Færsluflokkur: Neytendamál

Eitthvað spooky ?

Um helgina hringdi ég í símann og sagði að þeir mættu sameina þrjá gemsa, heimasíma og breiðband á einn reikning af því nú borgum við sjálf fyrir alla okkar gemsa í minni fjölskyldu.

Svo spurði ég hvort þeir gætu boðið okkur hagstæðan fjölskyldusamning, úr því allt væri komið undir sama hatt?

Svarið var "Nei. Konan þín fékk góða gemsaáskrift árið 2003 þegar fyrirtækið sem hún vann hjá samdi, þessi samningur er ekki í boði lengur. Hún ætti að halda sér við þann sem hún fékk þá".

"Þú skalt líka halda þig við áskriftina sem þú ert með. Þú fékkst GSM áskrift árið 2000 sem var mjög góð, ég myndi ekki hrófla við þessu ef ég væri þú".

Ég spurði: "Eigum við ekki að taka einn af pökkunum sem sagt er frá á heimasíðu símans, Betri leið, 67+, Grunnáskrift, góður betri, bestur"? spurði ég. "Nei" var svarið.

Ég spurði: "Get ég fengið afrit af gömlu samningunum til að bera saman við nýju pakkana ykkar"?  "Nei, þeir eru ekki skjalaðir á heimasíðu símans lengur".

Þetta kom mér á óvart. Þegar ég hringi í banka eða tryggingarfélag er iðulega hægt að fínpússa eitthvað, lækka iðgjald á framrúðutryggingunni eða finna nýjan bankareikning sem býður hærri innlánsvexti. Ekkert svona gerðist þarna.

Það virðist ekki vera lengur hægt að fá jafn gott samkomulag hjá símanum eins og fyrir nokkrum árum. Ef maður samdi um símaþjónustu á maður að vera feginn og ekki hrófla við neinu.

Þetta er skrýtin þróun á sama tíma og kjörin verða hagstæðari í öðrum löndum. Nú getur maður samið um ótakmarkaða símanotkun fyrir 20$ kr. á mánuði í Bandaríkjunum.

Síðast spurði ég: Við erum með ADSL hjá Vodafone í gegnum vinnuna. Getum við samt fengið myndlykil frá Símanum?

Svarið var "Nei. Þið verðið að vera með ADSL hjá símanum til að nota myndlykil símans.

Þarna er búið að blanda saman gagnaflutningsleiðinni og gögnunum. Til að hugleiða hversu fáránlegt það er, má ímynda sér að það sé ekki hægt að versla í Hagkaup nema eiga Toyota bíl. Tilgangurinn er væntanlega að "sjónvarp" símans á að knýja neytendur til að fá sér ADSL hjá símanum.

Ég fékk ekki á tilfinninguna eftir þetta símtal að frjáls samkeppni væri í gangi í þessum málum.


Frjáls verslun ?

Ég er með bissnesshugmynd: 

Hvernig væri að fara til Bandaríkjanna og kaupa 50 stk af Ipod á  12.000 krónur hvern, og koma með heim aftur í ferðatösku.

Þegar taskan kemur á færibandinu opna ég hana og tek upp Ipoddana. Svo  sel ég hverjum sem vill Ipod á 17.000 í stað 19.999 í Elko í  fríhöfninni við hliðina á.

Ég myndi græða 250 þúsund (sem nægja vel fyrir farmiðanum til  Bandaríkjanna) og hver kaupandi myndi samt græða þrjúþúsund á því að  versla ekki við Elko.

Mig grunar samt að starfsmenn Leifsstöðvar myndu reyna að stoppa mig.  Ég myndi spyrja hvort Leifsstöð væri ekki í ríkiseigu og landareign  almennings samkvæmt lögum, og hvort ég þyrfti leyfi til að stunda  viðskipti þarna í einskismannslandi utan lögsögu, tolla og  virðisaukaskatts?

Svo yrði mér gefin einhver skýring og mér hent út, og Ipoddarnir  gerðir upptækir svo ég hugsi mig tvisvar um áður en ég reyni aftur að  stunda frjáls viðskipti.  

Baggage


Your call is important to us...

Þegar ég kom út til Frakklands opnaði ég bankareikning.  Mér var bent inn til þjónustufulltrúa sem  heitir Madame Elisabeth Chevalier.  Ég er ekki vanur að muna nöfn en ég gleymi ekki hennar nafni.

Hún benti mér á að hafa samband  við sig hvenær sem væri og lét mig hafa  kortið sitt með símanúmerinu sínu á.  Áður en ég flutti heim heimsótti  ég hana og við kvöddumst með virktum. 

Ég var einu sinni með þjónustufulltrúa hjá Glitni, mig rámar í að hún hafi heitið Svandís Kristinsdóttir.  Svo hætti Glitnir að leyfa viðskiptavinum að hringja beint í starfsfólkið, væntanlega til að  trufla ekki starfsmenn svo þeir gætu sinnt starfi sínu betur !?

Þess í stað hringi ég í aðalnúmer Glitnis og fæ nafnlausan þjónustufulltrúa eftir að hafa beðið í smástund.  Allt voða hagkvæmt og nútímalegt, eins og í Bandaríkjunum.  "Til að bæta þjónustu okkar eru öll samtöl tekin upp".  Hvernig batnar þjónustan við það?  "Your call is important to us so please hold".  Er það ekki mótsögn?

Ef sambandið slitnar og ég verð að hringja aftur þarf ég að bera erindið fram á ný.  Aldrei tek ég eftir nafni þess sem ég tala við.

Öll hin íslensku risafyrirtækin eru búin að taka upp þessar bandarísku aðferðir til að geta betur þjónustað þessa risastjóru smáþjóð.  Viðskiptaskólar kenna hvernig eigi að skapa viðskiptavild og auglýsa bætt þjónustustig á sama tíma og þjónustan verður ópersónulegri.

Ég var orðinn samdauna þessu og hélt að nútíminn væri  bara svona, en svo sá ég að í milljóna landi og í borg þar sem búa jafn margir  og í Reykjavík, er ennþá hægt að fá bissnesskortið hjá  þjónustufulltrúanum úti í banka og hún þekkir mann með nafni og hringir til að láta mann vita ef maður geymir peningana á reikningi sem bera ekki nógu háa vexti.

Kannski eru frakkar bara gamaldags - en - við erum bara þrjúhundruðþúsund for crying out loud.  Af hverju ætti  ég ekki að vita hvað bankafulltrúinn minn heitir?  Ég held að íslensk fyrirtæki séu farin yfir strikið í að hagræða og það er á kostnað neytenda.

 


Hvaða kvóti er þetta?

Ég gerði smá verðkönnun á leið heim til Íslands enda er ég alltaf að leika  neytendafrömuð. Ég tók tvær algengar vörur, Ipod og Xbox og bar saman í  raftækjaversluninni "FNAC" í Frakklandi og svo í Elko í Leifsstöð.

Ipod

Út úr búð í Frakklandi kostar svartur 8GByte Ipod Nano 209 Evrur. Evran er 91 kr  svo það gera 18.810 kr.  Í Frakklandi er 19% söluskattur.  Ef ég fæ söluskatt  endurgreiddan á leið úr landinu kostar Ipod mig því 15.237 kr.

Verslunin Elko í Leifsstöð selur þennan sama svarta 8 gigabyte Ipod fyrir 19.999 kr.  Hann er því dýrari án skatta og tolla hjá þeim en með sköttum og tollum í  Frakklandi.

Venjulegar verslanir í Evrópu eru ekkert sérstaklega ódýrar. Þessi Ipod kostar  199$ á heimasíðu Apple í Bandaríkjunum. Dollarinn er 63 krónur svo það gera  12.537 kr. með sköttum í Bandaríkjunum.  Ókeypis heimsending er innifalin í því  verði.

ipod

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Xbox 

Næst er það Xboxið.

Út úr búð í Frakklandi get ég keypt Xbox 360 með leiknum "Call of duty"  inniföldum fyrir 385 Evrur.  Leikurinn innifaldi kostar annars 60 evrur. Með  tölvunni og leiknum fylgir afsláttarmiði upp á 50 Evrur.  Síðan fást 56 evrur  endurgreiddar í skatt á leið úr landinu.  Því er endanlegt verð á sjálfri Xbox  tölvunni (385-50-60-56) * 91 kr = 19.929 kr.

Í Elko í Leifsstöð kostar þessi sama Xbox 360 tölva 30.999 kr.  Aftur kem ég því  betur út með því að versla ekki í Leifsstöð.

 

Hvers vegna?

Mér finnst það skrýtið að svokölluð "Duty Free" verslun skuli ekki geta keppt  betur við venjulegar búðir í Evrópu.

Enginn heilvita maður kaupir svona tæki í bænum, flestir kaupa þau úti á  flugvelli á leið inn í landið.  Þarna er því hálfgerð einokun í gangi.  Af  hverju er þetta eina búðin úti á flugvelli?  Af hverju geta menn ekki bara  framvísað farmiðanum í Heimilistækjum eða bræðrunum Ormsson og fengið skattinn  dreginn af þar?

Ef Elko borgar ríkinu sérstaklega fyrir þau forréttindi að selja íslendingum  raftæki án tolla og skatta, þá er þarna um úthlutun á kvóta að ræða.  Hvenær var  þessi kvóti boðinn út og hvaða "auðlindagjald" þarf Elko að greiða fyrir réttinn  til að vera sá sem selur öllum Ipod og Xbox?

Er auðlindagjaldið kannski svo hátt að það útskýrir hvers vegna Elko getur ekki  keppt við venjulegar verslanir í Evrópu (hvað þá Bandaríkjunum)?


Tökum slaginn!

Á heimasíðu neytendasamtakanna í gær setti Jóhannes formaður inn grein sem heitir "Bjartari tímar í neytendamálum".  Þar stendur meðal annars þetta:

Íslenskum neytendum er oft legið á hálsi að vera værukærir og hugsa lítið um sinn hag. Sá sem þetta skrifar hefur starfað lengi að þessum málum og af fenginni reynslu hefur þar orðið mikil breyting til batnaðar. Þannig eru neytendur miklu harðari á því að ná fram rétti sínum en ekki síður að afla sér upplýsinga áður en t.d. dýrari neysluvörur eru keyptar. Einnig má minna á að miðað við íbúafjölda eru Neytendasamtökin hlutfallslega ein þau fjölmennustu í heimi. Það hjálpar hins vegar lítið að státa af því í fámenninu hér á landi. Og það er einmitt fámennið og skilningsleysi stjórnvalda sem gera það að verkum að staða neytendamála er önnur hér á landi borið saman við nágrannalönd okkar. Þess má einnig geta að á vegum Neytendasamtakanna er nú verið að hringja í neytendur og bjóða þeim aðild að samtökunum. Miðað við viðbrögð neytenda er greinilegt að margir þeirra telja nauðsynlegt að hafa öflug Neytendasamtök. 

 

Vonandi er þetta rétt.  Vonandi eru íslenskir neytendur að vakna til meðvitundar.

Ég á mér draum.  Hann er að geta farið heim frá útlöndum án þess að fá þann njálg að þurfa að gera einhver hagstæð innkaup áður en ég fer heim í gúlagið.  Ef vöruverð hér yrði um það bil svipað og annars staðar væri svo miklu auðveldara að búa hér.

Fjarlægðin frá Íslandi til annara landa skýrir á engan hátt vöruverðið.  Það er lengra frá Taiwan til Bandaríkjanna og ekki eru sjónvörpin dýr þar.  Verðið stafar af fákeppni og einokun, hefur alltaf gert, og við getum breytt því.

Ég skora á alla að ganga í samtökin svo þau fái þann slagkraft sem þau þurfa.  Gefið ykkur þetta í jólagjöf.

high noon


Gerðu mér tilboð sem ég get ekki hafnað

Eitt lærði ég í bók með heilræðum um hvernig ætti að versla hagkvæmt, og það var að verða ekki ástfanginn af vörunni sem ég er að fara að kaupa.  Ef ég verð að eignast Golf GT Sport og ekkert annað kemur til greina mun reyndur sölumaður sjá það á mér langar leiðir og ég er ekki í neinni aðstöðu til að  semja um afslætti við hann eftir það.

Maður þarf því að vera hæfilega áhugalaus til að gera góð kaup.

Ég var að láta mér detta í hug aðferð við að ná niður vöruverði. Vefsíða væri búin til þar sem þeir sem vilja kaupa ákveðna vöru geta hizt og sammælst um 4-5 tegundir af þeirri vörutegund sem kaupa skal.  Síðan er tilboða leitað.  Sá sem selur hópnum vöruna á lægstu verði fær að selja öllum hópnum.

Skilyrði væri að allir sættu sig við allar tegundirnar áður en þeir skrá sig inn á tilboðssíðuna og skuldbintu sig til að kaupa af þeim kaupmanni sem býður bestu kjörin.

Dæmi um þetta væri kaup á flatskjá.  Ég gæti vel hugsað mér tvö tæki frá Panasonic, tvö frá Sony og eitt frá Toshiba.  Ef ég keypti þetta tæki í slagtogi með tuttugu öðrum hlyti verðið að geta orðið mjög hagstætt.

Eina spurningin í mínum huga er:  Hversu góðan afslátt mætti fá ef keypt eru tuttugu tæki í stað eins?  Hvað með fimm?  Hvað með fimmtíu?

Mismunandi vörur eru á mismunandi verði til að byrja með, hvernig er hægt að gera stuðul sem sýnir óvéfengjanlega hver bestu kaupin eru? Væri kannski hægt að bera verðið saman við verðin í Evrópu eða Bandaríkjunum og sjá hver kemst næst uppgefnu verði erlendis?

Er eitthvað til í þessari hugmynd?

Ég enda pistilinn á tilvitnun í Brynhildi Pétursdóttur hjá Neytendasamtökunum:

Að lokum mæli ég með því að upplýsingum um gengi Nasdaq og FTSE í lok fréttatímans verði skipt út fyrir upplýsingar um verð á mjólkurlítra, bensínlítra og annarri nauðsynjavöru. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það einhvern veginn nærtækara.


Gutenberg

Gutenberg fór að prenta bækur upp úr 1450.  Bækur höfðu verið eign konunga en urðu nú almennari eign og féllu í verði.

Internetinu hefur verið jafnað saman við uppfinningu Gutenbergs á prentvélinni.  Hins vegar hafa geisladiskar með tónlist og bíómyndum ekki lækkað og framboð þeirra hefur ekki aukist vegna þess að framleiðendur hafa valið að láta eins og þessi nýja tækni sé ekki til.

Ef ég fer út í videoleigu get ég ekki fundið 99.99% af öllum bíómyndum sem gerðar hafa verið því það er bara pláss fyrir 0.001% þeirra á leigunni.  Jafnvel nýlegar myndir eins og "Titanic" fást ekki leigðar.  Leigan hefur aldrei verið dýrari og gæðin á efninu fara minnkandi.  Geisladiskarnir á leigunni eru  flestir brenndir á Íslandi án aukaefnis og fimm rása hljóðs sem fylgir með í útlöndum.  SAM hf. er með einkarétt bæði á dreifingu í videoleigum og í bió.  Venjulegt fólk fer ekki lengur í bíó vegna þess hvað miðaverð er orðið hátt og ekki keppir SAM við sjálft sig með því að lælkka verðið á diskunum í leigunni.

Ef rétthafar hefðu leyft öðrum að njóta góðs af tækniframförum með sér hefðu allir notið góðs af þeim, bæði þeir og aðrir.  Þess í stað hafa rétthafar efnisins miskunnarlaust misnotað aðstöðu sína.  Þeir hafa sofið í stað þess að bæta framboð og þjónustu.  Núna reyna þeir að beita ósanngjörnum lögum til að allt geti orðið eins og það var áður.  Það  mun aldrei gerast, því öll undirheimatæknin til að dreifa mynd og hljóði er búin að hreiðra um sig.  Ekki hafa hörð viðurlög við eiturlyfjanotkun minnkað streymi efnanna til landsins, og þetta smygl er þúsund sinnum auðveldara.

Lögin eru þverbrotin í hvert skipti sem afmælissöngurinn er sunginn í veislu.  Ef rétthafar beittu lögunum eins og þeir hafa rétt til gætu þeir krafið hvert einasta afmælisbarn í landinu um bætur.  Þannig eru lögin. 

Erlendis er farið að bjóða upp á sanngjarnari verð og meira úrval í verslunum á netinu eins og iTunes frá Apple.  Dreifingaraðilar efnisins á Íslandi munu verða óþarfir því fólk mun sækja sína tónlist og  bíómyndir beint til gagnaþjóna á meginlandinu.  Ég hef sjaldan séð augljósara dæmi um óþarfa milliliði og er þó nóg af þeim á Íslandi.  Það er því skiljanlegt að íslenskir aðilar berjist eins og þeir eigi enga vini.

 


mbl.is Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hraðinn á Internetinu hjá þér?

Um daginn var sagt í fréttum að internet aðgangur væri dýr á Íslandi.  Það er líka erfitt að komast að því hvort maður fær jafn hraða tengingu og maður borgar fyrir.

 logo_teledanmark

 

 

TeleDanmark í Danmörku er með hraðapróf á heimasíðu sinnni  hér. Ég prófaði frá skrifborðinu í vinnunni í Frakklandi:

Download hastighed: 11190 kbit/sek  eða 11.1 MB/s
(Sækja gögn frá Danmörku til Frakklands)

Upload hastighed: 4831 kbit/sek  eða 4.8 MBb/s
(Senda gögn til Danmerkur frá Frakklandi)
 

BannerTopLeftColumnImage

 

 

 

 

Vodafone á Íslandi er með hraðapróf  hér. 

Ef ég sæki gögn frá þeim til Frakklands er hraðinn 3.98 MB/s eða 3980 kbit/sek
(Engar upplýsingar um sendihraða eru birtar) 

 

Siminn_logo_Allcolors22

 

 

 

 

Síminn er með hraðapróf hér.

Ef ég sæki gögn frá þeim er hraðinn  : 6.64 MB/s  eða 6640 Kbit/Sek
(Engar upplýsingar um sendihraða eru birtar)

 

Nú spyr ég ykkur sem  heima sitjið:  Hvaða niðurstöður fáið þið?  Eru þær í samræmi við það sem þið borgið fyrir ? 

 


Sullað með vatn

Verð á neysluvöru hefur verið í umræðunni.  Sumir segja að þótt verðið sé hátt séu gæðin á vörum hér mikil.  Það er ég ekki svo viss um.

Ég hef áður skrifað um skinku sem er ekki skinka heldur svínakjötskurl pressað saman með vatni, salti og kartöflumjöli.  Ég hef líka skrifað um Mozzarella ost sem er bara brauðostur í öðruvísi pakkningu.

Hér eru tvö önnur dæmi.  Þegar ég flutti heim keypti ég kjúkling, brytjaði niður og ætlaði að steikja.  Ég gat það ekki því hann hafði verið sprautaður með of miklu vatni:

vatnafugl

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pollurinn í pönnunni er ekki þarna eftir mig, þetta var bara kjúklingur og 2 matskeiðar af snarpheitri olíu.  Steikingarhellan er mjög öflug, kjötið hefði átt að lokast og brúnast.  Ég hef ekki bragðað steiktan kjúkling eftir heimkomuna, bara mismunandi soðinn.

Hér er annað dæmi.  Í Danmörku áttum við flösku af snafs í frysti til að bjóða með bjór.  Þegar við fluttum heim keyptum við íslenskt Brennivín til að setja í frystinn.  Sami ísskápur og geymdi danska snafsinn, hann kom heim með okkur frá Danmörku.  Þegar ég ætlaði að bjóða upp á snafsinn leit flaskan svona út:
brennivin_37

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ég  hélt að einhver alkinn í vinahópnum hefði vatnsþynnt innihaldið en las svo smáa letrið á flöskunni.  Íslenskt brennivín er 37% alkhóhól en flestir erlendir brenndir drykkir eru 47%.  Einu sinni var hægt að frysta brennivín -- ég veit ekki hvenær þeir þynntu það um 20% til viðbótar.

Sumum kann að virðast það smámunasemi að fylgjast með vatnsmagni í kjúklingi og brennivíni.  Neytendafrömuðurinn í Spaugstofunni er til að hlægja að, ekki til að taka sér til fyrirmyndar, halda sumir.

Íslendingar hafa venjulega litið upp til rudda og berserkja því það eru fyrirmyndirnar úr íslandssögunni.  Slíkir menn voru ekki að rukka vini sína um eitthvað sem þeir höfðu fengið lánað, þeir fóru bara í víking ef þá vantaði meira af einhverju.  Ég er samt ekki viss um að þetta sé haldgóð fyrirmynd á 21.öldinni.

Nú kemur sífellt betur í ljós hversu mjög hallar á hlut þeirra sem álpuðust til að eignast ekki banka og önnur innflutningsfyrirtæki,   Jafnvel þeir sinnulausustu sem halda að þeir séu "ópólítiskir" og hafa sjaldnast fyrir því að líta upp frá brauðstritinu taka eftir því að fjárráðin fara minnkandi.  Þetta er dauði þúsund smására, verðhækkun hér, rýrnun þar.

Það er ekki uppbyggilegt að nöldra í bloggi um að "þeir séu með samsæri gegn okkur".  Þetta er ekki samstilltur óvinaher heldur mörg fyrirtæki sem þurfa aðhald, hvort sem þau eru að selja ostalíki, kjúklinga, brennivín, skinkukurl eða útvötnuð húsnæðislán.

Þetta stríð verður ekki unnið með einhverri "aðgerð ríkistjórnarinnar".  Stríð eru búin til úr mörgum orrustum og venjulegir landsmenn þurfa að gerast landgönguliðar.  Þú heldur vöku þinni, ferð yfir kassastrimilinn hjá þér, og tilkynnir skírt og skorinort í búðinni svo allir heyri ef þér finnst gert á þinn hlut.  Svo færir þú þín viðskipti annað, þótt þú þurfir að keyra í Fjarðarkaup til að versla.  Öðruvísi gerist ekkert.


Hvenær er nýjung nýjung?

Ég hef heyrt um póstkort sem eru sextíu ár að berast í hendur viðtakanda, en hér er fréttatilkynning frá Osta og smjörsölunni sem mér finnst smellin:

Á markaðinn eru komnir nýir íslenskir ostar, Sauða-brie og Geita-brie. Ostarnir eru hreint sælkerafæði og eru kærkomnin nýjung í íslensku ostaflóruna.

Sauða- og geitaostar hafa verið framleiddir í áraraðir í nær öllum löndum Evrópu og njóta þeir gríðarlegra vinsælda þar. Íslenski geitastofninn er afar sérstakur á heimsvísu þar sem stofninn hefur verið einangraður síðan á landnámsöld og er íslenski Geita-brie osturinn talinn vera einstakur vegna þessa.

Það er áralöng hefð fyrir notkun ostanna í ýmis konar matargerð í Evrópu.

561_geitabrie

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er víst óhætt að segja að hefðin í Evrópu sé áralöng því hetjusögur Grikkja frá því fyrir Krist tala um geitaost, og Feta osturinn gríski er geitaostur þótt hann sé það reyndar ekki á Íslandi enda spurning hvort megi kalla þann ost Feta ost.

Frakkar hafa búið til geitaost frá því hann barst til Frakklands með Márum á áttundu öld.

Það er því stórkostleg hæverska að segja að "geitaostar hafa verið framleiddir í áraraðir" í Evrópu.  Nær væri að segja árþúsundaraðir.

Það er viðbúið að þessi "nýung í matargerð" hefði borist fyrr í gúlagið ef hér væri ekki allt harðlokað og læst í landbúnaðarmálum.

Ætli þetta hæverska orðalag hjá Osta og smjörsölunni sé ekki komið til vegna þess að þeim finnst þeir sjálfir vera nokkur seint á ferð með "nýungina"?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband