátturinn er sendur út kl.15.30.


Lárétt eða lóðrétt

Trúarbrögð, þjóðernishyggja, pólitík.  Ef  menn hafa áhuga á þessum málum þá mæli ég með að menn hlusti á ágætt viðtal Ævars Kjartanssonar við Jón Orm Halldórsson í þættinum "Lárétt eða Lóðrétt" um samskipti múslima og vestrænna manna.

Þátturinn verður aftur á dagskrá RÚV kl.23.10 á morgun, mánudag.

 

 


Með hverjum á að halda?

Fyrir rúmlega ári mælti einhver ráðherranna með því að almenningur færi að borga upp sín lán og spara því erfiðari tímar væru framundan.  Hann reyndist framsýnn og sannspár.   Við hjónin tókum hann á orðinu á sínum tíma og notuðum peningana sem við höfðum safnað fyrir nýjum jeppa til að klára að borga upp íbúðina okkar.  Fyrir vikið erum við nú skuldlaus.

Peningarnir hafa verið ótrúlega fljótir að safnast til heimilisins síðan, sem staðfestir þann grun margra að það er dýrt að skulda.  Við eigum aftur nóg til að kaupa nýjan bíl og vel það, bara af því  við eyðum ekki peningum í afborganir.

Milljónirnar sem við eigum eru að safna ágætis vöxtum í núverandi árferði enda eru innlánsvextir háir, ekki bara útlánsvextir.

Ég vil ekki að vextir verði lækkaðir.  Ég hef hagað mér af ábyrgð í fjármálum og nú vil ég fá að njóta ávaxtanna.

Þeir sem vilja lækka vexti vita að verðbólgan rýkur upp við það og sparifé verður að engu.  Þeir eru að reyna að stela af mér peningunum.  Eftir því sem trú mín á staðfestu Seðlabankans minnkar og með því trú á verðgildi íslenska gjaldmiðilsins mun ég kaupa fleiri Evrur til að vernda sparifé mitt.

Ég vona að ég þurfi ekki að selja síðustu krónurnar mínar.

 


Road runner

Margir kannast við fuglinn Road Runner sem tekst alltaf að komast úr klónum á Wile E. Coyote, sem verslar alltaf í Acme Hardware.

roadrunner

 

 

 

 

 

 

 

 

Fuglinn er í raun og veru til, hér er góð mynd af honum:

 road_runner_72

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann er 50 cm stór og getur hlaupið á 30 km hraða.  Hann segir ekki "bmíb-bmíb" eins og í teiknimyndinni heldur hljómar hann svona.

 

 


Fákeppni í boði hins opinbera

Í gær fór ég með bílinn í skoðun hjá Aðalskoðun í Skeifunni sem kostaði 6.900 krónur. Ég hringdi í eina keppinautinn sem er Frumherji.  Svarið var líka 6.900 krónur.

Ég spurði hvort þetta væri samkvæmt gjaldskrá frá hinu opinbera.  "Nei", það er frjáls álagning.  Merkileg tilviljun hvað verðin eru svipuð þarna eða hvað?

Þessi fákeppni er alveg  óþörf.  Það er ekki erfið og sérhæfð vinna að skoða bíla.  Þegar ég bjó í Bandaríkjunum kostaði bílaskoðun 900 krónur og hún var  framkvæmd á flestum stærri bifreiðaverkstæðum.

Skoðunin á bílnum mínum tók að hámarki kortér en það gerir 27.600 krónur á tímann.  Ég hringdi í Bifreiðar og Landbúnaðarvélar og spurði hvað útseldur klukkutími á verkstæðinu kostaði.  Svarið var 10.550 kr.  Það er ekki ódýrt en samt bara 38% af verði Aðalskoðunar og Frumherja.

Ég get ekki snúið mér annað og ég get ekki hugsað mér að missa bílinn. Þessi fyrirtæki geta því sett upp hvaða gjaldskrá sem þeim sýnist.

Ég spyr: 

  • Hvað finnst ykkur að bifreiðaskoðun ætti að kosta?
  • Treystið þið venjulegu bílaverkstæði til að  annast hana? 
  • Finnst ykkur núverandi ástand viðundandi?

 


Tímanna tákn

Einu sinni voru skilti á knæpum sem á stóð "Ekki hrækja á gólfið". Þessi skilti voru ekki sett upp að ástæðulausu, fólk hlýtur að hafa hrækt á gólfin. Sama gildir um skiltin "ekki pissa framhjá" og "ekki setja bakpokann á barborðið". Öll endurspegla þau kúltúrinn á staðnum.

Mér datt þessi skilti í hug þegar ég kom á vinnustað þar sem gildi fyrirtækisins höfðu verið skrautskrifuð og innrömmuð svo gestir og gangandi gætu kynnt sér þau: "Við tölum hljóðlega á opna svæðinu". "Við tölum ekki illa um viðskiptavinina".  Við leitumst við að vera í fararbroddi.  Frumkvæði, áræðni og hraði". Ég man ekki hvernig þau voru nákvæmlega.  Þessi skilti eru í tísku núna.  Sennilega hafa starfsmennirnir verið neyddir á vinnufundi þar sem þessi gildi voru sett saman í hópefli. Nokkrum vikum síðar kom einhver með skrautskrifað skjalið innrammað og hengdi upp.

Þetta minnir mig svolítið á barnaheimili. Þar eru handklæði krakkanna merkt og skilti segir að allir eigi að raða skónum upp að vegg.  Gott og blessað.

Ég trúi að svona gildi sé ekki hægt að tileinka sér með því að lesa þau heldur verði að "lifa" þau með því að læra þau af sér reyndari starfsmönnum.  Ég man eftir frásögn þar sem ungur maður sagðist hafa verið óánægður með að vera settur í klósettþrif þegar hann byrjaði. Yfirmaður kom að honum og sagði að klósettið væri ekki nógu vel þrifið en svo fór yfirmaðurinn líka á fjóra fætur í jakkafötunum og þreif klósettið sjálfur til að sýna stráknum hvernig það væri gert.   Strákurinn gleymdi þessu vitaskuld aldrei.  Svona lærir fólk kúltúr á vinnustað, ekki með skiltum.
larson-oct-1987

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á vinnustöðum eins og Taco Bell og Domino's er mikið rennerí af ungum krökkum sem vinna ekki lengi á sama stað enda ekki um framabraut að ræða og launin lág. Þess vegna er reynt að ala krakkana upp með svona skiltum.

Bandaríkjamenn í miðstétt trúa því margir ennþá að ameríski draumurinn sé innan seilingar. Þeir vinna um helgar með laptop, eyða hálfri vikunni á flugvöllum tjóðraðir við atvinnuveitandann með "Blackberry" síma og eyða eigin peningum í sjálfshjálparbækur sem eiga að kenna þeim að verða betri starfsmenn og heita "Seven habits of highly effective road warriors" eða þvíumlíkt. Þeir trúa því ennþá að launaleyndin sé fyrir þá sjálfa af því þeir séu með svo góð laun að vinnufélagar þeirra megi ekki vita það.

Ég er skeptískari.  Atvinnuöryggi og laun í miðstétt í vestrænum ríkjum hefur farið niður á við og peningar hafa safnast á færri hendur. Ég upplifi þessi skilti því sem hræsni.  Fyrir mér endurspegla þau það að atvinnurekendur reikna með renneríi af starfsfólki sem tekur því ekki að kenna verklag með gömlu aðferðunum.  Þessi "Gilda og skilta" kúltúr kemur svo til Íslands með sjálfshjálpar bókunum amerísku sem virðast vera lesnar í viðskiptafræðideildum eins og alvöru kennslubækur.

Er kannski kominn tími á svona skrautskrifuð skilti sem kenna atvinnurekendum hvernig eigi að umgangast starfsfólk? "Við ráðum ekki fólk í vinnu án þess að endurmennta það og rekum það svo þegar það er kulnað í starfi. Við hækkum launin í samræmi við verðlag. Við rekum ekki konur þegar þær verða óléttar".

Mýtan um nýja vinnustaðinn er bara mýta.  Hún er hentug tálsýn fyrir þá sem ráða.  Starfsfólk ætti að hugsa sjálfstætt og leyfa ekki atvinnurekendum að taka af sér réttindi sem það tók forvera þeirra áratugi að berjast fyrir undir því yfirskini að "nýji vinnustaðurinn breyti öllu".

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband