Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Hvernig gengur hjá Vista ?

Hér er markaðshlutdeild hinna ýmsu stýrikerfa Microsoft:

osbusiness

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það væri synd að segja að Windows Vista sé búið að ná mikilli útbreiðslu á þessu eina og hálfa ári síðan það kom á markað.

 

Heimild PC Pitstop 


Trackmania Nations

Hér er ókeypis Windows leikur sem ég rakst á.  Það er langt síðan ég hef séð jafn flottan og skemmtilegan leik sem kostar ekki neitt. 

 


Tölvuvæðing sem mætti klára

Símaskráin var mikið þarfaþing á árum áður og náði að trosna á hornunum áður en sú næsta var gefin út. Ef menn báðu fallega og borguðu fyrir fengu menn "götuskrána" en það var símaskrá sem var raðað eftir heimilisföngum. Hún var aðeins í eigu útvaldra af því forráðamenn álitu að hana væri hægt að misnota til að ónáða fólk. Núna er hægt að fletta upp á heilu íbúðargötunum þökk sé "http://www.ja.is" en ég veit ekki til þess að nein klögumál hafi komið upp út af þeirri breytingu.


Bifreiðaskráin

Fyrst að óttinn reyndist ástæðulaus vil ég leggja til að bifreiðaskráin verði líka gefin frjáls. Í dag hafa aðeins bílaumboð og fleiri útvaldir aðgang að henni. Hægt er að sækja um áskrift en hún kostar formúu. Samt er hún í almannaeign. Rökin fyrir að hún er lokuð eru sennilega þau sömu og vegna götuskrárinnar fyrir tuttugu árum.

Ef bílaskráin yrði opnuð gæti ég hringt í manninn sem leggur ólöglega upp á gangstétt eða lokar innkeyrslunni hjá mér, eða er ljóslaus í umferðinni, eða skellti hurðinni á frakkann sinn og keyrir með lafið í drullunni.


Síminn

Þegar einhver hringir í mig í gemsa ætti nafn og heimili viðkomandi að birtast, ekki bara númerið. Síminn er með símaskrána svo af hverju sendir hann mér ekki upplýsingar um þann sem hringir?

Heimilissíminn er orðinn svo úreltur að ég veit ekki af hverju hann fær að vera í sambandi heima. Hann er að vísu með númerabirtingu, en hann sýnir ekki nöfn þeirra sem hringja og viðmótið í honum er algerlega úrelt. Ég spái heimilissímanum ekki langra lífdaga úr þessu.


Póstaðgangur

Eitt gæti bjargað heimilissímanum og það væri ef hægt væri að fá einhverskonar heimasíma sem gæti lesið og skrifað tölvupóst. Mamma mín er orðin of gömul til að reka einkatölvu enda er hún strandaglópur á upplýsingahraðbrautinni.   Hefur þú reynt að senda áttræðri manneskju tölvupóst nýlega?  Ætti bærinn eða ríkið kannski að gera eitthvað fyrir þetta fólk?

Ég þarf stundum að senda fólki pappírspóst í umslagi en þá þarf ég sjálfur að prenta hann, stinga honum í umslag og fara á næsta pósthús en þau eru orðin ótrúlega fá í Reykjavík. Hvers vegna get ég ekki sent tölvupóst til póstsins og beðið hann að prenta póstinn fyrir mig og senda hann til viðtakanda?

Á sama hátt gæti pósturinn opnað pósthólf fyrir gamalt fólk þar sem tölvupóstur til þess væri prentaður og borinn í hús til þeirra. Vitaskuld yrði póstsían að vera öflug til að ruslpóstur yrði ekki borin þannig út.  Hann gæti líka leigt út þessa póstlestrarsíma sem ég skrifaði um áðan.


Sjálfsalar

Ég trúi varla að sjálfsalar taki ekkert annað en klink enn þann dag í dag. Ef ég vil kaupa samloku í skólanum þarf ég að nota debetkort til að taka út seðla í hraðbankanum sem ég fer svo með í sjálfsala sem gefur mér klink sem ég sting svo í samlokusjálfsalann. Ef ein þessara véla virkar ekki fæ ég enga samloku.


Kassanótur

Atlantsolía sendir mér tölvupóst með kvittun í hvert skipti sem ég kaupi hjá þeim bensín. Það er svo miklu þægilegra en þessi stömu kassastrimlar sem dofna eftir nokkra mánuði og ómögulegt er að setja í skipulegt bókhald. Ég vil að fleiri api þessa nýbreytni eftir Atlantsolíu. Ég myndi vilja fá kassanótuna frá Krónunni, Bónus, Melabúð o.s.frv. til að geta fylgst með vöruverði.


Verðskrár

Enn þann dag í dag tíðkast að íslensk fyrirtæki kaupa heilsíðu auglýsingar til að kynna vörur en birta engin verð. Ég þykist vita að það sé vegna prúttmenningarinnar sem hér ríkir. Góðu kúnnarnir fá góðu verðin og þeir vita hverjir þeir eru. Þetta ætti að vera ólöglegt, og ennfremur ætti að vera hægt að nálgast verð á heimasíðum fyrirtækja svo neytendur geti gert verðsamanburð áður en þeir fara í bæinn til að versla. Hvað kostar iPod? Hvar er hann ódýrastur? Það ætti ekki að þurfa viku vinnu hjá neytendasamtökunum til að komast að því.

--- 

Það er rannsóknarefni útaf fyrir sig hvers vegna tölvubyltingin virðist vera búin í bili.   Ég bíð eftir því að sjálft lýðræðið verði gert skilvirkara með aðstoð netsins.  Miðað við litlu málin sem eru óleyst er ég ekki vongóður um stóru málin.

 


Sófasett á hjólum

Reiðhjól voru úr stáli. Núna eru þau úr áli, koltrefjum og jafnvel títan. Hjól sem vógu 8 kíló í gamla daga voru fokdýr og viðkvæm en sú þyngd þykir ekkert merkileg lengur. Vökvadiskabremsur eru að verða algengar og fjórtán gíra viðhaldsfríir öxlar líka.

Reiðhjólapartar ganga á milli hjólastella. Einn hjólaframleiðandi getur notað gíra, stýri og gjarðir frá mörgum sérhæfðum framleiðendum sem framleiða parta fyrir margar hjólategundir. Ég held að það sé skýringin á því hvað þróunin hefur verið mikil í hjólabransanum.

Bílar eru hins vegar alltaf úr stáli. Nýju efnin hafa lítið breytt þeim enda virðist bransinn vera fram úr hófi íhaldsamur. Einn og einn hlutur er úr plasti og áli en bílar hafa aldrei verið hannaðir aftur frá grunni miðað við nýju efnin.

Mér skilst að bílabransinn kunni ekki að fjöldaframleiða úr áli ennþá. Vélmennin sem púnktsjóða stálþynnurnar virka ekki á ál. Það er hægt að lasersjóða álið en verksmiðjurnar hafa ekki fjárfest í tækjunum til þess. Þar að auki er ál fimm sinnum dýrara í innkaupi en stál og því þyrfti bíll sem væri smíðaður úr áli að endast eitthvað. Þegar maður sér áldósahaugana út í Sorpu er erftitt að trúa því að ál sé dýrt, en samt er það svo.

Bílar í dag eru ekki hannaðir til að endast. Þeir eru eins og risastórar einnota umbúðir. Þess vegna má ekki vanda of mikið til neins, bíllinn þarf helst að ganga úr sér jafnt.

Þessi einnota hugsun kemur í veg fyrir að nýjar lausnir séu skoðaðar, held ég, samt er mikið í húfi. Ef bíll sem vegur 1200 kíló væri smíðaður úr áli myndi hann vega 400 kíló enda er ál þriðjungur af þyngd stáls miðað við styrk. Bíllinn myndi fara úr 9 lítra bensíneyðslu í 3 lítra giska ég á, ef kraftur er jafn og massi sinnum hröðun.

Það væri gaman ef bílabransinn væri svolítið eins og tölvu eða hjólabransinn. Maður gæti keypt húsið sér, vélina sér og sófasettið líka. Vélar gætu farið undir húdd á mismunandi húsum og fimm sæta sófasettin gætu gengið á milli líka. Ég væri þá búinn að fjárfesta í álhúsi fyrir nokkrum árum, og væri að kaupa diesel hybrid vél til að skipta út gamla bensínrokknum. Leðursætin í bílnum væru tuttugu ára gömul úr gamla bílnum hans pabba.

sofa_car

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er ósennilegt að bílabransinn vilji skoða svona lausnir þegar hann getur rukkað 30 þúsund krónur fyrir einn lykil með þráðlausri fjarstýringu  í krafti þess að allir varahlutir og þjónusta bjóða upp á einokun gagnvart þeim sem keypti bílinn.

Sennilega þarf bylting í þessum málum að koma frá annari átt.  Kannski bílabúð Benna og álversmenn ættu að fara í þróunarverkefni saman?

 


Andlegur skurðmokstur

         Ég fékk tölvupóst frá manni sem ætlaði að taka viðtöl við mig og kollega mína. Hann spurði hvort við gætum sent svarpóst og sagt hvenær hver okkar um sig gæti hitt hann? Ég sá fyrir mér hvernig póstarnir myndu hrannast inn: Einn getur hitt hann fyrir hádegi á mánudag, 10-12 þriðjudag, upptekinn miðvikudag. Tuttugu svoleiðis póstar.

Hefði ekki verið nær að setja upp stundatöflu og merkja okkur inn á hana? Vandinn er, hvar á Internetinu átti hún að hanga? Ekki allir móttakendur póstsins hafa aðgang að sameiginlegu skráasvæði. Það er með herkjum að ég geti séð vinnumöppurnar mínar heimanfrá. Outlook er með dagatalsmöguleika en ekki allir vilja nota Outlook og þótt þeir gerðu það er ekki hægt að tengjast því svo vel sé, nema á innra netinu. Þarna stundar maðurinn andlegan skurðmokstur í stað þess að láta tölvuna vinna fyrir sig.

Matsalan í skólanum hefur ekki tengt búðarkassann við nemendabókhald skólans og því borga nemendur með reiðufé í stað nemendakorts, því matsalan getur ekki borgað offjár fyrir sérsniðna lausn til að tengja kerfin saman.

Á heimasíðu bankans fæ ég að velja á milli greiðsluseðils, millifærslu á annan reikning, boðgreiðslu með greiðslukorti, A-gíró, B-gíró og C- gíró. Alltof margar greiðsluaðferðir sem eiga hver sína sögu og hagsmunaaðila að baki. Þegar ég svo borga fæ ég að slá inn sjö bókstafa skýringu. Sjö stafir. Halló?

Það vantar staðla. Einföldustu hlutir eru erfiðir af því tölvur vinna illa saman. Án staðla verður tæknin innantóm. Flottasti Bens væri lítils virði ef Vegagerðin væri ekki að malbika sömu vegi fyrir alla bíla. iPhone frá Apple væri gagnslítill ef símafélögin hefðu ekki bundist auðmjúkum samtökum um að þróa GSM kerfið saman.

Apple miðlar þessari auðmýkt ekki áfram til viðskiptavinanna. Ekki reynir sá sem selur brauðristar að fyrirskipa kaupendum hvaða tegundir af brauði þeir mega rista en sá sem dirfist að reyna að opna Apple síma tekur þá áhættu að Apple sendi símanum skipun um að fremja sjálfsmorð.

Menn og fyrirtæki hika við að skipta um hugbúnað þótt þjónustan sé slæm því kostnaður við að breyta gögnum á nýtt snið er svo mikill. Þessi ótuktarskapur er kallaður "lock-in". Neytandinn er orðinn neysluvaran. Ef "lock-in" gengur nógu langt getur fyrirtæki haldið sinni markaðshlutdeild þótt það minnki notendaþjónustu, hækki verð og stundi ekkert frumkvöðlastarf.

Það hefur aldrei verið hægt að vista PDF skjöl í Word því PDF er frá Adobe og Microsoft vill ekki vinna með þeim. Þetta er dæmi um hvað maður fer á mis við ef þeir sem maður á viðskipti við vinna ekki saman. Microsoft gerði sín skráarsnið erfið fyrir aðra að lesa en hafa nýlega séð að þeir voru að skjóta sig í fótinn því notendur eiga fullt í fangi með að opna Microsoft skjöl í Microsoft hugbúnaði. Microsoft er byrjað að skjala skráarsniðin sín og þeir hafa lofað að lögsækja ekki þau fyrirtæki sem reyna að lesa og skrifa skrár samkvæmt þeim.

Við fyrstu lesningu á stöðlunum blasir við ormagryfja af breytingum á skjalasniðinu í gegnum árin. Lýsingin á Excel skjali tekur 350 síður og vísar í fullt af öðrum undirskjölum enda var Microsoft ekki að reyna að skrifa staðal. Er þetta "staðallinn" sem opinberar stofnanir ætla að vista gögn í næstu árin?

Ég á mér draum. Ég vil geta opnað mína skráamöppu fyrir vini í hinum enda bæjarins án þess að þurfa að borga sérfræðingi fyrir að opna eldvegg. Ég vil geta beðið um kassakvittun frá kaupmanni beint í rafrænt heimilisbókhald, í stað úreltrar kassanótu á strimli sem ég get illa lesið. Ég vil geta náð í bíómyndir og tónlist með löglegum hætti án þess að eyða bensíni eða fara í einokunaráskrift. Ég vil geta opnað nokkurra ára gamalt ritvinnsluskjal og reikniörk.

Tal um "Open Source" hugbúnað skiptir litlu máli. Forritarar þurfa jú líka laun, en forritin sem þeir skrifa eiga samt að lesa og skrifa gögn samkvæmt opnum stöðlum.

Ríkisstjórnir eiga ekki að geyma gögn á lokuðu sniði. Þær eiga að vinna að uppbyggingu á stöðlum í stað þess að berjast óbeint gegn þeim með því að huga ekki að þessum málum.

Eftirspurn eftir tölvunarfræðingum hefur sjaldan verið meiri og launin eru góð en það er lítið um valdamikla fagmenn sem varða veginn. Tölvunarfræðingar þurfa að sýna faglega ábyrgð eins og verkfræðingar og læknar hafa reynt að gera gegnum tíðina.

Land sem verður öflugt í að skilgreina staðla og framfylgja þeim getur orðið leiðandi á heimsvísu. Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki munu þá selja vörur sem vinna vel saman og útkoman verður stærri en summa þess sem lagt var upp með.

 

(Greinin var birt í viðskiptablaðinu 26.febrúar). 


DVD eða Blue-Ray?

Hér er ljósmynd:

 1080linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er sama mynd sem hefur verið minnkuð úr Blue Ray upplausn (1080 línur) í DVD upplausn (625 línur) og stækkuð upp aftur:

625linur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er um það bil munurinn á venjulegum DVD í upscaling spilara og Blue-Ray spilara...

 


How high the moon?

Ég rakst á þessa mynd þegar ég var að leita að myndum til að hafa með fyrirlestri um gerfihnattasamskipti. Hún sýnir jörðina, tunglið og fjarlægðina á milli í réttum hlutföllum.

earth_and_moon_1024

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hélt að tunglið væri stærra og nær okkur...

PS: Hér er "How high the moon" í boði Stephane Grappelli.

 


HD-DVD er dautt og Blue-Ray er ekkert voðalega hresst heldur

Þegar ég fór í sjónvarpsverslun um daginn fannst mér eitt sjónvarpstækið skara fram úr í gæðum og ég spurði afgreiðslumanninn nánar út í tækið.  Tækið reyndist vera plasmatæki og það var ekki í sérlega hárri upplausn.

Mörg flatskjártækin eru því marki brennd að vera ekki sérlega björt, og það sem á að vera svart er fjólublátt eða grátt í staðinn.  Þessi munur á birtu og dimmu er kallaður skerpa.  Skerpan er meiri í Plasma tækjum og gömlum sjónvörpum en í LCD skjám.

Ég held að skerpa sé mikilvægari en upplausn ef menn vilja upplifa góða mynd.  Skerpan er það sem fer í bíó þegar einhver opnar útidyrnar í sýningarsalnum.

Þar sem flestir kaupa LCD skjái en ekki plasma, þá álykta ég að myndgæði séu ekki mikilvæg í hugum kaupenda.

Blue-Ray og HD-DVD staðlarnir eru að selja upplausn.  Ef fólk er ekki einu sinni tilbúið að kaupa tæki vegna skerpunnar þá efast ég um að fólk fjárfesti í þessum stöðlum til að fá upplausn.

Það sem seldi hljóðgeisladiska á sínum tíma var ekki hljómgæðin heldur þægindin.  DVD diskar eru nógu þægilegir, þangað til niðurhalið tekur við.

Bandaríkjamenn voru með NTSC útsendingar sem voru mjög lélegar.  Fyrir þá skiptir miklu máli að losna undan þeim svo ég skil betur ef þeir skipta sínum NTSC spilurum út.  Það er þó fyrst og fremst liturinn en ekki upplausnin sem gerði þann staðal svo lélegan.

Venjulegir DVD spilarar í dag eru með "upscaling" og HDMI tengi en það er aðferð við að lesa innihald venjulegs DVD disks á því formi að það henti nýjum flatskjám betur.  Myndin sem kemur á skerminn með  þannig spilara jaðrar við að vera eins góð og af Blue-Ray diski.

Mín niðurstaða:  Kaupa Upscaling DVD spilara með HDMI úttaki fyrir tíu þúsund kall og njóta áfram DVD diskanna sem ég á.


mbl.is Hvítt flagg hjá HD-DVD?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílalestir

"Mikið svakalega væri gaman að fá lestir til Íslands" hugsaði ég í gærkveldi enda frekar nýkominn frá Evrópu. Svo fór ég að hugsa hvað það væri, sem gerir lestir eftirsóknarverðar.

Lestarteinar eru vegir sem vill svo til að eru úr járni, sbr. nöfnin "Jernbane" og "Chemin de Fer".  Þeir voru sniðug lausn á því hvernig hægt er að senda þunga umferð yfir land. Lausnin er barn síns tíma. Iðnbyltingin var að byrja og menn notuðu járn í allt og svo var til nóg af timbri. Því þá ekki að leggja járnveg yfir timburstoðir?

Hugmyndin er svo gömul að gufuvélin kom til sögunnar eftir að járnteinarnir voru fundnir upp. Gúmmíið hafði ekki verið fundið upp, hvað þá uppblásin gúmmídekk. Sprengihreyflar komu miklu seinna. Malbik og steyptir vegir voru ekki komnir til sögunnar heldur.

Af hverju ætti þjóð eins og Ísland sem á hvorki tré né járn að nota járnbrautir? Væri ekki nær að nota steypu eða malbik og nota gúmmídekkin sem við þekkjum best? Úr því við lögðum ekki járnbrautir í iðnbyltingunni tekur því varla úr þessu.


Járnbrautir hafa marga kosti en það að brautin sé úr járni er ekki einn af þeim:

  • Einn ökumaður getur flutt mikinn farm því lestir geta orðið langar. Það er synd að sjá fullorðinn mann keyra einn einasta gám yfir langan veg.  Má ekki kenna flutningabílum að elta sjálfkrafa hvern annan eða tengja þá saman með krókum?
  • Margir farþegar komast milli tveggja staða í neðanjarðarlestum.  Þar eru það göngin sem eru kosturinn, ekki lestin í þeim.
  • Þunginn í hverjum lestarvagni getur verið mjög mikill, 125 tonna vagnar eru ekki óalgengir. Ég er ekki viss um að þetta sé stórvandamál hér á landi.
  • Hægt er að nota rafmagn í stað díselolíu eða bensíns til að knýja lestarvagna því rafmagnslínur eru lagðar yfir teinana.  Það er samt ekkert til fyrirstöðu að leggja rafmagnslínur yfir malbikuðum vegum ef menn vilja keyra á rafmagni, samanber strætisvagna í sumum borgum Evrópu.
  • Tími milli áfangastaða er lítill vegna þess að járnbrautalestir stoppa sjaldan og keyra hratt. Þarna er "kosturinn" við lestirnar í raun hvað þær nýta veginn sem þær keyra á illa því lestarteinar standa næstum alltaf ónotaðir.  100 metra löng lest sem keyrir eftir 42 km spori milli Reykjavíkur og Keflavíkur nýtir 2 prómill af sporinu.  Er þá ekki ódýrara að leggja venjulegan malbikaðan veg en leyfa bara fáum útvöldum að keyra hratt á honum?
  • Það þarf ekki að stýra stefnunni á járnbrautalest, bara hraðanum.  Með því að setja sjálfstýringu í bíla sem fylgja merkjum í götunni má losna við að stýra þeim ef viljinn er fyrir hendi.

 800px-DTTX_724681_20050529_IL_Rochelle

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mín niðurstaða er að það mætti fá flesta kosti við járnbrautir með því að leggja sérstaka vegi fyrir bíla sem stýra sér sjálfir og fylgja hver öðrum.  Rafmagnslína væri sett yfir veginn og sérstakur kantur sæi um að stýra bílunum og koma í veg fyrir að önnur umferð færi þar um,  rétt eins og lestarteinar eru eingöngu fyrir lestir.

Einn ökumaður gæti tekið að sér að keyra 30-40 bíla í lest og jafnvel mætti sleppa ökumanninum  eins og gert er í nýju neðanjarðarlestinni í Kaupmannahöfn, en hún keyrir á gúmmíhjólum mér vitanlega.

Svona tækni ætti miklu frekar erindi til Íslands. 

Ef kerfið yrði ekki vinsælt og yrði lagt niður væru allavega til nýjir malbikaðir vegir sem hægt væri að nota undir venjulega umferð.

Svona bílalestir hafa þegar verið prófaðar í Kaliforníu (Sjá The Path Project og  Vehicle Platooning.

platoon2

 

 

 

 

 

 

 

Ég er ekki að leggja til að við eigum strax að malbika sérstakan veg til Keflavíkur, ég er bara að benda á að innflutningur á járnteinum og lestum til Íslands sé ennþá langsóttari hugmynd.  Við þurfum ekki þessa gömlu iðnbyltingar lausn til landsins.

Mér finnst ekkert ósennilegt að við þurfum að leggja flutningabíla-akgrein hringinn um landið úr því skipaflutningar hafa lagst niður.  Hvort er þá langsóttara, að hafa fullorðna manneskju í vinnu við að keyra einn einasta gám kringum landið, eða útbúa nýju akgreinina fyrir sjálfvirkan akstur?

 


Framtíð heimilistölvunnar

Marta Helgadóttir benti réttilega á í bloggi sínu að gamla "desktop" heimilistölvan væri að verða úrelt því kjölturakkarnir ("laptop") hafa tekið við hlutverkinu að mörgu leyti. 

Ég hef verið að hugsa um þetta upp á síðkastið.  Ég vil benda á að heimilistölvan hefur ennþá hlutverk þótt hún eigi ekki skrifborðspláss skilið lengur.

Það er ekki forsvaranlegt að geyma ljósmyndir fjölskyldunnar á kjölturakka því þeir detta í gólfið, þeir týnast og þeim er stolið.  Svo þarf einhver tölva að vera tengd við prentara og skanna, tæki sem maður vill ekki tjóðra kjölturakkana niður með.

Það er líka dýrt að fá risastóra harða diska í kjölturakka. 1000 Gigabyte eru ekki fráleit diskastærð fyrir vél sem á að geyma alla tónlist, ljósmyndir og videosafn fjölskyldunnar.  Að síðustu þarf að vera skipulögð afritataka því fólk sem missir mörg ár af ljósmyndum er mjög óhamingjusamt.

Framtíð "desktop" tölvunnar á heimilinu er að vera "File Server" eins og fyrirtæki hafa haft í bakherbergjunum lengi.  Tölvan þarf ekki skrifborð heldur getur hún staðið inni í eldtraustri og þjófaheldri geymslu.

Heima hjá okkur er millibilsástand eins og hjá fleirum:

Í stofunni er XBOX 360 leikjatölva sem  getur sýnt bíómyndir, ljósmyndir og spilað tónlistina sem er á gömlu heimilistölvunni, en hún stendur ennþá inná skrifstofunni þótt við setjumst sjaldan við hana núorðið.  XBOX tölvan er tengd við netið sem liggur um allt heimilið.   Hún er í raun mjög ódýr PC tölva með engu lyklaborði og úttaki fyrir venjulegt sjónvarp.

Við hjónin erum með sinnhvorn kjölturakkann sem tengist stóru tölvunni þráðlaust og allir geta notið myndanna og tónlistarinnar sem þar er.  Sonurinn er með gamla desktop tölvu inni hjá sér.  Samtals eru fimm tölvur fyrir þrjár manneskjur ef XBOX vélin er talin með.

Sonurinn vill Macintosh kjölturakka og þarmeð fer ein desktop vél á haugana.  Gömlu heimilistölvunni verður fljótlega skipt út fyrir hljóðláta nýja vél með engum skermi en stórum diski og sjálfvirkri afritatöku.  Hún þarf ekki dýrt grafíkkort en það er oft dýrasti hlutinn í nýrri "desktop" vél.  50 þúsund krónur ættu að vera eðlilegt verð fyrir svona "File Server".

"Windows Home Server" er stýrikerfi sem er ætlað sérstaklega fyrir svona "skermlausa" file server vélar.  Með fylgir hugbúnaður til að afrita sjálfkrafa kjölturakkana yfir á stóru vélina þegar þeir standa ónotaðir.  Vafalaust má keyra Linux á svona vél fyrir þá sem eru ævintýragjarnir.

Það má setja sjónvarpsupptökukort í stóru tölvuna til að taka upp úr sjónvarpi og leggja þar með gamla videotækið í stofunni niður.  Sjónvarps loftnetið þarf þá að liggja inn í geymsluna þar sem tölvan stendur.   Eftir það má nota XBOX tölvu tengda við stofusjónvarpið eða bara kjölturakka til að horfa á upptökurnar.

Ég sé fyrir mér að myndlykill frá símanum eða 365 muni fá minna hlutverk eftir því sem tímar líða og fólk venst því að sækja bíómyndir og fréttaþætti yfir netið.


steampunkcasemod222 





























Framtíðartölva úr fortíðinni ?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband