Færsluflokkur: Umhverfismál
22.5.2009 | 14:46
Hvenær á maður eitthvað?
Maður á ekki börnin sín, maður gætir þeirra. Þetta sagði indverskur spekingur hvers nafn ég man ekki í svipinn. Þetta hefur ekki alltaf verið á hreinu, til dæmis ræðir Mósebók um kosti og galla þess að selja börnin sín í ánauð.
Indjánum N.Ameríku fannst óskiljanlegt að einhver gæti átt landið og seldu Manhattan eyju fyrir slikk. Þeir hlógu ekki þegar hvítu mennirnir settu upp girðingar og sögðu "út af minni lóð". Flestir hafa sætt sig við að hægt sé að eiga land, amk. liðu miðaldir þar sem leiguliðar supu dauðann úr skel meðan landeigendur fóru á refaveiðar án þess að stórar byltingar væru gerðar.
Ég man í róló í gamla daga þegar sumir krakkarnir þóttust eiga rólurnar og enginn annar mátti róla. Svo varð skyndilega verðhrun á rólumarkaðinum þegar mömmurnar kölluðu okkur inn í mat.
Svo er það kvótinn. Ég hef dregið þorsk og ýsu úr sjó á línu. Það er óviðjafnanlegt tilfinning, ég gæti vanist henni!
Maður rær bara út, situr við sinn keip og yfirleitt er bitið á fyrr en varir. Þetta er eins og að eiga olíulind, peningarnir hreinlega gusast upp án þess að maður geri neitt -- eins og að prenta peninga.
Vandinn er að þetta er svo auðvelt (og skemmtilegt) að það verður að setja einhver mörk svo allir mæti ekki á staðinn og tæmi hafið af fiski.
Það voru fleiri krakkar en rólur og allir vildu róla. Okkur krökkunum fannst flestum augljóst að einhverjir krakkar gátu ekki bara sezt í rólurnar og eignað sér þær. Rétta svarið var, að við áttum að skiptast á. Ef einhver fullorðinn hefði komið, hefði hann passað að allir fengju að róla smá.
Af sömu ástæðu finnst mér kvótakerfið algerlega út í hött. Það eina góða við kerfið, er að að það bjargar fiskinum frá útrýmingu. Það býr hins vegar til ríka stóreigendastétt úr engu. (Þeir sem skulda vegna kvótakaupa í dag eru krakkarnir sem ösnuðust til að kaupa rólurnar af upphaflegu ruddunum. Það var leitt).
Ég gæti alt eins tekið öll tré á landinu, girt þau inní reit og selt fóki aðgang, mikið rosalega yrði ég ríkur. Sama með heitt og kalt vatn. Þetta er röng leið til að skapa ríkidæmi því það er enginn að skapa verðmæti, það er bara verið að setjast á þau.
Nei, þarna á hvorki rányrkja né kapítalismi heima. Sumir hlutir verða að vera sameign okkar allra. Takmörkum veiðarnar, en ekki rugla veiðiheimildunum saman við eignarétt. Þeir mega róla en þeir eiga ekki rólurnar. Ég er með ökuskírteini en ég má ekki selja það öðrum.
Kapítalista módelið á ekki við, menn misnotuðu það af því það var í tísku á sínum tíma. Maður með hamar heldur að allt sé nagli.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)