Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Flytja eða vera kyrr?

Ég flutti heim um aldamótin eftir að hafa verið 11 ár erlendis - þá var Decode að ráða fólk og ég trúði að Ísland væri að verða eins og önnur lönd.  Það var hægt að kaupa bjór og Toblerone, og það var sjónvarp á fimmtudögum.  Það voru því mikil vonbrigði að sjá að hér höfðu stjórnmálin lítið breyst,  hér ríktu karlar sem höfðu haldið hópinn síðan í gaggó og höguðu sér eins og villikettir, veittu sjálfum sér ekki aðhald og skorti sjálfsgagnrýni enda vanir því að vera við völd sama hvað tautar og raular.

Ísland verður að verða meira eins og önnur lönd og hætta að vera skrýtið fyrirbæri í ballarhafi sem er útblásið af gortinu einu.  Ég vil losna við leifarnar af sérviskunni hér.  Ég vil virkt lýðræði þar sem menn geta misst embættið fyrir afglöp í starfi.  Ég vil ekki þurfa að fá laun og spara í platpeningum.  Verðtrygging og kvóti, tollamúrar og fákeppni, þetta verður allt að fara.

Ég hef lengi viljað að við göngum í Evrópubandalagið, líka þegar allt lék í lyndi, því ég vildi að þessi karlaklíka misti völd og síðustu leifarnar af sérviskunni hyrfu.

Strax og ég skrifa þetta veit ég að búnki af athugasemdum birtist um að það séu föðurlandssvik og afsal sjálfstæðisins að vilja þetta.  Það er sennilega rétt í einhverju samhengi en ég kýs ekki að líta svo  háleitt á það.  Fyrir mér er þetta praktísk ákvörðun,  eins og að láta gelda heimilisköttinn sem kemur heim rifinn og blóðugur á hverjum morgni.   Það er rosalegt fyrir köttinn að verða geldur, en ég er viss um að hann og heimilismenn verða hamingjusamir á eftir.  Auðvitað spyr maður köttinn ekki áður...

Ég veit að ég get flutt til meginlandsins, en fyrst vil ég bíða og sjá hvort við göngum ekki í ESB.  Spurning mín nú er hvaða flokk ég þarf að kjósa og hversu lengi ég á að bíða.

 


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitaveitan og fleiri vitlausar hugmyndir

Ég var að tala við mér eldri manneskjur sem sögðu mér í óspurðum fréttum að hitaveitan á Íslandi hefði ekki verið almennilega kláruð fyrr en í olíukreppunni 1973.

Ég hafði í einfeldni minni gefið mér að strax og fyrsti hitaveituofninn í Reykjavík hitnaði upp úr 1930 hefðu menn strax séð ljósið og drifið í að leggja veituna um allt.

Af þessu megum við læra í dag, að við eigum ekki að bíða eftir að olían verði allt of dýr og óaðgengileg til að venja okkur af því að ofnota hana.  Getum við ekki notað þessa kreppu til að gera ráðstafanir sem minnka þörf okkar fyrir hana?  Getum við ekki unnið vinnu sem þarf að vinna og sem kostar ekki mikið erlent fjármagn?  Við getum lagt hjólastíga, kannski byggt hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.  Hraðbrautirnar í Bandaríkjunum og Þýzkalandi voru byggðar upp á krepputímum.  Getum við ekki notað tímann núna í svipuð verkefni?

800px-Oil_Prices_1861_2007.svg

 







Ef við lítum á kreppuna núna sem tækifæri, þá getum við kannski minnst hennar með hlýhug seinna og talað um hana sem tíma þegar Ísland varð betri staður til að búa á.

 

Nú er líka góður tími til að minnka þörf okkar fyrir erlent fjármagn og byggja upp þekkingu á Íslandi með því að innleiða opinn hugbúnað hjá opinberum stofnunum.  OpenOffice og Linux kosta hvorki evrur né dollara. Útseld vinna við uppsetningar og þjónustu á hugbúnaðinum er í höndum íslendinga.  Ég held að ríkið geri margt vitlausara til að spara erlendan gjaldeyri.

 


Post mortem

Ég les að orðspor okkar hafi stórskaðast við bankahrunið. Ég held að skaðinn hafi verið skeður, við eigum þetta orðspor fyllilega skilið.  Ísland var orðið svo gegnsýrt af auðmagnshyggju að mér fannst merkilegast hvað lítið var haft orð á því.

Á meðan auðmennirnir tóku landið vorum við hin orðin þrælslunduð og andlega löt.  Margir rugluðu lánafyrirgreiðslum við góðæri.  Við afsöluðum okkur sjálfstæðinu.

Vonin um bata er að við lærum að skammast okkar og höldum ekki bara að heimurinn sé vondur við okkur.  Þegar ég heyri að Synfóníunni hafi verið vísað frá Japan og íslendingum úr búðum í Danmörku sárnar mér, en við eigum þetta fyllilega skilið.  Við þurfum ærlega tiltekt og gera upp við fortíðina.  Nú þurfum við einlæga iðrun, ekki þrælsótta.

Ég vil fá aðra en íslenska ráðamenn til að fara yfir hvað gerðist hér.

Hvers vegna gegndu fjölmiðlar ekki hlutverki sínu?  Af hverju voru helstu ráðamenn þjóðarinnar að þiggja flugferðir og aðra bitlinga frá þeim mönnum sem þeir áttu að hafa eftirlit með?

Af hverju var Alþingi íslendinga nánast hunzað í stjórnsýslunni? Af hverju fá ráðherrar að stjórna aðhaldslítið? Af hverju er hér verðtrygging lána en ekki launa? Af hverju var kvótinn gefinn auðmönnum?   Af hverju er hægt að einkavæða banka og gefa þeim svo óútfyllta ávísun á uppsafnaðan sparnað þjóðarinnar?  Hvers vegna voru aðvaranir erlendra nefnda og íslenskra hagfræðinga eins og Þorvaldar Gylfasonar að engu hafðar?

Erum við of lítil þjóð til að hafa sjálfstæði?  Er besta ástæðan til að ganga í Evrópubandalagið kannski sú að þá losnum við undan gömlu valdaklíkunum?

Ég er ekki viss um að Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson eigi að vera hluti af framtíð Íslands, og ég vil ekki að þetta fólk fái sjálft að dæma í sínum málum.  Þeir sem stjórna umræðunni í fjölmiðlum munu fegra sinn málstað og ballið byrjar aftur.  Svo ég vitni í kollega minn, Úlfar Erlingsson:

 

  • Hvaða fjárhagslega ávinning hefur forsetinn fengið persónulega frá íslenskum auðmönnum, beint og óbeint?  Þar með talið stuðning í kosningabaráttu, ókeypis flugferðir, gistingu, o.s.frv.?
  •  Sama spurning hvað varðar hans nánustu fjölskyldu.  Hvaða hæfileikar aðrir en blóðtengsl réðu því að dætur hans og tengdafólk hefur sitið í stjórnum og yfirmannsstöðum hjá Baugi og öðrum auðmannafyrirtækjum?
  •  Afhverju var aftur svona nauðsynlegt að stöðva lög um eignaraðild auðmanna að fjölmiðlum landsins—af hverju var það verra afsal á valdi en t.d. lög um EES ?
  •  Má ekki fá að kaupa eitt eintak af óútgefinni bókinni um forsetann í óbreyttri útgáfu, þ.a. hægt sé að sjá hvað þar stóð?

Ef við fáum ekki svör við því hvers vegna lýðræðið virkar svona illa á Íslandi þá nenni ég ekki að taka til höndunum við uppbygginguna.

Nú er básunað yfir unga fólkið að við verðum öll að standa saman og byggja upp. Þeir sem segja það eru búnir að gera þetta sama unga fólk stórskuldugt með okurlánum og uppsprengdu húsnæðisverði.  Þeir stálu frá fortíðinni og framtíðinni.  Þeir eru búnir að eyðileggja möguleika útflutningsfyrirtækja á að byggja sig upp því hér fóru allir að vinna í banka í gullæðinu.

Eigum við núna að fara að standa saman? Ekki sá ég að nýríka fólkið borgaði kennurum og hjúkrunarfólki mannsæmandi laun. Hvar var samstaðan þá?

 forest_fire_hr.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrælsóttinn við valdamenn hjaðnar um stundarsakir.  Þegar skógareldar hafa geisað falla gömul tré en lággróðurinn fær að njóta sín.

Reynum að nota tímann sem gefst til að laga til. Í næsta góðæri verður Reykjavík vonandi mannvæn og falleg og venjulegt fólk fær kaupmátt og tíma með börnunum sínum, ekki okurlánafyrirgreiðslur . Annars er það ekki góðæri heldur byrjun á öðru fylleríi.

 


SyncToy

Ég fann lausn á gömlum vanda.  Ég færi oft gögn milli heimilistölvunnar, vinnutölvunnar og kjölturakkans á minnislykli.  Þetta geta verið Word skjöl, forrit, tónlist og fleira.

Það er leiðinda handavinna að samræma hvað er til á hvaða stað.  Nú er loksins komið forrit sem sér sómasamlega um þetta, það er ókeypis, og frá engum öðrum en Microsoft.

Forritið heitir SyncToy og það má nálgast hér.

 

Hér er lýsing Microsoft á forritinu:

 

There are files from all kinds of sources that we want to store and manage. Files are created by our digital cameras, e-mail, cell phones, portable media players, camcorders, PDAs, and laptops. Increasingly, computer users are using different folders, drives, and even different computers (such as a laptop and a desktop) to store, manage, retrieve and view files. Yet managing hundreds or thousands of files is still largely a manual operation. In some cases it is necessary to regularly get copies of files from another location to add to primary location; in other cases there is a need to keep two storage locations exactly in sync. Some users manage files manually, dragging and dropping from one place to another and keeping track of whether the locations are synchronized in their heads. Other users may use two or more applications to provide this functionality.

Now there is an easier way. SyncToy, a free PowerToy for Microsoft Windows, is an easy to use, highly customizable program that helps users to do the heavy lifting involved with the copying, moving, and synchronization of different directories. Most common operations can be performed with just a few clicks of the mouse, and additional customization is available without additional complexity. SyncToy can manage multiple sets of folders at the same time; it can combine files from two folders in one case, and mimic renames and deletes in another case. Unlike other applications, SyncToy actually keeps track of renames to files and will make sure those changes get carried over to the synchronized folder.

 


Land hinna dauðu

Hér í Frakklandi er kreppan ekki mikið rædd af venjulegu fólki, hún er fyrst og fremst hausverkur banka og fjárfesta á þessu stigi.

Fólk á mínum vinnustað er að ræða hvað það ætlar að gera næstu helgi, skipuleggja heimboð og hjólakeppnir og sinna föstum liðum eins og venjulega.

Mér sýnist staðan á Íslandi vera talsvert ólík.

07ndtjf.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Vinur minn álpaðist eitt sinn til þess að skrifa upp á víxil fyrir samstarfskonu sína þegar hann var ennþá svo blautur á bak við eyrun að hann vissi ekki hvað það þýddi að vera ábekingur. Konan borgaði ekki og skuldin féll á félaga minn sem bölvaði sjálfum sér fyrir aulahátt í fjármálum.

Vinur minn var samt ekki jafn mikill auli og Davíð sem einkavæddi bankana og gerði mig og þig ábyrg fyrir því að þeim yrði bjargað ef þeir færu á hausinn þótt þeir stunduðu ekki lengur venjulegan bankarekstur heldur áhættufjárfestingar.

Eða var almenningur aularnir?  Ég hafði sjálfur ekki gert mér grein fyrir því að hann hefði gert þjóðina ábyrga fyrir hinum stórkostlega áhættusömu fjárfestingum sem útrásarvíkingarnir réðust í. Mér finnst ótrúlegt eftirá að umræða um þetta hafi aldrei komist upp á yfirborðið. Þeir sem gagnrýndu útrásina voru bara öfundssjúkir og púkó, málið dautt. Ég hafði gefið mér að þeir væru að leika sér að annara fé, ekki mínu.  Var málið aldrei rætt því fjölmiðlarnir voru allir í eigu þeirra sömu sem léku fjárhættuspilin í bönkunum og Group þetta og hitt?

Ef þjóðin er ábyrg fyrir spilafíkn bankanna langar mig að fá fram svart á hvítu hvernig það gat gerst. Ég hefði aldrei samþykkt að gerast ábekingur fyrir þessari útrás. Ég óttast bara að sú rannsókn fari ekki fram því of margir valdamiklir menn eru tengdir málinu, aðrir en Davíð.

Líklega ætti erlendur dómstóll að rétta yfir þeim sem störfuðu við Seðlabankann.  Það er ekki útilokað að erlendir aðilar sem neyðast til að rétta Íslandi hjálparhönd geri þá kröfu að þeir sem stjórnuðu þessari helför í fjármálum verði leiddir fyrir alþjóðarrétt og málið skoðað í kjölinn.

 


Ísland geldur fyrir óhóf í fjármálum

Á síðari hluta ársins 2007 versnaði ástandið í húsnæðislánum á Bandaríkjamarkaði. Blaðagreinar fóru þá að birtast um að Ísland væri sem "kanarífuglinn í kolanámunni". Sett var fram sú kenning að slæmt ástand á Íslandi væri ávísun á versnandi horfur hjá öðrum löndum.

Eftir þetta hefur ástandið á Íslandi hríðversnað. Framleiðsuvísitalan hefur lækkað um 4% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008. Hlutabréfamarkaðurinn og gengi krónunnar hafa fallið um þriðjung (skrifað í Júlí 2008).

Skuldir þjóðarbúsins eru út úr kortinu á alþjóðlegan mælikvarða. Viðskiptajöfnuður var neikvæður um 25% af þjóðarframleiðslu árið 2006 og 17% árið 2007. Skuldir þjóðarbúsins voru fimmtánfaldar eigur seðlabanka landsins eða 200 prósent af þjóðarframleiðslu. Langtímaskuldir þjóðarbúsins bæta svo við 350 prósentum af þjóðarframleiðslu. Bankaeignir voru orðnar tíföld þjóðarframleiðsla í lok ársins 2007. Þetta ójafnvægi kemur til vegna innkaupa íslenskra fyrirtækja í Bretlandi, Danmörku og annars staðar.

Hvernir getur svona lítill stubbur valdið svona miklu? Svarið er að finna fyrir árið 2000 þegar flestir bankar voru ennþá reknir eins og deildir í ríkisstjórninni. Raunvextir voru lágir og jafnvel neikvæðir á stundum.

Til að bregðast við eftirspurn eftir lánsfé breyttust bankarnir í pólítiskar stofnanir sem lánuðu aðeins þeim sem voru í náðinni. Óhagræðið sem af þessu hlaust kom fram sem skuldasöfnun erlendis og lengstu vinnuvikur í vestur-Evrópu. Þrátt fyrir allt var niðurstaðan sú að Ísland varð ríkt miðað við höfðatölu.

Bankarnir voru einkavæddir árið 2000 með fljótfærum og pólítískum hætti. Eignarhald á bönkunum fór til manna með náin sambönd í íhaldsflokkunum sem höfðu lítið vit á bankarekstri. Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið voru rekin af fólki sem vildi eins lítil afskipti og hægt var.

Bankarnir breyttust fljótt úr venjulegum bönkum í fjárfestingabanka. Hvorki þeir né ráðuneytin eða seðlabankinn gerðu greinarmun á þeirri ábyrgð og tryggingu sem fylgir venjulegum bankarekstri annars vegar og hins vegar á áhættustarfseminni sem fylgir fjárfestingabankarekstri. Það að ríkið og þar með þegnarnir skyldu ábyrgjast rekstur fjárfestingabankahlutans gerði þeim kleift að taka mjög áhættusamar ákvarðanir bæði heima og erlendis. Þeir ráku starfsemina með erlendum lánum í stað þess að byggja á innlánum viðskiptavina.

Seðlabankinn batt viljandi hendur sínar og ákvað að reyna aðeins að stjórna með ákvörðun vaxta. Hann neitaði sér um að ákvarða bindiskyldu á þeirri forsendu að bankarnir vildu það ekki, og hann reyndi heldur ekki að tala um fyrir bönkunum á siðferðislegum grundvelli. Tilraunir seðlabankans til að hefta verðbólguna með því að hækka vexti (upp í 15% 2008) höfðu þau áhrif að enn meira erlent fjármagn sogaðist til landsins og áhrif vaxtahækkana urðu því engin. Krónan hækkaði í verði þrátt fyrir gífurlegar erlendar skuldir.

Vegna styrks krónunnar á fyrstu árum aldarinnar fóru íslensk heimili og fyrirtæki að taka lán eins og enginn væri morgundagurinn. Nú er svo komið að skuldir íslendinga eru miklu hærri en möguleikar seðlabankans til að gangast í ábyrgðir og aðrir bankar í Skandinavíu hugleiða að aðstoða seðlabankann þótt ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hrun Íslands smiti út frá sér.

Þetta gífurlega hrun sem nú á sér stað er útkoma óhófs sem byggðist upp í umhverfi lítils sem einskis eftirlits, sem var ekki til staðar vegna fljótfærnislegrar einkavæðingar. Nú er ríkisstjórn Íslands í mjög alvarlegum vandræðum. Sögusagnir herma að næst stærsti stjórnmálaflokkurinn, sósíaldemókratar, sem komst til valda í maí 2007 í fyrsta sinn í fjórtán ár muni slíta samstarfi við stærsta flokkinn, hinn íhaldssinnaða sjálfstæðisflokk og koma af stað nýjum kosningum.

Skoðanakannanir gefa til kynna að sjálfstæðisflokkurinn muni tapa mjög miklu fylgi og sósíaldemókratar sem hafa beðið minni hnekk á mannorði vegna fjármálahneykslisins gætu fengið nægt fylgi til að mynda nýja ríkisstjórn með öðrum flokkum.

Þetta gæti orðið byrjunin á vel þeginni stefnubreytingu í íslenskum stjórnmálum í átt að norrænu samfélagi þar sem samfélagið stjórnast ekki af duttlungum fjármálamanna og skuldir eru teknar föstum tökum.

Þýtt úr grein sem kom í Financial Times í júlí 2008. Höfundurinn, Robert Wade er prófessor í hagfræði við London School of Economics.

 

Þeir sem einkavinavæddu bankana og veittu þeim svo ekki nauðsynlegt aðhald en sváfu á verðinum meðan þeir fóru í fjárhættuspil með fjöregg þjóðarinnar munu ekki láta af völdum af sjálfsdáðum þótt það eina sem haldi þeim uppi núna sé drambssvipurinn og jakkafötin.  Hvenær mun doðinn breytast í reiði?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband