Færsluflokkur: Neytendamál

Hawaii eða Háaleitisbraut ?

Það kostar 19 krónur að hringja úr heimasíma til Bandaríkjanna, 17 krónur að hringja í farsíma frá símanum en 25 krónur að hringja í farsíma frá Nova.

Það kostar bara 1,85 krónur að hringja í annan heimasíma.  Munurinn er því alltaf minnst tífaldur að hringja í gemsa.  Verðið á farsíma símtölum hér sýnist mér fara hækkandi á sama tíma og það lækkar í öðrum löndum. 

Finnst einhverjum öðrum en mér skrýtið að innanbæjarsímtal skuli vera dýrara en símtal til Hawaii bara af því viðmælandinn er hjá "hinu" símafyrirtækinu?  Mér sýnist Síminn vera að refsa þeim viðskiptavinum sem dirfast að gerast liðhlaupar í stað þess að herða sig í samkeppninni?

Ég tók eftir þessu vegna þess að heima-símareikningurinn okkar rauk upp eftir að helstu vinir sonar míns skiptu yfir til Nova. 

Það borgar sig fyrir soninn að ganga með tvo farsíma, með sitthvoru SIM kortinu og hringja í Nova notendur frá síma með Nova korti af því símtöl milli Nova síma eru ókeypis.  Eina vandamálið er að símanúmerin þekkjast ekki í sundur, frá hvaða félagi þau eru.

Í Danmörku er sama gjald, 1,30 DKR að hringja í farsíma frá heimasíma, sama hvaða félagi sá farsími tilheyrir.  Það þykir mér ætti að lögleiða hér á landi.

Ef mér leiddist gæti ég búið til þjónustu þar sem allir geta hringt úr heimasímanum í box eins og er á myndinni að neðan, svokallaðan "GSM Gateway".  Það myndi innihalda SIM kort frá Nova og leyfa þeim sem hringir í það að slá inn farsímanúmer Nova notanda.  Þannig gætu allir talað við Nova farsímaeigendur úr heimasímanum fyrir 1,85 krónur í stað 25 króna.  Ég þyrfti ekkert að borga nema fjárfestinguna í boxinu og mánaðargjaldið fyrir Nova SIM kort.

 GSM Gateway Dialer LARGE

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi box eru þegar til á markaði.  Ég ætla ekki að stofna þjónustuna sjálfur, ég er bara að benda á fáránleikann í gjaldskránni eins og hún er í dag.

 


Til fyrirmyndar

Ég hef keypt plokkfisk frá Grími kokki og verið ánægður með hann.  Um daginn keyptum við fiskibollur frá sama fyrirtæki en þær voru þurrar og bragðlitlar.  Ég sendi tölvupóst og lét vita.

fiskibollur

 

 

 

 

 

Ég fékk samstundis afsökunarbeiðni og ekki nóg með það, heldur sárabætur; heimsendan kassa á dyrapallinn sem í voru ljúffengar fiskibollur (þeir virðast hafa endurbætt uppskriftina) og sýnishorn af annari framleiðslu fyrirtækisins.

Mér er ljúft og skylt að tilkynna að Grímur kokkur er í náðinni hjá mér.

 Grimur_kokkur_logo_120p


Tölvuvæðing sem mætti klára

Símaskráin var mikið þarfaþing á árum áður og náði að trosna á hornunum áður en sú næsta var gefin út. Ef menn báðu fallega og borguðu fyrir fengu menn "götuskrána" en það var símaskrá sem var raðað eftir heimilisföngum. Hún var aðeins í eigu útvaldra af því forráðamenn álitu að hana væri hægt að misnota til að ónáða fólk. Núna er hægt að fletta upp á heilu íbúðargötunum þökk sé "http://www.ja.is" en ég veit ekki til þess að nein klögumál hafi komið upp út af þeirri breytingu.


Bifreiðaskráin

Fyrst að óttinn reyndist ástæðulaus vil ég leggja til að bifreiðaskráin verði líka gefin frjáls. Í dag hafa aðeins bílaumboð og fleiri útvaldir aðgang að henni. Hægt er að sækja um áskrift en hún kostar formúu. Samt er hún í almannaeign. Rökin fyrir að hún er lokuð eru sennilega þau sömu og vegna götuskrárinnar fyrir tuttugu árum.

Ef bílaskráin yrði opnuð gæti ég hringt í manninn sem leggur ólöglega upp á gangstétt eða lokar innkeyrslunni hjá mér, eða er ljóslaus í umferðinni, eða skellti hurðinni á frakkann sinn og keyrir með lafið í drullunni.


Síminn

Þegar einhver hringir í mig í gemsa ætti nafn og heimili viðkomandi að birtast, ekki bara númerið. Síminn er með símaskrána svo af hverju sendir hann mér ekki upplýsingar um þann sem hringir?

Heimilissíminn er orðinn svo úreltur að ég veit ekki af hverju hann fær að vera í sambandi heima. Hann er að vísu með númerabirtingu, en hann sýnir ekki nöfn þeirra sem hringja og viðmótið í honum er algerlega úrelt. Ég spái heimilissímanum ekki langra lífdaga úr þessu.


Póstaðgangur

Eitt gæti bjargað heimilissímanum og það væri ef hægt væri að fá einhverskonar heimasíma sem gæti lesið og skrifað tölvupóst. Mamma mín er orðin of gömul til að reka einkatölvu enda er hún strandaglópur á upplýsingahraðbrautinni.   Hefur þú reynt að senda áttræðri manneskju tölvupóst nýlega?  Ætti bærinn eða ríkið kannski að gera eitthvað fyrir þetta fólk?

Ég þarf stundum að senda fólki pappírspóst í umslagi en þá þarf ég sjálfur að prenta hann, stinga honum í umslag og fara á næsta pósthús en þau eru orðin ótrúlega fá í Reykjavík. Hvers vegna get ég ekki sent tölvupóst til póstsins og beðið hann að prenta póstinn fyrir mig og senda hann til viðtakanda?

Á sama hátt gæti pósturinn opnað pósthólf fyrir gamalt fólk þar sem tölvupóstur til þess væri prentaður og borinn í hús til þeirra. Vitaskuld yrði póstsían að vera öflug til að ruslpóstur yrði ekki borin þannig út.  Hann gæti líka leigt út þessa póstlestrarsíma sem ég skrifaði um áðan.


Sjálfsalar

Ég trúi varla að sjálfsalar taki ekkert annað en klink enn þann dag í dag. Ef ég vil kaupa samloku í skólanum þarf ég að nota debetkort til að taka út seðla í hraðbankanum sem ég fer svo með í sjálfsala sem gefur mér klink sem ég sting svo í samlokusjálfsalann. Ef ein þessara véla virkar ekki fæ ég enga samloku.


Kassanótur

Atlantsolía sendir mér tölvupóst með kvittun í hvert skipti sem ég kaupi hjá þeim bensín. Það er svo miklu þægilegra en þessi stömu kassastrimlar sem dofna eftir nokkra mánuði og ómögulegt er að setja í skipulegt bókhald. Ég vil að fleiri api þessa nýbreytni eftir Atlantsolíu. Ég myndi vilja fá kassanótuna frá Krónunni, Bónus, Melabúð o.s.frv. til að geta fylgst með vöruverði.


Verðskrár

Enn þann dag í dag tíðkast að íslensk fyrirtæki kaupa heilsíðu auglýsingar til að kynna vörur en birta engin verð. Ég þykist vita að það sé vegna prúttmenningarinnar sem hér ríkir. Góðu kúnnarnir fá góðu verðin og þeir vita hverjir þeir eru. Þetta ætti að vera ólöglegt, og ennfremur ætti að vera hægt að nálgast verð á heimasíðum fyrirtækja svo neytendur geti gert verðsamanburð áður en þeir fara í bæinn til að versla. Hvað kostar iPod? Hvar er hann ódýrastur? Það ætti ekki að þurfa viku vinnu hjá neytendasamtökunum til að komast að því.

--- 

Það er rannsóknarefni útaf fyrir sig hvers vegna tölvubyltingin virðist vera búin í bili.   Ég bíð eftir því að sjálft lýðræðið verði gert skilvirkara með aðstoð netsins.  Miðað við litlu málin sem eru óleyst er ég ekki vongóður um stóru málin.

 


Fákeppni í boði hins opinbera

Í gær fór ég með bílinn í skoðun hjá Aðalskoðun í Skeifunni sem kostaði 6.900 krónur. Ég hringdi í eina keppinautinn sem er Frumherji.  Svarið var líka 6.900 krónur.

Ég spurði hvort þetta væri samkvæmt gjaldskrá frá hinu opinbera.  "Nei", það er frjáls álagning.  Merkileg tilviljun hvað verðin eru svipuð þarna eða hvað?

Þessi fákeppni er alveg  óþörf.  Það er ekki erfið og sérhæfð vinna að skoða bíla.  Þegar ég bjó í Bandaríkjunum kostaði bílaskoðun 900 krónur og hún var  framkvæmd á flestum stærri bifreiðaverkstæðum.

Skoðunin á bílnum mínum tók að hámarki kortér en það gerir 27.600 krónur á tímann.  Ég hringdi í Bifreiðar og Landbúnaðarvélar og spurði hvað útseldur klukkutími á verkstæðinu kostaði.  Svarið var 10.550 kr.  Það er ekki ódýrt en samt bara 38% af verði Aðalskoðunar og Frumherja.

Ég get ekki snúið mér annað og ég get ekki hugsað mér að missa bílinn. Þessi fyrirtæki geta því sett upp hvaða gjaldskrá sem þeim sýnist.

Ég spyr: 

  • Hvað finnst ykkur að bifreiðaskoðun ætti að kosta?
  • Treystið þið venjulegu bílaverkstæði til að  annast hana? 
  • Finnst ykkur núverandi ástand viðundandi?

 


Tímanna tákn

Einu sinni voru skilti á knæpum sem á stóð "Ekki hrækja á gólfið". Þessi skilti voru ekki sett upp að ástæðulausu, fólk hlýtur að hafa hrækt á gólfin. Sama gildir um skiltin "ekki pissa framhjá" og "ekki setja bakpokann á barborðið". Öll endurspegla þau kúltúrinn á staðnum.

Mér datt þessi skilti í hug þegar ég kom á vinnustað þar sem gildi fyrirtækisins höfðu verið skrautskrifuð og innrömmuð svo gestir og gangandi gætu kynnt sér þau: "Við tölum hljóðlega á opna svæðinu". "Við tölum ekki illa um viðskiptavinina".  Við leitumst við að vera í fararbroddi.  Frumkvæði, áræðni og hraði". Ég man ekki hvernig þau voru nákvæmlega.  Þessi skilti eru í tísku núna.  Sennilega hafa starfsmennirnir verið neyddir á vinnufundi þar sem þessi gildi voru sett saman í hópefli. Nokkrum vikum síðar kom einhver með skrautskrifað skjalið innrammað og hengdi upp.

Þetta minnir mig svolítið á barnaheimili. Þar eru handklæði krakkanna merkt og skilti segir að allir eigi að raða skónum upp að vegg.  Gott og blessað.

Ég trúi að svona gildi sé ekki hægt að tileinka sér með því að lesa þau heldur verði að "lifa" þau með því að læra þau af sér reyndari starfsmönnum.  Ég man eftir frásögn þar sem ungur maður sagðist hafa verið óánægður með að vera settur í klósettþrif þegar hann byrjaði. Yfirmaður kom að honum og sagði að klósettið væri ekki nógu vel þrifið en svo fór yfirmaðurinn líka á fjóra fætur í jakkafötunum og þreif klósettið sjálfur til að sýna stráknum hvernig það væri gert.   Strákurinn gleymdi þessu vitaskuld aldrei.  Svona lærir fólk kúltúr á vinnustað, ekki með skiltum.
larson-oct-1987

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á vinnustöðum eins og Taco Bell og Domino's er mikið rennerí af ungum krökkum sem vinna ekki lengi á sama stað enda ekki um framabraut að ræða og launin lág. Þess vegna er reynt að ala krakkana upp með svona skiltum.

Bandaríkjamenn í miðstétt trúa því margir ennþá að ameríski draumurinn sé innan seilingar. Þeir vinna um helgar með laptop, eyða hálfri vikunni á flugvöllum tjóðraðir við atvinnuveitandann með "Blackberry" síma og eyða eigin peningum í sjálfshjálparbækur sem eiga að kenna þeim að verða betri starfsmenn og heita "Seven habits of highly effective road warriors" eða þvíumlíkt. Þeir trúa því ennþá að launaleyndin sé fyrir þá sjálfa af því þeir séu með svo góð laun að vinnufélagar þeirra megi ekki vita það.

Ég er skeptískari.  Atvinnuöryggi og laun í miðstétt í vestrænum ríkjum hefur farið niður á við og peningar hafa safnast á færri hendur. Ég upplifi þessi skilti því sem hræsni.  Fyrir mér endurspegla þau það að atvinnurekendur reikna með renneríi af starfsfólki sem tekur því ekki að kenna verklag með gömlu aðferðunum.  Þessi "Gilda og skilta" kúltúr kemur svo til Íslands með sjálfshjálpar bókunum amerísku sem virðast vera lesnar í viðskiptafræðideildum eins og alvöru kennslubækur.

Er kannski kominn tími á svona skrautskrifuð skilti sem kenna atvinnurekendum hvernig eigi að umgangast starfsfólk? "Við ráðum ekki fólk í vinnu án þess að endurmennta það og rekum það svo þegar það er kulnað í starfi. Við hækkum launin í samræmi við verðlag. Við rekum ekki konur þegar þær verða óléttar".

Mýtan um nýja vinnustaðinn er bara mýta.  Hún er hentug tálsýn fyrir þá sem ráða.  Starfsfólk ætti að hugsa sjálfstætt og leyfa ekki atvinnurekendum að taka af sér réttindi sem það tók forvera þeirra áratugi að berjast fyrir undir því yfirskini að "nýji vinnustaðurinn breyti öllu".

 

 


In memoriam

Ég sá í fréttum að Borgarnes kjötvörur væru komnar í greiðslustöðvun. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las fréttina var lambalærið sem ég keypti frá þeim þegar ég flutti til Íslands.

Á pokanum stóð "Rauðvínslegið lambalæri" en í honum var ekkert rauðvín heldur salt og paprika. Kjötið var svo brimsaltað að það var óætt eftir grillun. Hvaða kokkur sem er hefði getað bent á að maður kaupir ekki forsaltað kjöt nema maður ætli beinlínis að kaupa saltkjöt.

Ég minntist á þetta við kollega mína sem sögðu einum rómi: "Keyptir þú vakúmpakkað kjöt í saltpækli frá Borgarnes kjötvörum? Það gerir maður ekki. Farðu í kjötborðið í Nóatúni eða Melabúðina ef þú vilt grilla". Ég sagði "Fyrirgefiði, ég er nýfluttur til landsins". Ég skrifaði Borgarnes kjötvörum út af þessu en fékk ekkert svar. Ég hef ekki keypt vörur frá þeim síðan. Þetta var mín upplifun af Borgarnes kjötvörum.

Ég var samt hissa á að þetta fyrirtæki hafi farið á hausinn. Ég hélt að kjötvinnslur á Íslandi væru verndaðir einokaravinnustaðir í eigu stórra aðila. Þeir gætu því selt lélegar vörur út í eitt án þess að fara á hausinn.

Nýungar í kjötvinnslu á Íslandi virðast fylgja útlendingum. Ég man eftir frábærri kæfu sem var frá fransk-íslenska eldhúsinu. Hún hvarf. Merkið er til ennþá en kæfan er ekki lengur sú sama og hún var. Svo man ég eftir æðislegum pólskum pylsum. Ég hef ekki séð þær nýlega. Ég ályktaði þvi að nýungar hér væru dauðadæmdar.   Markaðurinn virðist mér vera að versna frekar en hitt.  Um daginn hætti ég að geta steikt Ali Bacon því vatnsinnihaldið í kjötinu er orðið svo hátt (ég skipti yfir í Goða og vona að þeir "vöruþrói ekki").

Mér þykir leitt að tugur manns í Borgarnesi hafi misst vinnuna að óþörfu en á sama tíma finnst mér frábært að markaðurinn skuli virka að einhverju leyti.

Hefði ekki mátt stunda smá vöruþróun? Íslenskt lambakjöt er besta hráefni í heimi. Púnktur. Það þarf ansi mikinn þumbarahátt til að gera lélega vöru úr því. Hvernig þeim datt í hug að taka ekta íslenskt lambalæri og eyðileggja í saltpækli með rauðum lit er mér óskiljanlegt.

Ég er farinn að lesa Bændablaðið reglulega og það er að verða eitt af uppáhaldsblöðunum mínum. Ég er farinn að halda með bændum og vona að þeir hafi það sem allra best. Ef tilgangur blaðsins er að kynna bændastéttina fyrir öðrum vinnandi stéttum þá er það að takast í mínu tilfelli. Ég get sætt mig við ostinn og mjólkina sem fæst í Reykjavík. Gæðin eru mikil þótt varan sé einsleit og full sykruð. En, ef ég gæti breytt einhverju í íslenskri matarmenningu væri það kjötvinnslan á Íslandi. Það að "Spam" skuli heita hér "Skinka" sýnir ótrúlegan fautahátt.

Þið sem eruð að stunda kjötvinnslu: Stundið vöruþróun! Farið til Frakklands og sjáið hvernig kjötborð á að líta út. Ég veit ekki hvernig bransinn er skrúfaður saman. Kannski þurfið þið ekki að standa ykkur, en væri ekki samt meira gaman í vinnunni?

IMG_LvnElsenCharcuterie

 


Skerpa eða ekki?

Hér eru tvö sjónvörp hlið við hlið í kolniðamyrkri.  Vinstra tækið gæti verið dæmigerður LCD flatskjár, hitt er plasma tæki þar sem svart er svart.  Hvort tækið er eigulegra? 

skerpa


DVD eða Blue-Ray?

Hér er ljósmynd:

 1080linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er sama mynd sem hefur verið minnkuð úr Blue Ray upplausn (1080 línur) í DVD upplausn (625 línur) og stækkuð upp aftur:

625linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er um það bil munurinn á venjulegum DVD í upscaling spilara og Blue-Ray spilara...

 


Þetta er fljótt að koma...

Dagsþörf fullorðins manns er 2.500 kaloríur.

  • Pylsa með öllu: 429 kaloríur
  • Big Mac og stór skammtur af frönskum: 1.080 kaloríur
  • Máltíð á KFC: 1.350 kaloríur (Franskar, hrásalat, kjúklingabringa og læri)
  • Tólf tommu kjúklingalangloka frá Quiznos: 1.495 kaloríur (úff!)
  • Domino's 14 tommu pepperoni pizza: 1.924 kaloríur

200 kaloríur bætast við ef maður fær kókglas með. 

Ég fékk þessar upplýsingar af erlendum vefsíðum.  Ég veit ekki hvað Hlöllabátur eða American Style borgari er með mikið af hitaeiningum.  Hvorki www.americanstyle.iswww.hlolli.is birta upplýsingar um næringarinnihald.

Ég velti fyrir mér:  af hverju eru hitaeiningar merktar utan á rjómafernu en ekki á auglýsingar fyrir Domino's deep crust pizzu með pepperoni og osti?  Ættum við að byrja að merkja skyndibita með hitaeiningum?  Myndi það breyta einhverju um neysluvenjur okkar?
mr-creosote

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Verðstríð á fjarskiptamarkaði

breidband

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Undanfarið ár hefur verð á netsambandi lækkað um 40% og útlit er fyrir  að lækkanir muni halda áfram.

Nú kostar 4Megabita tenging 2000 krónur á mánuði.

Verðstríðið kemur í kjölfar sambærilegs verðstríðs á farsímamarkaði  þar sem kostnaður á símtölum hefur hrunið niður á stuttum tíma.

Þráðlaust samband upp á 1,5 Megabit kostar núna 1690 krónur á mánuði  en heimasími og 2 Megabit tenging saman í pakka kosta 1990 krónur á mánuði.

Þetta er 33% ódýrara en fyrir einu ári.


PS:  Þetta er því miður ekki íslensk frétt heldur dönsk.  Hér á landi  fara símagjöldin hækkandi.  Maður spyr sig hvers vegna?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband