Færsluflokkur: Hjólreiðar

Potemkin þorpin

Hér er hluti af hjólastígakorti Reykjavíkur.  Mér vitanlega var kortið gert vegna ráðstefnu um skipulagsmál borga á Norðurlöndum.

hjolastigar_eda_hvad

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið gerir ekki greinarmun á leiðinni meðfram sjónum báðum megin sem er malbikuð og ágæt hjólaleið, eða leiðunum meðfram Hringbraut og Lækjargötu sem eru gamlar gangstéttir.  Finnst einhverjum öðrum en mér hæpið að kalla þær hjólastíga?

Þetta minnir mig á þegar Ameríkanar endurskilgreindu tómatsósu sem grænmeti til að fullnægja kröfum um grænmetisneyslu hjá unglingum í skólum.

Þetta minnir mig líka á Potemkin Þorpin rússnesku. 

 


Mannvæn gatnamót



Þessi gatnamót eru í New York borg þar sem 16 milljón manns búa.


Intersection_4way_overview

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona gatnamót eru oft troðfull af bílum en þau eru góð af því gangandi vegfarendum er gert jafn hátt undir höfði og ökumönnum.

Hér er andstæðan
I-80_Eastshore_Fwy

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna kemst enginn yfir nema fuglinn fljúgandi.

Á Íslandi höfum við þurft að sætta okkur við ófærar jökulár en það er ekki náttúrulögmál að umferðamannvirki séu ófær öðrum en bílum.  Ef stærri borgir virða rétt gangandi og hjólandi getur Reykjavík það líka.
jokla-fljotsdals - 02


Gjör leið mína greiða

Þessi bílakös mætti mér þegar ég hjólaði gangstéttina meðfram Hringbraut í morgun.

hringbraut_bilakos

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef haft það fyrir reglu að hringja í 112 aðeins ef bílar ógna öryggi, t.d. með því að leggja ofan á gangbraut við götuhorn.  Ég vil síður trufla mikilvægari störf þar á bæ en svona bílalagning fer óneitanlega í taugarnar á mér.

Ég vildi geta sent SMS með ljósmynd af svona bílalagningu beint til þeirra sem sjá um að draga bílana, án þess að fara í gegnum 112.

Ætli það sé hægt?  Ef ekki, myndi ég vilja leggja til við nýja lögreglustjórann að þessari þjónustu væri komið á.

 


Allir með (Strætó?)

Almenningssamgöngur eru með stimpil á sér fyrir að vera ekki fyrir þá  sem eru búnir að "meikaða".  Ég held að það sé grunnt á þeim stimpli.  Fólk myndi taka strætó ef hann væri svar við einhverri spurningu.

Ég sé fólk koma til vinnu á Range Rover en taka svo lyftuna upp á  5.hæð. Lyftur eru almenningsamgöngur, þær eru bara vel heppnuð útgáfa  af þeim.  Enginn neitar að taka lyftu vegna þess að þær séu fyrir  farlama fólk?

Ég er næstum búinn að leysa vandamálið.  Við getum lagt niður strætó.  Nú skal ég segja ykkur hvernig.

Á Íslandi er lág glæpatíðni. 99.9% þjóðarinnar er ágætis fólk þótt hin  0.1 prósentin séu góður fréttamatur.  Hér væri því hægt að skipuleggja  ferðir innan Reykjavíkur á puttanum.

Við gætum búið til "stoppistöðvar" þar sem fólk gæti stimplað inn á  gemsann sinn hvert það þyrfti að komast.  Viðkomandi gæti til dæmis  sent SMS með númeri stoppsins sem hann er á og númeri stoppsins sem  hann vill fara til.

Bílar sem keyra framhjá stoppinu gætu einhvernveginn séð hvort einhver  á stoppinu á samleið og gefið far.  Meiri gemsatækni eða skynjari í  rúðuna, veit það ekki ennþá.  Íslenskt hugvit leysir það.

Sá sem þiggur far gæti borgað einhverja málamyndaupphæð, ekki svo  mikla að menn verði "frístunda leigubílstjórar" en ekki svo litla að  það taki ekki að stoppa bílinn.  Hugsanlega gæti bílstjórinn safnað  "inneign" sem hann getur notað ef hann er sjálfur á puttanum seinna.

Upphæðin gæti runnið til líknarmála ef menn vilja ekki flækja  skattheimtuna.

Það þarf "social engineering" til að koma þessu á.  Fólk er tilbúið að  taka lyftu með ókunnugum en að taka fólk uppí er hugmynd sem þarf að  venja fólk við, sérstaklega þegar fólk er orðið hálf innhverft af  sjónvarpsglápi og félagslegri einangrun.

Hugmyndin er svolítið klikkuð en ekki of klikkuð. Skortur á  almenningssamgöngum er ekki óleysanlegt og alvarlegt vandamál.  Allt  sem þarf er raunverulegur vilji til að leysa vandann.

Miklabraut - Kringlumýrabraut eftir breytingar

Sjálfstæðismenn hafa talað um að gera mislæg gatnamót þar sem Miklabraut mætir Kringlumýrarbraut.

Ég tók eftir því að þegar Hringbrautin var færð litu teikningarnar miklu betur út en útkoman.

Teikningarnar sýndu fólk á gangi með barnavagna og veggjakrotið var víðsfjarri.  Raunveruleikinn er ekki þannig.  Steinsteypumannvirki laða ekki að sér sætar stelpur með barnavagna.

 

Hér má sjá hvernig sjálfstæðismenn hafa hugsað sér nýju gatnamótin hjá Kringlunni:

teikningin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má svo sjá hvernig svona gatnamót líta út þegar þau hafa verið byggð:

raunveruleikinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mig langar ekki í göngutúr eða hjólatúr þarna.  Ef ég er að misskilja eitthvað, hafið þá endilega samband.

Kveðja, Kári

 


Ó reiðhjól glatt þú rennur utan stanz

Pabbi hafði sennilega rétt fyrir sér þegar hann sagði að við hefðum  aldrei átt að breyta Reykjavík úr bæ í borg.  Þegar maður heldur að  maður búi í borg breytast væntingar manns.

Borgir innihalda milljónir af fólki, þær eru háværar og maður tekur  neðanjarðarlestir í þeim.  Þær bjóða upp á þúsundir af veitingastöðum,  risastór söfn og óperur.

Reykjavík er ekki borg,  hún ætti að vera bær.  Bæir eru huggulegir  með grænmetistorgi og gönguleiðum og hjólastígum og fólk hittist og  spjallar.

Ég hef átt heima í  bæjum, þeir eru frábærir.  Ég hef verið í borgum  þær eru líka frábærar á sinn hátt, amk. í nokkra daga í senn.  Reykjavík er hvorki bær né borg af því þegar við héldum að Reykjavík  ætti að vera borg hættum við að passa upp á bæjarbraginn.  Við höfum  samt ekki náð því að vera borg ennþá. Einu borgareinkennin sem við  höfum fengið eru umferð sem gæti sómt sér í London.

Núna síðast skárum við Reykjavík í sundur með styztu hraðbraut sem ég  hef séð en hún skiptir Reykjavík jafn örugglega og gljúfrið sem sker  Kópavog og kemur í veg fyrir að miðbærinn þar fái sál.

Ég er á hjóli.  Ég hef verið það síðan ég var tólf ára.  Kannski er ég  svona hrifinn af hjólum af því ég þurfti að bíða svo lengi eftir því  fyrsta.  Kannski hefur það ekkert með málið að gera en ég ætla ekki að  sálgreina mig hér.

Ef maður á gott hjól, þá verður það hluti af manni og maður líður um  eins og í þessum góðu draumum þegar mann dreymir að maður sé að  fljúga.  Ef hjólið er ekkert sérstakt, heldur einhver bykkja gerist  þetta hins vegar ekki.

Það þurfa nokkur atriði að koma saman fyrst:  maður þarf að vera  kominn í sæmilegt form og það tekur viku eða tvær.  Maður þarf líka að  vera í fötum sem þrengja ekki að á vitlausum stöðum og vindurinn má  ekki næða niður hálsmálið á manni. Þegar maður hefur lært þetta finnst  manni reiðhjólið vera sniðugasta uppfinning síðan hjólið var fundið  upp.

Ég sé strax hvort ég mæti reyndum hjólamanni.  Þeir óreyndu eru á  hjóli sem var aðeins of ódýrt og það heyrist hátt í gírunum af þeir  eru ekki alveg stilltir. Þeir óreyndu eru á dekkjum sem eru aðeins of  stór og jeppaleg og yfirleitt rúlla ég fram úr þeim þótt ég sé ekki að  pedala af því þeirra hjól rúlla svo illa. Svo sé ég þetta fólk ekkert  aftur.  Ég hugsa samt stundum hvað það var mikil synd að fólkið fékk  svona ranga hugmynd um þennan frábæra fararskjóta.  Ódýr hjól eru ekki  þess virði.

Þegar ég var tólf ára var árið 1976.  Þá hjólaði ég á götunni og fór  létt með það, bílarnir voru svo fáir.  Ég hugsaði ekki um að ég væri  "hjólreiðamaður", ég var bara á hjóli.

Síðastliðin ár hef ég fengið pólitíska meðvitund um að ég tilheyri  "flokki hjólreiðamanna".  Best hefði mér þótt að hjóla bara áfram en  nú þarf ég víst að berjast fyrir tilveru minni því að okkur er þrengt.

Fyrst fjölgaði bílunum.  Svo var samþykkt illu heilli að leyfa  hjólreiðar á gangstéttum.  Þá hætti ég að geta spanað um bæinn á  fullri ferð og þurfti að þræða ósléttar steinsteypustéttar  eftirstríðsáranna sem hefur ekki verið viðhaldið. Í þeim eru staurar á  stangli þar sem enginn staur hefði nokkurn tímann átt að vera og ef  maður passar sig ekki ræðst einn þeirra á mann. Stéttar voru aldrei  ætlaðar fyrir hjólreiðar.

Stéttarnar eru að batna.  Þær eru samt engir hjólastígar. Hjólastígar  væru með malbiki og myndu líkjast venjulegum umferðargötum, bara miklu  mjórri.  Við eigum nú þegar einn svona stíg í kringum borgina og hann  er frábær, ég þakka mikið fyrir hann.   Ég nota hann í "útivist".  Það  er þegar maður hreyfir sig af samviskubiti af því maður hefur ekki  hreyft sig.

Ef maður hjólar bara þarf maður ekki "útivist" eða "rækt", málið sér  um sig sjálft.  Ég nota hjólið sem farartæki, ég vil fara allt á því.  Þá er þessi eini stígur kringum borgina yfirleitt ekki í leiðinni.  Mín daglega ferð er meðfram Hringbrautinni.

Færslu Hringbrautarinnar var lokið frekar fljótt hvað bílistana  varðaði en hjólastígurinn meðfram henni var harðlokaður 15 mánuði í  viðbót. Leiðirnar báðum megin voru ófærar jafnvel reyndum mönnum á  fjallabílum allan þann tíma.

Kaldhæðnin í þessu er að yfirvöld meina vel.  Þessi stígur meðfram  brautinni er ágætur núna og reyndar betri en áður en Hringbrautin var  færð. Ég óttast bara að svona framkvæmdir geta gert út af við eina  kynslóð hjólamanna. Á meðan Hringbrautin var færð sá ég fólk gefast  upp á hjólinu og setjast upp í bíl. Aðgerðin heppnaðist en  sjúklingurinn dó.

Ég var einmitt að reyna svo mikið að fá vinnufélaga mína til að prófa  að hjóla þegar ósköpin dundu yfir, það var nefnilega "hjólað í  vinnuna" átakið og ég skráði kollega mína til keppni.  Það varð hálf  útþynnt.

Þó ekki væri styrjaldarástand í vegalagningum eru margir með ástæður  til að hjóla ekki.

Það eru þeir sem keyptu sér hús meir en fimm kílómetra frá vinnunni.  Þeir ættu sennilega ekkert að reyna að hjóla, ég óska þeim farsæls  bifreiðarekstar og vona að bensínverðið sligi þá ekki á komandi árum.  Hér verð ég að skjóta inn að það er bíll á heimilinu en hann er ekki  notaður í smásnatt inní bænum.  Reykjavík er lítil en Ísland er stórt  og ég veit hvar takmörk mín liggja hjólalega séð.

Svo er það fína fólkið.  Það er svo vel klætt og vel til haft, og  reiðhjól eru svo nördaleg.  Hjól gætu aldrei gengið fyrir þetta fólk,  það vorkennir mér af því ég mæti í anorakk og pollabuxum og segir:  "Mikið ertu hress að nenna þessu".

Ég hef búið í ameríku og í köben og þar hugsaði ég ekkert út í þetta.  Hér líður mér eins og útlendingi í mínu eigin landi.  Ég vil hjóla en  er eins og frík á götum Reykjavíkur.  Mig langar að segja eins og John  Merrick í fílamanninum: "I am not an Animal!"  Íslendingar eru svo  mikið fyrir að klæða sig pent að mér getur blöskrað.  Girlie men!

Næsti hópur er sá sem segir að hér sé svo vont veður.  Það get ég  leiðrétt. Þegar maður er í réttu fötunum og í smá formi sér maður að  veðrið er stórfínt. Flestir sem stunda einhverja útivist vita þetta.

Það var miklu kaldara í frostþokunni í köben, og það var verulega  erfitt að hjóla í 40 stiga hita í ameríku. Hér er næstum því perfekt  hjólaveður allan tímann.  Það er svona vika á ári sem ég stelst í  jeppanum eða tek strætó.  1/52 er ekki slæmt hlutfall.

Vissir þú að hér má taka hjól með sér í strætó og það kostar ekkert  aukalega?  Í köben borgar maður sérstaklega fyrir hjólið.

Nú er bara einn hópur eftir.  Það er sá sem segir mér að það sé óðs  manns æði að hjóla hér.  Þá setur mig hljóðan og það er líka þess  vegna sem ég skrifa þetta bréf.  Ég ætla ekki að sannfæra neinn um að  elska hjólreiðar eins og ég geri, en ég vil biðja ykkur hin að taka  ykkur smá taki.

Það eruð þið sem keyrið á harðakani út úr hringtorgum yfir gangbrautir  án þess að gefa stefnuljós.
parking_bodull

 

 

 

 

 

 

 

Þið sem leggið bílunum á gangstéttirnar til að vera ekki  fyrir hinum bílunum.  Þið eruð fyrir mér! parkbodull

 

 

 

 

 

 

 

Þið sem vinnið við lagfæringar á vegum.  Þið mokið holu og setjið  hauginn á miðjan hjólastíg og þær fær haugurinn að dúsa mánuðum saman.
hjol_vid_hringbraut

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo eruð það þið sem hannið gangstéttir og hjólastíga en hjólið aldrei  sjálf. Þegar einhver býr til lausn án þess að skilja verkefnið verður  útkoman yfirleitt ekki góð. Í gamla daga hönnuðu karlmenn eldhús sem  konur unnu í.  Það voru leiðinleg eldhús. Þannig eru margir  hjólastígar hér.  Það er augljóst að samtök hjólafólks voru ekki höfð  með í ráðum.

Fjármunum er varið í dýrar lausnir (t.d. brýr yfir Hringbraut) í stað  þess að leysa brýnni mál - hver ákveður hvar á að nota peningana?

Ég ákvað birta þennan pistil vegna þess að ég sé, að ríkistjórnin  ætlar að nota alla vegagerðarpeningana sína (okkar) til að greiða götu  einkabílsins.

Einkabíllinn býr nú til vandamál hraðar en hann leysir þau.  Vetnisbílar eru vísindaskáldskapur ennþá.  Reiðhjólin eru hér í dag og  þau eru lausn.

Hvílík hræsni að tala um vetnisbíla á tyllidögum og geta svo ekki haft  einfalda hluti eins og hjólabrautir á fjárlagaáætlun.   Svei ykkur!


Bensín eða rafmagn?

Toyota Prius bíllinn er farinn að sjást á götum hér. Hann er
rafmagnsbíll að hluta til, því í honum eru bæði bensínvél og
rafmagnsmótor sem samanlagt gera bílinn sæmilega sprækann og
eyðslugrannan.

Priusinn er ekki hægt að setja í hleðslu.  Honum er eingöngu ætlað að
ganga fyrir bensíni og því eru rafgeymar bílsins hlaðnir af
bensínmótornum þegar hann er í gangi.

Chevrolet Volt bíllinn er væntanlegur.  Hann gengur skrefinu lengra en
Prius því dekkjunum er eingöngu snúið með rafmagni.  Bíllinn þarf því
ekki gírkassa og mismunadrif. Í honum er bensínljósavél sem getur
hlaðið geymana á langkeyrslu - en hún er ekki alltaf nauðsynleg því
það er hægt að stinga bílnum í hleðslu. Eftir sex tíma er hægt að
keyra 64 km áður en kveikja þarf á ljósavélinni.


Sú fjarlægð dugir langflestum reykjvíkingum til að þurfa ekki bensín
nema þegar þeir bregða sér úr bænum.

Þessi bíll ætti að henta vel fyrir íslenskar aðstæður.  Ég bíð
spenntur eftir jeppaútfærslu, þvi fjórir rafmagnsmótorar eru góð
uppskrift að léttum fjórhjóladrifsbíl. 

Eins og stendur verður bíllinn fokdýr útaf rafhlöðunum (og hann er
ljótur) en vonandi stendur bæði til bóta.

Grein um Volt bílinn

Ef ameríkanar eru tilbúnir að skipta yfir í rafmagn, þá ættu
íslendingar miklu frekar að vera það, því hér er jú bensínið dýrt og
rafmagnið ódýrt miðað við Bandaríkin eða hvað?

Ég komst að því mér til mikilla vonbrigða að verð á Kílówattstund til
heimila hér er miklu hærra en í Bandaríkjunum, þótt við þurfum ekki að
búa til rafmagn með olíu eins og Bandaríkjamenn gera.  Ef
raforkuframleiðslan er ódýr hér, þá sé ég engin merki þess.

Ef við viljum verða í fararbroddi í umhverfismálum í framtíðinni þá
ættum við að búa í haginn fyrir meiri og ódýrari raforkusölu til
heimila.  Við skulum ekki selja alla orkuna sem við getum framleitt
fyrirfram til álvera á undirverði.


Reykjavík, hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?

Sá þetta í skjalinu: 

SAMGÖNGUSKIPULAG Í REYKJAVÍK: GREINING Á STÖÐU OG STEFNU FEBRÚAR  2006
 
Í kaupmannahöfn eru 220 bílar á þúsund íbúa.
Í Phoenix Arizona eru þeir 530
Í Reykjavík eru þeir tæplega 600


Við erum ekki búin að ná Houston með 700 bíla

 Jibbííí...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband