Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Þankar um stærðfræði og lýðræði

Hér fylgir gróft uppkast af hugsunum.


Ég hef veitt fisk úr sjó. Mér fannst ég vera að fá eitthvað gefins, ég er ekki hissa á því að allir vilji kvóta. Þú gætir alveg eins valið úr hverjir fá ókeypis að borða. Fiskurinn okkar er eins og olían hjá Aröbunum.

Olían hefur verið þeirra blessun eða bölvun eftir því hvernig á það er litið. Saudi fjölskyldan hefur sölsað undir sig völd og auð í stað þess að þessi auðlind gagnist öllum landsmönnum jafnt.  Reyndar kostar lítri af bensíni 10 cent þar núna (13 krónur) sem er ódýrt -- það sama verður ekki sagt um fiskinn sem íslendingum er seldur innanlands.

Auður og völd færast á fárra hendur, það virðist vera náttúrulögmál (the power law) en við erum ekki dýr, við getum barist á móti náttúrulögmálum.  Hlutir detta niður en við smíðum flugvélar.

Ef margir væru að skapa auð hér, myndi valdð dreifast af sjálfu sér en Ísland er með mjög fáa atvinnuvegi. Til forna var það ein alþjóðasamsteypa (kirkjan), bændur og verslunarrekendur (danir) sem réðu.  (Fiskveiðar voru til en aðeins sem hlunnindi bænda, það var ólöglegt að vera bara veiðimaður en "búa" hvergi).  Öðrum var gert að standa og sitja eins og þessir aðilar skipuðu.

Í dag eru það kvótaeigendur og verslunareigendur sem ráða. Verslunareigendum er gróflega hægt að skipta í þá sem selja búvöru (MS), olíu (Skeljungur, N1,..) og matvöru (Bónus, Krónan).  Kannski má bæta við þriðja hópnum, þeim sem stjórna leiðum til og frá landinu (Eimskip, Flugleiðir).  Tímabundið bættust bankar og tryggingarfélög í hópinn en gætu verið að detta úr valdahópnum aftur.   Aðrir skipta miklu minna máli (venjulegt fólk, verkstæði, kennarar, læknar,..).

Lögin sjá til þess að það er erfitt og dýrt að fara fram hjá þessum valdablokkum, ég gat ekki notað danskt tryggingarfélag, verslun eða banka eftir að ég flutti heim.  Það var kraftaverk þegar Atlantsolía bættist á sjónarsviðið, undantekning sem sannar regluna.  Mjólka er að deyja.

Við erum með þing, dóm og ríkisstjórn sem á að veita þessum öflum mótvægi en virðast ekki gera það. Venjulegt fólk ræður minna en engu. Ég hef prófað að taka þátt í ýmsu starfi (hagsmuni hjólreiðafólks, hagsmuni tölvunarfræðinga, neytenda) og hef séð að hér eru engar boðleiðir opnar til að hafa óbein áhrif á hluti. Ég réði meiru í mínu samfélagi í Danmörku.

Ég þekki ekki þingmenn persónulega og þótt ég gerði það tel ég að þeir ráði ósköp litlu, framkvæmdavaldið og embættismenn ráða í ríkisstjórnarblokkinni og hún hefur verið í vasanum á hinum valdhöfunum, verslunareigendum, olíufélögum og kvótaeigendum.

Ef ég þarf að velja milli kommúnisma eða kapítalisma vel ég hvorugt (og ef ég þarf að velja milli Vals og KR er mitt svar "ég fer út að hlaupa").

Ef vald þjappast á fárra hendur heitir það kommúnismi. Ef auður þjappast á fárra hendur heitir það kapítalismi. Ef hvorugt gerist er það kallað "anarchy" sem er andstaðan við "hierarchy" þar sem einn trónir á toppnum. Hvað er að "anarchy"? Ég er í hlaupahópi sem á sér engann foringja. Öll mál eru leyst í bróðerni, enginn ræður meira en hinn, virðingin er alger. AA og Al-anon vinna svona líka.  (Reyndar hafa hlaupasamtökin "benevolent dictator for life" sem veit betur en að misnota vald sitt).

Hvers vegna vinnur Ísland ekki svona?  Við erum svo fá, ætti það þá ekki að vera þeim mun auðveldara?  Er hægt að setja lög í stjórnarskrá um að vald og auður megi ekki þjappast ?  Bandaríkjamenn eru (voru amk.) mjög meðvitaðir um hættu hringamyndunar, það hefur ekki verið passað hér.  Skrýmsli eins og Mjólkursamsalan, Baugur, Visa/Reiknistofnun bankanna og Olíudreifing eiga að vera óhugsandi vegna lagaramma landsins.

Valdadreifing ehf.

Rómverski herinn áleit að einn maður gæti stjórnað 100 mönnum -- ef hópurinn væri stærri yrði liðsheildin léleg og herforinginn gæti ekki lengur þekkt hvern og einn persónulega. Þess vegna voru herforingjarnir kallaðir "Centurions" en "Cent" er latína yfir 100.

Á íslandi eru 63 þingmenn fyrir 300 þúsund manns svo hver þingmaður þarf að tala við tæplega fimm þúsund menn og konur ef hann vill vera með á nótunum (og gefið væri að hann réði einhverju).  Það er ekki mjög persónulegt.

Ef við færum rómversku leiðina gæti skipulagið verið svona:

Íslendingar mynduðu hundrað manna hópa, sem hver um sig kysi formann. Þeir sem ekki mættu í hópastarf væru ekki að kjósa í neinum málum, það væri réttur hvers og eins að vera ekki með. Hins vegar held ég að ég myndi mæta í hundrað manna samkomuna mína því þar væri hægt að láta að sér kveða.

Formenn hundrað slíkra samkunda hittast og velja einn fulltrúa til að fara á þrjátíu manna fund.

Þar væru komnir saman 30 menn sem væru aðeins tveim persónulegum tengslum frá hverjum einasta íslendingi á landinu. 100*100*30 eru 300 þúsund.

Boðleiðin væri stutt.  Ég myndi tala við Jón formann, Jón velur Gunnu, og Gunna mætir á 30 manna þingið. Það væri beint lýðræði fyrir minn smekk.  Voru þetta annars Sovétin í Sovétríkjunum?  Nei, þau voru samtök verkafólks gegn valdhöfum, þetta væru handahófskenndir hópar sem hefðu upplýsingatæknina til að hjálpa sér að taka upplýstar ákvarðanir.

Ættu hóparnir að skipta sér eftir landssvæðum, aldri þáttakenda, áhugamálum, atvinnustétt? Ég held að best væri að hafa þá alveg handahófskennda, það væri bannað að mynda stóra þrýstihópa. Innan hvers hóps yrðu menn að ná sáttum.

 


Er bloggið af hinu góða?

Stundum fæ ég tölvupóst og hugsa með mér:  Það hefði verið fljótlegra og áhrifaríkara að tala saman.  Tíu tölvupóstar ganga fram og til baka án þess að lendingu sé náð í málinu.

Á þetta sama ekki við um bloggið?  Hundruðir bloggara láta frá sér litlar, innihaldslausar greinar með óhróður og uppnefningar á fólki, segja hluti sem þeir myndu aldrei segja upp í opið geðið á þeim.  Málin þokast ekki áfram.

Það góða við bloggið er að reiðir og kvíðnir einstaklingar fá útrás en það er líka það slæma við bloggið.  Þetta sama fólk gæti breytt einhverju ef það stæði upp og sameinaðist á vettvangi þar sem eftir því væri tekið.

Eins og staðan er í dag, þarf enginn valdamaður að svara aðdróttunum sem koma á bloggi.  Bloggið er búið að trivíalisera sjálft sig.

Þetta er ritskoðun úr óvæntri átt.  Sá sem hefur mikilvægan boðskap kemur honum ekki að af því allir eru komnir með sína eigin blaðaútgáfu og blaðra eins og þeim væri borgað fyrir það (sem þeim er ekki).  Sovétstjórnin hafði aldrei svona öfluga ritskoðun.


Hvað kostar að búa ?

Bankinn UBS gefur út skýrslu á hverju ári sem heitir  "Prices & earnings" en í henni eru borin saman laun og framfærslukostnaður í mismunandi löndum.

Hér er tíminn, skv. skýrslunni, sem það tekur meðalmann að vinna fyrir 1 kg brauði annars vegar og hins vegar iPod nano 8GB:

Borg             1 kg brauð  1 iPod

Amsterdam   19 mín   13,5 klst

Köben           17 mín   11,0 klst

Madrid           27 mín   15,5 klst

New york      14 mín     9,0 klst

Búkarest        42 mín    63,5 klst

Laun mismunandi stétta, skattar,  húsaleiga, bílverð, almenningssamgöngur, fjöldi frídaga og ýmislegt fleira er borið saman í skýrslunni á 42bls.

Í Reykjavík kostar iPod Nano núna 38.995 kr.  Sá sem er með 300 þús í laun er með 1.875 kr á klst fyrir skatt, sennilega 1.125 kr/ klst eftir skatt.  Hann er því 34 klst að vinna fyrir iPod nano.

Skv. skýrslunni er það sambærilegt við borgir eins og Tallinn, Moskvuborg og Ljubljana.

1kg brauð kostar 512 kr núna svo launamaðurinn okkar er 28 mín að vinna fyrir því.

Sóun á auðlind?

Mikið er rætt um að spara auðlindir, endurnýta plastflöskur og dósir, og keyra ekki að óþörfu.

Í framhaldi af því datt kunningjakonu minni í hug að spyrja:  Hvað er mikil eyðsla fólgin í því þegar nemandi flosnar upp úr námi af því honum var ekki sinnt sem skyldi í skólanum?

Það eru erfið viðbrigði fyrir marga að fara úr menntaskóla í háskóla.  Margir kennarar vita vel að margir nýnemar eiga ekki erindi í háskóla og sinna þeim því hæfilega lítið, snúa við þeim baki í vissum skilningi.

Ef þeir eru ennþá til staðar eftir fyrsta árið líta þeir við og segja "Ertu hér ennþá? Best að fara að sinna þér".

Hvaða vit er í því að láta herdeildir af nemendum keyra yfir bæinn og fylla skólastofurnar í ár ef svo stór hluti þeirra hverfur hljóðlega út úr skólanum eftir það?  Er hægt að gera þetta á hagkvæmari hátt og sem brýtur ekki niður sjálfstraust nemenda?

Kunningjakona mín telur að ef einhver hjá háskólunum fylgist með nýjum nemendum sem eru óstyrkir í byrjun og hefur samband ef þeir hætta að mæta í tíma megi koma í veg fyrir mikla óþarfa sóun.  Margir geta lært en þurfa "verndarengil" sem sýnir þeim að öllum stendur ekki á sama um þá.

 


Góða helgi

alternate_currency.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Af   http://xkcd.com/


Aftökurnar í Malmedy


Skömmu áður en Þjóðverjar gáfust upp í seinni heimsstyrjöld gerðu þeir eina lokagagnsókn gegn bandamönnum sem þá voru á leið frá Normandy til Berlínar.  Þessi bardagi var kallaður "The Battle of the Bulge", samnefnd bíómynd er til á DVD á Borgarbókasafninu.

17.desember 1944 rákust þjóðverjar úr 6.skriðdrekaherdeild á stráka úr stórskotaliði Bandaríkjamanna sem gáfust upp eftir stutta baráttu.

Þeir voru afvopnaðir og leiddir út að gatnamótum hjá bænum Malmedy þar sem þeir voru skotnir á staðnum.  150 manns voru teknir af lífi þennan dag.  Fyrir þá sem eru óvanir stríðsrekstri, þá á að taka stríðsfanga fasta, ekki skjóta þá.

malmedy_massacre.jpg

 

 

 

 

 

 

Þýsku hermennirnir skotglöðu voru leiddir fyrir rétt í Dachau í maí 1946.  75 þýzkir hermenn voru dæmdir, 43 til dauða, hinir í mislangar fangavistir.

proces_w_dachau.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Case closed?  Ekki alveg.  Örfáum árum síðar hafði hver og einn einasti verið látinn laus.  Sumir voru orðnir háttsettir í austur þýzkalandi, öðrum var sleppt því Bandaríkjamenn þurftu á vinsemd Vestur-þjóðverja að halda.


malmedy-massacre-memorial_911241.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Réttlætinu er ekki alltaf fullnægt.

http://en.wikipedia.org/wiki/Malmedy_massacre

 


Hinir sterkustu lifa af

Í sjónvarpinu í gær var góður þáttur með David Attenborough um Charles Darwin og ævistarf hans.  Hann minnti mig á þessa frásögn sem Dr. Ágúst Valfells sagði mér:

Þegar ég eignast M&M poka lít ég á það sem skyldu mína að viðhalda ágæti og  styrk þessarar sælgætistegundar.  Þess vegna held ég M&M einvígi.

Ég tek tvö M&M milli fingranna og klemmi saman þar til annað þeirra brotnar. Það  "tapaði" og ég ét það strax.  "Sigurvegarinn" fær að vera með í næsta leik.

Yfirleitt eru brún og rauð M&M sterkari, þessi nýju bláu eru erfðafræðilega síðri.  Ég held að blá M&M sem kynstofn geti ekki enst lengi á vígvelli snakk og nammiframleiðslu.

Stundum kemur fram stökkbreyting, M&M sem er vitlaust í lögun, oddhvassara eða  flatara en öll hin.  Yfirleitt er þetta veikleiki, en stundum er þetta einmitt  nammið sem hefur aukinn styrk.  Þannig heldur M&M áfram að aðlagast umhverfi  sínu.

Þegar ég klára allan pakkann verður eitt M&M eftir, það sterkasta í pakkanum.  Það er ekkert vit í að borða það.  Ég set það í umslag og sendi til M&M Mars, A  Division of Mars, Inc., Hackettstown, NJ 17840-1503 U.S.A. með spjaldi sem á  stendur "Vinsamlega notið þetta M&M til undaneldis".

Í síðustu viku sendu þeir mér þakkarbréf og stóran poka af M&M.  Ég lít á þetta  sem rannsóknarstyrk.

 

mmkhulr.jpg


Cargo Cult

Í seinni heimsstyrjöld komu bandaríkjamenn á fleiri afskekktar eyjar en þá íslensku.  Þeir lögðu litlar flugbrautir á mörgum eyjum í Kyrrahafi, þar á meðal eyjaklasanum Vanuatu.

jzrrnub.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flugvélar hlaðnar varningi byrjuðu að lenda, eyjarskeggjum til mikillar ánægju (og undrunar því þetta voru frumstæðar þjóðir).  Pottar og pönnur, vasaljós, skóflur, hnífar og fleiri undartól komu út úr flugvélunum.

Þegar stríðinu lauk og kaninn fór heim mynduðust trúarbrögð i kringum undarlega fólkið sem kom með allt frábæra dótið.  Eyjarskeggjar fóru að byggja byssur og skriðdreka úr hálmi og laufblöðum.  Þeir byggðu litla flugturna og reyndu að kalla þessa frábæru flugvélar með dótið niður aftur.

Þessi undarlegu trúarbrögð fengu nafnið "Cargo Cult" því "Cargo" var það sem eyjarskeggjar vildu fá en skildu ekki hvernig þeir gátu fengið. Þeir endurtóku ritúölin án þess að skilja hvernig þau virkuðu.




beadwagon2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta hugtak var síðar notað af vísindamanninum Richard Feynman til að lýsa lélegum vísindum, vinnu sem hafði yfirbragð vísinda, án þess að hafa vísindaleg vinnubrögð í heiðri.

Rétt eins og gerfiflugturn og gerfiflugbraut getur ekki látið guðdómlegar flugvélar með varning birtast úr tómu lofti geta sönn vísindi ekki verið stunduð nema undirliggjandi reglur séu í heiðri hafðar.  Menn í hvítum sloppum í nýbyggðum rannsóknarstofum og skólabyggingum eru yfirborðið en ekki kjarninn.

Vísindamenn þurfa að vera tilbúnir að efast um eigið ágæti, eigin kenningar og eigin niðurstöður og vera tilbúnir að leyfa kollegum að fara yfir vinnu þeirra til að ganga úr skugga um að allt sé með felldu.  Gagnrýnir kollegar eru ómetanlegir.

Sovétmenn stöðvuðu framrás vísinda í sínu heimalandi með því að dæla peningum í rannsóknir sem framkölluðu niðurstöður sem voru yfirvöldum þóknanlegar.  Erfðafræði var ekki til.  (Sjá grein hér).   Ef sönn vísindi eiga að þrífast verða menn með óvinsælar rannsóknir líka að geta fengið fjármagn.

Ræða Feynman er hér.  Hún er mjög læsileg, Feynman er góður penni.

Þetta hugtak "Cargo Cult" hefur líka verið notað um forritara sem gera hluti án þess að skilja af hverju.  Byrjandi í forritun afritar gamla hluta af forriti sem virkuðu og reynir að láta þá virka í nýju umhverfi án þess að skilja hvað hann gerir.

"Cargo Cult" er líka notað um pólítík.  Þjóðlönd sem þykjast vera með lýðræðislega ferla, þing, ráðuneyti og kosningar, en þar sem raunverulegt lýðræði er víðs fjarri.

Það er freistandi að vera latur og afrita það sem aðrir virðast vera að gera, í löndunum í kring, búa til kauphallir, prenta gjaldmiðil o.s.frv. en það er til lítils ef undirliggjandi kerfi virka ekki.  Borgarar þurfa að gegna borgaralegum skyldum sem neytendur og gagnrýnendur.  Menntamenn þurfa  að gagnrýna það sem er ekki með felldu.  Fréttamenn þurfa að veita aðhald.

cargo-cult41.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Nú er tímabil í sögu Íslands þegar fólk ætti að geta leyft sér að hugsa gagnrýnið um undirstöður samfélagsins.  Við viljum ekki byggja fleiri "Cargo Cult" mannvirki,  hvorki úr steypu né fólki.

Feynman endaði grein sína þannig:

“So I have just one wish for you — the good luck to be somewhere where you are free to maintain the kind of integrity I have described, and where you do not feel forced by a need to maintain your position in the organization, or financial support, or so on, to lose your integrity. May you have that freedom.”


Nova tekur Símann

"Pabbi, ég þarf að skipta yfir í NOVA".

"Af hverju?"

"Af því vinir mínir eru með NOVA, og ég hef ekki efni á að hringja í þá".

"Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur".

 

Ég fer af stað og kíki á málið.  Það kostar 28 kr mínútan að hringja frá "Símanum" í NOVA símnotanda, en ekkert ef þú ert sjálf(ur) með NOVA síma.  28 kr er dýrara en að  hringja til Hawaii (það kostar 19,90 kr mínútan, fjarlægð 9.955 kílómetrar).

Hann er nú "kominn til NOVA".  Allir vinir hans eru með NOVA svo þetta var "no-brainer" fyrir hann.  Við þurfum núna að borga fyrir að hringja í hann, en það er ekki tekið af vasapeningunum hans svo þetta er góð bissness ákvörðun hjá honum.

Ég veit ekki hvort síminn lætur þetta kosta svona mikið til að refsa þeim sem reyna að hafa samskipti við NOVA en nú hafa vopnin snúist í höndunum á þeim.

Ég talaði fyrst við þjónustuver símans og svo við afgreiðslumann í verslun símans.  Fátt var um svör.  Einn sagði :"ég vona að við finnum betri lausn en þetta Frelsi", hinn sagði:  "Getur hann ekki verið með tvo síma?"

Það er tímaspursmál þar til ég og konan skiptum líka því það kostar ekkert fyrir okkur að hringja í hvort annað, þeir sem reyna að hringja í okkur bera allan kostnaðinn.

Ef hann væri áfram í Frelsi en borgaði 2000 kr. aukalega á mánuði má hann velja og hringja í hámark sex vini sína ótakmarkað og óháð kerfi, en bara 60 mínútur hámark á mánuði.   Ef hann hringir minna en 60 mínútur fást 2000 krónurnar væntanlega ekki endurgreiddar.   Svona verðskrár eru ekki til að auka yfirsýn og auðvelda verðsamanburð.

Þetta minnir mig á þegar VISA hélt innreið sína á Íslandi.  Kaupmaðurinn þarf að borga fyrir VISA og veltir þeim kostnaði á vöruna, enginn býður staðgreiðsluafslátt.  Þú ert því búinn að borga fyrir VISA hvort sem þú notar það eða ekki.  Eins gott að nota VISA...

Eru þetta endalok Símans?  Stay tuned...

 

 


Vatn !

Ég var í Kringlunni áðan en sá hvergi vatnshana í grennd (þeir eru kannski einhversstaðar).

  • Daginn áður var ég í Háskólabíó en eina leiðin til að fá vatn var að standa í biðröð og ónáða sjoppufólkið.
  • Sömu sögu er að segja í Smárabíó.
  • Sömu sögu í Leifsstöð, hvergi vatn að hafa.

Þetta var ekki vandamál á meðan hægt var að nota vaska á klósettum en núna eru þeir oftast með forblönduðu volgu vatni.

Í Bandaríkjunum eru iðulega vatnsfontar á opinberum stöðum, en þeir eru sjaldgæfir hér.  Það er skrýtið því við erum alltaf að tala um vatnsgæðin hér.

Ég vil leggja til að sett verði í lög að almenningur skuli hafa greiðan aðgang að vatni á almenningsstöðum og minnka þannig umhverfissóðalega sölu á vatni í plastflöskum.

 

Áður en ég trufla heilbrigðisráðherra með þessari uppástungu, hvað finnst ykkur?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband