Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Office pakkinn á útleið?

Helstu vörur sem Microsoft selur eru Windows stýrikerfið og svo Office pakkinn. Ég er næstum því hættur að nota Office pakkann og ég ímynda mér að þannig sé því farið hjá fleirum. 

Pakkinn samanstendur af forritunum: 
  • Word (Ritvinnsla)
  • Excel (Töflureiknir)
  • Outlook (Tölvupóstur)
  • Powerpoint (Glærusýningar)
  • Access  (Gagnagrunnur)
  • InfoPath (Eyðublöð hönnuð og útfyllt, fyrir fyrirtæki)
  • OneNote (Heldur utan um púnkta og skissur)
  • Publisher (Ritvinnsla fyrir bæklinga og fréttabréf)
  • Sharepoint (Skjalautanumhald á vef fyrir fyritæki)

Ég notaði fjögur efstu forritin reglulega. Hin hef ég prófað en aldrei haft þörf fyrir. Nú eru þessi fjögur forrit sem ég þót notaði líka á útleið hjá mér. 

Ég nota varla Word því ég prenta svo sjaldan á pappír. Ég nota oftar ritvinnsluforrit sem eru innbyggð í vefsíður, til dæmis á Gmail, Wiki eða Facebook. Þessi texti er skrifaður í Notepad. 

Outlook nota ég ekki því Google Mail er öruggara, einfaldara og sneggra. Ég get byrjað að lesa póst í Gmail áður en Outlook nær að opna innboxið. Outlook hefur aldrei verið einfaldað og stillingarar í því endurspegla tuttugu ára sögu þess. Mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að setja Outlook upp, og reyna að finna hvar póstarnir mínir eru í raun og veru geymdir. (Eru þeir í .PST skrá eða .OST skrá eða bara á póstþjóninum? Nú þegar hægt er að fá terabæti af plássi út í bæ finnst mér ekki gaman af hafa áhyggjur af þessu lengur). 

Ég er með nett ofnæmi fyrir Powerpoint sem hefur hreinlega ekki breyst frá því það tók við af skyggnusýningum fyrir rúmum tuttugu árum. Það styður ekki hyperlinka, zooming interface, samvinnu eða annað sem mætti hugsa sér að endurbæta það með. Ég hef séð kynningar þar sem vefsíða var birt á skjávarpa og kynnirinn notaði page up og page down. Gerði sama gagn og Powerpoint. 

Excel nota ég ennþá ef ég þarf að reikna eitthvað út en ég þarf ekki alla möguleikana í því. Mér hefur alltaf fundist erfitt að reyna að nota það til að teikna gröf. 

Þótt ég noti ekki Sharepoint veit ég að mörg fyrirtæki eru að gera það. Sharepoint gæti orðið langlífasti hlutinn í Office pakkanum, en þá sem innanhúss vefur en ekki hugbúnaður sem er settur upp hjá hverjum notanda fyrir sig. 

Office pakkinn úreldist sérstaklega hratt nú þegar fólk vinnur meira með vef og smartsíma. Ég held að hann seljist áfram af því það er mikil hefð fyrir honum. Það þarf hins vegar engan Nostradamus til að sjá að pakkinn styður ekki við framtíðarsýn eins og hún er sýnd í bíómyndum eða jafnvel í kynningarefni frá Microsoft sjálfum þar sem fólk strunsar í gegnum flughafnir með töflutölvur og heldur myndfundi. 

Microsoft virðist vera að vakna af værum blundi og byrja að hugsa hlutina upp á nýtt með vörum eins og Surface og Windows 8. Ég held ekki að Office pakkinn sé hluti af framtíðarsýninni hjá þeim. Ef ég héldi utanum veskið hjá fyrirtæki í dag myndi ég spyrja hver þörfin er innanhúss áður en ég borgaði fyrir enn eina uppfærslu á þessum pakka fyrir hverja og eina PC tölvu í húsinu. 


Nafn á þessa tegund tölva: Brimbretti

Þar sem tölvurnar eru sérlega vel til þess fallnar að "sörfa" á netinu og líkjast brettum vil ég leggja til að þær verði kallaðar "Brimbretti".

Ég er afhuga hinum lokaða Apple heimi, svo ég held ég bíði eftir grip sem getur spilað aðrar bíómyndir og hljóðskrár en þær sem Apple hefur samþykkt. 

HTC Hero og Legend símarnir eru með Android stýrikerfið, þeir hafa verið að fá jafnvel betri dóma en iPhone, og mér kæmi ekki á óvart þótt HTC kæmi með brimbrettis útgáfu af Android símum bráðlega.

 


mbl.is Margir biðu eftir iPad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla fólkið og tölvurnar

Mamma er 85 ára og hefur aldrei átt tölvu.

Þær verða smám saman meira ómissandi, eftir einhvern tíma verður nánast þegnskylda að hafa tölvu á heimilinu.   Reikningsyfirlit og umsóknir um félagsþjónustu fara smám saman inn á netið, þá hringir mamma og biður um aðstoð af því við eru með tölvu heima hjá okkur.  Hún kvartar líka yfir því að pósturinn er farinn að taka niður póstkassa um allan bæ og hún getur ekki sent póst lengur nema fara í annað bæjarfélag (Aflagrandi - Seltjarnarnes).  Þeir hjá póstinum segja að enginn sendi póst lengur, allir nota tölvupóstinn.  (Merkilegt viðhorf, kannski tímabært að leggjast undir feld á þeim bæ?)

Ég hef ekki séð tölvu sem myndi henta henni.  Jafnvel Apple Mac væri of mikið fyrir hana. Hún myndi ekki vilja fá snúrur upp að einhverju tölvualtari í litlu íbúðinni sinni, sjónvarpið er alveg nógu ósmekklegt, finnst henni.  Hún myndi í mesta lagi lesa moggann og tölvupóst svo ekki þarf hún ADSL áskrift.

Svo er það skráarkerfið. Skrár innan í möppum innan í möppum sem þarf að flytja og afrita og færa eru flókin hugmynd. Afritataka og stýrikerfisuppfærslur eru fyrir sérfræðinga. Mér fannst hugmyndin um möppur innan í möppum flókin þegar ég sá hana fyrst (DOS 2.0) og ég byði ekki í að útskýra fyrir mömmu hvert bréfin hennar fara þegar hún velur "Save" í Word.

Jafnvel músin er ekki nógu einföld. Það eru ekki allir sem geta hreyft mús og horft á árangurinn af hreyfingunni á sjónvarpsskjá. Það er miklu eðlilegra að benda beint á það sem maður vill gera, eins og gert er í iPhone.

Verðið má ekki vera mörg hundruð þúsund krónur, það er einfaldlega engin réttlæting fyrir því.

Notendaviðmótið þarf að vera stórt og einfalt, ekki röð eftir röð af litlum "íkonum" sem enginn veit hvað gera. Er þetta "A" til að stækka textann eða setja inn textabox eða gera textann feitletraðann, eða til að lita hann? Ekki veit ég...


xp_vista_icons.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ennþá hef ég ekki séð tölvu sem hentar fólki sem vill ekki tölvur en þarf bara að lesa póstkort eða bréf frá vinum og ættingjum eða lesa "dödens avis" (Moggann).

Fyrr en núna.

Ég held að tölva í líkingu við Apple iPad gæti hentað.  Ekkert sýnilegt skráarkerfi, engin snúra. Ekkert "Multitasking". Ekkert lyklaborð eða mús. Bara benda á það sem þú vilt. Fá en stór íkon. Samskipti við netið fara fram yfir 3G (eða Wi-Fi þar sem það býðst). Þú getur lesið uppí rúmi.

Aðgengi fyrir eldra fólk að bókasafni án þess að fara á bókasafnið verður líka blessun. Ég hef sjálfur notað iPhone sem bókarlesara en hef saknað þess að skjárinn væri ekki stærri fyrir lestur.

iPad hefur fullan rétt á sér.

ipad-gizmodo.jpg


Enn meira um háskerpu útsendingar: Breiðband símans verður að Ljósnetinu

Ég var of fljótur á mér þegar ég sagði að menn hefðu ekki verið að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir útsendingu á sjónvarpi.

Fréttatilkynning var að berast frá símanum um að þeir ætla að breyta "Breiðbandi" símans í "Ljósnet" símans.  Breiðbandið var ekki ljósleiðari heim í hús heldur ljósleiðari út í götuskáp símans fyrir utan húsið (og næstu hús í grennd) og svo gamaldags loftnetssnúra inn í húsið.

Loftnetssnúran verður nú rifin úr sambandi einhvern tímann á þessu ári og "breiðbands" myndlyklunum gömlu sem tengdust henni verður skilað til Símans.  Þess í stað verður ljósleiðarinn tengdur við símasnúruna sem liggur inn í húsið.

Í stað myndlykilsins sem tengdist loftnetssnúrunni kemur nýr myndlykill sömu gerðar og þeir sem hafa verið settir upp fyrir áskrifendur "Sjónvarps" símans.  Lykillinn verður tengdur við nýjan router sem er kallaður VDSL router og kemur í stað gamla ADSL routersins ef hann var til á heimilinu fyrir.

Nýji routerinn verður tengdur við símalínu eins og ADSL router en nýji routerinn er 100 Megabit í báðar áttir, ekki 2-3 Megabit eins og gamli ADSL routerinn.  Hraða aukningin er möguleg af því VDSL staðallinn gerir ráð fyrir stuttri símtaug sem hefur mikil gæði og það mun símtaugin hafa ef hún er látin enda strax út í götuskáp í stað þess að vera tengd alla leið niður í símstöð í miðbænum.

Loftnetssnúran er búin að renna sitt skeið.   Bless loftnetssnúra!  Ég efast um að ég leggi nýja loftnetssnúru upp á þak og freisti þess að enn sé sjónvarpsmerki í gömlu greiðunni þar enda er tímaspursmál þar til sjónvarpsútsendingum á VHF verður hætt hér, það er verið að leggja útsendingarnar niður í flestum löndum í kringum okkur.

Margir voru komnir með ADSL og farnir að tengja myndlykla við ADSL routera (þennan pakka kallar síminn "Sjónvarp símans").  ADSL routerar nota gömlu símasnúruna sem liggur frá íbúð símnotenda alla leið út í símstöð.  Það er talsvert lengri leið en út í götuskápinn á horninu sem VDSL router verður tengdur við.  Lengri leið þýðir minni sendihraða. 

Frá 2006 hafa notendur "Sjónvarps" símans fengið myndlykil sem var með HDMI háskerputengi auk SCART tengis enda eru þeir nothæfir til að taka á móti háskerpu útsendingum.   Flöskuhálsinn var fyrst og fremst ADSL routerinn sem þeir voru tengdir við á heimilinu.  Þegar VDSL / Ljósnetið verður tengt verður lítið mál að sjá almennilegt háskerpumerki á þessum lyklum því þótt ein háskerpurás sé 8 Megabitar sér ekki högg á vatni þegar 100 Megabitar eru í boði.  Það eru samt nokkrir megabitar á sekúndu eftir fyrir fleiri sjónvarpsrásir eða venjulegt hangs á netinu.

Þeir sem eru ekki í hverfi sem var með Breiðbandið geta beðið þolinmóðir eftir ljósleiðara gagnaveitu Reykjavíkur ef hann er ekki þegar kominn í götuna.

Eurosport og fótbolti hafa verið einu háskerpu rásirnar í boði þó nokkuð lengi, en loksins bætast nýjar háskerpu rásir við seinna á árinu, bæði vegna þess að fjöldi notenda sem getur tekið við háskerpu eykst til muna en líka vegna þess að verðið á háskerpurásum hefur verið að lækka í innkaupi. History Channel HD, og DR HD ættu að bætast við fljótlega og hver veit nema næstu Ólympíuleikar verði loksins sendir út í háskerpu hér á landi?

PS:  Hér er grein um VDSL á Wikipedia


Til sölu - notað

Ég ákvað að auglýsa til sölu tvær ferðatölvur og skjávarpa, og kíkti á netið til að reyna að gera mér hugmynd um hvar best væri að auglýsa.

Það kom á óvart að umferðin af auglýsingum er ekki hjá Mbl, DV, Fréttablaði, heldur er hún á sérvefjum:

Hins vegar:

Þetta er merkilegt, því í öðrum löndum sem ég hef búið voru öflugir aðilar með kaup og sölu á notuðum vörum.

  • Í Danmörku var það "Den Blaa Avis" (www.dba.dk)
  • Í  North Carolina var sérblað sem heitir "The Village Advocate" sem átti allan smá auglýsinga markaðinn fyrir bæinn ásamt  "Craig's list" (http://craigslist.org)
  • Svo var E-bay á landsvísu.

 

Ég er hálf hissa að ekkert blaðanna skuli hafa unnið yfir þennan markað og að hann skuli verða svon a "underground" í eðli sínu.   Ég álykta að það sé ekkert upp úr þessu að hafa og að þetta sé best gert í hálfgerðri sjálfboðavinnu.

Ég myndi samt vilja sjá vefsíðu sem bendir á hvaða vefir eru góðir fyrir mismunandi vörutegundir, og svo vil ég spyrja lesendur hvort þeir vita um góða vefi aðra en ég hef nefnt?

 

 


Það er leikur að - vinna á skurðgröfu?

Þegar ég sá ungan og fullfrískan mann hamast í XBOX leik eins og honum væri borgað fyrir það, datt mér í hug hvort ekki mætti gera fjarstýrðar skurðgröfur og fá gröfustjóra á þær sem ynnu heima við?

Háskerpu myndavélum yrði komið fyrir á gröfunni í stað stýrishúss.  Hægt væri að setja upp stýrishús heima hjá starfsmönnum -  eða þróa lausn sem ynni með Playstation eða XBOX sem stýribúnaði.

Það er ekki víst að ungir krakkar gætu löglega unnið á gröfu, en eldra fólk og fatlaðir gætu það vissulega.  Sami starfsmaður þyrfti ekki að vinna á sömu gröfu allan daginn, hægt væri að skipuleggja stuttar vaktir eftir því sem hentaði.

Ef stýrishús þarf ekki að vera ofan á gröfunni myndu nýjir möguleikar opnast í hönnum.  Armurinn gæti verið í miðri gröfunni og þyngdarpúnkturinn gæti verið lægri.

Ég sá grein í Economist um að herinn væri farinn að nýta neytendavarning í auknum mæli til hernaðar, svo sem XBOX til að þjálfa hermenn og GPS tæki ætluð óbreyttum borgurum.  Kannski getur byggingariðnaðurinn einnig nýtt sér XBOX og PlayStation?

 backhoe.jpg

 

 

 

 

Reyndar datt mér í hug að kannski væri gott að geta keypt rafmagns- skurðgröfur nú þegar olían fer að klárast en það má skoða það seinna.  Skurðgröfur fara ekki yfir stórt svæði svo hugsanlega mætti leggja í þær 6KV framlengingarsnúru og spara olíuna?

 


Sjálfvirkni / stjórnleysi

Ég keypti kort í ræktina og bað um að mánaðargjaldið yrði greitt með beingreiðslum á reikning sem ég er með hjá Glitni.

Mánuði síðar kom bréf frá World Class um að gjaldið hefði ekki verið greitt, 72 krónur í dráttarvexti - og 900 kr. innheimtukostnaður.  Það stóð líka :  Ef skuld þín verður ekki greidd verður hún send Intrum Justitita til innheimtu. 
Skemmtileg byrjun á viðskiptasambandi eða hitt þó heldur.

Ég fékk að vita reikningsnúmerið.  Það kom í ljós að ég hafði gefið upp númer á vitlausum bankareikningi, reikningi sem ég á en er ekki með innistæðu.  Nóg af peningi á hinum reikningunum, bara ekki þessum ákveðna reikningi.

Tölvan hjá World Class hafði reynt að tala við tölvuna hjá Glitni, Glitnistölvan sagði að peningurinn væri ekki til.  "Computer says no" eins og þeir segja í Little Britain.

Ég hringdi í World Class og spurði um sundurliðun á þessum 900 krónu kostnaði.  Svarið var:  Reyndar er bréfið ekki frá okkur heldur frá Intrum Justitia, allt sem greiðist ekki strax fer þangað sjálfkrafa.  900 kr. er hámarkið sem má rukka skv. lögum.  Ef ekki hefði verið fyrir þessi lög hefðu þeir getað krafist 170 þúsund króna væntanlega, óútskýrt og ósundurliðað?

Sannleikurinn var þá sá að skuldin var þegar komin til Intrum Justitita þótt þetta væri fyrsta aðvörun til manns sem er nýkominn í viðskipti og ósköp eðlileg skýring á öllu saman.  Hótunin var semsagt þegar komin í framkvæmd.

Næst hringdi ég í þjónustuver Glitnis og sagði:  Mér skilst að gerð hafi verið tilraun til að taka út af reikningi hjá mér en innistæða hafi ekki verið til fyrir úttektinni. 1) Af hverju mátti World Class reyna að taka út af reikningi hjá mér án þess að þið hefðuð samband við mig, ég hef ekki undirritað leyfi (sem ég hefði vitaskuld gert, en rétt skal vera rétt) og 2) af hverju var ég ekki látinn vita að misheppnuð tilraun til úttektar hefði verið gerð?

Svarið:  "Við getum látið vita með SMS ef innistæða fer niður fyrir ákveðin mörk en við getum ekki látið sjálfkrafa vita ef misheppnuð úttektartilraun er gerð.  Þetta er náttúrulega góð hugmynd, ég skal koma henni áleiðis".

Mig grunar að Glitnir geti ekki látið vita af svona úttektartilraunum vegna þess að millifærslurnar eru framkvæmdar af reiknistofu bankanna sem er óguðlegt sameignarfyrirtæki allra bankanna með tölvubúnað frá sjötta áratugnum ef marka má lengd skýringartexta sem má fylgja millifærslum, það eru víst sex bókstafir, finnst öðrum en mér það vera grunsamlega stutt skýringarsvæði?

Önnur skýring er að allir í bankakerfinu græða á að hafa þetta svona, FIT gjöld eru annað dæmi um þetta sama fyrirbæri.  Ég er hættur að nota debetkort því ef ég nota það og innistæða er ekki fyrir hendi kemur þúsundkall í sekt, jafnvel oft sama daginn.

Þetta er tölvuvæðing sem er stjórnlaus.  Það liggur við að ég vilji loka netbankanum og skipta yfir í ávísanir.  Mér finnst ég hafa misst stjórnina á mínum fjármálum þegar fyrirtæki út í bæ mega sjálf skammta sér peninga svona og rukka sektir fyrir eitthvað sem er ekki einu sinni skilgreint.

Hefði ekki verið nær að hafa sektina upp á 20 milliwött eða 4 míkrósekúndur, eitthvað sem tölvur nota en ekki menn?

Mig grunar að Icesave sé svoldið tengt svona misheppnaðri sjálfvirkni, bara í stærri stíl.  Tölvubransinn er ekki saklaus þarna.

 


Athyglisverður öryggisleki

Kunningi minn var að skrá sig í þjónustu á vefsíðu bankans sem hét áður KB banki.  (Nýja nafnið man ég ekki, ég ætla að leggja það á minnið ef þeir lifa í nokkra mánuði).

Hann, eins og ég, er með tvær tegundir af lykilorðum, eina sem hann notar þegar mikið liggur við, til dæmis í samskiptum við bankann sinn, og aðra sem hann notar þegar hann skráir sig á síður eins og Facebook eða GMail, lykilorð sem honum er ekki eins annt um.

Hann, eins og fleiri, getur ekki munað tugi ólíkra lykilorða og er því með nokkur sem hann notar á mörgum stöðum.

Hann varð því hvumsa þegar bankinn sendi honum "spari" lykilorðið sem hann hafði verið að enda við að skrá inn, ódulkóðað í venjulegum tölvupósti.

Þess vegna þurfti kunningi minn að fara á þá staði þar sem hann notar "spari" lykilorðið og skipta því út hið snarasta.

Ég hef lesið ýmislegt um öryggismál en þetta vandamál held ég að sé ný tegund. Kunningi minn gaf sér ákveðið færnisstig vegna þess að hann var í samskiptum við bankann, en svo kom í ljós að hann var í samskiptum við einhverja deild innan bankans sem taldi sig ekki þurfa að fylgja sömu öryggiskröfum og aðrar deildir innan bankans.

Þetta er eins og að fara á heilsuverndarstöð, segja lækni persónuleg vandamál sín en komast svo að því að maður var að tala við manninn sem lagar ljósritunarvélina en gengur líka um í hvítum slopp.

Ég er ekki að gagnrýna bankann, þetta er mjög skiljanleg uppákoma. Ég er bara að skrásetja nýtt fyrirbæri í mörkinni.

Tölvupóstur er algerlega óöruggur samskiptamáti. Hann er jafn óöruggur og póstkort.  Allir sem hafa aðgang að afritum af einhverjum póstþjóni á boðleiðinni geta skoðað tölvupósta, sem og þeir sem eru á sama nethnúti og notandinn.   Afrit er furðu auðvelt að nálgast, gömlum afritaböndum er hent, harðir diskar sem eru ennþá læsilegir eru teknir úr umferð og lenda í ólæstum ruslageymslum.

Tölvupóstur þarf ekki að vera óöruggur, það eru bara sögulegar ástæður fyrir þessu.  Póststaðlarnir eru með elstu netstöðlunum, frá þeim tíma þegar tölvuglæpir voru ekki til.

Bankasamskipti um vefsíðu eru miklu öruggari því þau eru dulkóðuð (https) og enginn milliliður er á leiðinni milli bankans og notandans þar sem skilaboðin eru afkóðuð og vistuð.

Reyndar er annað öryggisvandamál á ferðinni.  Ef öryggið er gott, getur starfsfólk ekki hjálpað þér ef þú gleymir lykilorði, það verður að búa til nýtt.  Ef starfsfólk getur sagt þér hvað lykilorðið þitt er, getur það líka þóst vera þú og notað lykilorðið þitt í lengri tíma án þess að þú vitir af því og þú getur ekki lagalega sannað að einhver annar hafi verið á ferðinni.  Ef starfsmaður sem ætlar að brjóta af sér þarf að búa til nýtt lykilorð, munt þú komast að því fljótlega að þú kemst ekki inn á þínu gamla og einhver skráning mun eiga sér stað að lykilorðinu hafi verið breytt án þinnar beiðni sem fríar þig vonandi undan fjárhagslegri ábyrgð.

Lykilorðið sem bankinn var að senda kunningja mínum er augljóslega af þeirri tegund að allir starfsmenn bankans geta séð það.

Eru ekki öryggsimál skemmtileg?   Þeir sem vilja fræðast um þennan málaflokk geta lesið skemmtilega pistla Bruce Schneier: http://www.schneier.com/crypto-gram.html

 

PS:  Bruce mælir með ókeypis vírusvörn:  http://free.avg.com/us-en/homepage


Einfaldasta framsetning á Quicksort sem ég hef séð

Þetta er alger nerdafærsla en ..  ég hef sjaldan séð snaggaralegri framsetningu á Quicksort.   Þetta er skrifað í Python:

def qsort(L):
    if L == []:
        return []
    pivot = L[0]
    return (qsort([x for x in L[1:] if x < pivot]) +
            [pivot] +
            qsort([x for x in L[1:] if x >= pivot]))


qsort([3,1,4,1,5,2,7])
[1, 1, 2, 3, 4, 5, 7]
>>>


Hvar vaeri islenskan stoedd an islensku bokstafanna?

A degi islenskrar tungu vil eg minna a starf Arnar Kaldalons.

Thad gerdist ekki ad sjalfu ser ad islenskir bokstafir eru i oellum toelvum sem eru seldar a Islandi i dag.

Það er ekki pláss fyrir alla mögulega bókstafi í stafatöflum tölva.  Íslenskir stafir eru 20 talsins og þeir tóku mikið pláss í stafatöflum á árum áður þegar aðeins var pláss fyrir 200 tákn.  Það þurfti að berjast fyrir þessu plássi á erlendum vettvangi.

Þar var Örn Kaldalóns "maðurinn bak við tjöldin".

Örn tók saman íslenska stafatöflu (CECP 871) sem enn er í notkun á Íslandi í öllum miðlungs- og stórtölvum IBM. Örn var yfirmaður Þýðingastöðvar Orðabókar Háskólans og IBM og sá um íslenskar málkröfur fyrir IBM á Íslandi 1984–1992. Hann var einnig fulltrúi gagnvart IBM vegna íslenskra þýðinga og málkrafna en það var verkefni sem hann hafði sinnt fyrir IBM á Íslandi.  (IBM var þá eins og Microsoft í dag, aðilinn sem ákvað hvernig allt skyldi vera).  Örn hefur verið í Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins frá 1978, í meira en aldarfjórðung.


Nú eru allir séríslensku stafirnir í hinum veigamikla alþjóðlega staðli ISO 8859. Sá staðall er forsenda þess að við getum notað íslensku í tölvutækni. Örn mun hafa starfað með Jóhanni Gunnarssyni að því máli en þeir nutu aðstoðar Willy Bohn, staðlasérfræðings hjá IBM í Þýskalandi.

Örn var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands 9. febrúar 2006.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband