Síðustu perurnar í seríuna takk !

Ljósin á jólatrénu eru þeirrar náttúru að það kviknar ekki á þeim nema allar  perurnar séu í lagi.

Hjólastígar eru þannig líka.  Ef þeir mynda ekki samhangandi net þá treysta  foreldrar sér ekki til að senda börnin sín út á hjóli.  Þeir skutla þeim í bíl í  staðinn. Það er slæmt, því fullorðnir hjólamenn (eins og ég) eru búnir til úr  börnum sem hjóla.

Það er fullt af hjólastígum í Reykjavík en þeir eru ekki farnir að mynda  fulltengt net ennþá. Það vantar uppá 100 metra hér og þar. Mig grunar að  kostnaðurinn við að klára uppbyggingu netsins sé ekki rosalegur, en nú þarf að  skoða hjólastíganetið, finna þessar gloppur og eyða þeim.

psychopath bike path
Nýju brýrnar yfir Hringbrautina voru öfgakenndar.  Ef markmiðið var að efla  umferð hjólandi hefði ég ekki byrjað þar.  Það hefði mátt kaupa þó nokkra  kílómetra af venjulegum hjólastíg fyrir andvirðið.

Það er til kort af hjólaleiðum í Reykjavík, en kortið gerir ekki greinarmun á  gangstétt og hjólastíg.  Ég myndi ekki þora að senda barn yfir Suðurgötu hjá  þjóðminjasafninu því þar þeytast bílar út úr hringtorginu yfir ómerkta gangbraut  allan sólarhringinn.  Samt er þetta merktur hjólastígur á kortinu, rétt eins og  hjólaleiðin meðfram sjónum.

Kortið gerir ógagn því fólk gæti haldið að Reykjavík sé orðin góð hjólaborg og  fólk hjóli ekki af því það er latt.  Reykjavík er ekki orðin hjólaborg en gæti  farið að verða það.

Ég trúi því að ef hjólastígarnir væru kyrfilega merktir þannig að fólk viti af  þeim, og ef þeir eru færir um að koma fólki milli staða án þess að leggja lífið  í sölurnar, þá muni kvikna á perunni:  fólk fer að hjóla.

Ég veit með vissu að brekkurnar og veðrið eru ekki vandamálið, heldur umferðin.  Hún fer ekki neitt og borgin ekki heldur.  Þess vegna getum við óhrædd lagt í  þessa langtíma fjárfestingu og aðskilið hjólandi umferð frá bílunum.

Verkfræðistofur hafa verið fengnar til að meta umferðarálagið á stærstu  umferðargötum í Reykjavík.  Ég legg til að næsta skref verði að verkfræðistofa  verði fengin til að gera úttekt á hjólastígum borgarinnar með þessa spurningu að  leiðarljósi: "Myndi ég þora að senda barnið mitt þessa leið á hjóli?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ætti að senda þá með kúst í leiðinni, þvílíkt og annað eins sem er af glerbrotum og möl á þessum leiðum. Minnir að aldrei hafi verið klárað síðasta sumar að gera við brautina við Ánanaust eftir að sjór gekk á land. Sjálfsagt verður þetta svona fram eftir vori eða sumri í ár. Vonandi eru menn samt að vakna og taka á þessum málum en ljóst er að hjólastígar eru núna algjör afgangsstærð.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 12:10

2 Smámynd: Kári Harðarson

Fólk kvartar ekki af því fólk er hætt að vonast eftir endurbótum.

Líffræðingar tala um sum dýr sem "living dead". Eintök af stofninum eru til, en allir vita að stofninn er útdauður, hann mun aldrei komast á legg, hann er orðinn of lítill, það vantar lífríki og maka.

Stundum óttast ég að ég sé steingerfingur frá þeim tíma þegar ennþá var hægt að hjóla í Reykjavík.

Núna er ég vongóður enda er græn bylgja í gangi núna. Aldrei að vita...

Kári Harðarson, 17.4.2007 kl. 16:54

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Annar steingerfingur hérna Kári.  Þetta er eins og talað úr mínum munni.  Gott innlegg í umræðuna um "Grænu Reykjavík".

Sveinn Ingi Lýðsson, 17.4.2007 kl. 20:22

4 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Annar steingerfingur hérna Kári.  Þetta er eins og talað úr mínum munni.  Gott innlegg í umræðuna um "Grænu Reykjavík".

Sveinn Ingi Lýðsson, 17.4.2007 kl. 20:25

5 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Ég er búinn að rúlla nokk hratt í gegn um einhverja af framboðsvefjunum og mér sýnist Íslandshreyfingin vera eini flokkurinn sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að efla þessa þætti samanber:

Við viljum jafnræði landsmanna varðandi samgöngur og fjarskipti

• að gert verði átak í samgöngumálum til að tryggja öryggi á vegum landsins með tvöföldun vega og jarðgöngum
• stytta vegalengdir milli landsvæða
• kanna kostnað á viðhaldi vega vegna þungaflutninga og hugsanlega hagkvæmni sjóflutninga umfram þungaflutninga á vegum
• auka jafnræði landshluta gagnvart flugsamgöngum
• tryggja að fjarskipti og háhraðanet sé aðgengilegt öllum landsmönnum
• háhraðateningar til landsins verði strax tryggðar til framtíðar með lagningu sæstrengja
• hjólreiðar verði viðurkenndur samgöngumáti og lagðir verði hjólastígar meðfram þjóðvegum og stofnbrautum í þéttbýli
• bæta samgöngur og auka lífsgæði íbúa á höfuðborgarsvæðinu með því að setja stofnbrautir í göng og stokka
• að hluti af gjöldum sem tekin eru af vélhjólum og fjórhjólum renni til gerðar æfingasvæða, brauta og til eftirlits

Mætti ekki reyna að þrýsta þessu inn hjá öðrum flokkum?

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 18.4.2007 kl. 10:25

6 Smámynd: Þuríður Ósk Gunnarsdóttir

Ef maður skoðar skipulagsskjöl Reykjavíkurborgar þá er þar allt uppfullt af markmiðum um að gera Reykjavík að ákjósanlegri hjólaborg. Ekki síst má sjá þetta í Umhverfisstefnu Reykjavíkur sem var gerð eftir mikið samráð við borgarana og frést hefur af erlendis fyrir vandað starf. Þá sést greinilegur vilji í Samtöngustefnu borgarinnar, Aðalskipulaginu, og meira segja skýn það í gegn í svæðisskipulaginu og búið að vera skráð í miðborgarskipulaginu í mörg ár.

Samt er bara óskaplega lítið að sjá þegar kemur að framkvæmdum. Pínulitlir stubbar á Laugavegi og Lönguhlíð auk þess sem "kannski" er búið að ákveða smá bút í Borgartúni. Ekki fullákveðið. Þetta græna skref þeirra með að breikka og hita upp stíga í gegnum eitthvað af borginni er fínaríis skref en lyktar samt af því að hjólreiðar séu leikur en ekki samgöngur.

Hvað eiga til dæmis þeir að gera sem hentar ekki að nota þennan stíg og þurfa til dæmis að fara í gegnum miðborgina til að komast til vinnu sinnar og geta þar að leiðandi ekki notað Laugardalinn. Og ætla þeir ekki að hætta að henda upp öllu þessu járnarusli við gatnamót sem hefur verið að koma víða um bæinn og mér skilst að sé eftiröpun frá Bretlandi. Þeir séu hinsvegar hættir að nota þetta þar.

Þjóðin fitnar og fitnar  og hreyfir sig minna og minna enda er svo mikill hraði á þjóðfélaginu og það þarf bara að gera stórátak til að fá hana til að hreyfa sig. Þá eru svakalegar spár um aukna umferð og tafir á næstu árum sem verða til þess að annað hvort verðum við aldeilis að fara að taka upp pyngjuna og gera borgina að enn meiri bílaborg verða jafnframt heilsulausari vegna lélegri loftgæða m.a. vegna aukins svifryks.

Við erum að tala um það að þjóðinni er líka að fjölga heilmikið um leið og við erum að tala um að umferð aukist um 45% til 2024. Viljum við halda áfram að setja svona svakalega peninga í gatnagerð. Er ekki orðið umhugsunarvert hvort við getum ekki gert þetta með öðrum hætti. Almenningssamgöngur geta komið á móti hjólreiðum þegar slæmt er veður. Þá er hægt að grípa til fleytitíðar umferðar svo allir séu ekki á leið til vinnu og skóla á sama tíma.

Viljum við virkilega setja svona svakalega stóra fjármuni í að leysa umferðarmálin á meðan það er hreinlega með litlum tilkostnaði hægt að fá þjóðina til að hjóla. Held til dæmis að margir myndu hjóla í vinnuna ef þeir þyrftu sjálfir að borga fyrir afnot af stæðunum þar. Það eru margar leiðir til að minnka bílanotkun. Hjólreiðar eru óskaplega vel til þess fallnar að fá þjóðina til þess að hreyfa sig um leið og við spörum þannig líka í heilbrigðiskerfinu. Og verðum glaðari og hamingjusamari án geðlyfja.

Þuríður Ósk Gunnarsdóttir, 18.4.2007 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband