Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

In memoriam

Ég sá í fréttum að Borgarnes kjötvörur væru komnar í greiðslustöðvun. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las fréttina var lambalærið sem ég keypti frá þeim þegar ég flutti til Íslands.

Á pokanum stóð "Rauðvínslegið lambalæri" en í honum var ekkert rauðvín heldur salt og paprika. Kjötið var svo brimsaltað að það var óætt eftir grillun. Hvaða kokkur sem er hefði getað bent á að maður kaupir ekki forsaltað kjöt nema maður ætli beinlínis að kaupa saltkjöt.

Ég minntist á þetta við kollega mína sem sögðu einum rómi: "Keyptir þú vakúmpakkað kjöt í saltpækli frá Borgarnes kjötvörum? Það gerir maður ekki. Farðu í kjötborðið í Nóatúni eða Melabúðina ef þú vilt grilla". Ég sagði "Fyrirgefiði, ég er nýfluttur til landsins". Ég skrifaði Borgarnes kjötvörum út af þessu en fékk ekkert svar. Ég hef ekki keypt vörur frá þeim síðan. Þetta var mín upplifun af Borgarnes kjötvörum.

Ég var samt hissa á að þetta fyrirtæki hafi farið á hausinn. Ég hélt að kjötvinnslur á Íslandi væru verndaðir einokaravinnustaðir í eigu stórra aðila. Þeir gætu því selt lélegar vörur út í eitt án þess að fara á hausinn.

Nýungar í kjötvinnslu á Íslandi virðast fylgja útlendingum. Ég man eftir frábærri kæfu sem var frá fransk-íslenska eldhúsinu. Hún hvarf. Merkið er til ennþá en kæfan er ekki lengur sú sama og hún var. Svo man ég eftir æðislegum pólskum pylsum. Ég hef ekki séð þær nýlega. Ég ályktaði þvi að nýungar hér væru dauðadæmdar.   Markaðurinn virðist mér vera að versna frekar en hitt.  Um daginn hætti ég að geta steikt Ali Bacon því vatnsinnihaldið í kjötinu er orðið svo hátt (ég skipti yfir í Goða og vona að þeir "vöruþrói ekki").

Mér þykir leitt að tugur manns í Borgarnesi hafi misst vinnuna að óþörfu en á sama tíma finnst mér frábært að markaðurinn skuli virka að einhverju leyti.

Hefði ekki mátt stunda smá vöruþróun? Íslenskt lambakjöt er besta hráefni í heimi. Púnktur. Það þarf ansi mikinn þumbarahátt til að gera lélega vöru úr því. Hvernig þeim datt í hug að taka ekta íslenskt lambalæri og eyðileggja í saltpækli með rauðum lit er mér óskiljanlegt.

Ég er farinn að lesa Bændablaðið reglulega og það er að verða eitt af uppáhaldsblöðunum mínum. Ég er farinn að halda með bændum og vona að þeir hafi það sem allra best. Ef tilgangur blaðsins er að kynna bændastéttina fyrir öðrum vinnandi stéttum þá er það að takast í mínu tilfelli. Ég get sætt mig við ostinn og mjólkina sem fæst í Reykjavík. Gæðin eru mikil þótt varan sé einsleit og full sykruð. En, ef ég gæti breytt einhverju í íslenskri matarmenningu væri það kjötvinnslan á Íslandi. Það að "Spam" skuli heita hér "Skinka" sýnir ótrúlegan fautahátt.

Þið sem eruð að stunda kjötvinnslu: Stundið vöruþróun! Farið til Frakklands og sjáið hvernig kjötborð á að líta út. Ég veit ekki hvernig bransinn er skrúfaður saman. Kannski þurfið þið ekki að standa ykkur, en væri ekki samt meira gaman í vinnunni?

IMG_LvnElsenCharcuterie

 


Andlegur skurðmokstur

         Ég fékk tölvupóst frá manni sem ætlaði að taka viðtöl við mig og kollega mína. Hann spurði hvort við gætum sent svarpóst og sagt hvenær hver okkar um sig gæti hitt hann? Ég sá fyrir mér hvernig póstarnir myndu hrannast inn: Einn getur hitt hann fyrir hádegi á mánudag, 10-12 þriðjudag, upptekinn miðvikudag. Tuttugu svoleiðis póstar.

Hefði ekki verið nær að setja upp stundatöflu og merkja okkur inn á hana? Vandinn er, hvar á Internetinu átti hún að hanga? Ekki allir móttakendur póstsins hafa aðgang að sameiginlegu skráasvæði. Það er með herkjum að ég geti séð vinnumöppurnar mínar heimanfrá. Outlook er með dagatalsmöguleika en ekki allir vilja nota Outlook og þótt þeir gerðu það er ekki hægt að tengjast því svo vel sé, nema á innra netinu. Þarna stundar maðurinn andlegan skurðmokstur í stað þess að láta tölvuna vinna fyrir sig.

Matsalan í skólanum hefur ekki tengt búðarkassann við nemendabókhald skólans og því borga nemendur með reiðufé í stað nemendakorts, því matsalan getur ekki borgað offjár fyrir sérsniðna lausn til að tengja kerfin saman.

Á heimasíðu bankans fæ ég að velja á milli greiðsluseðils, millifærslu á annan reikning, boðgreiðslu með greiðslukorti, A-gíró, B-gíró og C- gíró. Alltof margar greiðsluaðferðir sem eiga hver sína sögu og hagsmunaaðila að baki. Þegar ég svo borga fæ ég að slá inn sjö bókstafa skýringu. Sjö stafir. Halló?

Það vantar staðla. Einföldustu hlutir eru erfiðir af því tölvur vinna illa saman. Án staðla verður tæknin innantóm. Flottasti Bens væri lítils virði ef Vegagerðin væri ekki að malbika sömu vegi fyrir alla bíla. iPhone frá Apple væri gagnslítill ef símafélögin hefðu ekki bundist auðmjúkum samtökum um að þróa GSM kerfið saman.

Apple miðlar þessari auðmýkt ekki áfram til viðskiptavinanna. Ekki reynir sá sem selur brauðristar að fyrirskipa kaupendum hvaða tegundir af brauði þeir mega rista en sá sem dirfist að reyna að opna Apple síma tekur þá áhættu að Apple sendi símanum skipun um að fremja sjálfsmorð.

Menn og fyrirtæki hika við að skipta um hugbúnað þótt þjónustan sé slæm því kostnaður við að breyta gögnum á nýtt snið er svo mikill. Þessi ótuktarskapur er kallaður "lock-in". Neytandinn er orðinn neysluvaran. Ef "lock-in" gengur nógu langt getur fyrirtæki haldið sinni markaðshlutdeild þótt það minnki notendaþjónustu, hækki verð og stundi ekkert frumkvöðlastarf.

Það hefur aldrei verið hægt að vista PDF skjöl í Word því PDF er frá Adobe og Microsoft vill ekki vinna með þeim. Þetta er dæmi um hvað maður fer á mis við ef þeir sem maður á viðskipti við vinna ekki saman. Microsoft gerði sín skráarsnið erfið fyrir aðra að lesa en hafa nýlega séð að þeir voru að skjóta sig í fótinn því notendur eiga fullt í fangi með að opna Microsoft skjöl í Microsoft hugbúnaði. Microsoft er byrjað að skjala skráarsniðin sín og þeir hafa lofað að lögsækja ekki þau fyrirtæki sem reyna að lesa og skrifa skrár samkvæmt þeim.

Við fyrstu lesningu á stöðlunum blasir við ormagryfja af breytingum á skjalasniðinu í gegnum árin. Lýsingin á Excel skjali tekur 350 síður og vísar í fullt af öðrum undirskjölum enda var Microsoft ekki að reyna að skrifa staðal. Er þetta "staðallinn" sem opinberar stofnanir ætla að vista gögn í næstu árin?

Ég á mér draum. Ég vil geta opnað mína skráamöppu fyrir vini í hinum enda bæjarins án þess að þurfa að borga sérfræðingi fyrir að opna eldvegg. Ég vil geta beðið um kassakvittun frá kaupmanni beint í rafrænt heimilisbókhald, í stað úreltrar kassanótu á strimli sem ég get illa lesið. Ég vil geta náð í bíómyndir og tónlist með löglegum hætti án þess að eyða bensíni eða fara í einokunaráskrift. Ég vil geta opnað nokkurra ára gamalt ritvinnsluskjal og reikniörk.

Tal um "Open Source" hugbúnað skiptir litlu máli. Forritarar þurfa jú líka laun, en forritin sem þeir skrifa eiga samt að lesa og skrifa gögn samkvæmt opnum stöðlum.

Ríkisstjórnir eiga ekki að geyma gögn á lokuðu sniði. Þær eiga að vinna að uppbyggingu á stöðlum í stað þess að berjast óbeint gegn þeim með því að huga ekki að þessum málum.

Eftirspurn eftir tölvunarfræðingum hefur sjaldan verið meiri og launin eru góð en það er lítið um valdamikla fagmenn sem varða veginn. Tölvunarfræðingar þurfa að sýna faglega ábyrgð eins og verkfræðingar og læknar hafa reynt að gera gegnum tíðina.

Land sem verður öflugt í að skilgreina staðla og framfylgja þeim getur orðið leiðandi á heimsvísu. Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki munu þá selja vörur sem vinna vel saman og útkoman verður stærri en summa þess sem lagt var upp með.

 

(Greinin var birt í viðskiptablaðinu 26.febrúar). 


IBM 1401

Ég vil benda þeim sem hafa gaman af fallegri tónlist á þessa plötu:

IBM 1401: A user's manual eftir Jóhann Jóhannsson

 

 johann

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tónlistin er yndisleg og batnar við hverja hlustun.

 


Skerpa eða ekki?

Hér eru tvö sjónvörp hlið við hlið í kolniðamyrkri.  Vinstra tækið gæti verið dæmigerður LCD flatskjár, hitt er plasma tæki þar sem svart er svart.  Hvort tækið er eigulegra? 

skerpa


DVD eða Blue-Ray?

Hér er ljósmynd:

 1080linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er sama mynd sem hefur verið minnkuð úr Blue Ray upplausn (1080 línur) í DVD upplausn (625 línur) og stækkuð upp aftur:

625linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er um það bil munurinn á venjulegum DVD í upscaling spilara og Blue-Ray spilara...

 


How high the moon?

Ég rakst á þessa mynd þegar ég var að leita að myndum til að hafa með fyrirlestri um gerfihnattasamskipti. Hún sýnir jörðina, tunglið og fjarlægðina á milli í réttum hlutföllum.

earth_and_moon_1024

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hélt að tunglið væri stærra og nær okkur...

PS: Hér er "How high the moon" í boði Stephane Grappelli.

 


HD-DVD er dautt og Blue-Ray er ekkert voðalega hresst heldur

Þegar ég fór í sjónvarpsverslun um daginn fannst mér eitt sjónvarpstækið skara fram úr í gæðum og ég spurði afgreiðslumanninn nánar út í tækið.  Tækið reyndist vera plasmatæki og það var ekki í sérlega hárri upplausn.

Mörg flatskjártækin eru því marki brennd að vera ekki sérlega björt, og það sem á að vera svart er fjólublátt eða grátt í staðinn.  Þessi munur á birtu og dimmu er kallaður skerpa.  Skerpan er meiri í Plasma tækjum og gömlum sjónvörpum en í LCD skjám.

Ég held að skerpa sé mikilvægari en upplausn ef menn vilja upplifa góða mynd.  Skerpan er það sem fer í bíó þegar einhver opnar útidyrnar í sýningarsalnum.

Þar sem flestir kaupa LCD skjái en ekki plasma, þá álykta ég að myndgæði séu ekki mikilvæg í hugum kaupenda.

Blue-Ray og HD-DVD staðlarnir eru að selja upplausn.  Ef fólk er ekki einu sinni tilbúið að kaupa tæki vegna skerpunnar þá efast ég um að fólk fjárfesti í þessum stöðlum til að fá upplausn.

Það sem seldi hljóðgeisladiska á sínum tíma var ekki hljómgæðin heldur þægindin.  DVD diskar eru nógu þægilegir, þangað til niðurhalið tekur við.

Bandaríkjamenn voru með NTSC útsendingar sem voru mjög lélegar.  Fyrir þá skiptir miklu máli að losna undan þeim svo ég skil betur ef þeir skipta sínum NTSC spilurum út.  Það er þó fyrst og fremst liturinn en ekki upplausnin sem gerði þann staðal svo lélegan.

Venjulegir DVD spilarar í dag eru með "upscaling" og HDMI tengi en það er aðferð við að lesa innihald venjulegs DVD disks á því formi að það henti nýjum flatskjám betur.  Myndin sem kemur á skerminn með  þannig spilara jaðrar við að vera eins góð og af Blue-Ray diski.

Mín niðurstaða:  Kaupa Upscaling DVD spilara með HDMI úttaki fyrir tíu þúsund kall og njóta áfram DVD diskanna sem ég á.


mbl.is Hvítt flagg hjá HD-DVD?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af uppsölum

Ég var í veislu erlendis þar sem maður þurfti skyndilega að bregða sér afsíðis. Félagi okkar sagði þá: "I think he needs to pray to the Porcelain God" eða "Ég held hann þurfi að biðja til postulínsguðsins" í merkingunni að hann þyrfti að æla.

Í framhaldi af þessu snerist umræðan um mismunandi aðferðir við að segja þetta undir rós.

Myndræna líkingin "Technicolor Yawn" eða "regnbogageispi" var næst nefnd, og er þar vísað til marglitrar gusunnar út úr viðkomandi.  Einnig var talað um "matarfórnir til kínversku guðanna".

Dani sagði að þar í landi væri talað um "At snakke i den hvide mikrofon" eða að "tala í hvíta hljóðnemann" og er þarna vísun í eintal manneskjunnar við klósettskálina.

Svíi bætti við að þar í landi væri þetta kallað "At kjöre Gustavsberg" eða "að keyra Gustavsberg" með vísun í hvernig gripið er þéttingsfast með báðum höndum um brúnina á meðan ælt er.  (Gustavsberg er sænsk klósetttegund).

Norðmaður sagði að þar væri þetta kallað "at ryta pa Elgen" eða að öskra á elgina, en öskrin í dýrunum minna víst á hljóðið þegar menn kúgast.

Umræðan var á lágu plani þegar þarna var komið kvölds, en það var samt gaman að heyra að "et kært barn har mange navne".

Mér vitanlega vantar þessar litríku myndlíkingar í íslenskt mál.  Hvernig væri að "Afhenda götupizzu" eða "njóta matarins í bakkgír" eða "játa ást sína til miðborgarinnar"?

Fyrst ég er farinn að blanda þessu við borgarmálin, hvernig væri þá: "Að lýsa yfir stuðningi við borgarstjórann?" 

 

Af tillitssemi læt ég enga mynd fylgja færslunni. 

 


Þetta er fljótt að koma...

Dagsþörf fullorðins manns er 2.500 kaloríur.

  • Pylsa með öllu: 429 kaloríur
  • Big Mac og stór skammtur af frönskum: 1.080 kaloríur
  • Máltíð á KFC: 1.350 kaloríur (Franskar, hrásalat, kjúklingabringa og læri)
  • Tólf tommu kjúklingalangloka frá Quiznos: 1.495 kaloríur (úff!)
  • Domino's 14 tommu pepperoni pizza: 1.924 kaloríur

200 kaloríur bætast við ef maður fær kókglas með. 

Ég fékk þessar upplýsingar af erlendum vefsíðum.  Ég veit ekki hvað Hlöllabátur eða American Style borgari er með mikið af hitaeiningum.  Hvorki www.americanstyle.iswww.hlolli.is birta upplýsingar um næringarinnihald.

Ég velti fyrir mér:  af hverju eru hitaeiningar merktar utan á rjómafernu en ekki á auglýsingar fyrir Domino's deep crust pizzu með pepperoni og osti?  Ættum við að byrja að merkja skyndibita með hitaeiningum?  Myndi það breyta einhverju um neysluvenjur okkar?
mr-creosote

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þungur baggi

Ég fór á rafmagnsverkstæði með bílinn vegna þess að hann verður rafmagnslaus ef  hann stendur nálægt þráðlausum veðurstöðvum.  Tölvan í bílnum heldur nefnilega  að þær gætu verið fjarstýrður lykill.

Þegar verkstæðiseigandinn var búinn að hlægja nóg af þessari tíktúru í bílnum og hafði sýnt félögum sínum hvernig tölvan át hálft amper úr rafgeyminum í hvert skipti  sem einhver útvarpspúls var í grenndinni, sýndi hann mér apparat á stærð við  kalkún sem hann var með uppí hillu:

Range_rover_column600

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo sagði hann mér söguna á bak við stykkið:

Ökumaður ætlaði að hagræða sér í sætinu á nýlegum Range Rover og greip þéttingsfast í stýrið.  Þá heyrðist brestur og stýrið varð laust svo hann fór með bílinn á verkstæði.  Pinni hafði brotnað í einingunni á myndinni og það  þurfti að skipta um hana í heild.  Hún vegur um tíu kíló og kostar hundrað þúsund krónur.  Reiðhjólið mitt kostaði hundrað þúsund krónur og vegur tíu kíló, þetta er nefnilega lúxushjól.

Nú kemur ástæðan fyrir blogginu:  Eini tilgangur stykkisins er að hækka og lækka stýrið í bílnum.

Range Rover eigendur keyra um allt með tíu kílóa aukavigt fyrir hundrað þúsund krónur til að geta ýtt á takka ef þeir vilja hækka og lækka stýrið.

Nú gat ég séð með eigin augum hvernig verðið og þyngdin á bílum í þessum flokki verður til.  Augu mín opnuðust og ég fékk "bíla-nirvana".  Ég lofaði sjálfum mér að láta mig ekki dreyma um svona lúxus eftirleiðis.

Karlkyns páfuglar ganga nærri sjálfum sér til að skarta fjaðraskrúði og ganga í augun á kvenfuglunum.  Á sama hátt virðist lúxuskapphlaupið í bílabransanum  vera að gera út af við bílana sem farartæki.

Upphaflega hugmyndin að jeppa var að gera sterkbyggðan bíl sem þyldi volk og væri fær í flestan sjó.  Það er mótsögn að fylla þannig bíla af þungum og  viðkvæmum búnaði.  Það væri hart að verða úti á fjöllum af því maður hagræddi  sér í sætinu.

peacock

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband