Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Klaus Nomi

Ég sá þátt í franska sjónvarpinu um þýskan tónlistarmann sem var búsettur í New York en varð mjög frægur hér í Frakklandi á níunda áratugnum.  Maðurinn hét Klaus Nomi.

s1760072

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég spurði kollega mína hvort þeir myndu eftir honum.   Allir voru sammála um að hann hefði verið frægur og merkilegur.

Dansarinn Josephine Baker, sem var fædd í Missouri, sló líka rækilega í gegn hjá frökkum, án þess að verða mjög fræg annars staðar.

Söngstíllinn hjá Klaus var vægast sagt sérstakur því hann söng í sópran þótt hann hafi verið fullfær um að tala í eðlilegri tónhæð.  Hér er myndband með honum.

Klaus Nomi varð einn af þeim fyrstu til að deyja úr AIDS og ferillinn varð æði stuttur fyrir vikið.

Man einhver á Íslandi eftir þessum manni?



Fjarmiðjuhandbókin

Ég hef farið um netið í leit að upplýsingum um ýmiss tölvumálefni en oft gengið brösuglega að finna vel skrifuð skjöl um það sem ég vil fræðast.  Yfirleitt er um að ræða hugbúnað frá stórum fyrirtækjum hverra nafn skiptir ekki máli.

Ég ætla í nerdagírinn og tala um skjölun.

Þeir sem eiga að skrifa handbækur eru oft orðnir svo samdauna vinnunni að þeir geta ekki lengur lýst henni á prenti fyrir ókunnugum, sennilega af því þeir geta ekki sett sig í spor óreyndra og af því þeir hafa ekki heyrt spurningarnar sem upp koma hjá þeim, hafandi ekki unnið í notendaþjónustu eða við kennslu á hugbúnaðinum.

Oft virðist höfundur ekki hafa skilgreint fyrir sjálfum sér hver lesandinn sé, áður en hann sest við skriftir.  Stundum hef ég á tilfinningunni að sá sem skrifar gefi sér að lesandinn viti þetta allt og það sé hálf vandræðalegt að þurfa að lýsa kerfinu.

Það er algengt að hugtök séu notuð án þess að þau séu skilgreind fyrst.  Einnig er algengt að kaflar geti ekki staðið sjálfstætt vegna óteljandi tilvísana út og suður innan skjalsins og í önnur skjöl.  Tilvísanir eru í lagi  - upp að vissu marki.

Þetta hefur ágerst eftir að netið kom, því sumir handbókahöfundar telja sig undanþegna því að skipuleggja frásögn sína, því alltaf megi hoppa á eftir næsta "hyperlink" ef lesandinn þarf að fylla út í söguþráðinn.

Hjá mörgum fyrirtækjum tíðkast að láta nýja starfsmenn skrifa handbækur því lengra komnir starfsmenn vilja helst sleppa.  Nýliðar vita oft lítið um kerfin og geta ekki leyft sér að trufla forritarana við vinnu sína til að spyrja heimskulegra spurninga - sem eru í raun ekki heimskulegar.

Nýliðarnir reyna að sleppa billega með því að skrifa texta sem lýsir kerfinu mjög yfirborðslega, án þess að lýsa nokkurn tímann hvað kerfið gerir.  (Sumir gárungar kenna þetta heilkenni við Microsoft).

Oft byrjar handbókin mjög lofandi eins og ef yfirmaður hafi setið hjá nýliðanum fyrsta klukkutímann en svo rennur hún út í sandinn.  Stundum virðast handbækurnar vera lítið annað losaraleg dagbók yfir breytingar á kerfinu í gegnum árin, eins konar glósur fyrir höfundana sjálfa, en ekki leiðbeiningar fyrir notendur.

Það er vandi að skrifa handbók, en þegar hún eru góð getur verið unun að lesa hana.


---

Hér er í lokin ímyndaður kafli úr nútíma handbók sem ég ætla til viðvörunar, ekki eftirbreytni.  Hann inniheldur flesta þá hluti sem ég var að skrifa um.


Inngangur

Kæri notandi!

Við óskum þér til hamingju með kaupin.  Fjarmiðja ehf. hefur sérhæft sig í gerð vandaðra fjarmiðja sem standast ítrustu kröfur sem gerðar eru og við erum viss um að nýja fjarmiðjan þín á eftir að sinna hlutverki sínu um ókomin ár.

speakercontrol

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kafli 1  Fjarmiðjur

Þessi kafli fjallar um fjarmiðjur.  Kaflinn kemur í staðinn fyrir eldri lýsingar á fjarmiðjum.  Eftir útgafu þessarar handbókar er Fjarmiðja hf ekki ábyrg gagnvart skemmdum sem verða vegna óviðeigandi lýsinga í eldri bókum á fjarmiðjum (eða hjámiðjum).

Kaflinn skiptist í undirkafla sem hér segir:

1.0: kynning
1.1: litlar fjarmiðjur
1.2: stórar fjarmiðjur
1.3: notkun á fjömiðjum

1.0: Kynning

Lýsingu á  eldri fjarmiðjum er hægt að fá í fjórða kafla eldri handbókar um fjarmiðjur: "Nýjar fjarmiðjur 2006: meðferð og viðhald" (2006) og hægt er að panta hjá þjónustuveri.

(ATHUGIÐ: Fjarmiðjur fyrir sleskjur eldri en sex ára verða ekki þjónustaðar eftir janúar 2008).

Þessi  kafli lýsir hvað fjarmiðjur eru, hvers vegna sleskjur fyrir fjarmiðjur slitna hraðar en eðlilegt þykir og hvað hægt er að gera til að uppfæra eldri fjarmiðjur til samræmis við nýrri vörur frá Fjarmiðju hf.

(Nánari lýsingar á fjarmiðjum fyrir lengra komna eru einnig í köflum 7: sleskjur með svarfsöfnurum, 11: minni sleskjur með hjámiðju og 13: svarfsafnara skipt út í nýrri fjarmiðjum).

Í hverri fjarmiðju er svæði fyrir sleskjur og sleskjusvarfi er safnað í svarfsafnara (merktur med rauðu "B" undir eldri fjarmiðjum eða grænu "S" í nýrri fjarmiðjum).

Boðið er upp á þrenns konar fjarmiðjur:

  • Fjarmiðjur med stuðningi fyrir nýjar og eldri sleskjur
  • Fjarmiðjur án stuðnings fyrir eldri sleskjur en stærri svarfsafnara
  • Fjarmiðjur med áföstum sleskjum (verða ekki þjónustaðar eftir janúar 2008).

   

Um slit á sleskjum

Slit á sleskjum verður þegar fjarmiðja er of stór fyrir sleskjur eða þegar gömul sleskja er sett a svæði í nýrri fjarmiðju sem er ætluð fyrir nýjar sleskjur.  Mikilvægt er að fylgjast með slitinu, sjá aftast í undirkafla 4.1 þar sem fjallað er um viðauka C.

1.1 litlar fjarmiðjur

Litlar fjarmiðjur eru þær fjarmiðjur sem hafa stuðning við fjórar eða færri sleskjur. 

Hægt er að uppfæra litlar fjarmiðjur fyrir stuðning við fimm eda fleiri sleskjur, en mælt er med því að stórar fjarmiðjur séu keyptar ef til stendur ad nota fleiri en átta sleskjur.  Litlar fjarmiðjur eru teknar upp i nýjar fjarmiðjur samkvæmt taxta enda sé slit á fjarmiðjunni undir mörkum (sjá viðauka A:  Viðmiðunarverð a fjarmiðjum 2007 og viðauka C: slitstuðlar fyrir Fjarmiðjur i notkun 1989-2006).  Athugið að verðskráin gildir aðeins til desember 2007.

1.2 stórar fjarmiðjur

Stórar fjarmiðjur ráða við fimm eða fleiri sleskjur.  Séu sleskjurnar eldri en þriggja ára má koma tveim sleskjum fyrir á svæði sem ætlað er fyrir nýrri gerð af sleskjum en gæta verður að því að fjarmiðjan ofhitni ekki eða svarfsafnari offyllist.

1.3 notkun á fjarmiðju (loksins lærir maður eitthvað!?)

Inngangur

Stórar og litlar fjarmiðjur hafa sömu notendaskil.  Á þeim eru þrír takkar að ofanverðu.


Takkar á fjarmiðju

Takkar á fjarmiðju eru merktir: "Sleskja tengd", "Sleskja aftengd" og "Svarfsöfnun á/af".  Þeim verður nú lýst.

  • [SLESKJA TENGD]
    Ýtið á takkann til að tengja sleskju.  Sé ýtt oftar en einu sinni heyrist aðvörunarhljóð.  Varast skal að halda takkanum inni því sleskjan getur ofhitnað.
  • [SLESKJA AFTENGD]
    Ýtið á takkann til að aftengja sleskju.  Sé ýtt oftar en einu sinni heyrist aðvörunarhljóð en óhætt er að halda takkanum inni enda er sleskjan augljóslega ekki nálægt fjarmiðjunni.
  • [SVARFSÖFNUN Á/AF]
    Ýtið á þennan takka til að kveikja og slökkva á svarfsöfnun.

---

Ég vona að þið séuð einhverju nær um sleskjur og fjarmiðjur, en ég óttast samt að þið séuð búin að ákveða að fjarmiðjur séu eitthvað sem þið hafið ekki vit á og best sé að láta sérfræðinga um að annast þær fyrir ykkur.

Kveðja, Kári

PS:  Ég sé að það er fljótlegt að skrifa handbækur.  Ein A4 síða komin á 25 mínútum!


silywalk

 

 

 


Byrjunarvandamál

 

Hér er saga frá upphafi PC tölvuvæðingarinnar sem ég vil skrifa niður áður en ég gleymi.

Ég vann einu sinni hjá litlu hugbúnaðarfyrirtæki sem hét Hugur.  Forritið sem við seldum var afgreitt á tveim diskettum enda var harði diskurinn ekki kominn í PC tölvur.

Fólk átti að setja sitthvora diskettuna í sitthvort drifið og vélrita skipunina "HUGUR" til að kveikja á kerfinu.

Ég fékk símtal frá konu í frystihúsi úti á landsbyggðinni sem sagðist ekki geta kveikt á kerfinu því þegar hún vélritaði "HUGUR" gerðist ekkert.

Ég bað hana að lesa hvað stæði á skjánum þegar hún vélritaði "HUGUR" ?

Konan svaraði: "Það stendur Bad command or filename" sem þýddi fyrir mér að forritið væri ekki á diskettunni.

Ég bað  hana næst að fá lista yfir hvað væri á diskettunni með því að skrifa "DIR" en þá sagði hún að textinn "Bad command or filename" hefði komið aftur.  Mér leist ekki á blíkuna því DIR skipunin á alltaf að vera aðgengileg.

Þá datt mér svoldið í hug og ég spurði: "hvað stendur í næstu línu fyrir ofan villuboðin?"

Hún sagði:"það er fullt af D, svo koma mörg I og síðast fullt af R".  Á ég að telja stafina?

Ég svaraði: "Nei.  Bara ekki halda tökkunum svona lengi niðri þegar þú vélritar".  Eftir það var allt í himnalagi.

KKKKKvvvvveeeeððððððjjjjjjaaa,

Kári



Almennilegt fólk

Ég er búinn að hugsa of mikið um íslensk skítseiði í viðskiptageiranum í þessari viku.  Ég verð að hugsa um annað til að verða ekki þunglyndur.

Hér eru menn sem gera samfélagið betra, ekki verra.   Ég fór á tónleika með Bela Fleck í Durham, Norður-Karolínu 1992.  Hér tekur hljómsveitin lagið "Hoedown".  Fyrstu 30 sekúndurnar eru kynning, en biðin er þess virði.

Bela Fleck er maðurinn með banjóið.  Bassaleikarinn heitir Victor Wooten og er í miklu uppáhaldi hjá mér.  Hérna má sjá hann taka lagið "Norwegian Wood" sem Bítlarnir sömdu.

Svona fólk vil ég þekkja.

 


REI

Ég vildi að ég gæti skroppið af skerinu í smástund án þess að allt fari þar í bál og brand. 

Í dag hefur soðið á mér af illsku yfir framferði borgarstjóra sem ég veit ekki hvort verður sakfelldur fyrir spillingu eða bara ávíttur fyrir viðvaningsleg vinnubrögð.  Það verður að koma í ljós.

Mér finnst ósennilegt að allt sé í himnalagi á hans bæ, en ef svo er, verð ég að segja að illa hafi verið staðið að kynningarmálum.

Ég vil gjarnan sjá útrás í orkumálum og trúi á einkaframtakið.  Hafandi sagt það:  Af hverju fæ ég sem núverandi eigandi orkuveitunnar svona litlar upplýsingar um söluna?  Af hverju er svona ákvörðunum hent í mig eins og blautri tusku?  Kjörnir fulltrúar verða að taka sér tíma og segja frá því sem þeir eru að gera.

Og af hverju fæ ég ekki tækifæri til að kaupa í nýja fyrirtækinu á opnum markaði?  Hverjir eru þessir menn sem fá að kaupa mitt fyritæki á fyrirfram ákveðnu verði?

Vilhjálmur Bjarnason aðjúnkt spyr í Speglinum í útvarpinu í kvöld (lítillega endurorðað af mér):

Af hverju Bjarni? Hans aðkoma er  mjög sérstök. REI er opinbert fyrirtæki, svo dúkkar upp einn hluthafi, Bjarni  Ármannsson, af öllum mönnum, með 500 milljónir í hlutafé.

Í hlutafélögum á að leggja fram mat á hvort verðmæti sé þess virði sem um er rætt og hvernig menn öðlist kauprétt.

Kaupréttur í þessu dæmi er býsna vandmeðfarinn. Til að úthluta honum er  grundvallaratriði að vita hvers virði hann er þegar um hann er samið og  sömuleiðis hvaða árangurs er ætlast til að þeir sem njóta kaupréttar eigi að ná  fram í rekstri fyrirtækisins.

Það er ekki hægt að verðleggja kaupréttinn í REI í dag því fyrirtækið er ekki á  markaði.

Það hefði verið eðlilegt að opna fyrirtækið almennum fjárfestum en ekki útpikkuðum fjárfestum eins og Bjarna.  Hann hefði getað komið að sem stjórnarmaður en þessi aðkoma hans sem fjárfestis er mjög sérstök enda hefur  hann ekkert komið að orkugeiranum.

Það hefði átt að fara fram hlutafjárútboð.

Heimildir hins opinbera til fjárfestinga hafa verið takmarkaðar til þessa.  Sjálfstæðismenn gagnrýndu hörframleiðslu, rækjueldi og ljósleiðaradæmi, sem allt  í einu er nú metið á 30 milljarða án þess að forsendur fyrir útreikningunum séu  sýndar.

Ég sé ekki að heimild sé til hjá orkuveitunni til að fara í útrás.  Þarna var  óverðleggjanlegur kaupréttur ákveðinn út í loftið.  Ákvörðanir teknar á sólarhring  upp á 65 milljarða á grundvelli engra upplýsinga.

 

Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn sjái að svona vinnubrögð ganga ekki og geri sjálfur hreint.  Þangað til vona ég að Svandís í VG muni standa pliktina.

Ef íslendingar mótmæla svona vinnubrögðum ekki hraustlega eru þeir hryggleysingjar.

 

 


Torfbæir enduruppgötvaðir

Í kaffitímanum fóru frönsku kollegar mínir að tala um kaup á arni til að setja í stofuna.  Ég missti út úr mér að ég gæti alveg hugsað mér einn slíkann.

Þeir bentu á, að á Íslandi væri enginn viður til að brenna en hins vegar væri nóg af heitu vatni svo hvers vegna skrúfaði ég ekki frá vatnsofninum í stað þess að láta mig dreyma um lausn sem ætti ekki við?

Þetta er náttúrulega alveg rétt, við þurfum ekki arna.  Annað sem við þurftum sennilega ekki eru svalir.

Ég er með svalir í vesturbænum sem eru gagnslausar gagnvart elífu vindgnauðinu.  Svalirnar á íslenskum húsum virðast oft vera þar "af því bara", af því hús eiga að vera með svalir, en án þess að tilgangurinn með þeim hafi verið hugsaður.  Margir reyna að gera gott úr öllu og breyta svölum í sólstofur eftirá með því að glerja þær.

Ef svalir voru svarið, hvað var þá spurningin?  Hvernig væri að hanna bara sólstofuna strax og húsið er teiknað og hafa hana ómissandi hluta af húsinu?  Það væri góð nýting á heita vatninu myndi ég halda.

Ég sé fyrir mér stiga úr stofunni út í lítinn gósengarð undir glerþaki þar sem hægt væri að njóta þeirrar dagsbirtu sem í boði er, kannski mjatla á heimaræktuðu vínberi eða tveim.  Þarna væri hægt að hafa lítið eldhús með hlóðum og strompi í stað ameríska útigrillsins (sem útlendingar hafa víst haldið að séu ljósritunarvélar úti á svölunum hjá okkur)  og þarna mætti borða allan ársins hring.

Er eitthvað því til fyrirstöðu að nota heita vatnið til að skapa svona þakparadís?  Íslendingar voru með gras á þökunum til forna, kannski er tímabært að skoða þann möguleika aftur?

21


Elsku blessuð mörgæsin

Hér í Frakklandi fékk ég Linux borðtölvu strax og ég mætti, það var ekkert verið að bjóða mér upp á Windows, ég hefði þurft að biðja um það sérstaklega.

Ég fékk að vísu vél með gamalli útgáfu af Linux (Fedora 4) en þegar ég sagði þjónustudeildinni frá því, sögðu þeir mér hálftíma síðar að þeir hefðu sett nýjustu útgáfuna inn og gerðu svo vel að endurræsa.

Ég gerði það og viti menn, nýja útgáfan brosti við mér eftir endurræsinguna.  Enginn þurfti að heimsækja mig.

Næst bað ég um hugbúnað sem vantaði á vélina, fimm mínútum seinna var mér sagt að kíkja í "start menu" og viti menn, hann var kominn á sinn stað eins og fyrir galdra.

Ég fæ betri notendaþjónustu hér sem Linux notandi en ég hef fengið sem Windows notandi hjá öðrum fyrirtækjum.   Linux virðist vera betur til þess fallið að notendaþjónustan þjónusti alla miðlægt án þess að þurfa að heimsækja menn sérstaklega.  Þessi vinnustaður hefur alla vega náð mjög langt.

Ég get alveg vanist því að verða venjulegur notandi og hætt að þjónusta vélina mína sjálfur, svo ekki sé nú talað um allan tímann sem fer í að horfa á Windows tölvurnar ná í "Service Packs" og "Virus updates" og "Please reboot".

Hugsanlega er hægt að vinna sér inn heiðarleg laun með því að setja Linux tölvur upp fyrir venjulegt fólk og þjónusta vélarnar svo með nýjustu hugbúnaðaruppfærslum og annari aðstoð um Internetið án þess að þurfa að heimsækja kúnnana, eins og þessi þjónustudeild er að gera.

Hér er í lokin ný grein um Linux frá New York Times.

 

 

 

 

 

 


Opið eða lokað ?

Þegar HM í fótbolta var haldið síðast var sent út beint í flestum löndum.  Danska ríkissjónvarpið sendi út og ég hugði mér gott til glóðarinnar að horfa, því DR1 er á Breiðbandi landssímans sem mitt heimili borgar fyrir.

Mér varð ekki kápan úr því klæðinu því Síminn slökkti á útsendingum DR1 vikuna sem HM var haldið.  Hér á landi þurfti að borga "premium" til 365 miðla fyrir það sem var sent út í ríkissjónvarpinu í öðrum löndum.

Ég vissi aldrei hvort síminn mátti slökkva á sjónvarpssambandi við útlönd sem þeir voru búnir að samningsbinda sig til að útvega mér gegn greiðslu.  Þeir lækkuðu ekki mánaðargjaldið fyrir mánuðinn sem þeir slökktu og enginn kærði þá því íslendingar eru eins og þeir eru.

Þetta rifjast upp fyrir mér núna því yfirvöld í Búrma voru að loka á internet samband landsmanna og í sömu viku frétti ég að strákarnir sem bjuggu til Skype eru búnir að gera nýtt fyrirbæri sem heitir "Joost" og hægt er að sækja hér.

screen-1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Joost breytir heimilistölvunni í ókeypis kapalsjónvarp.   Myndgæðin eru ágæt ef netsambandið er gott því þjöppunin er mikil og góð.

Þarna opnast hugsanlega leið til að horfa á amerískar sjónvarpsstöðvar sem hafa hingað til ekki verið sendar út hér, líklega vegna þess að á þeim eru ókeypis þættir eins og "Simpsons" sem Íslendingar "eiga að borga fyrir".

Ég veit ekki hvort reynt verður að skadda Internetið til að fá Joost til að hætta að virka en það kæmi mér ekki á óvart miðað við reynslu mína af Íslandi og "frjálsri samkeppni" þar, því viðskiptafrelsi er mikið misnotað hugtak hér á flæðiskerinu þessa dagana.

 


Götubardagar

Ég fékk þessa mynd senda í framhaldi af blogginu um stelpur á hjólum: 

mass_transit

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef stundum viljað setja skilti aftan á hjólið þar sem stendur "ég má líka vera hér" eða "don't tread on me" - eða eitthvað svoleiðis - en ég sá ekki alveg hvernig.

Þessi hefur fundið ágæta lausn.

Takk fyrir myndina.

 

 


Þegar minna er meira


Árið 2000 gerðu tveir félagsfræðingar (Iyengar & Lepper) tilraun til að meta áhrif þess að bjóða fólki upp á of marga valkosti.

Þeir settu sultukrukkur í sinn hvorn sýningarbásinn.  Í öðrum básnum var boðið upp á 24 sultur en í hinum básnum voru sulturnar sex.

Á báðum stöðum mátti smakka og fólki var boðið upp á afslátt til að geta keypt sulturnar ódýrt.  Iyengar og Lepper skiptust á að setja sýningarstandana upp í mismunandi verslunum um bæinn og mældu hversu margir gengu framhjá útstillingunni, hversu margir stoppuðu og smökkuðu, og hversu margir nýttu afsláttinn og keyptu sultu.

Niðurstöður:

  • Þar sem standurinn með 24 sultum stóð smökkuðu 60% þeirra sem gengu framhjá en aðeins 3% keyptu sultu.
  • Ef sulturnar voru aðeins sex, smökkuðu 40%, en 30% keyptu samt sultu.


Stóri standurinn vakti meiri athygli, en fjöldi valkosta ofbauð fólki og það gekk í burtu án þess að ákveða að kaupa.  Með öðrum orðum: ef markmiðið er að laða viðskiptavini að, þá er minna stundum meira.  Of margir valkostir virka lamandi.

--- 

Margar bækur hafa komið út um þetta fyrirbæri síðan.  Þessar niðurstöður komu mér ekki á óvart, en ég var feginn að lesa um þær, því ég hef fundið fyrir þessari ákvörðunarlömun og hélt stundum að það væri ekki í lagi með mig.

Ég er ekki að mæla á móti samkeppni sem er yfirleitt af hinu góða.  Stundum er bara ekki um samkeppni að ræða, heldur bjóða fáir en stórir aðilar uppá margar útgáfur af sama hlutnum.  Dæmi um þetta á Íslandi er Mjólkursamsalan sem býður tugi osta sem allir eru eins á bragðið til að fela einokunina.

Annað dæmi er þegar fólk skiptir um rás á fjarstýringunni á sekúndu fresti allt kvöldið án þess að stoppa og horfa, því það er í raun ekkert í sjónvarpinu þótt ekki vanti rásirnar.

Enn annað dæmi er blaðabúnkinn sem er dreift ókeypis til landsmanna á hverjum degi.  Það má spyrja sig hvort pappírsmagnið er ekki form ritskoðunar því raunverulegum málefnum er drekkt í hafi "ekkifrétta".

Stundum eru valkostir raunverulegir, en stundum eru þeir bara lamandi fjölbreytni af engu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband