Nerdar, reynið að þrauka

Sá sem ræður í bekknum segir að einhver sé "nerd".  Þar með er viðkomandi í djúpum skít. Hvað þýðir þessi "nerdastimpill"?

mind_reading-320x287Skv. mér er nerd sá, sem hefur mikinn áhuga á að finna svör við spennandi spurningum, þótt það kosti að spyrja mikið (ekki cool) og sætta sig við ákveðinn skort á sjálfsviðhaldi í tískulegum skilningi.

Það eru sterk tengsl milli þess að vera gáfaður og að vera nerd. Það er næstum ómögulegt að vera vitlaus nerd.

Það eru líka sterk tengsl milli þess að vera nerd og vera óvinsæll í gaggó. Gáfur gagnast flestum í gegnum lífið, bara alls ekki á þessu aldursskeiði.

Sumir segja að gáfaðir krakkar séu óvinsælir af því hinir öfundi þá. Þetta stenst ekki skoðun. Stelpur vilja vera með strákum sem hinir strákarnir öfunda en þær eru ekki með nördunum.

Ef nerdar eru svona gáfaðir, af hverju hafa þeir þá ekki vit á að gera sig vinsæla? Þeir hljóta að geta lesið sér til um vinsældir eins og um eldflaugabensín og örgjörva?

Allir vilja vera vinsælir. Nerdar vilja það líka -- bara ekki nógu mikið. Það er mikil vinna að lesa um tölvur og eldflaugar, og það er líka mikil vinna að setja sig inn í vinsældakapphlaupið. Maður þarf að kaupa réttu skóna og buxurnar og segja réttu hlutina. Vinsældir eru mjög sérhæfð keppnisgrein og tímafrek, og nerdar hafa (ómeðvitað) valið að vera ekki vinsælir.

Óhamingjusamur nerd myndi ekki samsinna mér en ef hann væri spurður hvort hann vildi missa 20% af greindinni í skiptum fyrir vinsældir efast ég um að hann myndi þiggja skiptin.

Þeir sem eru í vinsældakapphlaupinu vinna í því 24 klst á dag, 365 daga á ári, og aldrei eins mikið og í gaggó.

Vinsældakapphlaupið hjá unglingum verður verst á aldrinum í kring um 11-16 ára og þess vegna eru þetta erfiðustu tímarnir fyrir nerda. Áður en aldrinum er náð skiptir ást og velþóknun foreldra meira máli og eftir þennan aldur fer þjóðfélagið að launa fólki vel sem er vel gefið og hefur svör á takteinum.

Aldurinn 11-16 ára er "Lord of the flies" aldurinn, þegar krakkar búa til sinn eigin heim. Ég las þá bók í menntaskóla. Hún var sennilega sett fyrir til að benda lesendunum á að þeir væru litlir villimenn, ég tók skotið ekki til mín.

Krakkar eru vondir við nerda vegna þess að það lætur þá sjálfa líta betur út og af því ekkert sameinar hóp betur en sameiginlegur óvinur. Hjá vinsælu krökkunum eru það nerdarnir sem verða fyrir valinu. Flestir nerdar geta vitnað um að einn og einn krakki eru í lagi, en hópur af þeim er vandamálið.

Þegar menntaskólinn byrjar hjaðnar vandinn. Í nógu stórum hópi geta  nerdar fundið jafningjahóp og orðið hamingjusamir. Þjóðfélagið byrjar líka að launa þeim fyrir að vera eins og þeir eru. Bill Gates er jafngott  dæmi um þetta og hver annar.

story_billgates_apNerd í gaggó hefur það svipað og fullorðinn maður sem væri neyddur til að sitja barnaskólann upp á nýtt. Hann er byrjaður að hugsa um raunveruleg og spennandi verkefni en upplifir að fólkið í kringum hann er upptekið af skrýtnum merkingarlausum leikjum eins og að velja föt eða sparka tuðru.

Skólar eru geymsluhúsnæði fyrir börn þangað til þau geta orðið að gagni. Opinberlega er hlutverk skólanna að kenna börnum, en í alvöru eru þeir geymsla. Vandinn er að börnunum er ekki sagt það og að fangelsin eru mikið til rekin af föngunum sjálfum.

Krökkunum er gert að eyða árum í að hlusta á kennara fara með staðreyndalista og er þess á milli stjórnað af rudddum sem hlaupa eftir bolta eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Lífið í þessum litla gerfiheimi er tilganglaust. Á þessum aldri finna margir krakkar að það er ekkert að gera og enginn staður til að fara á.

Fullorðna fólkið sér að krakkarnir eru óhamingjusamir en þeir kenna gelgjuskeiðinu um. Þessi hugmynd er svo útbreidd að jafnvel krakkarnir sjálfir trúa þessu.

Ef gelgjuskeiðið er raunverulegt, af hverju er það þá bara til í vestrænum þjóðfélögum? Eru móngólskir steppurkrakkar níhílistar þegar þeir eru þrettán ára? Ég hef ekki séð gelgjuskeiðið nefnt í bókum frá öðrum tíma en tuttugustu öldinni. Táningar á miðöldum voru vinnuhundar.  Táningar í dag eru gælupúðlar og þeirra geðveiki er geðveiki samfélagsins.

Grundvallarvandamálið er sérhæfingin í þjóðfélaginu. Það getur enginn notað táning í neitt að viti. Foreldarnir sjálfir eru fyrst orðnir nýtir þjóðfélagsþegnar um þrítugt.

Öllum finnst gaman að hafa eitthvað fyrir stafni. Vandamálið í skóla er að það er ekkert í alvörunni að gera.  Krakkarnir eiga að vera að læra en það er enginn utanaðkomandi þrýstingur til að læra vel. Ef svo væri myndu nerdar blómstra þar. Kennarnarir endurnýta spurningarnar frá í fyrra, slíkur er metnaðurinn. Þeir eru fórnarlömb sama kerfis.

Raunverulega vandamálið er þannig ekki að vera nerd eða gelgjaður, það er tilgangsleysi skólans og biðin.  Nerdar eru ekki lúserar. Þeir eru bara í öðrum leik en hinir krakkarnir, leik sem er meira í takt við raunverulegt líf.

Nerdar, skólinn er ekki lífið, hann er lítil brengluð útgáfa af því. Reynið að þrauka.

Stytt og endursagt úr greininni "Why Nerds are Unpopular". http://www.paulgraham.com/nerds.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Þessar myndir líta kunnuglega út

Púkinn, 10.3.2007 kl. 13:05

2 Smámynd: halkatla

yndisleg grein og mjög sönn

halkatla, 10.3.2007 kl. 14:33

3 identicon

"rétt" eða allveganna réttari þýðing á orðinu nerd væri nörd, sem er almennt notað og viðurkennt orð í þessum samfélagshópi sem um ræðir þó að það finnist varla í orðabók. Varð að koma þessu að, hitt stakk svo í stúf.

Jóhann (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 18:40

4 Smámynd: birna

Nerd is the new sexy

birna, 11.3.2007 kl. 21:29

5 identicon

Áhugaverð lesning sem ég er að mestu leiti ósammála

Ég er að reyna að ala upp tvo unglinga; stelpa að verða 15 sem tekur félgaslífs/fata/skemmtanir/vinir-pakkan alveg í botn en varð líka í 6. sæti í stærðfræðikeppni grunnskólanna og stendur sig gríðarvel í skólanum almennt.

Strákurinn er að verða 13, mjög sterkur námsmaður og keppir í motocross sem gerir hann að töffara........ Öllum okkar frítíma eyðum við þrjú saman á torfæruhjólum hér og þar - samvistir, sem hafa tekið þetta form hjá okkur, eru  mínu viti það sem skilur á milli, hvort maður á einhvern séns í að ala upp krakka í dag eða alls engan séns.

Klisjan um nördinn sem nær árangri og vinsælu krakkana sem gera það ekki á ekki lengur við.  Ef krakkinn þinn er nörd, hjálpaðu honum þá með félagsfærnina; ef hann er ekki nörd, reyndu þá að tryggja að hann eyði líka tíma í annað en vinina.

Umfram allt, eyddu tíma með krökkunum í eitthvað sem ykkur öllum finnst gaman að gera!    http://ohg.spaces.live.com/

Ólafur H. Guðgeirsson

Ólafur H. Guðgeirsson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 14:38

6 Smámynd: Kári Harðarson

Þér að segja, þá er ég líka ósamála greininni að mörgu leyti þótt ég hafi þýtt hana og endursagt.

Spurningakeppni framhaldsskólanna hefur gert mikið fyrir nörda, þeir geta verið hetjur í skólanum þótt þeir spili ekki fótbolta.  Húrra fyrir RÚV !

Kári Harðarson, 19.3.2007 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband