Færsluflokkur: Matur og drykkur
11.2.2008 | 22:17
Þetta er fljótt að koma...
Dagsþörf fullorðins manns er 2.500 kaloríur.
- Pylsa með öllu: 429 kaloríur
- Big Mac og stór skammtur af frönskum: 1.080 kaloríur
- Máltíð á KFC: 1.350 kaloríur (Franskar, hrásalat, kjúklingabringa og læri)
- Tólf tommu kjúklingalangloka frá Quiznos: 1.495 kaloríur (úff!)
- Domino's 14 tommu pepperoni pizza: 1.924 kaloríur
200 kaloríur bætast við ef maður fær kókglas með.
Ég fékk þessar upplýsingar af erlendum vefsíðum. Ég veit ekki hvað Hlöllabátur eða American Style borgari er með mikið af hitaeiningum. Hvorki www.americanstyle.is né www.hlolli.is birta upplýsingar um næringarinnihald.
Ég velti fyrir mér: af hverju eru hitaeiningar merktar utan á rjómafernu en ekki á auglýsingar fyrir Domino's deep crust pizzu með pepperoni og osti? Ættum við að byrja að merkja skyndibita með hitaeiningum? Myndi það breyta einhverju um neysluvenjur okkar?
Matur og drykkur | Breytt 12.2.2008 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
3.2.2008 | 21:09
Undir þrýstingi
Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum eignuðumst við okkar fyrsta hraðsuðupott. Mig grunar að hraðsuðupottar séu sjaldgæfir á íslenskum heimilum og vil því kynna þá aðeins.
Þetta eru venjulegir pottar nema brúnin á pottinum læsist við pottlokið og er með gúmmíkanti. Sérstakur ventill ofan á lokinu kemur í veg fyrir að gufa sleppi út við suðu fyrr en þrýstingurinn er orðinn 15 PSI en það er álíka og í stóru jeppadekki.
15 PSI er ekki mikill þrýstingur, en munar samt því að vatnið sýður ekkki við 100 gráður eins og venjulega, heldur 125 gráður. Fyrir vikið má stytta suðutíma á mat um 70%.
Brún hrísgrjón sem venjulega taka 40 mínútur taka 12 mínútur. Bolognaise spaghettisósa sem hefur gott af því að sjóða í marga klukkutíma verður frábær á kortéri. Mér skilst að vítamín haldist betur í matnum vegna styttri suðutíma en það er ekki ástæðan fyrir því að ég kann að meta hann, heldur er það tímasparnaðurinn.
Þessir pottar voru fundnir upp í Frakklandi 1679 og voru notaðir til að sjóða niður mat fyrir heri Napóleons. Krukkurnar sem eru seldar undir jólasíldina eru með gúmmíkanti og hespuloki og voru upphaflega hannaðar fyrir niðursuðu. Ég hef ekki prófað að sjóða niður mat enda er ég með frysti, en möguleikinn er til staðar.
Ég veit að pottarnir höfðu óorð á sér fyrir að springa fyrir mörgum árum. Nútíma hraðsuðupottar eru mjög öruggir enda eru þeir með öryggisloka og lás sem kemur í veg fyrir að þeir séu opnaðir undir þrýstingi. Það er því ástæðulaust að óttast þá.
Hraðsuðupottur er eitt af því sem ég myndi ekki vilja vera án í eldhúsinu. Við erum nú komin með okkar þriðja. Sá fyrsti var úr áli og við vildum stál. Hann var svo ónothæfur þegar við fengum spanhelluborði svo við keyptum nýjan þegar við fórum til Spánar síðast. Hann kostaði 40 evrur eða 4 þúsund krónur.
Ég hef séð að þeir fást til sölu hjá Einari Farestveit.
PS: Ef einhver vill kaupa gamla stálpottinn má hann senda mér línu á karih@ru.is.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.11.2007 | 21:21
Hó hó hó
Nú er rétt rúmur mánuður í að sólin verði hvað lægst á lofti og að landsmenn haldi uppá innreið birtunnar með gegndarlausu áti. Ég hef hugsað mér að leggja mitt að mörkum en eftir það þarf ég sennilega að fara í átak.
Ég hef einu sinni grennt mig þannig að það gengi vel og alveg sársaukalaust, og það var í fyrra.
Hvað gerir sá sem fer sífellt yfirum á bankareikningi? Hann lærir að færa bókhald. Ég viðurkenndi að ég hefði ekki stjórn á magamálinu og að ég þyrfti að vita hvaðan allar þessar kaloríur væru að koma. Þess vegna keypti ég litla vigt og prentaði út kaloríutöflu af netinu.
Ég skráði það sem ég borðaði í nokkra daga og svörin létu ekki á sér standa. Í mínu tilfelli voru það 3 diskar af kvöldmat, og óþörf ólífuolía sem ég laumaði í potta yfir vikuna. Ólífuolía er holl, segja seljendurnir en það er afstætt. Öll fita er 9.000 kaloríur lítrinn, hvort sem hún heitir Ljóma smjörlíki eða jómfrúarólífuolía frá Grikklandi.
Það má snúa þessu fitu kaloríu-dæmi við: Ef ég þarf að grennast um 10 kíló þarf ég að losna við 90.000 kaloríur. Svo má segja: Ef ég þarf 2.500 kaloríur á dag en borða þess í stað 2.000 kaloríur þá losna ég við 500 kaloríur á dag eða 55 grömm af fitu, sem eru uþb. 4 matskeiðar af ólífuolíu. Það er kíló á átján daga fresti eða 20 kíló á ári.
Maður tekur varla eftir því hvort maður borðar 2.500 kaloríur eða 2.000 kaloríur. Maður tekur hins vegar eftir því að reyna að svelta sig alveg, og endar örugglega með því að hætta, sneyptur og vansæll.
Ósiðir í áti eru augljósir þegar maður er búinn að finna þá, en fyrst þarf að finna þá og ég þurfti bókhaldið til þess. Aðrir hafa aðra ósiði, Snickers stykki í bílnum á leiðinni heim eða eitthvað annað, svo það er eiginlega ekki hægt að fá góð ráð frá öðrum. Maður verður að sjá hvaðan manns eigin kaloríur eru að koma.
Þegar ég vissi hvaðan mínar kaloríur komu, ákvað ég hvað væri fitandi og ekki nógu ánægjulegt að sama skapi. Svo sleppti ég því.
Svipaða sögu segja þeir sem læra að halda heimilisbókhald. Þeir finna eitthvað sem þeir geta vel verið án og kostaði helling þegar upp er staðið. Þegar þeir sjá hvað daglegur lúxuskaffibolli á 500 kr. kostar yfir árið (183 þúsund krónur) þá ákveða þeir að hella upp á gott kaffi sjálfir. Svona hlutir safnast saman.
Fram að þessu hafði ég ekki trúað því að smá hlutir skiptu máli. Hvernig getur matskeið af smjöri á dag orðið að 10 aukakílóum? Líkaminn hlýtur að jafna svoleiðis smámuni út. Nú trúi ég því ekki lengur. Málið er að maður grennist ef maður borðar aðeins minna en maður brennir, en maður verður að vera réttum megin við strikið. Maður þarf ekki að grennast hratt ef maður er 100% viss um að maður sé að grennast.
Ég lærði að vigta mig daglega og gera línurit. Sumar bækur segja að maður megi ekki vigta sig daglega því það muni valda vonbrigðum. Vandinn er að það eru alltaf dag og vikusveiflur sem tengjast vökvabirgðum likamans og ef maður mælir þyngd sína af handahófi getur maður orðið fyrir sjokki. Það gerist ekki ef maður gerir meðaltalslínu í gegnum allar mælingarnar því sú lína getur farið örugglega niður á við þrátt fyrir stórar dagsveiflur og toppa eftir laugardagsveislur.
Næsta sem ég lærði að gera var að svelta mig ekki til kl.1900 og borða svo eins og óargadýr. Ég fór að pakka nesti fyrir eftirmiðdagskaffið kl.1600. Ein rúgbrauðsneið með agúrku og osti á þeim tíma gerir stóra hluti og maður hagar sér eins og maður við kvöldmatarborðið.
Að síðustu lærði ég að skammta mér ríflega á diskinn en fá mér svo ekki í sífellu ábót. Ef kaloríurnar á diskinum eiga ekki að fara upp fyrir ráðlagðan dagskammt var mín reynsla að helmingurinn á diskinum á að vera grænmeti, ekki rísgrjón eða pasta.
Ég treysti mér ekki til að halda stífu prógrammi um helgar svo ég sleppti því alveg. Ef maður hugsar um það sem maður lætur ofan í sig fimm daga af sjö þá getur maður leyft sér ýmislegt hina tvo.
Nú kynni einhver að segja að ég líti ekki út eins og Þorgrímur Þráinsson þessa dagana og það er alveg rétt. Ég datt nefnilega í þá gryfju að hætta bókhaldinu þegar ég léttist nógu mikið til að byrja að hlaupa þrisvar í viku. Þá hafði ég grennst um tíu kíló án þess að hafa mikið fyrir því.
Ég hélt að hlaupin myndu nægja til að ég grenntist af sjálfsdáðum eftirleiðis en það var ekki rétt. Það er svolítið eins og að keyra á bíl til Akureyrar. Maður er samt bara 2 mínútur að stútfylla tankinn aftur.
Það er fínt að hreyfa sig heilsunnar vegna en maður verður ekki undanþeginn frá skynsamlegu mataræði fyrir vikið. Nú er ég búinn að læra það, og nú var ég að rifja upp megrunarplanið. Ég fann þetta plan ekki upp sjálfur heldur fann ég það á netinu og það heitir: "How to lose weight through stress and poor nutrition".
Forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Autodesk AB ákvað að ráðast á megrunarverkefnið eins og verkfræðingur og útkoman var þessi bók sem er ókeypis á vefsíðunni. Titillinn hjá honum er til gamans, vefurinn er í alvöru mjög hjálplegur. Þetta er nerdamegrun fyrir nerda.
Maður sem vigtaði sig daglega með aðferðinni gerði skráningar í forrit sem er á vefsíðunni. Hans línurit lítur svona út:
Þarna má sjá hvernig þyngdin minnkar örugglega þrátt fyrir miklar sveiflur í mælingum frá degi til dags.
Hér er önnur vefsíða sem þar sem fólk má skrá sig og sínar mælingar og gera línurit.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2007 | 13:51
Pönnukökur!
Til að vega upp á móti tuðinu þá er hér ítölsk vél sem ég held að einhver gæti haft gaman af.
Ef hægt væri að fá litla heimilisútgáfu af henni er ég viss um að einhver íslensk heimili bitu á agnið.
Matur og drykkur | Breytt 6.6.2007 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2007 | 10:27
Grillið mitt og gjaldmiðlarnir
Ég var mjög ánægður með fyrsta grillið okkar - en það var lítið og
brennarinn í því var allt of nálægt kjötinu.
Allt sem á því var steikt þurfti stöðuga gjörgæslu og varð yfirleitt
brennt að utan og hrátt að innan, og það var ef vel gekk!
Fyrirvaralaust gat gosið upp eldur í því og ég þurfti að rjúka frá
gestunum til að taka bitana af hálf kolaða.
Ég var ótrúlega tregur að kaupa nýtt af því ég hélt að mikill hiti
þýddi gott grill. Ég lét loks tilleiðast í fyrra og við keyptum stórt
"Broil King" grill.
Þetta var bylting. Lykillinn að góðri grillun er nefnilega ekki að
hafa logsuðuhita eina stundina og slökkva undir þá næstu. Nei,
lykillinn er jafn, hægur hiti. Ég var ótrúlega tregur að ná þessu.
Mér dettur þetta í hug þegar ég heyri menn monta sig af íslensku
krónunni og hæfileikum hennar. Hér rýkur efnahagslífið upp og verður
viðbrennt eitt árið og er hrátt í gegn það næsta. Það getur verið að
íslenskum ráðamönnum finnist þeir vera grillmeistarar þar sem þeir standa
yfir krónunni út á svölum, en þetta er ill meðferð á góðu kjöti.
Kjötið í samlíkingunni er íslendingar. Ein kynslóð kemur út
"ofsteikt" því hún keypti hús og jarðir meðan þau voru ódýr, næsta
kynslóð verður "hrá" því hún neyðist til að taka á okurvöxtum lán
fyrir húsunum sem kynslóðin á undan byggði.
Ísland er nú land tækifæranna fyrir þá sem eru tækifærissinnaðir. Þeir
sem vilja gera plön fram í tímann tapa í svona árferði.
Ég legg til að okkar velmeinandi grillmeistarar verði neyddir til að
kaupa grill sem heldur hægum jöfnum hita. Grillið í þeirri samlíkingu
er Evran.
Matur og drykkur | Breytt 6.6.2007 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)