Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Það er LOKAÐ

Hjólastígurinn meðfram Hringbraut var tekinn í sundur með gröfum í haust þegar byrjað var að leggja veg til Háskólans í Reykjavík.

Þetta er aðal hjólaleiðin út úr vesturbænum. Sett var upp skilti þar sem stóð:  "ÞAÐ ER LOKAÐ".  Nú er kominn seinni hluti Janúar og enn er leiðin lokuð þótt vanti bara nokkra metra af frágangi á hjólastígnum viku eftir viku.  Ég hef reyndar stolist til að hjóla leiðina undanfarinn mánuð því leiðin er fær, það er bara skiltið og hugsunarleysið eftir.

Það er greinilegt að verktakinn þarf ekki að uppfylla kröfur um að valda ekki ónæði og óþægindum hjá hjólandi og gangandi.  Ef skiltið hefði verið svona:

  • Því miður er lokað vegna lagningu nýs vegar í Nauthólsvík.
  • Áætluð verklok eru 12.desember 2009.
  • Framkvæmdaraðili er Sjálftak hf.

Hefði ég fengið meiri samúð með framkvæmdinni.

Hins vegar stendur bara "Það er LOKAÐ" viku eftir viku og engar framkvæmdir við Hringbraut.  Reyndar er verið að vinna við veginn, það er bara á hinum endanum, rétt hjá Loftleiðahótelinu.

Þarna kemur skýrt fram að borgaryfirvöld eru ennþá að leysa mál hjólreiðamanna með steinsteypu en ekki betra verklagi og framkomu.  Hvers virði eru flottu brýrnar yfir Hringbraut núna þegar ekki er hægt að nýta þær af því öll gatan er lokuð ?  Ég sæi í anda yfirvöld loka Hringbraut fyrir bílum með svona fautahætti.

Hefði ekki mátt þrengja að bílunum og leggja smá hjólastíg í vegkantinn?  Setja upp kurteislegri skilti um hjáleiðir og verklok?  Á meðan þetta angrar ekki bílaumferðina er allt í lagi eða hvað?

Ég veit að þetta er stór framkvæmd og að mörgu að hyggja, erfiðir tímar o.s.frv.  Hins vegar eiga yfirvöld ekki að leyfa svona fautalega framkomu við fólk í borginni sama á hversu mörgum dekkjum það er.


Á Landsspítalinn nýi að fara austar í borgina?

Ég vil benda á sérstaklega gott blogg um arkitektúr og skipulagsmál hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/

 

Það er Hilmar Þór Björnsson arkitekt sem á síðuna en hann hannaði m.a. Grafarvogskirkju.

Ég mæli sérstaklega með að byrja á þessari grein varðandi byggingu nýs Landsspítala:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/01/13/hagsmunaadilar-deiliskipuleggja/

 


Kartöflumjöl í skyri - er það framtíðin?

Þetta bréf sendi ég til ms@ms.is áðan:


Við keyptum KEA skyr í Bónus í morgun, og vorum sammála um að það væri óætt.  Áferðin á því var eins og sandur.  Ég las utan á dolluna og sá að þið eruð farin að setja kartöflumjöl í skyrið.

Það er fyrir neðan allar hellur að setja algerlega óviðkomandi bætiefni í það sem var frekar hrein íslensk landbúnaðar afurð.

Ég hélt að KEA skyr væri framleitt af KEA á norðurlandi en sé nú að MS og  KEA eru nú sama skyrið.  Ég vildi að ég gæti farið til keppinautarins, en þar sem hann er ekki til erum við hætt að kaupa skyr.

Ég vona að þið sjáið að ykkur og sendið mér svarbréf um að þið ætlið að hætta þessu.


Með virðingu,

Kári Harðarson


Það er ljótt að uppnefna fólk

Gunnar skrifar: "Þess vegna er hún kölluð "kúlulánadrottningin".

  • Í fyrsta lagi er ljótt að uppnefna fólk.
  • Í öðru lagi á ekki að bera rógburð.

Mig klæjar að segja frá því að ég heyrði gott uppnefni á Gunnar en ég ætla að steinþegja um það áfram.

Er þetta uppbyggilegt?  Er þetta einverjum til góðs?  Eigum við ekki að lyfta þessu á örlítið hærra plan?

 

PS:  Ég veit að fullt af fólki er að blogga uppnefningar og þaðan af verra, en mér sárnar þegar Gunnar gerir það, það er einhvers konar hrós held ég.

 


mbl.is Segir forstjóra Bankasýslunnar vera kúlulánadrottningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Respect

Takk Össur, þetta var frétt vikunnar fyrir mig.

http://www.nrk.no/nyheter/verden/1.6944010

Kveðja, Kári

 


Gangandi vegfarendur verði skyldaðir til að hafa hjálma

Reglulega kemur upp sú umræða að gera hjálma að skyldubúnaði fyrir alla sem vilja hjóla.

Í framhaldi af því datt mér í hug að fara skrefinu lengra og krefjast þess að allir sem eru utandyra án þess að vera í bíl séu með hjálm.

Ég er viss um að umferðarráð getur fundið rök þess efnis að þeir sem eru fótgangandi og verða fyrir bíl skaðast minna þannig.

Þetta lið sem er nógu ruglað til að vera gangandi utan dyra hlýtur að þurfa að láta hafa vit fyrir sér?

890924-001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég tek fram að ég er að reyna að vera kaldhæðinn.  Plís, þið sem sitjið og setjið reglur:  Látið hjólafólk í friði.  Það vantar hjólaleiðir og gagnkvæma virðingu, ekki reglur af þessu tagi.

Hjálmar gefa falska öryggistilfinningu því þeir láta bílstjóra halda að hjólafólkið sé eitthvað betur varið, og þess vegna megi keyra hraðar og nær því en ella.

Það væri nær að merkja vegkant með óbrotinni línu svo bílar komi ekki nálægt þeim sem hjólar þar án þess að brjóta lög -- og fylgja svo þeim lögum.

Hér er önnur regla sem gæti líka minnkað slys:  Lágmark 10 ára fangelsi fyrir þann sem ekur á hjólandi eða gangandi.  Þá lækkar slysatíðnin sennilega meira, og ég þarf ekki að líta út eins og fífl.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband