Færsluflokkur: Heilbrigðismál
24.3.2010 | 10:21
Gamla fólkið og tölvurnar
Mamma er 85 ára og hefur aldrei átt tölvu.
Þær verða smám saman meira ómissandi, eftir einhvern tíma verður nánast þegnskylda að hafa tölvu á heimilinu. Reikningsyfirlit og umsóknir um félagsþjónustu fara smám saman inn á netið, þá hringir mamma og biður um aðstoð af því við eru með tölvu heima hjá okkur. Hún kvartar líka yfir því að pósturinn er farinn að taka niður póstkassa um allan bæ og hún getur ekki sent póst lengur nema fara í annað bæjarfélag (Aflagrandi - Seltjarnarnes). Þeir hjá póstinum segja að enginn sendi póst lengur, allir nota tölvupóstinn. (Merkilegt viðhorf, kannski tímabært að leggjast undir feld á þeim bæ?)
Ég hef ekki séð tölvu sem myndi henta henni. Jafnvel Apple Mac væri of mikið fyrir hana. Hún myndi ekki vilja fá snúrur upp að einhverju tölvualtari í litlu íbúðinni sinni, sjónvarpið er alveg nógu ósmekklegt, finnst henni. Hún myndi í mesta lagi lesa moggann og tölvupóst svo ekki þarf hún ADSL áskrift.
Svo er það skráarkerfið. Skrár innan í möppum innan í möppum sem þarf að flytja og afrita og færa eru flókin hugmynd. Afritataka og stýrikerfisuppfærslur eru fyrir sérfræðinga. Mér fannst hugmyndin um möppur innan í möppum flókin þegar ég sá hana fyrst (DOS 2.0) og ég byði ekki í að útskýra fyrir mömmu hvert bréfin hennar fara þegar hún velur "Save" í Word.
Jafnvel músin er ekki nógu einföld. Það eru ekki allir sem geta hreyft mús og horft á árangurinn af hreyfingunni á sjónvarpsskjá. Það er miklu eðlilegra að benda beint á það sem maður vill gera, eins og gert er í iPhone.
Verðið má ekki vera mörg hundruð þúsund krónur, það er einfaldlega engin réttlæting fyrir því.
Notendaviðmótið þarf að vera stórt og einfalt, ekki röð eftir röð af litlum "íkonum" sem enginn veit hvað gera. Er þetta "A" til að stækka textann eða setja inn textabox eða gera textann feitletraðann, eða til að lita hann? Ekki veit ég...
Ennþá hef ég ekki séð tölvu sem hentar fólki sem vill ekki tölvur en þarf bara að lesa póstkort eða bréf frá vinum og ættingjum eða lesa "dödens avis" (Moggann).
Fyrr en núna.
Ég held að tölva í líkingu við Apple iPad gæti hentað. Ekkert sýnilegt skráarkerfi, engin snúra. Ekkert "Multitasking". Ekkert lyklaborð eða mús. Bara benda á það sem þú vilt. Fá en stór íkon. Samskipti við netið fara fram yfir 3G (eða Wi-Fi þar sem það býðst). Þú getur lesið uppí rúmi.
Aðgengi fyrir eldra fólk að bókasafni án þess að fara á bókasafnið verður líka blessun. Ég hef sjálfur notað iPhone sem bókarlesara en hef saknað þess að skjárinn væri ekki stærri fyrir lestur.
iPad hefur fullan rétt á sér.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)